Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Hver yrðu áhrif Íslands innan ESB?

Því er gjarnan haldið fram af þeim sem vilja ganga í Evrópusambandið að aðild sé nauðsynleg til þess að við getum haft áhrif innan sambandsins. Látið er eins og þessi áhrif yrðu mikil og jafnvel ýjað að því að við myndum ráða öllu þar á bæ sem við vildum. Minna er hins vegar farið út í það  nákvæmlega hversu mikil þessi áhrif kynnu að verða. Í ítarlegri og fróðlegri skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra, sem nefndin sendi frá sér í marz sl., er þessu gerð skil á bls. 83-85.

Formleg áhrif aðildarríkja Evrópusambandsins innan þess miðast fyrst og fremst við íbúafjölda þeirra sem verður að teljast afar óhagstæður mælikvarði fyrir okkur Íslendinga. Gera má því ráð fyrir að áhrif okkar innan sambandsins yrðu hliðstæð og Möltu en þar bjuggu um 400 þúsund manns í lok síðasta árs. Ísland yrði ásamt Möltu fámennasta aðildarríkið og þar með með minnstu áhrifin.

Ísland fengi einn fulltrúa í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Í Nice-sáttamálanum er gert ráð fyrir að þegar aðildarríkin eru orðin 27 (sem þau urðu um síðustu áramót) verði fulltrúarnir í framkvæmdastjórninni færri en aðildarríkin sem kemur væntanlega til framkvæmda við skipun næstu framkvæmdastjórnar árið 2009 að óbreyttu. Í fyrirhugaðri stjórnaraskrá sambandsins er hins vegar gert ráð fyrir að hvert aðildarríki eigi aðeins fulltrúa í framkvæmdastjórninni annað hvert kjörtímabil en kjörtímabilið er 5 ár.

Þess ber þó að geta að fulltrúarnir í framkvæmdastjórninni eru í raun einungis fulltrúar aðildarríkjanna að því leyti að ríkisstjórnir þeirra tilnefna þá. Þess utan er þeim óheimilt að draga taum heimalanda sinna og ber einungis að líta til heildarhagsmuna Evrópusambandsins.

Í leiðtogaráðinu sitja leiðtogar aðildarríkjanna og forsætisráðherra Íslands myndi sitja þar sem fulltrúi landsins. Í ráðherraráðinu myndi Ísland væntanlega fá þrjú atkvæði af 345. Á Evrópusambandsþinginu fengjum við 5 þingmenn af 785, 6 af 750 ef fyrirhuguð stjórnarskrá Evrópusambandsins verður samþykkt. M.ö.o. vel innan við 1% vægi í báðum tilfellum.

Í efnahags- og félagsmálanefnd sambandsins, sem og héraðanefnd þess, myndi Ísland væntanlega líkt og Malta fá fimm fulltrúa en alls eru 344 fulltrúar í þessum nefndum í dag.

Ísland myndi tilnefna einn dómara í dómstól Evrópusambandsins en hann væri, líkt og fulltrúann í framkvæmdastjórninn, ekki fulltrúi íslenzkra hagsmuna.

Aðildarríkin skiptast á að vera í forsæti ráðherraráðsins í sex mánuði í senn. Miðað við 28 aðildarríki færi Ísland með forsætið á 14 ára fresti. Ef stjórnarskráin verður samþykkt verður þetta kerfi afnumið og í staðinn kemur sérstakur kjörinn forseti ráðsins.

Að öðru leyti myndi í raun ekkert breytast við aðild hvað varðar áhrif okkar innan Evrópusambandsins. Aðaláhrif Íslands innan sambandsins myndu áfram byggjast á "lobbyisma", rétt eins og raunin er í dag. Á móti myndum við gefa eftir yfirráð okkar yfir flestum okkar málum en lítið sem ekkert hafa um þau að segja eftir það.

Hjörtur J. Guðmundsson


Sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB fær falleinkunn í nýrri skýrslu

Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins (ESB) fær falleinkunn í nýrri skýrslu sem gerð var fyrir framkvæmdastjórn sambandsins. Fram kemur í skýrslunni að stefnan hafi leitt til feykilegs ofveiðivanda og gert það að verkum að sjávarútvegur í aðildarríkjum ESB er einn sá óarðbærasti í heimi.

Skýrslan var unnin fyrir framkvæmdastjórnina af óháðum sérfræðingum frá Evrópu og Bandaríkjunum og ekki stóð til að efni hennar yrði gert opinbert. Hinsvegar hefur breska blaðið Financial Times skýrsluna undir höndum og sagði það frá efni hennar í gær [26. september sl.]. Í henni kemur fram að áhrif of mikillar veiðigetu, miðstýringarvaldsins í Brussel og sérhagsmunahópa hafi leitt til þess að fjölmargir fiskveiðistofnar eru að hruni komnir. Alvarleiki ástandsins endurspeglast meðal annars í þeirri staðreynd að framkvæmdastjórn ESB lýsti því yfir á miðvikudag að hún hygðist lögsækja sjö aðildarríki sambandsins fyrir að hafa veitt umfram útgefinn kvóta á túnfiski í Miðjarðahafinu og í austanverðu Atlantshafi í ár. Framkvæmdastjórnin bannaði túnfiskveiðar á dögunum vegna þessa og fram kemur í frétt Financial Times að líklegt er að Alþjóðatúnfiskveiðiráðið, sem gefur út kvóta á bláugga, muni refsa sambandinu með kvótaskerðingu þegar það kemur saman til fundar í nóvember.

Hvorki árangur í verndun né rekstri
Í skýrslunni segir að 80% af fiskistofnum innan lögsögu sambandsins séu ofveiddir samanborið við heimsmeðaltalið sem er 25%. Einn höfundanna, David Symes sem starfar við Hull háskóla á Bretlandi, segir að síðasta aldarfjórðung hafi söguleg hnignum átt sér stað í evrópskum sjávarútvegi og hann kennir getuleysi stjórnmála- og embættismanna til að standast þrýsting sérhagsmunahópa. Mike Sissenwine, fyrrum forseti Alþjóðahafrannsóknaráðsins, bendir jafnframt á að önnur þróuð ríki hafi náð mun betri árangri við að vernda fiskistofna og tryggja viðunandi afkomu sjávarútvegsins. Hann bendir á að meðalhagnaður fiskveiðiflota ESB sé 6,5% á meðan hann sé 40% á Nýja Sjálandi. Í skýrslunni kemur meðal annars fram sú skoðun hans að erfitt sé að ímynda sér að það gangi upp að miðstýringarvaldið í Brussel geti eitt farið með ákvörðunartökuvald fyrir jafn ósamstæðan geira og sjávarútveg allra aðildarríkja ESB.

Um þessar mundir er unnið að endurskoðun sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB. Jose Borg, sem fer með fiskveiðimál í framkvæmdastjórn sambandsins, hefur viðrað hugmyndir um að vald verði fært til einhverskonar svæðaráða og einstaka ríkisstjórna jafnframt því sem hann vill efla eftirlit með fiskveiðum.

Fram kemur í frétt Financial Times að Fokian Fotiadis, sem er æðsti embættismaður fiskveiða innan sambandsins, hafi sent starfsfólki sínu skýrsluna í tölvupósti þar sem fram kom bann við að leka efni hennar út, en skýrslan mun verða grundvöllur að áðurnefndri endurskoðun á fiskveiðistefnu sambandsins.

Heimildir:
Sameiginleg fiskveiðastefna ESB fær falleinkunn (Viðskiptablaðið 28/09/07)
Report tears into Brussels fishing policy (Financial Times 26/09/07)


« Fyrri síða

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 134
  • Sl. viku: 909
  • Frá upphafi: 1117681

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 811
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband