Leita í fréttum mbl.is

Forsætisráðherra ítrekar Evrópustefnu íslenskra stjórnvalda

„Eins og margoft hefur komið fram er aðild að Evrópusambandinu ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar og þar með ekki heldur upptaka evru. Við þurfum því að einbeita okkur að því að koma hér á meira jafnvægi í efnahagslífinu eftir uppsveiflu síðustu ára. Ná verðbólgunni niður og draga úr viðskiptahallanum. Þetta tvennt, ásamt því að halda áfram að treysta og fjölga stoðunum undir okkar atvinnulífi, eru stóru verkefnin framundan," sagði Geir H. Haard, forsætisráðherra, í ræðu á Viðskiptaþingi 2008 sem fram fór 13. febrúar sl.

Heimildir:
Geir útilokar evru (Vísir.is 13/02/08)
Ræða Geirs H. Haarde á Viðskiptaþingi 2008

---

Rétt er að hafa ávallt hugfast að umræðan um Evrópumálin snýst fyrst og síðast um það hvort við Íslendingar eigum áfram að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Geir sagði líka á Viðskiptaþingi að ekki væri hægt að meina bönkunum að gera upp í evrum og áhersla almennings á pyngjuna mun stuðla að enn meiri sækni í hagstæðari vaxtakjör hinum megin við sundið og hagstæðara vöruverð almennt. Þannig munu fólk og fyrirtæki ganga inn í ESB og taka upp evru óháð "Heimssýninni" á málið.

Gunnlaugur B Ólafsson, 17.2.2008 kl. 01:23

2 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Það er bara hið bezta mál að frjálst flæði fjármagns og þjónustu eigi sér stað auk frjálsra viðskipta. Ég veit ekki betur en að t.d. EES-samningurinn gangi m.a. út á það. Að það feli í sér að fólk og fyrirtæki gangi í Evrópusambandið og taki upp evru er álíka gáfulegt og segja að bara vegna þess að ég keypti mér bók á Amazon í gær með dollurum, vegna þess að hún var hagstæðari í innkaupum þannig, að þá hafi ég verið með því að ganga í Bandaríkin og taka upp dollarann.

Hjörtur J. Guðmundsson, 17.2.2008 kl. 01:49

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Hjörtur, ég sgði þér fyrir nokkru frá gyðingahjónum sem héldu því fram að samþætting undir merkjum ESB í viðskiptum og menningarmálum hefðu tryggt frið í þeim löndum í rúm fimmtíu ár (Þú vilt þakka það Nató eingöngu, gott og vel). Þessi samþætting við Ísland er komin vel af stað undir merkjum EES. Útrásin sem verið hefur mjólkurkú í efnahagsmálum síðustu ár og stuðlar að því að samdráttur í fiskveiðum kemur ekki sem eins harður skellur og ella, er fyrst og fremst möguleg vegna Evrópusamrunans.

Margvíslegar réttarbætur og samningar um réttindi borgarana gegn ríkisvaldi eru jákvæðir þættir sem má rekja til lagasetningar ESB, þar sem við erum reyndar ekki virkir þátttakendur. Telja má líklegt að fyrirtækin, fyrst bankarnir en síðan önnur fyrirtæki skrái sín viðskipti í evrum. Síðan koma heimilin. Tel líklegt að þess verði ekki langt að bíða að bankar bjóði upp á greiðslukort í evrum og búðir gefi upp verð og möguleika á að borga í evrum.

Þannig tökum við upp evruna og síðan verður það sjálfgefið að hætta með krónuna, þegar enginn notar hana. Þá erum við komin í þá stöðu að vera ekki með neinn aðgang að stofnunum sem móta stefnu um gjaldmiðilinn eða almenna stefnumótun innan ESB. Þá verður það sjálfgefið að það er betra að vera virkur innan þess, heldur en vera aulalegur á hliðarlínunni.

Að kaupa bók í gegnum Amazon er stakur atburður en ekki samþætting þjóða í viðskiptum og menningarmálum. Eins og þú veist þá er alls kyns styrkir til menntamála, rannsókna og nemendaskipta líka að hafa mikil og jákvæð áhrif.

Gunnlaugur B Ólafsson, 17.2.2008 kl. 03:01

4 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

"Þá verður það sjálfgefið að það er betra að vera virkur innan þess, heldur en vera aulalegur á hliðarlínunni."

Hversu virkur er maður innan einhver þegar maður hefur nánast engin áhrif þar? Lestu skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra um þau áhrif sem gera má ráð fyrir að við hefðum innan Evrópusambandsins.

Annars er það athyglisvert að heyra að þér þyki það sjálfstæði og fullveldi Íslands aulalegt. Ísland er ekki meira á hliðarlínunni en önnur ríki heimsins utan Evrópusambandsins. Það kemur þó ekki á óvart að Evrópusambandssinni telji sambandið vera nafla alheimsins og að þeir sem ekki eru þar innanborðs séu bara aulalegir á hliðarlínunni.

Hjörtur J. Guðmundsson, 17.2.2008 kl. 12:46

5 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Hjörtur, geri ráð fyrir að þú takir meira mark á Þorsteini Pálssyni heldur en mér. Samkvæmt leiðara hans í Fréttablaðinu í dag er hann gengin í Evrópusambandið. Athyglisvert að Bjarni Benediktsson, sem margir Sjálfstæðismenn líta á leiðtogaefni (þó ekki væri nema út á nafnið :) segir að nauðsynlegt er að einbeita sér nú að tiltekt í efnahagslífinu enda muni slíkt hvort eð er verða forsendur fyrir því að fá aðildarviðræður.

Tel að þetta sé vagn sem að er á mikilli ferð og allir eiga eftir að gera heimavinnuna sína nema Samfylkingin. Eini flokkurinn með skýra stefnu í þessu máli. Aðrir eru meira og minna klofnir í viðhorfum til samruna Evrópu. Þetta er klisja með sjálfstæði þjóðarinnar. Telurðu að Frakkland, Ítalía, Bretland, Þýskaland o.s.frv. líti ekki á sig sem sjálfstæðar þjóðir eða lönd þó þeir séu í Evrópusambandinu?

Gunnlaugur B Ólafsson, 17.2.2008 kl. 17:34

6 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Þorsteinn Pálsson er reyndar Evrópusambandssinni. Þannig að að því leytinu til geri ég ekkert sérstaklega upp á milli ykkar. Það sem Bjarni Benediktsson og fleiri eru annars að segja er að ekki sé tímabært að vera að tala um aðild núna þar sem aðstæður hér á landi uppfylla hvort sem er ekki skilyrði Evrópusambandsaðildar. Hann er svo sannarlega ekki að gera ráð fyrir, og hvað þá kalla eftir, aðild ef þú heldur það.

Hvað skýra stefnu áhrærir þá veistu alveg eins og ég að þú og fleiri á þinni bylgjulengd munuð aldrei fallast á að neitt flokkist sem skýr stefna í þessum málum nema sú stefna sé að ganga eigi í Evrópusambandið. Önnur sjónarmið eru einfaldlega ekki gjaldgeng eins og sést á málflutningi ykkar. 

Með sjálfstæðið þá er þetta engin klisja. Það er ekki náttúrulögmál að þjóðir séu sjálfstæðar og í því sambandi skiptir engu þó þær telji sig vera það eða ekki ef þær í raun eru það ekki. Þegar ríki hafa ekki lengur ein, eða a.m.k. að mestu leyti, óskoruð yfirráð yfir sínum innanríkismálum og utanríkismálum heldur aðeins að hluta til þá geta þau ekki talizt fullvalda eða sjálfstæð lengur. Aðildarríki Evrópusambandsins hafa afsalað sér mismiklu af sjálfstæði sínu og fullveldi vegna þess að þau eru misjöfn að stærð og áhrif innan sambandsins fara fyrst og síðast eftir því. Íslandi myndi hafa í bezta falli 1% áhrif innan Evrópusambandsins eða margfalt minni áhrif en Frjálslyndi flokkurinn hefur á Alþingi. Er það að vera sjálfstætt og fullvalda ríki í ljósi þess að flest málefni aðíldarríkja sambandsins heyra eða meira eða minna leyti undir yfirstjórn þess?

Þegar fyrirhuguð stjórnarskrá Evrópusambandsins verður komin í gagnið í óþökk margra íbúa sambandsins þá haafa menn fært rök fyrir því að þar með muni aðildarríki þess hafa á heildina litið minni völd yfir eigin málum en ríki Bandaríkjanna. Nú spyr ég þig á móti: Telurðu að Arizona, Norður-Dakota, Colorado og Wyoming séu sjálfstæð og fullvalda ríki?

Hjörtur J. Guðmundsson, 17.2.2008 kl. 17:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 41
  • Sl. sólarhring: 74
  • Sl. viku: 2004
  • Frá upphafi: 1176858

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 1826
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband