Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Utanríkisráðherra segir það kost að standa utan Evrópusambandsins

"Ingibjörg Sólrún segir að sér virðist sem talsverður stuðningur sé við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna meðal Afríkuríkja. Að sögn Ingibjargar er stofnun sambandsríkis Afríku mikið rædd á fundinum. Ástæðan sé sú að ráðamenn í Afríku vilji láta meira að sér kveða á alþjóðlegum vettvangi. Þar sem að margir telji nú nauðsynlegt að Afríka verði einhvers konar mótvægi við Bandaríkin og Evrópusambandið geti það verið kostur fyrir Ísland í baráttunni um sæti í öryggisráðinu að vera utan Evrópusambandsins."

Þannig hljóðaði hluti fréttar Ríkisútvarpsins í dag um heimsókn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, til Ghana á leiðtogafund Afríkusambandsins. Það hefur vakið athygli að Ingibjörg, sem verið hefur einn ötulasti talsmaður þess að Ísland gangi í Evrópusambandið, skuli sjá jákvæðar hliðar á því að standa utan þess. Jafnvel þó framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sé vissulega afar umdeilt hér á landi.


Forystumenn ESB viðurkenna að stjórnarskráin muni í raun halda sér

Leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins komust að samkomulagi á dögunum um nýtt fyrirkomulag sem ætlað er að koma í stað stjórnarskrár sambandsins sem felld var í þjóðaratkvæðagreiðslum í Hollandi og Frakklandi í byrjun sumars 2005. Fyrirkomulagið er þó ekki nýrra en svo að leiðtogarnir hafa strax viðurkennt opinberlega að í öllum meginatriðum sé um nákvæmlega sama fyrirkomulag að ræða og kveðið var á um í stjórnarskránni.

"Undirstöðustriðin úr stjórnarskránni hafa haldið sér að mestu leyti." Angela Merkel, kanslari Þýskalands í spænska dagblaðinu El Pais 25. júní sl.

"Stóran hluta af innihaldi stjórnarskrár Evrópusambandsins er að finna í hinum nýja sáttmála." José Luis Rodríguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar, í El Pais 25. júní sl.

"... til allrar hamingju hafa þeir ekki breytt aðalatriðunum [úr stjórnarskránni] - 90% af þeim eru enn þarna." Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands, í írska dagblaðinu Irish Independent 24. júní sl.

"Það góða er að öll táknrænu atriðin [úr stjórnarskránni] eru farin á meðan það sem skiptir máli - kjarninn - er eftir." Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, í danska dagblaðinu Jótlandspóstinum 25. júní sl.

"Það hefur engu verið breytt frá upphaflega stofnanafyrirkomulaginu." Astrid Thors, Evrópumálaráðherra Finnlands, í TV-Nytt 23. júní sl.


Hótanir um ofbeldi í vöggu lýðræðis!!!

Evrópusambandið telur sig vöggu og verndara lýðræðis. Þeir sem hvað harðast eru talsmenn sambandsins segja hið sama. Gagnrýnendur Evrópusambandsins hafa á hinn bóginn hamrað á því að lýðræði sé fyrir borð borið og þátttaka almennings í störfum og stefnumótun sé hverfandi.  Nú hafa leiðtogar ESB-ríkjanna setið á rökstólum og rætt um framtíðina. Efasemdum Pólverja og sum part Breta er mætt með hótunum og ofbeldi. Getur þessi "vagga lýðræðis" staðið undir nafni?

Grein Árna Þórs Sigurðssonar, alþingismanns, má lesa í heild á bloggsíðu hans.


Reynt að komast hjá þjóðaratkvæði um stjórnarskrána

Fróðlegt er að lesa um undirbúning leiðtogafundar ESB-ríkjanna, sem hefst í dag í Brussel. Í einhverju blaðanna sá ég, að Þjóðverjar séu að búa sig undir, að ekki takist að ná samkomulagi um breytingar á stjórnskipan ESB eða bjarga leifunum af stjórnarskrársáttmálanum, sem Frakkar og Hollendingar felldu í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir tveimur árum.

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, segist ætla að halda þannig á málum, að ekki þurfi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðuna. Tony Blair talar á sama veg fyrir sína hönd. Ef ríkisstjórnir Danmerkur og Bretlands komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslu, verður hún líklega ekki neins staðar innan ESB. Svo virðist sem ráðamenn í ESB-ríkjunum óttist ekkert meira en að þurfa að leggja málefni tengd ESB undir kjósendur sína. Í Finnlandi sýna kannanir meira að segja, að meirihluti manna er orðinn andvígur ESB. Finnska þingið samþykkti hins vegar stjórnarskrársáttmála ESB á sínum tíma.

Tekið af heimasíðu Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra.


Andstaða við evruna eykst í Svíþjóð

Svíar myndu hafna upptöku evrunnar í Svíþjóð ef kosið yrði um málið í þjóðaratkvæði nú samkvæmt nýrri skoðanakönnun fyrir fréttavef Dagens Nyheter. Samkvæmt könnuninni hefur andstaða við evruna aykist síðustu sex mánuði og segjast nú 54% aðspurðra myndu greiða atkvæði gegn upptöku hennar en aðeins 33% með. Svíar höfnuðu sem kunnugt er evrunni í þjóðaratkvæðagreiðslu í september 2003 með afgerandi meirihluta atkvæða og síðan hafa kannanir ítrekað sýnt mikinn meirihluta Svía andvíga upptöku hennar.

Andstaða við evru eykst (Blaðið 20/06/07)


Evrópusambandið hvetur til þess að breskir kjósendur séu hunsaðir

José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, vill að bresk stjórnvöld hunsi vilja kjósenda sinna og leggi blessun sína yfir aukið framsal á valdi til stofnana sambandsins þrátt fyrir mikla andstöðu heima fyrir. Þetta var á meðal þess sem kom fram í ræðu sem Barroso flutti 13. júní sl. á fundi með þingmönnum frá aðildarríkjum Evrópusambandsins og af þingi sambandsins. Sagði Barroso að hann vonaðist til þess að Tony Blair, forsætisráðherra Breta, "hefði hugrekki" til þessa þrátt fyrir "fjandsamleg" viðhorf á meðal almennings sem hann afgreiddi sem lýðskrum.

William Hague, talsmaður breskra íhaldsmanna í utanríkismálum, sagði af þessu tilefni að það væri einmitt hlutverk forsætisráðherra Breta að hlusta á sjónarmið almennings í Bretlandi. "Tony Blair á ekki að standa upp gegn vilja breskra kjósenda heldur að standa með vilja þeirra. Starf forsætisráðherra er að standa með Bretlandi innan Evrópusambandsins, en ekki standa með Evrópusambandinu innan Bretlands," sagði hann.

Nigel Farage, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins (UK Independence Party) sakaði ráðamenn í Evrópusambandinu um að vera á harðahlaupum frá lýðræðinu eftir að franskir og hollenskir kjósendur höfnuðu fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins fyrir tveimur árum síðan. "Lýðræði er bara ekki sterkasta hlið Evrópusambandsins, er það? Þeir skilgreina lýðræðisleg sjónarmið almennings í síauknum mæli sem lýðskrum. Þeir eru einfaldlega hræddir við fólkið," sagði hann.

Heimild:
Blair must ignore public opinion, says Barroso (Telegraph.co.uk 14/06/07)


Ný stjórn Heimssýnar kjörin á aðalfundi hreyfingarinnar

adalfundur_heimssynar

Aðalfundur Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, fór fram í Bertelsstofu á Thorvaldsen Bar 5. júní sl. Auk venjubundinna aðalfundastarfa var efnt til pallborðsumræðna um horfur í Evrópumálum með þátttöku þriggja nýbakaðra alþingismanna; þeirra Bjarna Harðarsonar Framsóknarflokki, Illuga Gunnarssonar Sjálfstæðisflokki og Katrínar Jakobsdóttur frá Vinstrihreyfingunni - grænu framboði. Umræðurnar voru fjörugar jafnt sem fróðlegar og stóðu í um klukkutíma með virkri þátttöku fundargesta.

Ragnar Arnalds, rithöfundur og fyrrv. þingmaður og ráðherra, var endurkjörinn formaður Heimssýnar, en hann hefur gegnt formennsku í hreyfingunni allt frá stofnun hennar sumarið 2002.

Ný stjórn fyrir starfsárið 2007-2008 var kjörin en hana skipa að Ragnari meðtöldum:

Aðalstjórn:
Ragnar Arnalds, rithöfundur.
Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður.
Páll Vilhjálmsson, blaðamaður.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, sagnfræðingur.
Bjarni Harðarson, alþingismaður.
Gísli Freyr Valdórsson, stjórnmálafræðinemi.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, laganemi.
Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðinemi.
Steingrímur Hermannsson, fyrrv. forsætisráðherra.

Varastjórn:
Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður.
Davíð Örn Jónsson, verkfræðinemi.
Brynja Björg Halldórsdóttir, menntaskólanemi.
Eyjólfur Eysteinsson, fyrrv. útsölustjóri.
Illugi Gunnarsson, alþingismaður.
Hörður Guðbrandsson, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur.
Ingvar Gíslason, fyrrv. menntamálaráðherra.


Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 41
  • Sl. sólarhring: 74
  • Sl. viku: 2004
  • Frá upphafi: 1176858

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 1826
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband