Leita í fréttum mbl.is

Ragnar Arnalds - minning

heimssyn-ragnar-arnalds

Sigurður Þórðarson ritar fyrir hönd Heimssýnar

 

Sagt er að skipta megi fólki í tvo hópa; þá sem vaxa í viðkynningu og hina. Ragnar Arnalds, sá sem við kveðjum hér í hinsta sinn, bar með sér háttvísi og velvild til allra í fyrstu viðkynningu, engu að síður er hann að mati þeirra sem þekktu hann best í fyrrnefnda hópnum.


Strax á menntaskólaárum sínum í MR lét Ragnar mikið að sér kveða í pólitískri umræðu. Þjóðvarnarflokkurinn og málgagn hans Frjáls þjóð var hans fyrsti vettvangur. Hann þótti lipur penni en ekki síst rökfastur ræðumaður, þannig að eftir því var tekið. Það var herlaust Ísland og útfærsla landhelginnar sem áttu hug hans allan. Árið 1962 er Ragnar ritstjóri Frjálsrar þjóðar. Um það leyti kom Jónas Árnason að máli við Ragnar og bað hann að koma með sér í fundaherferð um land allt, til að berjast fyrir þeim málum sem brunnu á þeim Ragnari, sem fyrr er getið. Ragnar tók þessari áskorun en sinnti þó jafnframt ritstörfum, enda sló hjartað hratt í okkar unga manni. Svo mikill rómur var gerður að fundaherferð þeirra félaga að Ragnari var boðið fyrsta sæti á lista Alþýðubandalagsins í Norðurlandskjördæmi vestra, þar sem hann náði kjöri árið 1963, þá næstyngstur þingmanna sem kjörnir höfðu verið á Alþingi. Sjálfur átti ég því láni að fagna að vera nemandi Ragnars í stærðfræði fyrsta árið sem hann kenndi við Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Þessi tilviljun réð kannski nokkru um að löngu síðar, fyrir áeggjan Ragnars, kynnti ég mér sjálfstæðisbaráttuna og ákvað strax að leggja henni mitt lið.

Að loknum farsælum 32 ára ferli sem atvinnustjórnmálamaður ákvað Ragnar að sinna hugðarefnum sínum utan Alþingis en þar var af fjölmörgu að taka á sviði stjórnmála, lista og menningar. Ný fullveldisbarátta var framundan og þá var Ragnar Arnalds ekki fjarri vettvangi. Þann 27. júní 2002 hafði Ragnar forgöngu um að stofna Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Hreyfingin er þverpólitísk samtök fólks sem vill að Ísland haldi sjálfstæði sínu fyrir utan Evrópusambandið, sem er tollamúrabandalag sem reynir að skipta á aðgangi að mörkuðum gegn aðgengi að auðlindum.
Á Íslandi býr fámenn þjóð sem ólíkt Evrópusambandinu býr að umtalsverðum auðlindum í hafi auk landgæða. Það var hvalreki fyrir Heimssýn að Ragnar Arnalds skyldi leiða félagið í upphafi enda hafði hann yfirburðaþekkingu á tollasamningum, t.a.m. vegna aðkomu sinnar að bókun 6; sem hélt aftur af tollum á sjávarafurðum til ESB, og síðar sem fjármálaráðherra. Á forystuárum sínum hjá Heimssýn hafði Ragnar forgöngu um að flytja til landsins fræðimenn á sviði þjóðaréttar og fjármála sem dýpkuðu þekkingu okkar og skilning á því hvað í húfi væri. Meðal þeirra má nefna formann samninganefndar Norðmanna, sem tvisvar sóttu um aðild að ESB, en þjóðin hafnaði aðildinni jafnoft. Hann skýrði skilmerkilega hvaða hætta felst í því að afhenda ESB fiskveiðilögsöguna til eignar, þó við gætum fengið aðlögunar- og umþóttunartíma. Það var Ragnar Arnalds sem valdi félaginu nafnið Heimssýn. Skýring á nafninu kemur fram í fyrstu yfirlýsingu félagsins, sem birt var í öllum helstu prentmiðlum landsins:

Íslendingar hafa á tæpri öld fest sig í sessi sem sjálfstæð þjóð með öflugt atvinnu- og menningarlíf þar sem velferð þegnanna er tryggð. Einstakur árangur fámennrar þjóðar væri óhugsandi nema fyrir það afl sem felst í sjálfstæðinu. Við undirrituð leggjum áherslu á vinsamleg samskipti og víðtæka samvinnu við aðrar þjóðir í Evrópu og heiminum öllum en teljum það ekki samrýmast hagsmunum Íslendinga að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Við hvetjum til opinnar umræðu um Evrópu- og alþjóðasamstarf á þessum grunni og höfum stofnað samtök sem bera heitið Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum.

 

Við félagar Ragnars og sporgöngumenn í Heimssýn lútum höfði af virðingu og þakklæti fyrir vináttu hans og óeigingjarnt starf í þágu íslensku þjóðarinnar. Nú er skarð fyrir skildi í sjálfstæðisbaráttu Íslands. Við söknum hans sárt, en meiri er missir lífsförunautar hans Hallveigar Thorlacius, barna þeirra og barnabarna. Stjórn Heimssýnar sendir þeim öllum okkar innilegustu samúðaróskir og biður þeim blessunar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

31.5.2012:

"RÚV sýndi þann 30. maí viðtal Boga Ágústssonar við stækkunarstjóra Evrópusambandsins, Stefan Füle.

Í því kemur meðal annars fram að Evrópusambandið hefur engan áhuga á að taka yfir auðlindir Íslands:

"Ég veit hreinlega ekki hvernig við ættum að gera það," segir Füle í viðtalinu."

Nefndarálit meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis um aðild Íslands að Evrópusambandinu:

"Nefndin skoðaði ítarlega þau álitaefni er lúta að vatns- og orkuauðlindum, enda er þar um að ræða grundvallarþætti í auðlindanýtingu á Íslandi.


Meirihlutinn leggur áherslu á að við þessa ítarlegu skoðun kom EKKERT fram sem gefur ástæðu til að ætla að aðild að Evrópusambandinu hefði áhrif á íslenska hagsmuni á þessum sviðum og bendir í því sambandi einnig á að fyrirkomulag eignarhalds náttúruauðlinda er EKKI viðfangsefni Evrópusambandsins, heldur alfarið á hendi aðildarríkjanna þar sem innri markaðslöggjöfin tekur EKKI á eignarhaldi.

Því er EKKI um að ræða yfirþjóðlega eign á auðlindum aðildarríkjanna."

"Meirihlutinn leggur áherslu á að náttúruvernd og sjálfbær nýting náttúruauðlinda landsins eigi áfram að vera meðal grundvallarhagsmuna Íslendinga."

"Grundvallaratriði er að EKKI ER HRÓFLAÐ VIÐ FULLVELDISRÉTTI ríkja. Það gildir einnig um ákvæði Lissabon-sáttmálans og annarra sáttmála Evrópusambandsins.

Jafnframt minnir meirihlutinn á að við gerð AÐILDARSAMNINGS Norðmanna á sínum tíma var sett inn BÓKUN um að þeir héldu yfirráðum yfir ÖLLUM sínum auðlindum."

Þorsteinn Briem, 30.9.2022 kl. 10:43

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Enda þótt ríkin Bretland og Frakkland hafi bæði átt aðild að Evrópusambandinu átti Frakkland ekki hlutdeild í olíuauðlindum Bretlands, sem eru að sjálfsögðu staðbundnar.

Grænland, Færeyjar og Danmörk eru hins vegar í sama ríkinu, enda þótt Grænland og Færeyjar eigi ekki aðild að Evrópusambandinu.

Staðbundinn þorskur á Íslandsmiðum er mun verðmætari en loðna, sem gengið hefur á milli lögsagna Íslands, Grænlands, Færeyja og Noregs við Jan Mayen.

Norsk skip hafa því fengið að veiða loðnu í íslenskri lögsögu og íslensk skip loðnu í norskri lögsögu.

Skip frá ríkjum Evrópusambandsins hafa lítið veitt á Íslandsmiðum síðastliðna áratugi og fá því engan aflakvóta á Íslandsmiðum, nema þá að íslensk fiskiskip fengju jafn verðmætan aflakvóta í staðinn.

Í aðildarsamningi Noregs og Evrópusambandsins fengu skip frá ríkjum í Evrópusambandinu að veiða í norskri lögsögu, enda er um sameiginlega fiskveiðiauðlind margra ríkja að ræða í Norðursjó, svo og Eystrasalti og Miðjarðarhafinu, þar sem margar fisktegundir ganga úr einni lögsögu í aðra.

Og aðildarsamningi Íslands og Evrópusambandsins verður ekki hægt að breyta, nema með samþykki okkar Íslendinga.

Íslensk varðskip munu áfram sjá um fiskveiðieftirlit á Íslandsmiðum og Hafrannsóknastofnun áfram veita fiskveiðiráðgjöf hér, enda þótt Ísland fái aðild að Evrópusambandinu.

Landhelgisgæslan starfar hins vegar hér á norðurslóðum í samvinnu við breska, norska og danska sjóherinn, sem sér um landhelgisgæslu við Færeyjar og Grænland.

Evrópusambandsríkin eru stærsti markaður okkar Íslendinga fyrir sjávarafurðir og engir tollar á þeim og öllum öðrum íslenskum vörum í Evrópusambandsríkjunum myndu skipta okkur mjög miklu máli.

Þjóðverjar, Frakkar, Spánverjar og aðrar Evrópuþjóðir fá sinn fisk af Íslandsmiðum, enda þótt við Íslendingar veiðum fiskinn.

Og evrópskir neytendur greiða í verslunum allan kostnað við veiðarnar, til að mynda olíukaup og smíði íslensku fiskiskipanna, sem flest hafa verið smíðuð í öðrum Evrópulöndum.

Þýskalandi hefur vegnað vel eftir seinni heimsstyrjöldina með miklum viðskiptum við önnur ríki en ekki með því að leggja undir sig auðlindir þeirra.

Þorsteinn Briem, 30.9.2022 kl. 11:31

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

31.7.2019:

Bjarni Már Magnússon lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík:

"Af túlkunarreglum þjóðaréttar leiðir að skýra verður ákvæði EES-samningsins um frjálst flæði vöru til samræmis við ákvæði hafréttarsamningsins.


Það þýðir að meginreglan um frjálst flæði vöru leiðir ekki til þess að á íslenska ríkinu hvíli skylda til að heimila lagningu sæstrengs."

"Íslenska ríkið getur því ekki orðið skaðabótaskylt af því að synja rétti sem er ekki til staðar. Það er útilokað."

"Réttur Íslands til að heimila eða hafna lagningu sæstrengs inn fyrir landhelgina stend­ur óhagg­aður, hvað sem þriðja orku­pakk­anum eða öðrum ákvæðum EES-samningsins líð­ur."

Sæstrengjasteypa

Þorsteinn Briem, 30.9.2022 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.1.): 17
  • Sl. sólarhring: 369
  • Sl. viku: 1952
  • Frá upphafi: 1184359

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 1680
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband