Leita í fréttum mbl.is

Einangrunarsinnar og ESB aðild

bjarni hardarson
Fyrir ári síðan bar mikið á þeim rökum íslenskra bankamanna að ef landið væri hluti af ESB og myntbandalagi Evrópuþjóða væri öryggi íslensku bankanna með öðrum hætti. Nú þegar bankakreppan ríður yfir er ljóst að sú vernd sem menn töldu vera af Evrópska seðlabankanum er ekki fyrir hendi. Hvert ríki innan ESB reynir nú að bjarga sínu og samstaða þar er þverrandi.

Aðild Íslands að EMU hefði þannig einungis komið inn falskri öryggiskennd ríkisvalds og banka og þar með stefnt þjóðarbúinu í enn meiri voða en þó er orðinn í dag. Í annan stað er öllum ljóst nú að það er ekki síst fyrir tilvist EES samningsins sem fáeinum íslenskum fjárglæframönnum hefur tekist að koma orðspori okkar og hagkerfi í verri stöðu en nokkurn óraði fyrir. Þeir hefðu haft sömu og jafnvel enn háskalegri stöðu innan ESB.

Einangrun eða ESB
Meðal talsmanna aukins Evrópusamruna er oft og einatt teflt fram að þeir sem tala gegn slíku séu einangrunarsinnar. Þessi rök voru mjög notuð í umræðunni um EES samninginn sem keyrður var í gegn af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokksins sáluga árið 1993. Framsóknarflokkurinn varaði þá við þeim samningi og taldi hann ganga gegn fullveldi þjóðarinnar. Í dag er því enn haldið fram að þeir séu einangrunarsinnar sem ekki vilja leiða þjóðina í Evrópusambandsaðild.

Hér eru mikil fornaldarsjónarmið á ferðinni því allt frá lokum miðalda hafa Evrópubúar vitað að álfa þeirra er harla lítill hluti af heimsbyggðinni. Nú við byrjun nýrrar aldar vita hagfræðingar og upplýstir stjórnmálamenn enn fremur að Evrópa er sá hluti heimsbyggðar þar sem hvað minnstir vaxtamöguleikar eru í verslun og viðskiptum. Viðbrögð gömlu heimsveldanna í Evrópu við þessari þróun er að einangra álfuna og byggja utan um hana tollamúra en opna fyrir aukin viðskipti milli ríkja innan álfunnar. Í reynd er þetta einangrunarstefna sem ekki er til farsældar fallin.

Bankakreppan nú er líkleg til að laska verulega þann samruna sem orðið hefur milli Evrópuríkja og því er jafnvel spáð að evran eigi erfitt uppdráttar á næstu árum. Ekki vil ég þó óska henni annars en góðs. En það er stór hætta á að kreppan nú leiði líkt og fyrri kreppur til aukinnar einangrunarstefnu allra iðnríkja og þar er fetað inn á slóð sem gömlu Evrópuveldin þekkja vel. Við Íslendingar eigum að vara okkur á slíkum viðbrögðum.

Heilbrigð milliríkjaviðskipti
Vitaskuld eru bankagjaldþrotin áfellisdómur yfir landamæralausum útrásarvíkingum.  Við eigum því að endurskoða margt sem fylgt hefur hina svokallaða fjórfrelsi EES samningsins, einkanlega þar sem bönkum er gefinn laus taumur. En við eigum jafnframt að halda áfram að slaka hér á tollum og auka fríverslun okkar við sem flesta heimshluta. Hugmyndir um alþjóðlega fjármála- og viðskiptamiðstöð á Íslandi milli austurs og vesturs gátu átt meira erindi til okkar en nokkru sinni. En ekkert slíkt getum við þróað innan vébanda ESB. Þess vegna eru það öfugmæli hin mestu þegar ESB sinnar halda því fram að þeir séu hinir frjálslyndir alþjóðasinnar.

Ef vel á að fara verðum við Íslendingar að gæta þess eftirleiðis að innleiða ekki á færibandi lagasetningu ESB án þess að kanna til hlítar hvaða afleiðingar það hefur fyrir þjóðarbúið. Icesave-reikningarnir færa okkur heim sanninn um að ef gáum ekki að okkur mun enginn annar tryggja að lagaumhverfið samrýmist íslenskum hagsmunum.

Lúalegt kosningabragð
Undanfarin misseri hefur mikið verið rætt um þá kröfu að þjóðin fái að kjósa um mögulega ESB aðild. Á sínum tíma gerðu Framsóknarmenn og fleiri gagnrýnendur EES samnings kröfu um kosningar um þann samning en hlutu ekki til þess stuðning. Sumir af þeim sömu og nú tala fyrir kosningum um aðild beittu sér þá með öðrum hætti.

Komi til þess að þjóðin gangi að kjörborði um stöðu okkar í alþjóðasamfélaginu er full ástæða til að um leið fái hún að segja álit sitt á bæði Schengen samstarfi og EES samningnum. Svisslendingar sem þó hafa verið undir meiri þrýstingi en við að ganga inn i ESB náðu tvíhliða samningi við Brussel. Þar með eru þeir lausir undan að taka við lagafrumvörpum frá nágrönnum sínum. Með tvíhliða samningi gætu Íslendingar einnig komið sér út úr Shengen samstarfinu en með því mætti uppræta hér skipulagðar erlendar glæpaklíkur sem hreiðra um sig á Íslandi í skjóli fjórfrelsisins.

Vinsældakosning lýðveldis
Bankakreppan og mikill efnahagslegur samdráttur kann að auka tímabundið fylgi við ESB aðild og ef ekki er gætt sanngirni gætu Íslendingar lent undir Brusselvaldinu á sömu forsendum og Svíar. Þar í landi var andstaða við aðild almenn allt þar til landið lenti í gjaldþrotum banka. Þá skapaðist tímabundin vantrú á sænskt sjálfstæði og það lag gátu aðildarsinnar notað sér. Síðan þá hefur andstaðan við aðild aftur vaxið en leiðin út úr ESB er harla vandrötuð.

Það væri fráleitt og næsta lúalegt að ætla Íslendingum að kjósa um aðild á næstu misserum þegar landið allt er í sárum eftir fjárhagslega kreppu. Slík kosning er öðru fremur vinsældarkosning lýðveldisins. Mikilvægt er að bíða uns fárviðri bankakreppunnar hefur riðið yfir Evrópu og eðlilegt ástand skapast. Margt bendir til að sú holskefla verði gömlu álfunni ekki síður erfið en Ísland er nú til muna fyrr til að lenda í þeim stormi.

Ef til vill mun okkar vakra og lítt vinsæla mynt og sveigjanlega kerfi einnig valda því að við verðum fyrri til að vinna okkur út úr kreppunni en þau lönd sem læst eru í þunglamalegar skrifræðiskrumlur Brusselvaldsins.
 
Bjarni Harðarson,
þingmaður Framsóknarflokksins 

(Birt áður á bloggsíðu höfundar og lítillega stytt í Fréttablaðinu 23. október 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.1.): 21
  • Sl. sólarhring: 300
  • Sl. viku: 2123
  • Frá upphafi: 1187904

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 1898
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband