Leita í fréttum mbl.is

Áskorun til Íslendinga

Daniel Hannan
Kæru Íslendingar! Ég geri mér fulla grein fyrir því að þið standið nú frammi fyrir mjög erfiðum tímum – við stöndum raunar öll frammi fyrir mjög erfiðum tímum – en engir erfiðleikar eru svo miklir að aðild að Evrópusambandinu geti ekki gert þá verri. Ég skil vel að þið séuð í sárum og finnist þið standa ein á báti. Þið hafið fulla ástæðu til þess eftir ömurlega framkomu Gordons Browns í ykkar garð. En ef þið bregðist við með því að leggja niður lýðræðið ykkar og sjálfstæði þá festið þið ykkur í sömu vandamálum og þið eruð í núna um alla framtíð.
 
Innganga í ESB fæli í sér algera örvæntingu, rétt eins og raunin var í tilfelli okkar Breta. Við gerðumst aðilar að forvera sambandsins á hinum erfiðu árum þegar Edward Heath var forsætisráðherra, þegar verðbólga var í tveggja stafa tölu, allt logaði í verkföllum, lokað var reglulega fyrir orku til almennings og þjóðargjaldþrot blasti við. Það er erfitt að ímynda sér að við hefðum stutt aðild áratug áður eða þá áratug síðar. Það hefði einfaldlega ekki ríkt nógu mikil svartsýni og örvænting. Þegar komið var fram á 9. áratug síðustu aldar fór breskur almenningur að gera sér grein fyrir því hvað Evrópusamruninn væri í raun: kötturinn í sekknum. En þá varð einfaldlega ekki aftur snúið. Niðurnjörvaðir af reglugerðafargani frá Brussel glötuðum við samkeppnisforskoti okkar. Við gengum Evrópusamrunanum á hönd við erfiðar aðstæður og afleiðingin var sú að við festum þær aðstæður í sessi.

Ekki gera sömu mistökin og við gerðum. Þið þurfið þess ekki! Ég hef haft ómælda ánægju af því að ferðast reglulega til Íslands undanfarin 15 ár og á þeim tíma hef ég orðið vitni að ótrúlegum framförum. Slíkar breytingar eru oft augljósari í augum gesta sem annað slagið koma í heimsókn en þeirra sem hafa fasta búsetu á staðnum. Þegar ég kom fyrst til landsins höfðuð þið nýlega gerst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu sem veitti ykkur fullan aðgang að innri markaði ESB án þess að þurfa að taka á ykkur þann mikla kostnað sem fylgir aðild að sambandinu sjálfu.

Ímyndið ykkur að í tímabundnu vonleysi tækjuð þið þá ákvörðun að ganga í ESB og taka upp evruna. Hvað myndi gerast? Í fyrsta lagi yrði gengi gjaldmiðilsins ykkar fest til frambúðar við evruna á því gengi sem þá væri í gildi. Endurskoðun á genginu með tilliti til umbóta í efnahagslífi ykkar væri útilokuð. Að sama skapi yrði ekki lengur hægt að bregðast við efnahagsvandræðum í framtíðinni í gegnum gengið eða stýrivexti. Þess í stað myndu slíkar aðstæður leiða til mikils samdráttar í framleiðslu og fjöldaatvinnuleysis.

Það næsta sem þið stæðuð frammi fyrir væri það að fyrir inngönguna í ESB yrði að greiða hátt verð, fiskimiðin ykkar. Þessi mikilvægasta endurnýjanlega náttúruauðlind ykkar yrði hluti af sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins.

Fljótlega mynduð þið þó átta ykkur á því að þið hefðuð afsalað ykkur einhverju margfalt dýrmætara en fiskimiðunum. Ykkar mesta auðlegð liggur nefnilega ekki í hafinu í kringum landið ykkar heldur í huga ykkar. Þið búið yfir einhverju best menntaða fólki í heiminum, frumkvöðlastarfsemi er mikil sem og öll framtakssemi. Þið hafið byggt árangur ykkar á minna regluverki, skattalækkunum og frjálsum viðskiptum. En þið mynduð reka ykkur á það að þið hefðuð gengið til liðs við fyrirbæri sem er fyrst og fremst skriffinnskubákn grundvallað á gríðarlegri miðstýringu á öllum sviðum og háum verndartollum í viðskiptum við ríki utan þess.

Ég get upplýst ykkur um þá sorglegu staðreynd að afstaðan til ykkar er ömurleg í Brussel. Það er litið niður á ykkur. Daginn sem það lá fyrir að allir bankarnir ykkar höfðu lent í erfiðleikum komu þrír Evrópusinnaðir þingmenn á Evrópuþinginu til mín glottandi hver í sínu lagi: „Jæja Hannan, Íslendingarnir þínir eru ekki beinlínis að gera það gott þessa dagana, ha? Þeir sem hafa viljað standa utan við ESB. Þeir hafa alltof lengi fengið að hafa hlutina eftir eigin höfði, þeir áttu þetta skilið!“

Tilvist ykkar ein og sér sem sjálfstæð og velmegandi þjóð hefur skapað öfund í Brussel. Ef 300 þúsund manna þjóðfélag norður við heimskautsbaug getur náð betri árangri en ESB þá er allur Evrópusamruninn í hættu að áliti ráðamanna sambandsins. Árangur ykkar gæti jafnvel orðið ríkjum sem þegar eru aðilar að ESB hvatning til þess að líta til ykkar sem fyrirmyndar. Það er fátt sem ráðamenn í Brussel vildu frekar en gleypa ykkur með húð og hári.

Þið hafið valið. Þið getið orðið útkjálki evrópsks stórríkis, minnsta héraðið innan þess, aðeins 0,002% af heildaríbúafjölda þess. Eða þið getið látið ykkar eigin drauma rætast, fylgt ykkar eigin markmiðum, skráð ykkar eigin sögu. Þið getið verið lifandi dæmi um þann árangur sem frjálst og dugandi fólk getur náð. Þið getið sýnt heiminum hvað það er að vera sjálfstæð þjóð, sjálfstæð í hugsun og athöfnum sem er það sem gerði ykkur kleift að ná þeim árangri sem þið hafið náð á undanförnum áratugum. Hugsið ykkur vandlega um áður en þið gefið það frá ykkur.
 
Daniel Hannan,
þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópusambandsþinginu.
 
(Birtist áður í Morgunblaðinu 3. janúar 2009)
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.12.): 3
  • Sl. sólarhring: 97
  • Sl. viku: 1742
  • Frá upphafi: 1176915

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 1580
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband