Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Geir: Ranghugmyndir að upptaka evru leysi öll vandamál

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á ársfundi Seðlabankans í dag, að sumir virtust halda að upptaka evru í stað íslensku krónunnar myndi leysa öll vandamál, jafnt hjá fyrirtækjum, heimilum sem opinberum aðilum.

„Hér er mikið af ranghugmyndum á ferð. Í fyrsta lagi er ljóst að það er fullkomlega óraunhæft að tala um upptöku evru án aðildar að Evrópusambandinu. Um þetta eru kunnáttumenn sammála og hafa bent á ýmis dæmi þess að ákvarðanir um einhliða upptöku erlends gjaldmiðils sem heimamyntar skorti þann trúverðugleika sem nauðsynlegur er fyrir hagstjórnina.

Spurningin um formlega upptöku evru í stað íslensku krónunnar er því spurning um hvort við viljum ganga í Evrópusambandið. Þeirri spurningu ætti flestum að vera auðvelt að svara eftir útkomu hinnar nýju skýrslu Evrópunefndar," sagði Geir.

Hann sagði að það lægi heldur ekki fyrir, að upptaka evrunnar leysi einhver efnahagsvandamál á Íslandi. Þvert á móti sé ljóst að ný vandamál kæmu í stað þeirra gömlu. Þá hefði nokkuð borið á þeim misskilningi að uppgjör á ársreikningum einhverra fyrirtækja í evrum boði endalok íslensku krónunnar. Því færi fjarri.

„Ég beitti mér fyrir því sem fjármálaráðherra árið 2001 að lögfest var heimild til þess að fyrirtæki gætu leitað eftir því að færa ársreikninga sína í öðrum gjaldmiðli en krónum að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Með því var ekki verið að boða endalok krónunnar heldur einungis að koma til móts við eðlilegar og sanngjarnar óskir fyrirtækja um að mæta þeim breyttu aðstæðum sem fylgdu vaxandi viðskiptum þeirra í útlöndum. Íslensk fyrirtæki geta í dag gert sína ársreikninga upp í hvaða mynt sem er uppfylli þau sett skilyrði. Flest sem það gera hafa valið Bandaríkjadollar," sagði Geir.

Hann sagði að málið snérist um að finna hagkvæmasta fyrirkomulag fyrir gjaldmiðil, sem varðveiti efnahagspólitískt sjálfstæði þjóðarinnar og gerir Íslendingum kleift að kljást við hagsveiflur hér á landi.

„Engin betri skipan er á boðstólum í dag en sú að viðhalda íslensku krónunni, hvað sem síðar kann að verða. Seðlabankanum er með verðbólgumarkmiði sínu ætlað að standa vörð um verðgildi hennar. Evran gerir engin kraftaverk fyrir hagstjórnina. Það sem skiptir meginmáli er að hagstjórnin sjálf sé skynsamleg," sagði Geir.


mbl.is Geir: Ranghugmyndir að upptaka evru leysi öll vandamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stoltenberg: Norðmenn ánægðir utan Evrópusambandsins

stoltenberg_jensBreska dagblaðið Daily Telegraph ræddi við Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, 25. mars sl. um afstöðu Norðmanna til Evrópusambandsins. Þar segir í upphafi að á síðasta ári hafi tvö Evrópulönd verið í fyrsta og öðru sæti yfir þau lönd þar sem væri best að búa samkvæmt úttekt Sameinuðu þjóðanna; Noregur í fyrsta sæti og Ísland í öðru. Þetta hefði án efa verið ástæða til mikilla fagnaðarláta hjá ráðamönnum Evrópusambandsins ef ekki væri fyrir þá staðreynd að bæði löndin standa utan sambandsins.

Haft er eftir Stoltenberg að Norðmenn væru nú að uppskera árangur þess að hafa hafnað Evrópusambandsaðild tvisvar í þjóðaratkvæðagreiðslu. "Efnahagur okkar er sterkur, atvinnuleysi lítið og hagvöxtur mikill," sagði Stoltenberg. Ennfremur bætti hann við að með því að standa utan Evrópusambandsins hefðu Norðmenn bjargað norskum sjávarútveg.

"Fólkið í strandhéruðunum óttast sameiginlega sjávarútvegsstefnuna. Norðmönnum hefur tekist að stjórna fiskveiðum sínum skynsamlega. Við höfum ekki upplifað það sem gerst hefur hjá mörgum öðrum löndum þar sem fiskistofnar hafa verið eyðilagðir," sagði norski forsætisráðherrann og Evrópusambandssinninn og bætti við að sjálfstæðið væri Norðmönnum mjög mikilvægt.

Sjálfur dró Stoltenberg ekki dul á það að hann vildi að Noregur gengi í Evrópusambandið, en það væri einfaldlega ekki á dagskrá. "Norska þjóðin hefur hafnað aðild tvisvar og ég sé ekki fram á að hún verði á dagskrá aftur. Málið hefur verið afgreitt," sagði Stoltenberg að endingu.


Evran óvinsæl á meðal íbúa Evrópusambandsins

c_euroHátt í helmingur íbúa þeirra aðildarríkja Evrópusambandsins sem nota evru sem gjaldmiðil vill taka aftur upp gömlu gjaldmiðla landanna samkvæmt skoðanakönnun sem breska stofnunin Open Europe lét gera. Greint var frá þessu í morgunfréttum Ríkisútvarpsins. 49% af íbúum evruríkjanna þrettán vilja að fyrri gjaldmiðlar verði aftur teknir upp, 47% vilja halda evrunni. Aðeins er meirihluti fyrir því að halda í evruna í sex af evruríkjunum þrettán.

Í Evrópusambandsríkjunum fjórtán sem ekki tilheyra evru-svæðinu er mikil andstaða við evruna. Í ellefu þeirra sagðist mikill meirihluti aðspurðra ætla að greiða atkvæði gegn því að evran verði tekin upp.


ESB viðurkennir að evran hafi ekki aukið viðskipti innan sambandsins

The Wall Street Journal greindi frá því 15. mars sl. að Joaquin Almunia, yfirmaður peningamála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hafi viðurkennt að tilkoma evrunnar hefði ekki leitt til aukinna viðskipta innan sambandsins. Hann sagði: "Viðskipti innan Evrópusambandsins sem hlutfall af landsframleiðslu hafa staðið í stað síðan árið 2000."


Hátt í helmingur íbúa ESB neikvæður gagnvart sambandinu

Skammt er þangað til Evrópusambandið fagnar hálfrar aldar afmæli sínu og hefur viðskiptablaðið Financial Times gert könnun sem leitt hefur í ljós að 44% Evrópumanna telja að lífið hafi versnað frá því landið þeirra gekk í sambandið. Aðeins 22% þeirra Evrópumanna sem tóku þátt í könnuninni sögðu hinsvegar að landið þeirra ætti að draga sig út úr sambandinu, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Breskir svarendur voru neikvæðastir gagnvart uppkasti að stjórnarskrá ESB.

Þegar fólk var spurt hvað það væri sem það tengdi helst við ESB var einn markaður svar hjá 31% aðspurðra, 20% svöruðu skriffinnska, 9% sögðu lýðræði og 26% töldu upp aðra þætti. Í Bretlandi sögðust 52% aðspurðra að ástandið hafi versnað frá því landið gekk í sambandið. Meirihluti Spánverja, eða 53%, sögðu hinsvegar, að lífið hefði batnað.

Alls tóku 6.772 fullorðnir einstaklingar þátt í könnuninni, sem var gerð á netinu, frá Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Spáni. Þá voru bandarískir ríkisborgarar einnig spurðir spurninga er vörðuðu ESB.


mbl.is 44% Evrópumanna neikvæðir gagnvart ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópuumræður

c_bjorn_bjarnason"Þriðjudaginn 13. mars héldum við í Evrópunefnd blaðamannafund og sendum frá okkur 136 bls. langa skýrslu um tengsl Íslands og Evrópusambandsins, þar sem við ræðum ekki aðeins um framkvæmd EES-samningsins, sem tók gildi 1. janúar 1994, heldur einnig um Schengen-samstarfið, sem hefur verið að þróast með virkri þátttöku okkar undanfarin ár. Í umræðunum um Evrópumálin gleymist oft, að þar er um tvær meginsamskiptaleiðir okkar Íslendinga að ræða, EES og Schengen. Þá er þess ekki heldur alltaf látið getið, að við hliðina á EES höfum við samið um aðild að menningar-, menntunar- og vísindasamstarfi við ESB."

Grein Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra, má lesa í heild á bloggsíðu hans.


Evrópusambandsaðild gæti kostað allt að 12 milljarða á ári

Fram kemur í skýrslu Evrópunefndar forsætisráðuneytisins að nettógreiðslur Íslands til Evrópusambandsins gætu orðið á bilinu 2,5 til 5 milljarðar króna á ári ef landið gengi í sambandið. Vegna hárra þjóðartekna gætu Íslendingar lent í hópi þeirra sem greiða hlutfallslega mest. Þá yrðu framlögin 5–6 milljarðar. Lega landsins, harðbýli og strjálbýli draga úr líkum á að Íslendingar myndu greiða mest allra aðildarþjóða miðað við fólksfjölda.

Brúttógreiðslur gætu orðið allt að 12,1 milljarður en stór hluti af framlögunum myndi skila sér til baka í styrkjum til landbúnaðar, uppbyggingar-, rannsóknar- og þróunarverkefna. Gert er ráð fyrir að beinn kostnaður Íslands vegna aðildarinnar að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, verði á þessu ári 1.354 milljónir króna.


mbl.is ESB-aðild gæti kostað 2,5–5 milljarða króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjávarútvegsreglur ESB eru óásættanlegar

c_ragnar_arnalds"Því er mjög haldið á lofti af áköfustu áhugamönnum um ESB-aðild að óhætt sé fyrir okkur Íslendinga að framselja yfirráðin yfir fiskimiðum okkar til Evrópusambandsins vegna þess að því megi treysta að ráðherraráð ESB myndi afhenda okkur alla veiðikvóta við strendur landsins til baka í samræmi við reglur ESB. Þetta sé því ekkert til að hafa áhyggjur af. Þeir tala minna um það að ráðherraráðið getur breytt reglum sínum hvenær sem er og fullljóst er að engin trygging fengist fyrir því í hugsanlegum aðildarsamningi Íslands að Evrópusambandið myndi stjórna sjávarútvegsmálum Íslendinga með viðunandi hætti á komandi árum."

Grein Ragnars Arnalds, formanns Heimssýnar, er birt í heild á bloggsíðu hans.


FUNDUR: Sjávarútvegurinn og ESB

Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, boðar til umræðufundar í sal Norræna hússins fimmtudaginn 15. mars kl 12.10-13.30 þar sem rætt verður um stöðu íslensks sjávarútvegar ef til aðildar að Evrópusambandinu kæmi. 

Framsögu munu hafa: Kristján Þórarinsson, stofnvistfræðingur, og Kolbeinn Árnason lögmaður og fyrrverandi skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu sjávarútvegsráðuneytisins og fulltrúi þess hjá fastanefnd Íslands við ESB. 

Umræður og svör við fyrirspurnum munu fara fram eftir framsögur eftir því sem tíminn leyfir. 

Hvaða afleiðingar hefði fiskveiðistefna ESB fyrir Íslendinga við ESB-aðild? Hvað ynnist og hvað tapaðist? 

Yrði nýting auðæfa í 200 mílna lögsögunni áfram í höndum Íslendinga? 

Er raunhæft að 200 mílurnar fengjust viðurkenndar sem sérstakt fiskveiðistjórnarkerfi Íslendinga? 

Fengist nokkur önnur trygging til frambúðar? 

Hvað um samningsstöðu Íslands þegar samið er um veiðar úr deilistofnum? 

Hvað um kvótahoppið? 

Hefur fiskveiðikerfi ESB sveigjanleika til snöggra ákvarðana í takt við veiðiráðgjöf sérfræðinga? 

Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum


Hugmyndir um yfirráð Íslendinga óraunhæfar

408087ARagnar Arnalds sagði á blaðamannafundi Evrópunefndar forsætisðráðherra í fyrradag að mikill meirihluti nefndarinnar væri andvígur hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu þar sem fimm nefndarmenn taki skýra afstöðu gegn aðild, tveir taki skýra afstöðu með aðild og tveir taki ekki skýra afstöðu. Fram kemur í skýrslu nefndarinnar að ekki hafi staðið til að nefndin freistaði þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu varðandi hugsanlega aðild Íslendinga.

Ragnar sagði á blaðmannafundinum að skýrt hefði komið fram við upplýsingaöflun nefndarinnar að sú hugmynd sem lengi hafi lifað á Íslandi, að mögulegt væri að tryggja yfirráð Íslendinga yfir fiskveiðum í íslensku landhelginni í aðildarviðræðum væri óraunhæf.

Þá sagði hann þá sem aðhyllist aðild m.a. hafa vísað til þess að við úthlutun veiðiheimilda innan sambandsins hafi verið tekið tillitt til sögulegrar veiðireynslu sem þeir telji að muni tryggja hagsmuni Íslendinga. Þessi regla hafi hins vegar ekkert tryggt varanlegt gildi þar sem hægt sé að fella hana úr gildi með meirihlutasamþykkt ráðherraráðs ESB. Það sé áhætta sem sumir séu greinilega tilbúnir til að taka en aðrir ekki.


mbl.is Ragnar Arnalds: Hugmyndir um yfirráð Íslendinga ótryggar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 95
  • Sl. viku: 1740
  • Frá upphafi: 1176913

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1578
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband