Leita í fréttum mbl.is

Er Evrópusambandið skriffinskubákn?

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar brezku hugveitunnar Open Europe frá því í marz 2007 taldi lagasafn Evrópusambandsins þá 170 þúsund blaðsíður. Fram kemur í niðurstöðunum að ef allar þessar blaðsíður væru lagðar hlið við hlið á langveginn myndu þær ná yfir rúmlega 50 kílómetra vegalengd. Ennfremur að þyngdin á þeim væri 286 kíló og væri þeim raðað í einn stafla myndu þær ná 11 metra hæð. Þessu til viðbótar sagði í niðurstöðum rannsóknarinnar að meira en 100.000 blaðsíður af lagagerðum hefðu þá verið framleiddar í Brussel undanfarinn áratug og að samtals hefði Evrópusambandið samþykkt 666.879 blaðsíður af lagagerðum síðan það var sett á laggirnar í marz 1957. Væri þeim raðað saman næðu þær yfir 193 kílómetra vegalengd. Heildarfjöldi lagagerða sambandsins í dag mun vera vel yfir 130.000.

Sívaxandi reglugerðafargan Evrópusambandsins, auk tilhneigingar sambandsins til að teygja yfirráð sín yfir sífellt fleiri málaflokka innan aðildarríkja sinna, hefur leitt til þess að mikill meirihluti lagasetningar í ríkjunum á ekki uppruna sinn á þjóðþingum þeirra heldur hjá stofnunum sambandsins. Rannsóknir Marlene Wind, lektors við Kaupmannahafnar-háskóla, sem birtar voru í marz 2006, benda þannig t.a.m. til þess að mikill meirihluti danskrar lagasetningar komi frá Evrópusambandinu en ekki danska þjóðþinginu. 80% nýrra lagagerða um fjármál og efnahagsmál á árunum 2000-2001 voru settar fyrir tilstuðlan reglugerða frá Evrópusambandinu og sama á við um 77% lagagerða um umhverfis- og orkumál, viðskipti og rannsóknir og helmingur allra lagagerða um heilbrigðismál svo fáein dæmi séu tekin. Að sama skapi var upplýst á þýzka sambandsþinginu í september 2005 að rúmlega 80% allra lagagerða sem tóku gildi í Þýzkalandi á árunum 1998 til 2004 hefðu ekki átt uppruna sinn þar heldur hjá Evrópusambandinu. Hliðstæðar tölur eiga við um önnur aðildarríki sambandsins, s.s. Holland og Bretland.

"Því hefur verið fleygt að ein skýringin á reglugerðafargani Evrópusambandsins sé sú að eina lausn embættismanna þess á vandamálum sem leysa þurfi sé að setja sífellt fleiri reglugerðir um allt á milli himins og jarðar."

Nokkuð er síðan ráðamenn í Evrópusambandinu fóru að viðurkenna að of mikið og vaxandi regluverk sambandsins væri vandamál. Þannig lýsti Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, því yfir í september 2005 að þörf væri á umfangsmiklum niðurskurði á regluverki sambandsins. Sagðist hann hafa í hyggju að hætta við setningu um 70 nýrra lagagerða (sem verður að teljast ansi lítill dropi í hafið) frá framkvæmdastjórninni. Hann viðurkenndi ennfremur að ýmsar af þeim lagagerðum, sem embættismenn Evrópusambandsins sendu frá sér, væru „fáránlegar“ í viðtali við Financial Times og bætti við að tilhneiging sambandsins til að framleiða of mikið af regluverki hefði skaðað ímynd þess í augum íbúa aðildarríkjanna.

Tilkynnt hefur verið um ýmsar aðgerðir á undanförnum árum af hálfu Evrópusambandsins sem ætlað hefur verið að sporna við þessu vandamáli sem þó hafa litlu sem engu skilað. Nú síðast var þýzki stjórnmálamaðurinn Edmund Stoiber fengið það verkefni að reyna að finna leiðir til að draga úr regluverkinu. Haustið 2006 gaf Günther Verheugen, yfirmaður iðnaðar- og frumkvöðlamála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, þá skýringu á því, að hvorki hefur gengið né rekið í þessum efnum, að “öflugir embættismenn” sem störfuðu fyrir framkvæmdastjórnina kæmu í veg fyrir allar tilraunir hennar til að skera niður regluverkið þar sem þeir teldu það ekki þjóna eigin hagsmunum.

Verheugen viðurkenndi ennfremur af sama tilefni að kostnaður aðildarríkja Evrópusambandsins, vegna of íþyngjandi regluverks og miðstýringar sambandsins, væri margfalt meiri en ávinningurinn sem þeim er ætlað að hafa af innri markaði þess. Sagði hann þennan kostnað nema 600 þúsund milljörðum evra á ári sem er rúmlega þrefaldur sá 180 þúsund milljarða evra ávinningur sem innri markaðurinn er sagður skila árlega samkvæmt tölum framkvæmdastjórnarinnar.

Í desember 2006 greindi franska viðskiptablaðið Les Echos frá þeim ummælum forseta samtaka þýzkra iðnfyrirtækja, Jürgen Thumann, að aðildarríki Evrópusambandsins væru að "kremjast undir lamandi skriffinsku" í Brussel og að skriffinskan "flækti daglegt líf evrópskra fyrirtækja." Sagði hann brýnt að dregið yrði úr skriffinsku innan sambandsins um a.m.k. 25%.

Tveimur mánuðum fyrr höfðu ríkisstjórnir Danmerkur og Hollands hvatt Evrópusambandið til þess að grípa til róttækra aðgerða til að draga úr reglugerðafargani sambandsins. Sögðust þær hafa miklar áhyggjur af því hversu erfiðlega gengi að koma á umbótum innan þess í þeim efnum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafði gert ráð fyrir því að einfalda rúmlega 50 lagagerðir það ár (aftur lítill dropi í hafið) en hafði fram að því einungis náð því markmiði í tilfelli fimm lagagerða. Í maí 2005 höfðu hollenzk stjórnvöld kallað eftir því sama ásamt ríkisstjórn Belgíu.

Í ræðu í tilefni af Evrópudeginum 9. maí 2006 hafði Angela Merkel, kanzlari Þýzkalands, lagt áherzlu á nauðsyn þess að Evrópusambandið drægi verulega úr reglugerðafargani sínu og skriffinsku. Áður hafði hún kallað eftir þessu í ræðu á fundi World Economic Forum í janúar sama ár. Benti hún þá m.a. á að um 6% af veltu minni og meðalstórra fyrirtækja í Þýzkalandi færi í kostnað vegna skriffinsku.

Í samtali við Morgunblaðið 27. febrúar 2006 sagðist Brian Prime, forseti Evrópusamtaka smáfyrirtækja, ekki geta mælt með því við Íslendinga að ganga í Evrópusambandið. Skriffinnskan innan sambandsins væri orðin slík og pólitíkin allsráðandi að ekkert bólaði á framförum fyrirtækjum til hagsbóta. Menn kæmust einfaldlega ekkert áfram í þeim efnum fyrir reglugerðafargani. Við þær aðstæður gætu fyrirtæki innan Evrópusambandsins ekki keppt við önnur markaðssvæði í heiminum.

Frá því var greint í janúar sama ár að mörg framsæknustu fyrirtækin innan Evrópusambandsins beindu nú fjárfestingum sínum í auknum mæli til ríkja og markaðssvæða utan sambandsins vegna vaxandi reglugerðafargans heima fyrir, þá einkum til Bandaríkjanna og Asíuríkja. Kom þetta fram í niðurstöðum skýrslu sem unnin var fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Þann 4. júlí 2005 gagnrýndu brezk stjórnvöld reglugerðafargan Evrópusambandsins harðlega og kölluðu eftir breyttu hugarfari svo koma mætti í veg fyrir að sambandið drægist enn lengra aftur úr Bandaríkjunum, Kína og Indlandi í hagvexti. John Hutton, þáverandi ráðherra í brezku ríkisstjórninni, sagði að Evrópusambandið yrði að hætta að setja nýjar lagagerðir án þess að ljóst væri að kostir þeirra réttlættu þann kostnað sem þær kynnu að valda og að sambandið ætti að gefa upp á bátinn frumvörp að lagagerðum sem myndi „draga það niður“ í stað þess að auka samkeppnishæfni sambandsins.

Að lokum má nefna að þáverandi yfirmaður innri markaðsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Frits Bolkestein, krafðist þess í október 2003 að gerðar yrðu nauðsynlegar ráðstafanir í fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins, sem enn er óljóst hvort muni taka gildi eða ekki, gegn þeirri tilhneigingu framkvæmdastjórnar þess að setja aðildarríkjum sambandsins allt of mikið af reglugerðum. Þjóðþingunum ætti ekki einungis að vera heimilt að gera ákveðinar athugasemdir, ef þeim fyndist reglugerðaflaumurinn of mikill frá framkvæmdastjórninni, heldur að hafa beinlínis heimild til að segja hingað og ekki lengra. Bolkestein sagði þó ljóst að framkvæmdastjórnin myndi aldrei samþykkja slíkt eins og síðar kom á daginn.

Það fer því ekki á milli mála að skriffinskubákn er svo sannarlega réttnefni fyrir Evrópusambandið og ljóst að nokkuð breið samstaða er um það hvort sem um er að ræða ráðamenn í aðildarríkjum sambandsins, hagsmunaaðila innan þess eða sjálfa framkvæmdastjórn þess sem treystir sér ekki lengur til að hafna þeirri staðreynd þó ófáir íslenzkir Evrópusambandssinnar þræti enn fyrir það.

Hjörtur J. Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Takk fyrir þitt meiriháttar gott innlegg hér Hjörtur. Enn ein sönnun um ofur-skriffinskubáknið í Brussel sem ESB-sinnar vilja innleiða hér..

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 15.10.2007 kl. 01:17

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jamm, virðingarvert af þér að benda á þessa vitleysu og svo má spyrja, hver hefur svo kjörið þessa löggjafa?  Þetta eru bara óbreyttir embættismenn, sem stja þessi lög, sem stundum stríða algerlega við landslög og stjórnarskrár sambandslandanna. Aðallega eru þetta lögfræðingar og Bankamenn.

Jón Steinar Ragnarsson, 15.10.2007 kl. 07:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 34
  • Sl. sólarhring: 346
  • Sl. viku: 2115
  • Frá upphafi: 1188251

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 1923
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband