Leita í fréttum mbl.is

Evrópuhugsjónin og Ísland

arni_helgasonEftir að Lissabon-sáttmálinn var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu á Írlandi í síðasta mánuði (sama plaggið og Frakkar og Hollendingar felldu árið 2005) hefur verið tekist á um framtíðarþróun Evrópusambandsins. Skiptar skoðanir eru um sífellt nánari samruna með auknum áhrifum frá aðildarríkjunum til stofnana ESB í Brussel og eins hvort Evrópusambandið sé ekki farið að útvíkka starfssvið sitt meira en ráð var fyrir gert í upphafi.

Hin upphaflega Evrópuhugsjón gekk ekki út á umsvifamikið stjórnkerfi sem blandaði sér í nánast öll innri málefni aðildarríkjanna. Hugsjónin um Evrópu og samstarf Evrópuríkjanna gengur út á að greiða fyrir verslun og viðskiptum og koma í veg fyrir að hindranir og höft dragi úr möguleikum og tækifærum einstaklinga og fyrirtækja.

Nánari samruni felldur
EES-samningurinn felur einmitt þetta í sér, þ.e. að tryggja fjórfrelsið og skapa sameiginlegan innri markað. Þetta hefur skilað öllum þátttakendum óumdeildum ávinningi og það var mikið heillaspor fyrir Ísland að taka þátt.

Aftur á móti virðast sífellt fleiri íbúar Evrópu setja spurningamerki við þá stefnu forystu Evrópusambandsins að færa til sín aukin völd á kostnað aðildarríkjanna í málaflokkum sem ekki tengjast beint viðskiptum eða markaði. Þessi tortryggni íbúanna sést ágætlega í því að íbúar Írlands, Hollands og Frakklands hafa nú á þremur árum fellt hugmyndir sambandsins um stjórnarskrá og dýpri pólitískan samruna í þjóðaratkvæðagreiðslum, en þessar þrjár þjóðir voru þær einu sem fengið hafa að kjósa beint um þessar hugmyndir.

Í nýlegri könnun ICM fyrir samtökin Global Vision í Bretlandi kom fram að nærri tveir þriðju aðspurðra myndu vilja samvinnu við Evrópusambandið sem byggðist eingöngu á viðskiptum og verslun.

ESB beitir sér víða
Umræða og ummæli þeirra sem ráða ferðinni innan Evrópusambandsinseru oft í hróplegu ósamræmi við hugmyndir um laustengdara samband og þá falleinkunn sem aukinn samruni hefur fengið í þjóðaratkvæðagreiðslum. Nicolas Sarkozy, sem leiðir ráðherraráð Evrópusambandsins næsta hálfa árið, sagði um daginn að það væri sérstakt áhyggjuefni hve margir Evrópubúar virtust horfa til síns þjóðríkis varðandi vernd og öryggi í daglegu lífi í stað þess að horfa til Evrópusambandsins.

Laszlo Kovacs, yfirmaður skattamála hjá Evrópusambandinu, hefur boðað að gjaldtaka á sígarettur innan sambandsins verði hækkuð, mest hjá nýju aðildarþjóðunum sem gætu búist við allt að 50% gjaldhækkun á sígarettur. Þetta verður gert til þess að vinna að heilbrigðismarkmiðum sambandsins og þá hyggst þingmaður á Evrópuþinginu beita sér fyrir löggjöf um að sígarettur verði bannaðar árið 2025.

Nýverið ákvað framkvæmdastjórn sambandsins að draga ítölsk stjórnvöld fyrir dómstól vegna þess að sorphirða í Napólí væri í ólestri.

Í öllum þessum nýlegu dæmum vaknar spurningin um réttmæti þess að ESB hafi afskipti af innri málefnum aðildarríkjanna. En slík sjónarmið virðast ekki hafa mikið vægi hjá forystu sambandsins.

Því er stundum haldið fram að staða Íslands í Evrópusamstarfinu skaprauni forystu ESB vegna þess að við njótum kostanna við samstarfið en tökum ekki á okkur allar skyldurnar. Það er ekkert til að hafa áhyggjur af. Við eigum auðvitað að byggja á þeirri hugsjón um Evrópusamstarf sem við trúum á en standa utan við þann hluta hennar sem er okkur síður að skapi.

Árni Helgason,
framkvæmdastjóri þingflokks sjálfstæðismanna

(Birtist áður á 24 stundum 24. júlí 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 345
  • Sl. viku: 2111
  • Frá upphafi: 1188247

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 1921
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband