Leita í fréttum mbl.is

Evra í skiptum fyrir 200 mílna auðlind?

ragnar_arnaldsMargir trúa því að við Íslendingar komumst ekki undan ESB-aðild vegna þess hve fljótandi gengi krónunnar sveiflast mikið á ólgusjó erlendra markaða. En vilja menn fórna 200 mílna landhelgi og margs konar fullveldisréttindum til að fá stöðugra gengi? Ég er sannfærður um að landsmenn samþykkja aldrei í þjóðaratkvæði að erlend ríki fái úrslitavald yfir fiskimiðum landsmanna, vald sem í eðli sínu er ígildi eignarréttar og nær yfir hafsvæði sem er sjö sinnum stærra en landið sjálft.

Mikið var gert úr nýlegri skoðanakönnun Fréttablaðsins og hún túlkuð sem stuðningur landsmanna við ESB-aðild þótt spurningin væri bæði loðin og leiðandi. Í september sl. var niðurstaðan hjá sama blaði hins vegar þveröfug: 56% voru andvíg því að skipta út krónu fyrir evru og 51 % andvíg aðild. Skoðanakannanir um ESB-aðild sveiflast upp og niður og í þetta sinn hafði gengisfall krónunnar mikil áhrif. Alþjóðlegir markaðir verðfelldu krónuna vegna vandræða stóru íslensku bankanna sem erlendir keppinautar gerðu að skotmarki og stimpluðu sem risa á brauðfótum vegna þess hve mjög þeir hafa þanist út á fáum árum.

En bankarnir rétta brátt úr kútnum og gengi krónunnar nær aftur jafnvægi. Þótt of lágt gengi valdi erfiðleikum er alltof hátt gengi hálfu verra; það veldur stöðnun og atvinnuleysi þegar til lengri tíma er litið. Við getum hrósað happi meðan efnahagslífið er ekki gikkfast í ofurháu gengi evrunnar sem einmitt nú er stóra vandamálið á evrusvæðinu.

Hátt vaxtastig á Íslandi er önnur helsta röksemdin fyrir ESB-aðild. Háu vextirnir eru helsta tæki kerfisins í baráttu við ofþenslu og verðbólguháska. Sumir ESB-sinnar snúa reyndar vaxtaumræðunni á hvolf og fullyrða að sjálfstæð peningastefna sé einskis virði því að háir stýrivextir hafi engin áhrif. Það eru miklar ýkjur enda væri þá ekki kvartað svo mjög yfir háu vaxtastigi. Og sannarlega væri gott að vera laus við háu vextina. En þá þarf að finna önnur úrræði í stað stýrivaxta Seðlabankans og skapa stöðugleika með því að hafa hemil á stórframkvæmdum sem setja allt á annan endann. Hitt er aftur á móti hlægileg ögrun við heilbrigða skynsemi að nefna evruna sem bjargvætt í glímunni við verðbólgu. Augljóst er að á undanförnu þensluskeiði hefðu evruvextir verkað hér á landi sem olía á verðbólgueldinn. Engir hefðu komið jafn-illa út úr því og launafólk. Sambland af alltof háu gengi evrunnar og lágum vöxtum kann að virðast girnilegur réttur við fyrstu sýn, en er í eðli sínu skaðlegasta mixtúra sem unnt væri að gefa efnahagslífi okkar eins og sakir standa og hefði valdið óðaverðbólgu en síðar stórfelldu atvinnuleysi þegar efnahagslífið hefði fest sig í sjálfheldunni.

Spurningin er þá: eru landsmenn orðnir svo þreyttir á fljótandi gengi krónunnar og meðfylgjandi gengisflökti að ekki verði hjá því komist að breyta til? Ef svo er mætti að sjálfsögðu taka aftur upp fast gengi sem sveiflast innan vissra marka miðað við meðalgengi nokkurra helstu mynta, svo sem evru, dollars og punds eins og var fyrir fáum árum. En hitt að fórna yfirráðum yfir fiskimiðunum til að geta tekið upp evru er að fara úr öskunni í eldinn. Þá væri þó skárra að taka upp gjaldmiðil ríkis sem ekki heimtar 200 mílna landhelgina í kaupbæti.

En talsmenn ESB-aðildar skauta alltaf létt framhjá landhelgismálinu og fullyrða blákalt að Íslendingar fengju undanþágur í sjávarútvegsmálum. Þeir benda einkum á undanþágu sem Danir fengu varðandi sumarbústaði útlendinga á vesturströnd Jótlands! Er þar ekki nokkuð ólíku saman að jafna? Vissulega finnast dæmi um undanþágur sem aðildarríki hafa fengið frá meginreglum ESB. En æðstu ráðamenn ESB hafa margsagt í viðræðum við íslensk stjórnvöld að Íslendingar geti aldrei undanþegið 200 mílna landhelgi sína; það myndi skapa fordæmi fyrir aðrar þjóðir, t.d. Breta sem haft hafa uppi sömu kröfu.

Margir hallast að inngöngu í ESB vegna þess hve mörg Evrópuríki hafa gengið þá götu; eðlilegast sé að fylgja straumnum. En menn verða að átta sig á að innganga í ESB er langtum óhagstæðari fyrir Íslendinga en aðrar þjóðir. Í engu Evrópuríki vegur útflutningur sjávarafurða eins þungt og hér á landi eða um 38% (2007) en um leið er fiskurinn eina auðlindin sem ESB hefur beinlínis lagt undir sína stjórn. Á árlegum ráðherrafundi ESB eru ákvarðanir teknar um nýtingu sameiginlegra fiskimiða og er sá fundur oft nefndur „nótt hinna löngu hnífa“. Þar hefðu okkar menn 3 atkvæði af um 350.

Vel má vera að ráðherrar annarra ríkja sýni Íslendingum sanngirni og taki tillit til þess að við höfum setið einir að fiskimiðum okkar undanfarna áratugi. En eftir að við hefðum framselt þeim réttinn til að ráða yfir fiskimiðunum hefðum við enga tryggingu fyrir því að við yrðum ekki órétti beittir. Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á stjórnarskrársáttmála ESB og þar er endanlega geirneglt að ESB hafi úrslitavald (exclusive competence) á sviði nýtingar sjávarauðlinda. Ljóst er að þessari meginreglu yrði ekki haggað í aðildarviðræðum.

Ragnar Arnalds,
fyrrv. ráðherra og formaður Heimssýnar.

(Birtist áður í Morgunblaðinu 26. apríl 2008 og á bloggsíðu höfundar)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fannar frá Rifi

"Margir hallast að inngöngu í ESB vegna þess hve mörg Evrópuríki hafa gengið þá götu; eðlilegast sé að fylgja straumnum."

Þessi rök ESB sinna eru þau sömu og dópistinn notar. "Það eru allir að að fá sér kókaín, þú verður að prófa það til að vera cool".

Veik eru nú þau rök að fylgja straumnum eins og læmingi fram af klettabrúnum. 

Fannar frá Rifi, 28.4.2008 kl. 01:31

2 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Gunns:
Það kann að vera að raunveruleikinn henti þér ekki, en hann breytist þó ekki við það.

Hjörtur J. Guðmundsson, 28.4.2008 kl. 07:22

3 identicon

Ágæti Ragnar.

Mig langar að spyrja þig og aðra sem tala gegn hugsanlegri umsókn Íslands í ESB þriggja spurninga.

1.       Hvað fær ykkur til að meta það svo undanþágur kæmu ekki til vegna sjávarútvegs á Íslandi, nú eða að útvegurinn yrði „órétti“ beittur ef til samninga kæmi? (Eftir því sem ég best veit hefur bara alls ekki reynt á neitt slíkt enda engir samningar í gangi, ekki einu sinni umræður!)

2.       Sjávarútvegur var svo sannarlega ein af aðal burðarstoðum velmegunar á Íslandi. Störfum við sjávarútveg hefur hins vegar fækkað stöðugt sem og vægi hans í þjóðarkökunni. Á sama tíma hefur rentan af þessari auðlind safnast á fárra hendur og byggðir sem hér á árum áður töldust lífvænlegar  ramba nú á barmi eyðingar. Er það ófrávíkjanleg stefna að „verja“ þessa 200 mílna lögsögu öllum ráðum fyrir þrátt fyrir nærri 98% íslendinga njóti í dag lítils af þeim sögulegu landvinningum?

3.       Fyrir hverja er annars verið að verja „umráðarétt“ yfir þessari 200 mílna fiskveiðilögsögu?

 

Með kveðju,

Sjálfstæðismaður sem er orðinn þreyttur  á óstöðugleika og smjörklípum...

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 09:54

4 identicon

ESB úthlutar úr "sameiginlegum" fiskistofnum, stofnum sem ganga með fram allri Evrópu. Um slíkt er ekki að ræða á Íslandsmiðum, frekar en að sambandið væri að úthluta skikum úr finnsku skógunum, sólarströndunum á Spáni eða Bresku kolanámunum.

Þó nokkur sérákvæði eru um fiskveiði innan landa ESB t.d 12 metra reglan innan 25 mílna lögsögu Möltu osfrv.

Svona málflutningur gerir ekkert annað en að tala ykkur út úr umræðunni, alltaf fróðlegt að sjá samtök fremja hryðjuverk á sjálfu sér. Samanber feminista í vetur.

Kv Ellert

Ellert Guðmundsson (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 10:20

5 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Jóhann:
Þó þessum orðum þínum sé ekki beint til mín þá langar mig að leyfa mér að svara þeim. Ef þú vilt fá svör frá Ragnari Arnalds væri sennilega vænlegast að setja spurningar þínar í athugasemd á bloggsíðuna hans þar sem greinin var upphaflæega birt á netinu. Hér var hún aðeins endurbirt.

1. Sú undanþága sem einkum og í raun eingöngu er rætt um í tengslum við sjávarútveginn og Evrópusambandið er sú að íslenzkur sjávarútvegur verði einfaldlega undanþeginn sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins og að Íslendingar hafi þannig áfram full og óskorðuð yfirráð yfir honum þrátt fyrir Evrópusambandsaðild. Þessu hafa forystumenn innan Evrópusambandsins hins vegar algerlega hafnað og sagt með öllu óraunhæft og sömuleiðis hugmyndir um einhvers konar sérstakt stjórnsýslusvæði innan sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar. Slíkt er einfaldlega ekki í boði. Því má bæta við að Norðmenn fóru fram á hliðstæða hluti síðast þegar þeir fóru í samsningaviðræður við Evrópusambandið en fengu ekki framgengt. Enda höfnuðu Norðmenn aðild þó það hafi án efa verið af mun fleiri ástæðum.

2. Ef það er vilji þinn að breyta fyrirkomulagi fiskveiðistjórnunar eins og hún er á Íslandi í dag get ég lofað þér því að það verður mun erfiðara ef Ísland gengi í Evrópusambandið og yfirráð auðlindarinnar, og ekki ósennilega nýting hennar líka að stóru leyti þegar fram líða stundir, væri komin í hendurna á erlendum aðilum. Ef þú síðan telur að íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið hafi reynst sérstaklega illa ættirðu að kynna þér reynsluna af sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og þá einkum fyrir Skota.

3. Þessu er frekar auðsvarað: Íslenzku þjóðina og komandi kynslóðir hennar.

Hjörtur J. Guðmundsson, 28.4.2008 kl. 11:00

6 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Ellert:
Evrópusambandið úthlutar öllum kvóta innan fiskveiðilögsögu sinnar sem íslenzka lögsagan yrði aðeins hluti af við aðild. Öll yfirstjórn sjávarútvegsmála við Ísland yrði í höndum sambandsins við aðild að því. Líklegt er að í fyrstu verði mestöllum kvótanum á Íslandsmiðum úthlutað til Íslendinga vegna svokallaðrar sögulegrar reynslu. Eftir að inn í Evrópusambandið væri hins vegar komið hefðum við nákvæmlega enga tryggingu fyrir því að þessu yrði ekki breytt, enda er það hægt með tiltölulega auðveldum hætti ef pólitískur vilji stæði til þess og án þess að við Íslendingar hefðum eitthvað um það að segja. Um þetta má t.d. lesa í skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra sem kom út fyrir rúmu ári síðan.

Ráðamenn í Evrópusambandinu hafa ítrekað verið inntir svara við því á undanförnum árum hvort einhver sérlausn kunni að vera í boði fyrir Íslendinga þannig að við myndum halda yfirráðum okkar yfir íslenzku fiskveiðilögsögunni þó við gengjum í Evrópusambandið en fengið þvert nei. Það sé einfaldlega ekki í boði og myndi jafnvel þýða endalok sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu sambandsins eins og sjávarútvegsráðherra Breta, Ben Bradshaw, hélt fram í heimsókn til Íslands um árið. Sagði hann ennfremur að Bretar myndu aldrei samþykkja að Íslendingar fengju slíka sérsamninga.

Malta mun vera eina ríkið sem fékk einhvers konar sérmeðferð þegar kom að sjávarútvegsmálunum, en sú sérmeðferð er ekki ýkja merkileg þegar nánar er að gáð og myndi aldrei henta Íslendingum. Sú sérmeðferð (ef sérmeðferð skyldi kalla þar sem hún gildir jafnt um Maltverja sem aðra þegna Evrópusambandsins) felst í því að öllum aðildarríkjum sambandsins er heimilt að veiða í maltnesku lögsögunni fyrrverandi en einungis má notast við mjög litla báta til þess. Treyst er á að útgerðir frá öðrum Evrópusambandsríkjum sjái sér ekki hag í því að senda svo lítil skip til veiða við Möltu þó þeim sé það fyllilega frjálst þess utan. Eigum við að banna notkun annars en Sómabáta við Ísland?

Hvað varðar þetta síðasta hjá þér á það augljóslega miklu betur við um þig en nokkurn tímann Heimssýn. Það er alltaf gagnlegt að kynna sér málin áður en farið er út í einhver stóryrði sem síðan er lítil eða engin innistæða fyrir þegar á reynir.

Hjörtur J. Guðmundsson, 28.4.2008 kl. 11:16

7 identicon

Í skýrslu sem starfshópur á vegum utanríkisráðuneytisins tók saman árið 2004 undir heitinu  Fiskveiðiauðlindin - Ísland og Evrópusambandið, er bent á að Ísland gæti nýtt þessa grein í samningum við ESB um sérlausn í sjávarútvegi en í ákvæðinu felst sú regla að „heimamönnum er tryggður víðtækur forgangur til hagnýtingar náttúruauðlinda á hafsvæðum eyjanna sem um ræðir.” Í skýrslunni kemur einnig fram að heimamenn geti krafist “einkarétts til veiða, vinnslu og markaðssóknar, en mega hins vegar t.d. ekki sækja inn á meginlandsmarkað Evrópu með þeim hætti að skekki markaðsaðstæður þar.” Í ákvæðinu felast einnig möguleikar um “margvíslega styrki, m.a. til þróunar og ráðgjafar, veiðarfæra og annarrar vélvæðingar, starfsþjálfunar, vöruþróunar og sölumála.” Þá gilda sérstök ákvæði um skattamál, tollamál, innflutningshöft á þessum svæðum, og um stuðning vegna flutningskostnaðar, efnivörukostnaðar og fjármögnunar.

http://www.bifrost.is/kennarar/2006/default.asp?sid_id=36787&tId=1

Langaði að benda á þessa grein.

ESB hlýtur þá að fara að úthluta olíu kvóta við Bretland fljótlega ?

Kv Ellert

Ellert Guðmundsson (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 11:53

8 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Ellert:
Eiríkur Bergmann Einarsson, einn ötulasti talsmaður Evrópusambandssinna á Íslandi samkvæmt Evrópusamtökunum sjálfum. Er það þín heimild?

Þessi ágæta skýrsla sem þú nefnir var einmitt samin árið 2004 án þess að kannað var með viðbrögð ráðamanna hjá Evrópusambandinu. Það var hins vegar gert í þeirri rannsóknarvinnu sem liggur að baki skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra sem ég hvet þig til að kynna þér. Þar kemur fram að litlar líkur séu á að þessi regla ætti við um Ísland, enda aðeins hugsuð fyrir afmörkuð landssvæði innan aðildarríkja Evrópusambandsins sem standa höllum fæti þróunarlega séð sem ætti ekki beinlínis við um Ísland. Þessi regla myndi með öðrum orðum ólíklega eiga við hér við land og alls ekki að hún ætti við um alla íslenzku lögsöguna.

Hjörtur J. Guðmundsson, 28.4.2008 kl. 12:14

9 identicon

Svör til Jóhanns Kristjánssonar:

1. Þetta hefur mjög oft komið fram í ræðum sjávarútvegsráðherra ESB á liðnum árum og í samtölum og viðræðum íslenskra stjórnmálamanna og ráðherra við forystumenn ESB, m.a. í viðræðum sendinefndar ESB við Evrópustefnunefndina í fyrravetur, þar sem ég var viðstaddur sem einn nefndarmanna. ESB veitir ekki neinar varanlegar undanþágur frá óskoruðum yfirráðum yfir landhelgi aðildarríkjanna, sbr. grein mína hér að ofan. Á þetta reyndi líka þegar Norðmenn sömdu við ESB; Norðmenn fengu aðeins tímabundnar undanþágur. Hvað varðar spurninguna um það hvort Íslendingar yrðu órétti beittir á komandi árum eftir að þeir hefðu endanlega afsalað sér yfirráðum yfir auðlindinni, þá er það nokkuð sem enginn veit né getur neitt fullyrt um með vissu. Sumir halda að svo verði ekki og vísa þá til þess hvernig vinnureglur ESB séu nú sem stendur. En mergurinn málsins er einmitt sá að þeir myndu fá yfirráðaréttinn samkvæmt ófrávíkjanlegum reglum sem festar verða í væntanlegri stjórnarskrá ESB en vinnureglunum geta þeir breytt hvenær sem er á fundum þar sem við hefðum aðeins 3 atkvæði af 350. Það sem ráðamenn í ESB segja og gera eftir nokkur ár kann að verða allt annað en það sem núverandi ráðamenn hugsa og segja. Það koma nýir menn, og skapast nýjar aðstæður, ný viðhorf. Ég tel að íslenska þjóðin muni og megi aldrei samþykkja að taka þvílíka áhættu hvað auðlindir sínar varðar. Og hún þarf þess ekki. Einmitt í því felst gildi sjálfstæðisins og það verðum við umfram allt að varðveita.

2. Kvótakerfið er umdeilt. Það breytist ekki við það eitt að ganga í ESB en auðvitað væri þá ESB komið með puttann í það mál ef henta þætti. Hins vegar er það mikill misskilningur að “98% Íslendinga njóti í dag lítils af þeim sögulegu landvinningum” sem 200 mílna landhelgin er. Þrátt fyrir kvótakerfið þá er íslenskur sjávarútvegur mikilvægari íslensku efnahagslífi en nokkur önnur atvinnugrein í formi útflutnings sem er um 38% af heildarútflutningi meðan útgerðin helst í höndum íslenskra aðila. Tekjur af sjávarútvegi og fiskvinnslu kvíslast að sjálfsögðu um allt okkar hagkerfi. Það er því mjög órökrétt að afskrifa þessa ómetanlegu auðlind þjóðarinnar þótt aðferðir við úthlutun veiðiheimilda séu umdeildar.

Með bestu kveðjum,

Ragnar Arnalds

Ragnar Arnalds (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 13:14

10 identicon

Takk fyrir skjót svör Ragnar.

Mér var reyndar bent á af ágætum bloggara að réttara hefði verið að beina þessum spurningum inn á þitt einkavæði en ekki bloggsíðu Heimssýnar. En hvað um það hér hafa borist bæði spurninga og svör.

Ekki ætla ég að fara að deila um sjávarútvegsstefnu ESB, er hvorki til þess bær né í þeirri stöðu. En eitt langar mig þó að nefna þar sem þú bendir á að 38% útflutningstekna komi frá sjávarfangi, tölu sem ég sá einnig inni á vef Hagstofunnar. Vita menn hve stór hluti þessara tekna hverfur jafn hratt út úr hagkerfinu í formi vaxtagreiðslna vegna mikilla erlendra skulda sjávarútvegsfyrirtækja? Þær upplýsingar hef ég ekki getað fundið. Hins vegar get ég bent á skýrslu sem unnin var af hagfræðistofnun HÍ og má finna hér inni á vef LíÚ. Þar segir "Samkvæmt opinberum hagtölum var vægi sjávarútvegs í þjóðarbúskap Íslendinga tæp 6% á árinu 2005. Hér er þó eingöngu litið til beins framlags sjávarútvegs, en ekki litið til margvíslegra óbeinna áhrifa og tengsla greinarinnar við aðrar atvinnugreinar." Eftir því sem best verður séð er staðan svipuð í dag og árið 2005. Ég skal því bakka með misskilning minn um 98% og niður í 94% svo öllu sé haldið til haga. Til gamans má í lokin geta þess að í skýrslu Ferðamálastofu frá 2007 kemur fram að verg landsframleiðsla af túrhestum er komin í 6.3% og fer vaxandi.

Góðar stundir

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.1.): 17
  • Sl. sólarhring: 368
  • Sl. viku: 1952
  • Frá upphafi: 1184359

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 1680
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband