Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014

Rafræn skilríki og náttúrupassi að kröfu EES!

regulationsSvo virðist af fréttum að dæma að krafan um rafræn skilríki og náttúrupassa sé tilkomin að miklu leyti vegna þeirra kvaða sem EES-samningurinn setur á okkur. Það er talsverð andstaða í þjóðfélaginu, meira að segja í Samfylkingunni, gegn náttúrupassa. Eins er talsverður urgur vegna rafrænna skilríkja.

Erum við að kaupa köttinn í sekknum með EES-samningnum?

Sjá hér meðal annars umfjöllun Morgunblaðsins um rafræn skilríki. Þar segir m.a.:

Rafræn skilríki eru ekki ný af nálinni, verkefnið er orðið fimmtán ára gamalt. Rótin er lög um rafrænar undirskriftir sem sett voru á Evrópuþinginu árið 1999 og í framhaldinu var tilskipun tekin upp á Íslandi. Evróputilskipunin var uppfærð á þessu ári og unnið er að innleiðingu hennar hérlendis um þessar mundir.


Áróðursstofu ESB hér á landi lokað?

no_euÁróðurspeningar ESB hér á landi eru að verða búnir í bili. Um þrjú hundruð milljónir króna sem farið hafa í að miðla upplýsingum samkvæmt áróðursplani ESB sem miðar að því að Íslendingar myndu með tíð og tíma samþykkja aðild að ESB hafa þegar verið notaðar.

Ýmis áróðursplön ESB eru vel þekkt, svo sem það hvernig átti að fara að því að láta Svía og Norðmenn samþykkja aðild að ESB árið 1994 um leið og Finna og Austurríkismenn. Menn vissu að auðveldast yrði að fá Austurríkismenn til að samþykkja aðild og þeir voru látnir kjósa um aðild fyrst. Síðan kom röðin að þeim sem voru líklegastir á eftir Austurríkismönnum til að samþykkja aðild, nefnilega Finnum. Báðar þjóðir samþykktu. Þá var komið að Svíum en þar höfðu úrslit verið mjög tvísýn og þjóðin oftast á móti. ESB og sænska ríkisstjórnin náði að stilla hluti þannig af að kosið var í þeirri einu viku sem meirihluti var fyrir aðildinni. Þegar kom að Norðmönnum höfnuðu þeir hins vegar aðild og það í annað sinn. Í seinni tíma hefur hliðstæðum aðferðum verið beitt til að samþykkja evruna og eru til plön um það hvernig á að fara að því að fá bæði Svía, Dani og jafnvel Breta til að taka upp evru - svo langsótt sem það virðist nú.

En fréttastofa Ríkisútvarpsins greindi sem sagt frá því í gær að loka ætti svokallaðri Evrópustofu, sem nátturulega ætti að heita ESB-stofan. Ríkisútvarpið sagði svo frá:

 

Evrópustofu verður að öllum líkindum lokað hér á landi í sumar þegar samningur um rekstur hennar rennur út. Engin áform eru um að bjóða reksturinn út að nýju.

Evrópustofa var opnuð í Reykjavík í byrjun árs 2012 en hún hefur verið rekin fyrir IPA-styrki frá Evrópusambandinu. Það var þýska almannatengslafyrirtækið Media Consulta, í samvinnu við fyrirtækið Athygli, sem fékk það verkefni að reka Evrópustofu að loknu útboði á Evrópska efnahagssvæðinu. Markmiðið með starfseminni hefur verið að auka skilning og þekkingu á ESB og hvetja til umræðu um kosti og galla mögulegrar aðildar Íslands að sambandinu.

Margir ákafir andstæðingar ESB aðildar Íslands hafa gagnrýnt starfsemina og jafnvel sakað starfsfólk Evrópustofu um heilaþvott. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins og flokksþing Framsóknarflokksins ályktuðu í fyrra gegn Evrópustofu. Nú hyllir (svo!) undir lok Evrópustofu því samningur um reksturinn rennur út í lok ágúst næstkomandi og í svari frá framkvæmdastjórninni við fyrirspurn fréttastofu segir að að svo stöddu séu engar áætlanir uppi um að bjóða hann út að nýju. Þar sem hvert útboð tekur tíma verður Evrópustofu lokað um mitt næsta ár að öllu óbreyttu.


Grikkland í efnahagslegri spennitreyju ESB í tvo mánuði til viðbótar

grikkirtapaGrikkir höfðu vonast til þess að verða lausir undan efnhagskvöðum lánveitenda sinna um áramótin en verða nú að sætta sig við að klæðast spennitreyjunni í tvo mánuði í viðbót. Þetta er ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB og fjármálaráðherra evrulandanna.

Grikkir höfðu óskað eftir að fá síðasta hluta kreppulánsins frá ESB og IMF um áramótin. ESB vill hins vegar að grísk stjórnvöld noti næstu tvo mánuði til frekari aðhalds- og sparnaðaraðgerða. 

Sjá nánar hér og hér

 

 

 


Frosti kælir EES-vitleysuna

FrostiÞar kom að því að einhver spyrnir við fótum gegn óþörfum EES-reglum sem kosta okkur ómælda fjármuni. Fólk hér á landi hefur verið látið borga milljarða króna á milljarða ofan fyrir algjöran óþarfa - aðeins vegna þess að það hentar tilteknum hlutum Evrópu. Morgunblaðið fjallaði um þetta mál um helgina og greinir svo frá í dag:

 

Þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins vill að gildis­töku ákvæðis um íblönd­un líf­dísels í eldsneyti hér á landi á grund­velli til­skip­un­ar frá Evr­ópu­sam­band­inu verði frestað til árs­ins 2020 eins og svig­rúm sé til að gera sam­kvæmt henni.

Frosti Sig­urðsson vakti at­hygli á því á Alþingi í dag að þegar hefðu tap­ast hundruð millj­óna króna í er­lend­um gjald­eyri úr landi vegna ákvæðis til­skip­un­ar­inn­ar. Með frest­un gildis­töku ákvæðis­ins mætti spara 5 millj­arða króna sem ann­ars rynnu til er­lendra olíu­fé­laga. Benti hann á að hlut­fall end­ur­nýj­an­legr­ar orku væri miklu hærra hér á landi en inn­an Evr­ópu­sam­bandið og að sam­bandið tæki ekk­ert til­lit til þess. Liechten­stein hefði frestað gildis­töku ákvæðis­ins og Ísland ætti að geta það sama. Þá færi bet­ur á því að akr­ar sem færu í það er­lend­is að vinna líf­dísel væru notaðir til þess að fram­leiða mat­væli.

Will­um Þór Þórs­son, sam­flokksmaður Frosta, tók und­ir með hon­um. Til­skip­un Evr­ópu­sam­bands­ins væri liður í því mark­miði að auka vægi end­ur­nýj­an­legr­ar orku en Ísland væri langt yfir þeim mark­miðum sam­bands­ins. Upp­haf­lega hafi verið gert ráð fyr­ir að inn­lend­ir aðilar gætu annað þörf Íslands fyr­ir líf­dísel og sú hefði ekki orðið raun­in. Fyr­ir vikið flæddi gjald­eyr­ir úr landi til er­lendra söluaðila.


mbl.is Vill fresta gildistökunni til 2020
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppreisn innan Seðlabanka Evrópu

DraghiSvo virðist sem Mario Draghi aðalbankastjóri Seðlabanka Evrópu eigi nú á brattann að sækja með hugmyndir sínar um næstu aðgerðir til björgunar evrunni. Fjölmiðlar í álfunni greina frá því að um helmingur af æðstu framkvæmdastjórn bankans hafi snúist gegn hugmyndum Draghis, þar á meðal fulltrúar Þýskalands og Frakklands. Þeir hafi neitað að skrifa undir síðustu yfirlýsingar Draghis.

Draghi hefur haldið því fram að til að evran standist til frambúðar þurfi eina ríkisstjórn fyrir evrusvæðið og evrópskt stórríki til að styðja við gjaldmiðilinn. Bankastjórinn hefur þótt skeleggur í framgöngu sinni og höfðu t.d. ummæli hans fyrir fáeinum misserum um að Seðlabanki Evrópu myndi gera það sem þyrfti til að bjarga evrunni mjög jákvæð áhrif á gang evrumála.

 

Frakkland, Lúxemborg og Þýskaland gegn Draghi

Nú virðist sem áhrifamáttur Draghis fari þverrandi. Það gæti haft veruleg áhrif á þróun fjármálamarkaða í álfunni og á langtímahorfur fyrir evruna. Andstöðuhópur innan Seðlabanka Evrópu er sagður samanstanda af Sabine Lautenschläger, fulltrúa Þýskalands, Yves Mersch, fulltrúa Lúxemborgar og Benoît Cœuré, fulltrúa Frakklands. Í þessu sambandi er bent á að Draghi hafi ekkert komist áfram með hugmyndir sínar sem hann lýsti nýlega um trilljón evra innspýtingu frá Seðlabanka Evrópu í atvinnulíf í álfunni til þess að draga úr hættu á verðhjöðnun og frekari samdrætti og atvinnuleysi. Að líkindum er það fyrst og fremst hörð andstaða Þjóðverja sem setur Draghi stólinn fyrir dyrnar í þessu máli. Því er jafnvel haldið fram að hann muni hverfa úr stóli aðalseðlabankastjóra ESB og sækjast eftir embætti forseta Ítalíu þegar hinn 89 ára gamli Giorgio Napolitano dregur sig í hlé.

 

Úrillur Draghi

Þjóðverjar eru sagðir þreyttir á Draghi, hann er sakaður um að missa stjórn á skapi sínu, neiti að hlusta á andsstæð sjónarmið, útiloki seðlabankastjóra Þýskalands, Jens Weidmann og styðjist fyrst og fremst við þröngan hóp já-bræðra. Seðlabanki Evrópu er meðal þeirra banka þar sem fundargerðir stjórnarnefnda eru leynilegar og þess vegna hefur fjölmiðlafólk orðið að grafa upp eftir öðrum leiðum hvar skoðanir skerast í stjórn peningamála. Samkvæmt þýskum og breskum fjölmiðlum sem hér er vitnað til er mikil kergja hlaupin í deilur innan bankans um hvort og hversu hratt Seðlabanki Evrópu eigi að veita fé út í hagkerfið til að koma vélum þess í gang (kallað quantitative easing á ensku). Svokallaðir haukar, þeir sem harðast standa gegn slíkum lausatökum í peningamálum, koma frá Þýskalandi. Þannnig hefur Lautenschläger haldið því fram að hugmyndir Draghis um kaup seðlabankans á ríkisskuldabréfum jafnist á við bein fjárframlög bankans til ríkjanna, sem eru bönnuð í ESB, og að slíkt myndi bara auka hegðunarvanda í fjármálalífinu. Bankastjóri Bundesbank, Jens Weidmann, segir að lausatökin í peningamálunum séu þegar orðin of mikil fyrir aðstæður í Þýskalandi (jafnvel þótt þar í landi sé ekki spáð nema 1% hagvexti á næsta ári). Weidmann segir að nýleg olíuverðslækkun eigi að duga til að koma atvinnulífinu í gang og því eigi ekki að vera þörf á peningainnspýtingu frá Seðlabanka Evrópu.

 

Offramboð af skuldabréfum

Nú þegar er talsvert framboð af ríkisskuldabréfum á evrópskum fjármálamörkuðum vegna mikilla skulda ríkissjóðanna. Ítalir óttast að þetta mikla framboð muni leiða til verulegrar lækkunar á verði bréfanna á næstu árum. Tekist er meðal annars á um það hve langt Seðlabanki Evrópu eigi að ganga sem lánveitandi til þrautavara fyrir viðskiptabanka í álfunni sem gætu lent í erfiðleikum vegna mögulegs verðfalls á skuldabréfaeignum sínum. 

 

Vatn á myllu evruandstæðinga

Svo virðist sem sjónarmið þeirra sem mest takast á séu annars vegar ættuð frá Ítalíu sem er stórskuldug og hins vegar frá Þýskalandi þar sem sparnaður hefur verið í fyrirrúmi undarnfarna áratugi. Draghi hefur látið í veðri vaka að hann gæti bara í krafti meirihluta keyrt yfir Þjóðverjana. Nýlegar fréttir benda þó ekki til þess að meirihlutinn að baki Draghis yrði rúmur, auk þess sem það myndi grafa mjög undan samstarfinu í Seðlabanka Evrópu ef aflsmunar yrði neytt gagnvart stærsta efnahagsveldinu í álfunni, Þýskalandi. Slíkt gæti orðið vatn á myllu evruandstæðinga í Þýskalandi í AFD-flokknum (Alternative fur Deutschland).

 

Nýjar stjórnarskrárdeilur í uppsiglingu

Jafnframt er minnt á að enn séu ekki allar lagaflækjur leystar fyrir stjórnarskrárdómstóli í Þýskalandi varðandi nýlega vegferð ESB og Seðlabanka Evrópu. Búist er við nýjum dómsmálum vegna áforma um peningaútflæði frá Seðlabankanum til stuðnings ríkissjóðum sem andstæðingar slíkra aðgerða segja að verði skuldbindandi fyrir skattgreiðendur og að það brjóti gegn sáttmálum og reglum í ESB. Sumir halda því jafnvel fram að ef Seðlabanki Evrópu myndi grípa til jafn stórtækra peningainnspýtinga og Draghi hefur boðað þá myndi þýski seðlabankinn, Bundesbank, koma í veg fyrir að slík framkvæmd næði að fullu fram að ganga í Þýskalandi.

 

Nauðsyn á sameiginlegri skattheimtu í ESB

Það er einmitt þarna sem hnífurinn stendur í kúnni þegar kemur að frekari samruna á evrusvæðinu. Ýmsir telja að til að evran eigi að hafa möguleika á því að standast til frambúðar verði að koma til sameiginleg ríkisstjórn, sameiginlegt skattlagningarvald og sameiginlegt stórríki - og að Seðlabanki Evrópu verði að geta gripið til stórtækra aðgerða til stuðnings gjaldmiðlinum. Þjóðverjar og fylgiríki þeirra standa fast gegn öllum slíkum áformum. Allar tilraunir til að velta vanda bankakerfisins yfir á skattgreiðendur eru eitur í þeirra beinum. 

Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með þróun þessara mála. Í fyrsta lagi hversu langlífur Mario Draghi verður á stóli seðlabankastjóra og í öðru lagi hvernig deilan á milli þeirra sem vilja annars vegar beita stífum aðhaldsaðgerðum og svo hinna sem vilja leyfa meiri lausatök í fjármálum kemur til með að þróast. 

 


Evrópubúar efins um fríverslunarsamning við Bandaríkin

in-bed-with-businessVaxandi efasemda gætir í Evrópu um þann fríverslunarsamning sem er í uppsiglingu á milli ESB og Bandaríkjanna. Meðal þess sem er gagnrýnt er að ríki geta verið skuldbundin til að greiða bandarískum fyrirtækjum skaðabætur ef breytingar á lögum í aðildarríkjum ESB verða til þess að draga úr ábata fjárfestinga bandarískra fyrirtækja í Evrópu.

Hafa þeir Íslendingar sem eru þess hvetjandi að Ísland gerist aðili að samningnum eitthvað velt þessu atriði fyrir sér?

Mbl.is segir svo frá:

Rúm­lega ein millj­ón manna í ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins hafa skráð nafn sitt í und­ir­skrifta­söfn­un þar sem kallað er eft­ir því að hætt verði við fyr­ir­hugaðan fríversl­un­ar­samn­ing sam­bands­ins við Kan­ada og viðræður um fríversl­un við Banda­rík­in sett á ís.

Frá þessu er grein á frétta­vefn­um Eu­obser­ver.com en sam­kvæmt regl­um Evr­ópu­sam­bands­ins kallað það á form­legt svar frá fram­kvæmda­stjórn sam­bands­ins ef það tekst að safna einni millj­ón und­ir­skrifta borg­ara þess.


mbl.is Milljón gegn fríverslun við Bandaríkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurskoðun á EES-samningnum


hjortur jEndurskoðun á EES-samningnum hefur eilítið verið til umræðu hér á landi og eitthvað meira í Noregi. Hjörtur J. Guðmundsson blaðamaður á Morgunblaðinu skrifar um þetta í blaðið í dag:

Tveir áratugir voru í byrjun þessa árs síðan Ísland gerðist aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Fyrir þá sem ekki þekkja til var samningurinn gerður á milli Evrópusambandsins og Fríverzlunarsamtaka Evrópu (EFTA) og felur í meginatriðum í sér að EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein eru í raun aðilar að innri markaði Evrópusambandsins gegn því að taka upp þá löggjöf sambandsins í landsrétt sinn sem á við um hann.

Hvort Ísland ætti að gerast aðili að EES-samningnum var umdeilt þegar samningurinn var gerður og hefur í raun alltaf verið umdeilt þó að minna hafi farið fyrir þeirri umræðu í seinni tíð. Fátt bendir til annars en að Ísland geti áfram verið aðili að EES-samningnum um ókomna tíð en samningurinn, líkt og aðrir slíkir, geta þó eðli málsins samkvæmt aldrei orðið markmið í sjálfu sér. Markmiðið hlýtur alltaf að vera hagsmunir Íslands og íslenzku þjóðarinnar. Fyrir vikið er sjálfsagt og eðlilegt að reglulega sé lagt mat á það hvort slíkir milliríkjasamningar þjóni þeim hagsmunum. Þó komizt hafi verið að þeirri niðurstöðu á einum tímapunkti er ekki þar með sagt að svo verði um aldur og ævi.

Einn helzti gallinn við EES-samninginn er að hann hegðar sér í meginatriðum með sama hætti og Evrópusambandið. Það er að hann stefnir jafnt og þétt í átt til aukins samruna þó að vissulega sé það einungis á því afmarkaða sviði sem samningurinn nær til. Hið sama á raunar líka við um Schengen-samstarfið sem Ísland á einnig aðild að og gengur út á að fella niður hefðbundið landamæraeftirlit á milli aðildarríkjanna en efla það (allavega í orði kveðnu) á ytri landamærum svæðisins.

Þannig er EES-samningurinn í raun kominn í dag langt út fyrir það umfang sem reiknað var með fyrir tveimur áratugum. Í það minnsta hér á landi. Ekki sízt þegar kemur að því regluverki Evrópusambandsins sem taka þarf upp hér á landi þó að það sé aðeins hluti af heildarregluverki sambandsins. Til að mynda hefur verið bent á dæmi þess að EES-samningurinn, sem greiða átti aðgang Íslendinga að innri markaði Evrópusambandsins, sé farinn að hamla aðgengi okkar að öðrum mörkuðum vegna þess að regluverk sambandsins, sem við þurfum að fara eftir til að mynda varðandi vörumerkingar og öryggisstaðla, er ekki gjaldgengt annars staðar.

Ég tel að hagsmunum lands og þjóðar væri mun betur borgið með því að EES-samningnum væri breytt í svokallaðan annarrar kynslóðar fríverzlunarsamning líkt og bæði EFTA og Evrópusambandið hafa gert á undanförnum árum. Þannig er sambandið til að mynda að gera slíkan samning bæði við Kanada og Bandaríkin. Slíkur samningur fæli til að mynda ekki í sér einhliða upptöku á reglum annars samningsaðilans og þvældist ekki fyrir viðskiptum við önnur ríki. 


Til varnar krónunni

skjaldarmerkid2Fréttahaukur Morgunblaðsins í efnahagsmálum segir að fjármagnshöft gætu hafa verið hér jafnvel þótt við hefðum verið búin að taka upp evru og vísar til Kýpur í því samhengi.

Hörður Ægisson segir svo á síðu 16 í viðskiptakálfi Moggans í dag:

Þær fullyrðingar eru ítrekað settar fram, einkum og sér í lagi af þeim sem telja það upphaf og endi alls að Ísland gangi í ESB og taki upp evru, að afnám fjármagnshafta sé aðeins vandi vegna krónunnar. Með öðrum orðum sé um að ræða gjaldmiðilsvanda - ef Ísland væri með evru myndi sá vandi er lýtur að uppgjöri slitabúanna og afnámi hafta »gufa upp«. Slíkt stenst enga skoðun.

Losun hafta og hugsanleg (misráðin) innganga í evrópska myntbandalagið eru tvö aðskilin mál. Reynsla Kýpverja, sem tóku upp evru 2008, er þar nærtækt dæmi en bankakerfi landsins riðaði til falls í ársbyrjun 2013. Gripið var til þeirra úrræða, með aðstoð sérfræðinga frá Seðlabanka Íslands, að setja víðtækar hömlur á úttektir af bankainnstæðum og fjármagnshreyfingum á milli landa. Þrátt fyrir tuga prósenta niðurskrift á ótryggðum bankainnstæðum dugði það ekki til. Evrópski seðlabankinn neitaði að gerast lánveitandi til þrautavara með því að fjármagna »ófjármagnaðar« fjármagnshreyfingar kýpverskra fjármálastofnana. Átján mánuðum síðar eru enn fjármagnshöft til staðar á Kýpur og óvíst hvenær hægt verður að aflétta þeim.

Ekkert styður því þá skoðun að staða Íslands hefði verið önnur með evru sem gjaldmiðil. Nauðsynlegt er að íslenskir stefnusmiðir hafi í huga þennan lærdóm af evrukreppunni í því skyni að réttar ákvarðarnir verði teknar við losun hafta. Það hefur komið í ljós, nokkuð sem hefði ekki átt að koma neinum á óvart, að allar evrur eru ekki jafnar þegar á reynir.


Lítil spilling á Íslandi

corruptionÍsland er meðal þeirra landa þar sem opinber spilling er einna minnst. Þetta kemur ítrekað fram í ýmsum könnunum. Nýleg könnun sýnir að Ísland er í 12. sæti af ríflega 170. 

Norðurlöndin verma efstu sætin þar sem spilling er minnst. Þegar ESB-löndin eru skoðuð eru það einungis Norðurlöndin í ESB, Holland og Luxemborg sem virðast standa sig betur en við. ESB-löndin í suður-, mið- og austurhlutum Evrópu eru aðeins hálfdrættingar á við Ísland í þessum efnum.

Það hlýtur því að vera nokkuð gott að búa á Íslandi.


Evrópskir bankar í verri stöðu en talið var

alagsprofMun fleiri bankar hefðu fallið á álagsprófi evrópska seðlabankans ef nýjar eiginfjárkröfur hefðu verið teknar með í reikninginn. Þetta kemur fram á vef Viðskiptablaðsins.

Þar segir einnig

Nýlegt álagspróf, sem lagt var á evrópska banka, var gallað og í raun eru nokkrir stórir evrópskir bankar ekki með nægilegt eigið fé til að standast annað hrun á fjármálamörkuðum. Er þetta meðal niðurstaðna rannsókna, sem unnar voru af Keefe, Bruyetta & Woods og Dönsku alþjóðamálastofnuninni. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknanna hefðu stórir bankar á borð við Deutsche Bank og BNP Paribas fallið á prófinu, ef tekin hefði verið með í reikninginn krafa um viðbótar 3% eiginfjárhlutfall sem taka á gildi á næsta ári.

Samkvæmt þriðju rannsókninni, sem unnin var af Centre for European Policy Studies í Brussel, hefðu Deutsche og BNP staðist prófið, en 28 aðrir bankar hefðu fallið.

Samkvæmt nýjum stöðlum eiga bankar að hafa tiltækt eigið fé sem samsvarar 3% af heildareignum. Er þetta til viðbótar við kröfur um áhættuvegið eigið fé. Hefði Evrópski seðlabankinn tekið þessa nýju kröfu með í reikninginn hefðu tólf stórir evrópskir bankar, sem stóðust próf bankans, þurft að afla sér samtals um 66 milljarða evra til að uppfylla eiginfjárkröfurnar.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 41
  • Sl. sólarhring: 74
  • Sl. viku: 2004
  • Frá upphafi: 1176858

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 1826
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband