Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2021

Styðjum vörslumenn fullveldis

SKJALDARMERKI-HEIMSSYN

Tvær ástæður eru fyrir því að láta afstöðu til fullveldis Íslands vega þungt þegar komið er að kjörborði.  Í fyrsta lagi er farsælast að sérhver þjóð ráði málum sínum sjálf, sé þess nokkur kostur.  Í öðru lagi er tap fullveldis varanleg ráðstöfun.  Sagan sýnir að það getur tekið margar aldir að endurheimta glatað fullveldi.  Flestar ákvarðanir Alþingis getur Alþingi sjálft endurskoðað, t.d. að afloknum kosningum.  Stórveldi og ríkjasambönd reyna hins vegar að leggja steina í götu þeirra sem vilja yfirgefa sambandið.  Það kom í ljós þegar Bretar ákváðu að fara.  Þeir gátu rutt burt stórgrýtinu sem fyrir þeim varð á þeirri leið, en það yrði ógjörningur fyrir smáþjóð.

Kjósendur ættu að íhuga að láta afstöðu sína til fullveldis Íslands ráða atkvæði sínu.  Glatað fullveldi verður ekki auðveldlega endurheimt.

Eftirfarandi afstöðu til spurningarinnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu má lesa úr svörum framboðanna sem birt voru á https://heimssyn.blog.is/blog/heimssyn/entry/2269594/

 

JÁ: Viðreisn og Samfylking

 

NEI: Sjálfstæðisflokkur, Framsókn, Vinstri grænir, Miðflokkur, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn og Flokkur fólksins

 

KANNSKI/VEIT EKKI: Píratar og Sósíalistar


Undraveröld Fréttablaðsins

kirsebaer-closeup

Í leiðara Fréttablaðsins 17. september er fjallað um meinta kosti þess að innlima Íslands í Evrópusambandið og þar segir m.a.:

Við Íslendingar tökum okkur sjálf svo oft út fyrir sviga þegar við skoðum heiminn. Á ferðum okkar til útlanda njótum við þess hve allt er ódýrt og hvað maturinn er miklu betri í sumarlandinu en heima á Íslandi. Einhvern veginn hvarflar samt ekki að okkur að við gætum mögulega átt þess kost að njóta slíkra gæða heima hjá okkur. Við kaupum kirsuberjabox á 100 kall á meginlandi Evrópu en á 1.000 kall hér heima og spyrjum engra spurninga.

Það er illa komið fyrir ritstjóranum að hafa lent í því að búa í einu íslensku sveitinni þar sem jarðeplin eru ennþá finnsk og annað er á okurverði.  En hvernig sér ritstjórinn fyrir sér að blessað Evrópusambandið komi sér til bjargar?  Tollur á kirsuber er 0%, svo þar er lítið svigrúm til lækkunar, nema auðvitað ef sambandið vill kaupa ber handa Íslendingum.  Stendur það til, eða er kannski kirsuberjaráðuneyti í Evrópusambandinu sem tuktar kirsuberjakaupmenn til ef þeir verða of gráðugir?   Eru líka menn í því ráðuneyti sem taka í taumana ef kaupmenn og veitingamenn á Íslandi bjóða upp á vondan mat?  Væri ekki ráð að fá þá menn í að bæta veðrið á Íslandi í leiðinni?        

Getur verið að ritstjóri Fréttablaðsins rugli saman raunveruleikanum og þjóðsögum Jóns Árnasonar?

 


Stefna framboðanna

Samtökin Frjálst landHeimssýn og Orkan okkar sendu stjórnmálaflokkum og framboðum eftirfarandi spurningar sem varða afstöðu til fullveldis, lýðræðis og sjálfstæðis.

1. Er flokkurinn/framboðið með eða á móti aðild Íslands að ESB?

2. Er flokkurinn/framboðið með eða á móti endurskoðun á EES aðildinni?

3. Hvort er flokkurinn/framboðið hlynntari fríverslunarsamningi við ESB eða EES- samningnum?

4. Er flokkurinn/framboðið hlynntur/andvígur því að Ísland innleiði orkustefnu ESB og verði í orkusambandi ESB og innleiði með því m.a. ESB-lög um raforkuviðskipti yfir landamæri og gangist undir Evrópusambandsstofnun fyrir samvinnu orkueftirlitsaðila (ACER)? Á hvaða rökum byggir svarið?

5. Er flokkurinn/framboðið hlynnt upptöku 4. orkupakka ESB? Á hvaða rökum byggir svarið?

6. Vill flokkurinn/framboðið auka/minnka innflutning landbúnaðarvöru frá ESB?

7. Vill flokkurinn/framboðið auka/minnka vald ESB hérlendis?

Svör:

Miðflokkurinn

1. Miðflokkurinn er alfarið á móti aðild Íslands að ESB

2. Miðflokkurinn hefur verið þeirrar skoðunar að samninginn um EES gæti þurft að endurskoða og hefur í ræðu og riti varað við upptöku reglugerða EES má þar nefna innleiðingu þriðja orkupakkans.

3. Málið er flóknara en svo að spurningunni sé hægt að svara að svo komnu máli. Við erum hluti af EES því hefur ekki verið breytt. Komi til slíkra samninga verður að skoða kosti þess og galla.

Samfylkingin

1. Samfylkingin telur hagsmunum Íslands betur borgið gerist Ísland fullgildur meðlimur að ESB. Stefna Samfylkingarinnar er hinsvegar að leggja það í dóm þjóðarinnar hvort taka skuli upp aðildarviðræður að nýju. Verði það ofan á að sækja um aðild, verður að lokum aðildarsamningur settur í aðra þjóðaratkvæðagreiðslu.

2. EES samningurinn er með allra mikilvægustu fjölþjóðasamningum sem Ísland hefur gert og land og þjóð nýtur góðs af þeim fjölmörgu réttindum og viðskiptatækifærum sem með samningnum hlýst. Samfylkingin teldi það afar misráðið að ætla segja upp EES samningnum eða breyta verulega innihaldi hans.

3. Með EES samningnum fæst miklu meira en fengist með fríverslunarsamningi. EES samningurinn hefur m.a. tryggt ýmsar réttarúrbætur hér á landi, opnar fyrir aðgengi Íslendinga að fjórfrelsi Evrópusambandsins sem tryggir Íslendingum aukið frelsi og aðgang að mörkuðum og atvinnutækifærum í hinu stóra samfélagi þjóða sem Evrópusambandið spannar.

Evrópusambandið er fjarri því að vera fullkomið, en þrátt fyrir allt er það nánasta samvinna fullvalda þjóða sem þekkst hefur í sögu mannkyns. Samfylkingin sér í Evrópusambandinu og aðild Íslands að sambandinu tækifæri til að vinna að framgangi friðar og velsældar Íslendingum og Evrópubúum allra til heilla.

Sjálfstæðisflokkurinn

1. Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands best borgið með því að standa utan Evrópusambandsins og er þess vegna andvígur aðild Íslands að ESB.

2. Guðlaugur Þór Þórðarson lét á yfirstandandi kjörtímabili vinna ítarlega skýrslu um kosti og galla EES-aðildar í tilefni af beiðni um skýrslu frá 13 þingmönnum þar að lútandi. Var starfshópnum í fyrsta lagi falið að taka saman yfirlit yfir og mat lagt á þann ávinning sem Ísland hefur haft af þátttökunni í EES-samstarfinu og þau helstu úrlausnarefni sem stjórnvöld hafa tekist á við í framkvæmd EES-samningsins. Í öðru lagi átti starfshópurinn að meta þann lagaramma sem hefur verið innleiddur á Íslandi á þeim sviðum sem EES-samningurinn nær yfir, en greina auk þess viðskiptalega, efnahagslega, pólitíska og lýðræðislega þætti. Í þriðji lagi skyldi starfshópurinn líta til þróunar í samskiptum EES/EFTA-ríkja og ESB og leggja mat á breytingar vegna úrsagnar Breta úr ESB og litið til stöðu samskipta ESB og Svisslendinga. Til að vinna skýrsluna skipaði ráðherra starfshóp undir forystu Björns Bjarnasonar sem gerði ítarlega úttekt og leituðu álits vel á annað hundrað aðila, bæði hér heima og erlendis, um reynslu þeirra af EES-samningnum. Í stuttu máli má segja að allir viðmælendur starfshópsins, aðrir en fulltrúar samtakanna Frjálst land hér á landi og Nei til EU í Noregi, töldu EES-samninginn lifa góðu lífi. Hann væri til verulegs gagns og ávinnings fyrir þá sem innan ramma hans starfa. Skýrsluna í heild sinni er að finna hér: /heimasíða Stjórnarráðsins/

3. Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja áfram opinn og frjálsan aðgang að innri markaði Evrópusambandsins á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Samningurinn hefur reynst vel og verið landi og þjóð til mikilla hagsmuna. Sjálfstæðisflokkurinn vill því áfram byggja samskipti sín við Evrópusambandið á EES-samningnum.

4. Ísland hefur fyrir löngu innleitt regluverk Evrópusambandsins um orkumálefni í gegnum EES-samninginn, enda hafa orkumál verið hluti af EES-samningnum frá upphafi. Reglur um viðskipti með orku eru þannig hluti EES-samningsins og íslenskur orkumarkaður hefur um langt árabil fallið undir ýmsar EES-reglur, svo sem grunnregluna um fjórfrelsið, samkeppnisreglur og ríkisstyrkjareglur. Við innleiðingu þriðja orkupakkans svokallaða var byggt á tveggja stoða kerfi EES-samningsins, sem þýðir að ekkert ákvörðunarvald gagnvart EFTA-ríkjunum fluttist til stofnunar ESB, þ.e. ACER. Einnig var gerður fyrirvari við innleiðingu reglna um raforkuviðskipti yfir landamæri sem felur í sér að þær koma ekki til framkvæmda á meðan Ísland er ótengt raforkumarkaði ESB. Ákvörðun um slíka tengingu er alfarið íslenskra stjórnvalda.

5. Íslensk stjórnvöld hafa sett hagsmunagæslu Íslands vegna hins svokallaða „hreinorkupakka“ í forgang. Hreinorkupakkinn felur í sér ýmis jákvæð skref í þágu orkuskipta, sjálfbærni, neytendaverndar, viðskiptafrelsis og gagnsæis á raforkumarkaði, loftslagsmála og orkuöryggis. Þannig er til að mynda réttur neytenda til að skipta um raforkusala styrktur enn frekar, stuðlað að frjálsari verðmyndun á heildsölumarkaði raforku, liðkað fyrir smávirkjunum og eigin sölu notenda inn á raforkukerfið og kröfur settar um skilvirkni leyfisveitingarferla. Sem dæmi um hagsmunagæslu Íslands við innleiðingu evrópska regluverksins má nefna að Ísland hefur fengið fulla undanþágu frá tilskipun um orkunýtni bygginga á grundvelli sérstöðu okkar. Áfram verður lögð rík áhersla á slíka hagsmunagæslu.

6. Viðskiptafrelsi er einn af hornsteinum utanríkisstefnu Íslands. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að tryggja sem víðtækast frelsi í milliríkjaviðskiptum og afnám viðskiptahindrana. Sjálfstæðisflokkurinn telur að tvíhliða samningar um gagnkvæman markaðsaðgang fyrir landbúnaðarafurðir feli í sér sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað samhliða því að auka valfrelsi neytenda. Tollasamningurinn við ESB frá árinu 2015 um landbúnaðarvörur hefur ekki reynst vel, forsendur hans hafa breyst og ójafnvægi er milli samningsaðila, íslenskum útflytjendum í óhag. Af þessari ástæðu ákvað Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, í desember sl. að fara fram á það við ESB að samningurinn verði endurskoðaður. Var það gert í kjölfar úttektar á hagsmunum Íslands af óbreyttum samningi í nánu samráði við hagsmunaaðila, forsvarsmenn bænda og afurðastöðva, verslunar og þjónustu, verkalýðshreyfinguna og samtök neytenda.

7. Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um fullveldi Íslands, eins og hann hefur gert frá stofnun.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

1. VG telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandins en innan.

2. og 3. VG leggur í sinni stefnu áherslu á samstarf við önnur Evrópulönd. Aftur á móti hefur hreyfingin hvorki tekið afstöðu til þess hvort tilefni sé til að endurskoða EES- samninginn né hvort að fríverslunarsamningur við ESB sé ákjósanlegra fyrirkomulag. Mikilvægt er að hafa í huga atriði eins og samningsstöðu EFTA ríkjanna við samningu EES- samningsins og aðkomu Íslands að reglusetingu á EES-svæðinu og að úrlausn deilumála við ESB.

4. og 5. VG leggst sem fyrr alfarið gegn lagningu sæstrengs til orkusölu til Evrópu og hefur í gegnum tíðina talað gegn aukinni markaðsvæðingu raforku. Fyrir utan þetta hefur hreyfingin ekki myndað sér sérstaka stefnu varðandi samvinnu við önnur ríki í orkumálum né tekið afstöðu til fjórða orkupakkans.

6. VG hefur það markmið í sinni stefnu að stórefla innlenda matvælaframleiðslu á komandi árum til að treysta fæðuöryggi þjóðarinnar, m.a. að innlend grænmetisframleiðsla anni 60% af innanlandsmarkaði árið 2025. Þannig verði þjóðin óháðari innflutningi á landbúnaðarvöru.

7. Eins og kom fram í svari við spurningu 1 telur VG hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandins en innan. Í stefnu VG í alþjóða- og friðarmálum eru áherslur hreyfingarinnar tíundaðar, sem leggur m.a. áherslu á friðsamleg samskipti, alþjóðlega samvinnu og sjálfsákvörðunarrétt ríkja.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn

1. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu enda hefur inngöngu verið líkt við það að ganga inn í brennandi hús af okkar helsta pólitíska sérfræðingi um Evrópumál. Flokkurinn vill að Alþingi dragi Evrópusambandsumsóknina formlega til baka.

2. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn vill endurskoða EES aðildina.

3. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er hlynntari fríverslunarsamningi við ESB..

4. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er alfarið á móti innleiðingu orkustefnu ESB á Íslandi og viljum vinda ofan af orkupökkunum öllum og hafa sjálfstæða orkustefnu.

5. Orkupakka 4 er hafnað og mun flokkurinn beita sér í að undið verði ofan af fyrri orkugjörningum og þeir settir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í stuttu máli var orkuauðlind Íslands dregin inn í EES samninginn og látnar gilda reglur um samkeppni á innri markaði um frelsin fjögur en þar er átt við frelsi í viðskiptum, fjármagnsflutningum, þjónustu og flutningi fólks á milli landa. Þetta er afar merkilegt, því fjórfrelsið snérist ekki um landbúnað, sjávarútveg eða orku. Sjávarútvegur er t.d. ekki inn í EES samningnum nema sem viðauki um tollaniðurfellingar.

6. Minnka, við verðum að vera sjálfum okkur nóg.

7. Minnka vald ESB hér á landi.

Píratar

1. Píratar munu hvorki hefja, né ljúka, aðildarviðræðum við ESB án aðkomu þjóðarinnar. Í aðdraganda beggja atkvæðagreiðsla gerum við kröfu um að fram fari hlutlaus og heildstæð kynning á kostum og göllum aðildar, svo að almenningur eigi auðveldara með að taka upplýsta ákvörðun í kjörklefanum. Það er ýmislegt í umræðunni um ESB sem er beinlínis rangt og skekkir skoðun fólks á því hvað aðild að ESB þýðir. Píratar vilja taka upplýstar ákvarðanir og telja að ekki sé hægt að taka afstöðu með eða á móti aðild án þess að það liggi skýrt fyrir hvað það þýðir fyrir Ísland.

2. Á móti.

3. Við fáum aldrei betri samning við ESB en EES-samninginn.

4. Við skoðum hverja innleiðingu fyrir sig á sjálfstæðan hátt. Raforkuviðskipti yfir landamæri hafa brotið upp einokun á raforkumarkaði og skilað neytendum ódýrari og umhverfisvænni raforku.  Við höfum ekki enn gengist undir Evrópusambandsstofnun og munum ekki gera það út af EES samningnum. 

5. Já. Græni orkupakkinn er jákvæður fyrir neytendur, umhverfið og hagkerfið. 

6. Við höfum engan áhuga á því að takmarka innflutning né standa í innflutningi. Við ætlum ekki að innleiða skömmtunarmiða aftur.

7. ESB hefur ekkert vald hérlendis. Þjóðin ræður hvort farið verður í aðildarviðræður og að lokum gengið í ESB eða ekki.

Flokkur fólksins

1. Flokkur fólksins styður ekki aðild Íslands að ESB.

2. Flokkur fólksins hefur ekki tekið afstöðu til endurskoðunar á EES aðild Íslands.

3. Flokkur fólksins hefur ekki tekið afstöðu til þessarar spurningar eða mótað sér stefnu hvað hana varðar. Ísland er í EES-samstarfinu því pólitísk samstaða hefur verið um að hagsmunum Íslands sé best borgið með þátttöku í EES-samstarfinu og með aðild að innri markaði ESB.

4. Flokkur fólksins er andvígur því að Ísland innleiði orkustefnu ESB og verði í orkusambandi ESB og andvígur því að Ísland innleiði ESB-lög um raforkuviðskipti yfir landamæri og að landið lúti Evrópusambandsstofnun fyrir samvinnu orkueftirlitsaðila (ACER). Rökin eru þau að á Íslandi eru engin raforkuviðskipti yfir landamæri þar sem landið er ekki tengt ESB með sæstreng og því ekki hægt að selja raforku til ESB-ríkja.

5. Flokkur fólksiins er andvígur upptöku 4. orkupakka ESB á grundvelli sömu raka og koma fram í svari við spurning 4.

6. Flokkur fólksins trúir á íslenskan landbúnað og telur fæðuöryggi þjóðarinnar mikilvægt og að matvælaframleiðsla þjóðarinnar sé nægjanleg með tilliti til þessa fæðuöryggis. Flokkurinn hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort auka eða minnka eigi framboð á innfluttum landbúnaðarvörum frá ESB. Flokkurinn hefur ekki talað fyrir umbyltingu í landbúnaðarkerfinu og afnámi styrkjakerfis þess og telur að breytingar á því beri að gera í samvinnu við bændur í gegnum samninga við þálíkt og verið hefur. Markmiðið á ætíð að vera fjölbreytt framboð á hágæða landbúnaðarvörum sem kemur bæði íslenskum bændum og neytendum til góða. Landbúnaður í ESB-ríkjunum nýtur mikilla styrkja frá ESB.

7. Flokkur fólksins vill ekki auka vald ESB á Íslandi og telur eðlilegt að völd ESB séu sem minnst hjá fullvalda og sjálfstæðu Íslandi en að samningar við ríkjasambandið verði virtir. Mikilvægt er að Ísland hugi að sjálfstæði sínu og fullveldi í samskiptum sínum við ESB í gegnum EES-samninginn líkt og í samskiptum sínum við önnur ríkjasambönd og stórveldi. Hagsmunum Íslands er best borgið ef þjóðin er sjálfstæð og fullvalda.

Sósíalistaflokkur Íslands

1. Í utanríkisstefnu Sósíalistaflokks Íslands kemur fram að ætlunin er “að auka lýðræðislega aðkomu almennings að ákvarðanatöku varðandi veigamestu þætti heildstæðrar utanríkisstefnu og allar stærri ákvarðanir sem komi til álita og varða alþjóðlegt samráð og þátttöku í stærri bandalögum verði settar í þjóðaratkvæðagreiðslu.” Flokkurinn hefur ekki tekið aðild Íslands að ESB sérstaklega til skoðunar og hefur ekki lýst yfir áformum um að hefja aðildarviðræður en afstaða sósíalista til aðkomu að alþjóðasamtökum mun alltaf stýrast af þeirri meginreglu “að styðja [beri] við alþjóðasamvinnu en hafna alþjóðavæðingu á forsendum auðvaldsins.”

2. Flokkurinn hefur ekki áform uppi um endurskoðun á EES aðildinni en leggur áherslu á að ákvörðun um slíkt verði afgreidd í þjóðaratkvæðagreiðslu.

3. Flokkurinn telur ekki tímabært að leggja fram breytingar á EES samstarfinu að svo stöddu.

4. Flokkurinn hefur lagt fram í auðlindastefnu sinni þá kröfu að orkuframleiðsla verði til almannanota og sjálfbær og að einkavæðing verði lögð af í þeim geira. Einnig skulu yfirvöld “meta reglulega orkuþörf landsins og sjá til þess að umfram orkuframleiðsla sem ekki lýtur almannahagsmunum sé stöðvuð.” Hvað varðar aðild að alþjóðasamningum og -stofnunum vísum við í þá kröfu okkar “að allar stærri ákvarðanir sem komi til álita og varða alþjóðlegt samráð og þátttöku í stærri bandalögum verði settar í þjóðaratkvæðagreiðslu.”

5. Flokkurinn hefur ekki lagt fram sérstaka stefnu í þeim efnum.

6. Í umhverfis- og loftslagsstefnu flokksins eru ákvæði um “að styðja við matvælaframleiðslu í nærumhverfinu með niðurgreiðslu á raforku til gróðurhúsaræktunar og stefna að staðbundnum lifnaðarháttum samfélagsins” og “að endurskoða flugsamgöngur og skipaferðir við landið út frá umhverfissjónarmiðum.” Ljóst er að á þessum tímum loftslagsbreytinga þarf innlend framleiðsla að vera í fyrirrúmi. Í landbúnaðar- og matvælastefnu flokksins er einnig lögð fram sú áætlun “að auka eftirlit með innfluttri matvöru og tryggja þannig samkeppnishæfni innlendrar vöru við innflutta” og “að auðvelda aðgengi að kaupum og sölu á matvöru og annarri framleiðslu bænda í nærumhverfi neytenda.”

7. Sósíalistaflokkur Íslands leggur áherslu á að haft sé ætíð í huga að það er almenningur en ekki fyrirtæki og stofnanir hinna auðugu sem veita stjórnmálaflokkum umboð til að stjórna þessu landi. Því mun flokkurinn hvorki sækjast eftir því að innlent né erlent auðvald auki við völd sín hérlendis en fagnar öllu samstarfi á jafningjagrundvelli við alþjóðasamtök sem eiga rætur sínar í baráttu almennings fyrir bættum kjörum og lífsgæðum.

Viðreisn

1. Ísland á að vera virkt í samstarfi þjóða á alþjóðlegum vettvangi til að efla mannréttindi, jafnrétti, frjáls og réttlát viðskipti og stuðla þannig að friði. Með þeim hætti eflum við menningu og hag Íslands sem og þjóða sem styðja hliðstætt gildismat. Ísland á í því skyni heima í samfélagi Evrópuþjóða. Evrópuhugsjónin um frið, hagsæld og samvinnu þjóða er því kjarni í stefnu Viðreisnar. Ísland á að taka þátt í því samstarfi af fullum krafti og ganga í Evrópusambandið. Við eigum landfræðilega, menningarlega og efnahagslega samleið með þeim sjálfstæðu og fullvalda ríkum sem hafa kosið að taka þátt í þessu samstarfi. Við eigum ekki að sitja hjá heldur setjast til borðs með öðrum Evrópuþjóðum og vinna þétt saman að umhverfis- og loftslagsmálum, mannréttindum, auknu viðskiptafrelsi og efnahagslegum stöðugleika. Viðreisn vill þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald samningsviðræðna, ganga til samningaviðræðna með opnu og gegnsæju ferli, og leggja loks samning í dóm þjóðarinnar.

2. Viðreisn vill að Ísland nýti sem best tækifærin sem aðildin að EES-samningnum veitir.

3. Viðskiptahagsmunum Íslands – og margvíslegum öðrum hagsmunum – væri mun verr þjónað með hefðbundnum fríverslunarsamningi en með þeirri aukaaðild að innri markaði Evrópu sem EES-samningurinn færir okkur, með fullri þátttöku í fjórfrelsinu svonefnda (frjálsri för vara, þjónustu, fólks og fjármuna), að meðtalinni þátttöku í rannsóknasjóðum, starfsþjálfunar- og skiptinámsáætlunum. Viðreisn er því hlynntari EES-samningnum.

4. Viðreisn styður samstarf Evrópuþjóða í orkumálum, enda er það mikilvægur liður í aðgerðum til að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Viðreisn telur það samræmast hagsmunum almennings á Íslandi mjög vel að innleiða regluverk Evrópusambandsins um samræmingu raforkumarkaða yfir landamæri, með þeim aðlögunum sem reglurnar gefa svigrúm til. Hagsmunum Íslands er ekki ógnað á neinn hátt með tilurð ACER (Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, sem fyrirspyrjendur kjósa að kalla Evrópusambandsstofnun fyrir samvinnu orkueftirlitsaðila), enda er hlutverk hennar fyrst og fremst að hvetja til skilvirks samstarfs orkueftirlisstofnana aðildarríkjanna. Til hennar kasta getur skv. reglunum í undantekningartilvikum komið ef orkueftirlitsstofnanir tveggja eða fleiri ríkja myndu lenda í djúpstæðum ágreiningi um túlkun regluverksins og/eða lögsögu sem gildir um eftirlit með aðilum sem annast raforkuflutninga yfir landamæri. Í slíkum tilvikum gæti ACER gegnt gerðardómshlutverki. Að svo sé er engin ógn við íslenska hagsmuni.

5. Í samræmi við framansagt er Viðreisn fylgjandi því að svonefndur fjórði orkupakki ESB (einnig þekktur sem „Vetrarpakkinn“) verði tekinn upp í íslenska löggjöf, enda mun Ísland, ásamt hinum löndunum tveimur í EFTA-stoð EES, Noregi og Liechtenstein, verða skuldbundið skv. EES-samningnum til að innleiða hann. Þær átta lagagerðir sem fjórði orkupakkinn inniheldur ganga að stórum hluta út á að fylgja eftir skuldbindingum Evrópusambandsríkja skv. Parísarsamningnum um loftslagsmál frá árinu 2015. Þessar gerðir kveða m.a. á um að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku og ýta enn frekar undir orkusparnað og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Þótt Ísland þurfi ekki á þessum reglum að halda til að auka hlutdeild endurnýjanlegrar raforku á innanlandsmarkaði þá munu ákvæði fjórða orkupakkans um orkusparnað og ábyrga nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda falla vel að hagsmunum Íslands og skuldbindingum í loftslagsmálum. Enda er Ísland í samfloti við ESB um að uppfylla skuldbindingar Parísarsamningsins.

6. Viðreisn er fylgjandi sem mestu viðskiptafrelsi með allar vörur, þar með taldar landbúnaðarvörur.

7. Spurningin er undarleg, þar sem ESB hefur ekkert vald á Íslandi. En eins og að framan greinir telur Viðreisn að hagsmunum Íslands væri best borgið með fullri aðild að Evrópusambandinu. Það felur meðal annars í sér að Ísland muni hafa meira vald innan ESB en það gerir í dag.


Evrópuherinn enn á ný

Ambiguous alliance: Neutrality, opt-outs, and European defence – European  Council on Foreign Relations

Ýmsir stórlaxar í Evrópusambandinu hafa árum saman krafist þess að hert verði á hervæðingu sambandsins.  Bretar voru dragbítar í því máli.  Nú eru þeir farnir, svo það kann að vera lag. Ályktun Evrópuþingsins frá 2009 um Evrópuher stendur enn og bíður þess að koma til framkvæmda.

Hugmyndaflugið eitt setur því skorður hvernig Íslendingar gætu flækst í hermál bandalagsins, hvort heldur þeir gengju þar inn um aðaldyrnar eða yrði laumað inn bakdyramegin með skapandi túlkun á EES-samningnum.

 https://www.theguardian.com/world/2021/sep/02/us-withdrawal-from-afghanistan-will-lead-to-eu-army-says-top-diplomat?fbclid=IwAR2ZzCa_DLOKOARZmBOeIM9OzSHtO872YmB5WsJi3ScJeJe3V99ocFvCI_8


Íslendingar til fyrirmyndar

17 mai Barnetog - VÅR - Tegninger.no

Sífellt fjölgar þeim Norðmönnum sem finnst erfitt að skilja hvers vegna Evrópusambandið eigi alltaf að ráða.  Nú hafa þeir fengið fyrirmynd á Íslandi.  Það er sómi af því að vera frændum góð fyrirmynd.     

Hjörtur skrifar nánar um málið:  http://fullveldi.is/?p=5189


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 99
  • Sl. sólarhring: 302
  • Sl. viku: 1937
  • Frá upphafi: 1187164

Annað

  • Innlit í dag: 85
  • Innlit sl. viku: 1705
  • Gestir í dag: 83
  • IP-tölur í dag: 82

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband