Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014

Atli Harðarson fjallar um lýðræði

AtliHardarsonAtli Harðarson heimspekingur fjallaði um lýðræði í ávarpi á fullveldishátíð Heimssýnar í gær. Hann greindi frá mikilvægi stjórnarskrár Norðmanna 1814 í þróun lýðræðis á Norðurlöndum og sagði frá tveimur stoðum lýðræðisins. Önnur hliðin snýst um að almennir borgarar eigi þess kost að ráðgast um mál samfélagsins og hafa áhrif á það sem mestu skiptir fyrir velferð þeirra. Þessi hlið hefur farið halloka á síðustu árum, segir Atli. Hin hliðin snýst um réttindi og að yfirvöld þurfi að leggja verk sín í dóm kjósenda.

Í lok erindis síns sagði Atli:

Það er tæpast hægt að ljúka ræðuhöldum á þessari samkomu og á þessum degi án þess að segja fáein orð um Evrópusambandið. Þegar rætt er um takmarkað lýðræði innan þess er oftast átt við að þeir sem mynda framkvæmdastjórnina og ráðherraráðið þurfi ekki að standa almenningi reikningsskap ráðsmennsku sinnar. Það virðist yfirleitt gert ráð fyrir að það hálfa lýðræði sem ég hef lýst dugi og yfirstjórn Sambandsins eigi að passa að fólk njóti réttinda sinna og markaðirnir fari eftir réttum reglum. Þeir sem hafa þessa hálfu sýn sjá ekki að neitt vanti nema lýðræðislegt aðhald. Sumir þeirra sjá að vísu að þetta eitt er mikil vöntun og alvarleg. Reynsla Evrópuþjóða af stjórnvöldum sem ekki þurfa að óttast kosningar er skelfileg, svo ekki sé meira sagt. En þrátt fyrir það virðist mér að einhliða áhersla á neytendur með réttindi fremur en borgara með skyldur sé til þess fallin að Sambandið líti heldur skár út en það gerir ef við höfum heillega mynd af lýðræðinu. Innan Evrópusambandsins geta almennir borgarar svo sem haft staðbundna stjórn og gripið inn í alls konar smámuni. Ég er hræddur um að inngrip í eitthvað á stærð við til dæmis Icesave-málið sé hrein fjarstæða.

Það er hægt að hugsa sér að bæta einhvers konar lýðræðislegu aðhaldi við regluverk stórríkis margra þjóða. Það er jafnvel hægt að vona að það verði gert. Þeim sem hugsa um samfélagið sem hóp neytenda með réttindi þar sem ópólitískur markaður fóðrar neysluna og ópólitísk yfirvöld tryggja réttindi, sem eru eins og af himnum ofan og enginn getur ákveðið neitt um – þeim þykir kannski best að markaðurinn sé sem stærstur og ríkið líka. Það er væntanlega einhver stærðarhagkvæmni í þessu eins og fleiru. En ef menn hugsa um sjálfa sig sem borgara með skyldur, líta á það sem sitt hlutverk að vera við þar sem menn ráða ráðum sínum um efni sem mestu varða – hljóta þeir þá ekki að verja þann eina vettvang þar sem er kostur á að vera skyldurækinn borgari? Á slíkum vettvangi þarf, að ég held, að vera samkennd og sameiginlegur skilningur. Sameiginlegt tungumál hjálpar. Mannréttindi og samskipti á markaði krefjast þess hins vegar ekki að menn eigi annað sammerkt en mennskuna.

Ég held að til þess að lifa saman sem borgarar með skyldur þurfum við að hafa taugar hvert til annars – helst að þykja vænt um samfélag okkar og vera til í að leggja nokkuð á okkur. Þessi hlið lýðræðisins er kannski fremur von en veruleiki. En ég held, eins og Orla Lehman gerði fyrir rúmlega einni og hálfri öld, að erindi okkar við heiminn velti á því að við höldum í þessa von. Það getum við tæpast gert eins og nú háttar nema við varðveitum þjóðríkið. Það er eini vettvangurinn sem við höfum fyrir lýðræði sem stendur báðum fótum á jörðinni.


Ómar Ragnarsson til stuðnings fullveldinu

omar_hausmyndÓmar Ragnarsson kemur fullveldinu til stuðnings í bloggi sínu í gær. Hann segir fullveldisdaginn 1. desember 1918 hugsanlega vera merkasta daginn í sögu Íslands í 750 ár. Ómar segir að ekki megi gleyma fullveldisdeginum því með fullveldinu hafi Íslendingum verið tryggt með samningi að velja sér annað fyrirkomulag en konungssamband við Danmörku.

Eftir að fullveldi Íslands var viðurkennt og sjálfsstjórn þess jókst færðist íslenska þjóðin úr því að vera ein sú fátækasta úr því að vera ein sú ríkasta á innan við öld.

Það er því full ástæða til að halda fullveldinu á lofti og minnast þess alveg sérstaklega eftir fjögur ár þegar fullveldið verður aldargamalt.

 


Peningavandamál á evrumarkaði

eurobrokenSameiginlegur markaður fyrir peninga er ekki til á evrusvæðinu jafnvel þótt löndin hafi sameiginlegan gjaldmiðil. Afleiðingin er sú að skortur er á fé í sumum hlutum myntbandalagsins en ofgnótt annars staðar. Jafnvel þótt vextir banka séu mjög breytilegir eftir evrulöndum geta sparendur ekki fært sér það í nyt.

Skýrsla frá Seðlabanka Evrópu sýnir að innlánsvextir á stuttum innlánum séu frá 0,3% í Lúxemborg og Lettlandi og upp í 2,6% á Kýpur. Ólíkar reglur fyrir starfsemi banka og tungumálaerfiðleikar gera fólki það erfitt fyrir að flytja sparnað sinn á milli landa. Afleiðingin er meðal annars sú að skortur er á fjármagni í ákveðnum löndum og fyrir vikið geta bankar þar lánað minna en ella til framkvæmda og atvinna verður minni.

Það eru því miklar viðskiptahindranir á peningamarkaði evrusvæðisins sem hafa alvarlegar afleiðingar, svo sem allt of lítinn sparnað í sumum löndum, of lítið fé til fjárfestinga og þar af leiðandi meira atvinnuleysi. 


Fullveldishátíð Heimssýnar í kvöld klukkan 20

islenskifaninnFullveldishátíð Heimssýnar verður haldin á Hótel Sögu í kvöld, mánudagskvöldið 1. desember 2014 klukkan 20.00 á Hótel Sögu. Hátíðarræðu flytur dr. Atli Harðarson, heimspekingur og fyrrverandi skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands og nú lektor við Háskóla Íslands.

 

Fullveldishátíð Heimssýnar 1. desember 2014

Heimssýn fagnar fullveldisdeginum 1.desember í Snæfelli á Hótel Sögu klukkan 20.00 með fjölbreyttri dagskrá:

Hátíðarræða: Dr. Atli Harðarson fyrrverandi skólameistari, lektor við Háskóla Íslands.

Ávörp:  Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og formaður Heimssýnar.

Jóhanna María Sigmundsdóttir, alþingismaður og varaformaður Heimssýnar.

Halldóra Hjaltadóttir, formaður Ísafoldar, félags ungs fólks gegn ESB-aðild.

Tónlist: Hópur söngvara og hljóðfæraleikara flytur söngva úr Söngvasafni Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings.

Hljómsveitin Reggie Óðins flytur nokkur lög.

Þorvaldur Þorvaldsson syngur við undirleik Judy Þorbergsson.

Fjöldasöngur

Kaffiveitingar

Allir eru hjartanlega velkomnir

1.desember 1918 öðlaðist Ísland fullveldi á ný eftir áratuga og alda baráttu.

Stöndum vörð um fullveldið!


Atvinnuleysi í hæstu hæðum á Ítalíu

Í október jókst atvinnleysi meðal ungs fólks á Ítalíu í 43,3 prósent en það hafði verið 42,7 prósent í september. Í heild er atvinnuleysi á Ítalíu rúmlega 13 prósent. Ein af ástæðum atvinnuleysisins er að Ítalía hefur orðið undir í verðsamkeppni í útflutningi á evrusvæðinu. Önnur ástæða eru þær sparnaðaraðgerðir sem ESB hefur knúið í gegn á svæðinu.

 


« Fyrri síða

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.12.): 3
  • Sl. sólarhring: 97
  • Sl. viku: 1742
  • Frá upphafi: 1176915

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 1580
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband