Leita í fréttum mbl.is

Misskilningur?

c_sigurdurkariUmræða um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu er nú farin láta á sér kræla á nýjan leik, eftir að hafa legið í dvala um nokkra hríð. Helsta ástæða þess að umræðan um Evrópusambandsaðild er nú komin á flug er krafa ýmissa aðila, þar á meðal ýmissa aðila í atvinnulífinu, um að evra verði tekin upp sem gjaldmiðill á Íslandi og vilja margir halda því fram að aðild Íslands að Evrópusambandinu sé óumflýjanlegur fylgifiskur þess að nýr gjaldmiðill verði tekinn í notkun hér á landi í stað krónunnar.

Í baráttu sinni fyrir Evrópusambandsaðild beittu Evrópusinnar, innan þings sem utan, um árabil þeirri röksemd fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu að aðild breytti í sjálfu sér engu hvað varðaði framsal fullveldis og löggjafarvald umfram það sem þegar hefði verið gert. Þeir sögðu að með aðild Íslands að EES-samningnum hefði Alþingi afsalað sér svo stórum hluta fullveldis og löggjafarvalds því Alþingi innleiddi nú þegar 80-90% af allri löggjöf Evrópusambandsins.

Síðastur til að beita þessari röksemd var Árni Snævarr blaðamaður, sem hafði eftir Olli Rehn, stækkunarstjóra framkvæmdastjóra Evrópusambandsins, á heimasíðu sinni að við Íslendingar hefðum þegar innleitt 75% eða meira af löggjöf Evrópusambandsins í íslenskan rétt, án þess að hafa tekið meiri þátt í mótun hennar en hvaða ,,lobbýisti í Brussel sem er“.

Þegar fjallað er um það hversu stóran hluta löggjafar Evrópusambandsins Íslendingar hafa innleitt í landslög og hversu stóran hluta löggjafarvalds Íslendingar hafa framselt til erlendra ríkja er mikilvægt að rétt sé farið með tölur og staðreyndir.

Árið 2005 lagði ég fram fyrirspurn á Alþingi til þáverandi utanríkisráðherra, Davíðs Oddssonar, til þess að fá úr því skorið hvort áðurnefndar röksemdir Evrópusinna, og nú Árna Snævarr og Olli Rehn, stæðust skoðun eða ekki.

Í fyrsta lagi spurði ég að því hversu margar gerðir stofnanir Evrópusambandsins hefðu samþykkt og gefið út á ári á tímabilinu 1994 til 2004.

Í svari utanríkisráðuneytisins kom fram að með vísan til fyrirspurnar minnar hefði ráðuneytið farið þess á leit við skrifstofu EFTA í Brussel að tekinn yrði saman fjöldi svokallaðra bindandi gerða, en hugtakið ,,gerð“ vísar annars vegar til allra formlegra ákvarðana sem teknar eru af stofnunum Evrópusambandsins, óháð því hvort þær eru bindandi fyrir aðildarríki þess eða ekki.

Samkvæmt upplýsingum skrifstofunnar, sem byggðar voru á lagagagnagrunni Evrópusambandsins, (EUR-lex) var eftirfarandi fjöldi tilskipana, reglugerða og ákvarðana settur á þessu tímabili:

Tilskipanir: 1.047.

Reglugerðir: 27.320

Ákvarðanir: 10.569

Samkvæmt þessu samþykkti Evrópusambandið 38.936 gerðir á tímabilinu.

Í svarinu kom fram að langstærstur hluti þeirra gerða sem samþykktur var af Evrópusambandinu á tímabilinu varðaði framkvæmd sameiginlegrar landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu þess, en einnig var fjöldi gerða samþykktur á ári hverju sem varðaði framkvæmd utanríkisviðskiptastefnu þess þ.m.t. tollamál.

Í annan stað spurði ég hversu margar þessara gerða hefðu verið teknar upp í EES-samninginn og innleiddar hér á landi í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt honum.

Í svari utanríkisráðuneytisins kom fram að inn í EES-samninginn væru aðeins teknar þær gerðir sem féllu undir gildissvið samningsins. Gildissvið EES-samningsins er bundið við hið svonefnda fjórþætta frelsi (frjáls vöruviðskipti, frjálsa þjónustustarfsemi, frjálsar fjármagnshreyfingar og frjálsa för launþega) og þau svið önnur sem beinlínis væru talin varða fjórþætta frelsið (samkeppni, félagsmál, umhverfismál, neytendavernd, hagskýrslugerð og félagarétt).

Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið fékk frá EFTA-skrifstofunni höfðu einungis 2.527 tilskipanir, reglugerðir og ákvarðanir verið teknar inn í EES-samninginn á þessu tíu ára tímabili, eða um 6,5% af heildarfjölda ESB-gerða á tímabilinu.

Í þriðja lagi spurðist ég fyrir um það hversu margar þessara gerða hefðu krafist lagabreytinga við innleiðingu hér á landi.

Í svari ráðuneytisins kom fram að ef gerð sem taka á upp í EES-samninginn krefst lagabreytinga gera stjórnvöld við hana svonefndan stjórnskipulegan fyrirvara á grundvelli 103. gr. EES-samningsins. Á því 10 ára tímabili sem spurning mín náði til gerðu íslensk stjórnvöld slíkan fyrirvara í 101 skipti við upptöku gerðar í EES-samninginn.

Það þýðir í 0,0025% tilvika var slíkur fyrirvari gerður.

Þessi niðurstaða sýnir með hvaða hætti hinir kappsfullu Evrópusinnar hafa vaðið reykinn og vitandi eða óafvitandi beitt almenning blekkingum í umræðunni um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Niðurstaðan sýnir auðvitað einnig að röksemdir þær sem andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu hafa haldið fram og byggja á því að slík aðild fæli í sér mjög víðtækt framsal Íslands á fullveldi sínu og löggjafarvaldi til Brussel eiga jafn vel við í dag og áður.

Formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sagði í sjónvarpsþætti á sunnudag, aðspurð um neikvæða afstöðu forystu Sjálfstæðisflokksins til ESB-aðildar, að þar væri á ferðinni einhver „arfur af misskilinni þjóðernispólitík“.

Í ljósi nýjustu upplýsinga sem fyrir liggja og ég hef hér rakið er spurning hvar misskilningurinn liggur.

Að lokum er ástæða til að ítreka að stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er skýr hvað varðar hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Í stuttu máli kveður hann á um að slík aðild sé ekki á dagskrá á þessu kjörtímabili, þó ýmsir eigi sér eflaust annan draum.

Sigurður Kári Kristjánsson,
alþingismaður og varaformaður Heimssýnar

(Birtist áður í Morgunblaðinu 15. mars 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Leikur að tölum Sigurður Kári

veist það best sjálfur held ég að það er hægt að sýna fram á hvað sem er með tölfræðileikfimi. Fer allt eftir því hvaða tölur ákveðið er að nota sem forsendur og því miður algengt tól hjá stjórnmálamönnum að slá ryki í augu fólks með þessum hætti til að það hugsi nú örugglega enginn sjálfstætt og taki sjálfstæða ákvörðun sem byggð er á ÖLLUM staðreyndum.

Hvað framsali fullveldis varðar verð ég að segja að miðað við hverju hagstjórn sú sem þið sjálfstæðismenn hafið stært ykkur af að eiga allan heiður af síðan 1991 þá verð ég að segja að niðurstaðan er væntanlega sú núna að þeirri stjórn er best komið í höndum allra annarra en ykkar.

Davíð heldur áfram að lemja höfðinu við steininn og neitar að lækka stýrivexti þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á að aðgerðir seðlabankans hafa akkúrat þveröfug áhrif á gengi ISK með því að ýta undir lántökur og neyslu því það skapast það mikill vaxtamunur milli ISK og erlendra gengislána að það eina sem gerðist var að lýðurinn rauk og tók erlend lán í löngum bunum.

Nú súpa þeir seyðið af því og þið ráðið ekki neitt við neitt. Hafið skellt við skollaeyrum í hvert sinn sem gagnrýni hefur komið á hagstjórn ykkar hvaðan sem slíkt hefur komið. Verður fróðlegt að sjá hverjum þið kennið um að þessu sinni.

Jóhann Helgason (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 17:56

2 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Jóhann:
Það er vissulega lengi hægt að leika sér að tölum. En þetta mál er ekki þess eðlis í raun. Þær upplýsingar sem Sigurður skrifar um fengnar til að svara ákveðnum fullyrðingum margra Evrópusambandssinna, þ.e. að við værum að taka yfir 70-90% af öllum lagagerðum Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn. Staðreyndin er sú, samkvæmt úttekt skrifstofu EFTA í Brussel og sem Sigurður Kári rekur hér að ofan, að sé miðað við fullyrðingu umræddra Evrópusambandssinna er rétta talan 6,5%. Svo má deila um gagnsemi þessara upplýsinga utan þess að sýna fram á ómerkilegan og innihaldslausan áróður þessara talsmanna Evrópusambandsaðildar hér á landi.

Hjörtur J. Guðmundsson, 17.3.2008 kl. 18:33

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það vantar liðinn  "Í fjórða lagi hvað þyrftum við að innleiða hátt hlutfall ef við værum innan ESB?"  Er sjálfgefið að þá sé allt tekið í íslensk lög, segjum reglur um aðbúnað námuverkamanna eða reglur um bátasiglingar á sólarströndum. Hef ekki kynnt mér þennan þátt, hvort við höldum ekki áfram að innleiða einungis þær "gerðir" sem eiga við um Ísland.

Gunnlaugur B Ólafsson, 17.3.2008 kl. 23:02

4 identicon

Í skýrslu Evrópunefndar Björns Bjarnasonar kemur fram að 21,7% settra laga á Alþingi á tímabilinu 1993-2005 hafi mátt rekja beint eða óbeint til EES-samningsins. Einnig er þar bent á að stærstur hluti EES gerða sé felldur inn í íslenskan rétt með reglugerðum ráðnuneyta án lagasetningar frá Alþingi. Í þessum tölum er ekki gert ráð fyrir áhrifum af Schengen samstarfinu. Ég held að þessar tölur segi mun meira um áhrif Evrópusamvinnunnar á lagasetningu á Íslandi þar sem stór hluti Evrópulöggjafarinnar myndi hafa lítil sem engin áhrif hér á landi, hvort sem við værum aðilar eða ekki.

Steini (IP-tala skráð) 20.3.2008 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 359
  • Sl. sólarhring: 431
  • Sl. viku: 2768
  • Frá upphafi: 1166142

Annað

  • Innlit í dag: 292
  • Innlit sl. viku: 2383
  • Gestir í dag: 273
  • IP-tölur í dag: 267

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband