Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2023

Gerandi í ljótum leik

Stundum sprettur upp umræða um Evrópusambandið í tengslum við vexti og gengi gjaldmiðla.  Má þá ráða að þar fari atriði sem gætu útvegað einhverjum Íslendingum ódýrari peninga.  Allt bendir til þess að það sé úr lausu lofti gripið. 

Í vaxtaumræðunni gleymist að Evrópusambandið er annað og meira en bandalag um gjaldmiðil.  Í Austur-Evrópu er um þessar mundir rekið risastórt fangelsi fyrir unga menn.  Á degi hverjum eru nokkur hundruð þeirra teknir af lífi.  Evrópusambandið sem slíkt og þau ríki sem þar ráða leika stórt hlutverk í þeim leik. Það er í samræmi við þeirra eðli.

Þeir sem telja sig friðarsinna ættu að hafa þetta í huga.  Og aldrei að gleyma því.

 


Lausnin var ekki lausn, heldur vandamál

Eins og menn muna gerði Guðbjörn Guðbjörnsson, tenór og tollheimtumaður, upp við Evrópusambandið fyrir ekki löngu síðan og segja má að sambandið sé í sárum eftir það.  Áfram heldur Guðbjörn og dregur ekki af sér:  

Á tímum efnahagshrunsins hér á landi sá ég lausnina í ESB aðild. Lausnina á efnahagsmálum okkar í evrunni. Núna 15 árum síðar er ég handviss um að hvorki evran eða ESB aðild eru lausnir, heldur öllu heldur vandamál flestra þjóða Evrópu.

Síðar í pistli sínum er Evrópusambandið reyndar kennt við skynsemi og frið.  Líklega er það háð, a.m.k. hvað friðinn varðar.   

https://www.facebook.com/gudbjorn.gudbjornsson

 


Lekur valdið burt? - Málþing 4. október

Í neyðarástandi fær Alþjóðaheilbrigðisstofnunin verulegar valdheimildir.  Sé ekki neyðarástand eru þær ekki eins verulegar, en þó mun stofnunin hafa vald til að lýsa yfir neyðarástandi.  Þannig lýsir svissneski lögmaðurinn Philipp Kruse fyrihuguðu valdaframsali.  Í máli hans kemur fram að neyðarástand geti verið að ýmsum ástæðum og að hugmyndaflug manna sé eitt um að setja því skorður.  Þetta er afar umhugsunarvert. 

Philipp Kruse talar, ásamt fleirum, á málþingi á Grandhóteli 4. október næstkomandi, kl. 18.30:

 

https://www.facebook.com/events/7054205387947113

 

Og hér ávarpar hann Evrópuþingmenn:

 

https://www.youtube.com/watch?v=XpyOD5LTX2A&t=617s


Þar sem þröskuldurinn er lægri

Jóhann Páll Jóhansson, þingmaður Samfylkingar spjallar um stjórnmál við Arnþrúði Karlsdóttur á Útvarpi sögu.  Aðspurður þvertekur Jóhann Páll fyrir að Evrópusambandsaðild verði kosningamál og telur að lítið muni þokast í þeim málum á næsta kjörtímabili.  Jóhann Páll tekur þó fram að flokkurinn sé hlynntur aðild og heldur að það megi græða á henni. 

Þessi afstaða er á vissan hátt rökrétt.  Ekki er líklegt að hægt verði að teyma Íslendinga inn um aðaldyr Evrópusambandsins.  Þá er að reyna bakdyrnar; skapandi túlkun á EES-samningnum og innganga í mörgum litlum skrefum. 

https://utvarpsaga.is/brynt-ad-koma-kjaramalum-lifeyristhega-i-lag/ 

 

 


Vítt, en þröngt

Ástæða er til að vekja athygli á fróðlegu viðtali Hauks Haukssonar við Gísla Guðmundsson athafnamann.  Gísli átti í viðamiklum viðskiptum við Sovétríkin á sínum tíma og segir frá ýmsu í því sambandi.  Þeir Gísli og Haukur eru sammála um að hollast sé fyrir Íslendinga að varðveita fullveldi ríkisins í víðsjárverðum og síbreytilegum heimi.  Ástæða er til að taka undir það.

Í því sambandi leggja menn stundum áherslu á það sem illa gengur hjá þeim ríkjum sem stjórna Evrópusambandinu.  Vangaveltur um slíkt eru oftast á rökum byggðar, en staðan í Evrópusambandinu hverju sinni vegur varla þungt þegar kemur að ákvörðunum um að gæta fullveldis Íslands.  Evrópusambandið er nefnilega vítt inngöngu, en þröngt útgöngu.  Vanhugsuð innganga í góðæri gæti þannig leitt til óþarfa hörmunga í næsta hallæri. 

 

https://utvarpsaga.is/mikill-afleikur-ad-hafa-slitid-sendiradssamskiptum-vid-russa/


Meira um ástina á smáþjóðum

Farið hefur verið fram á að katalónska, baskamál og galíska verði viðurkennd til samskipta innan Evrópusambandsins.  Evrópusambandið hugsar málið, en enginn skortur virðist vera á nafnlausum yfirlýsingum málsmetandi manna innan sambandsins um málið: Þeir hafa ekki áhuga.

Áhugaleysi Evrópusambandsmanna á því að fjölga opinberum tungumálum innan sambandsins kemur í opna skjöldu, því Evrópusinnar á Íslandi fóru um það mörgum orðum að Evrópusambandið elskaði tungur smáþjóða ekki minna en smáþjóðirnar sjálfar og sjálfgefið væri að íslenska yrði opinbert mál Evrópusambandsins til eilífðarnóns, bara ef Íslendingar gengju því á hönd. 

https://www.politico.eu/article/madrid-and-barcelona-team-up-in-effort-to-make-catalan-an-eu-language/#:~:text=The%20EU's%20General%20Affairs%20Council,are%20pushing%20the%20bid%20jointly. 


Forvitnilegir gestir í Reykjavík

Ekki vantar grósku í félagsmál á Íslandi.  Félagasamtök sem heita Frelsi og ábyrgð hafa verulegar áhyggjur af framsali valds í heilbrigðismálum til erlendrar stofnunar og fá í heimsókn frá útlöndum fjóra þekkta gesti. 

Þingað verður með þeim 4. október næstkomandi á Grand Hóteli í Reykjavík.  Nánar segir frá þinginu hér:

https://www.facebook.com/events/7054205387947113

 


Hver græðir á því?

Málaskráin er komin.  

Utanríkisráðherra setur bókun 35 efst.  Frakkland, Þýskaland og fylgiríki þeirra skulu fá meira vald á Íslandi, hvað sem hver tautar.  Hvers vegna? Hver græðir á því?

Þetta er áhyggjuefni.  Það stefnir í átök. 

https://www.stjornarradid.is/rikisstjorn/thingmalaskra/?fbclid=IwAR11bVagXPzD_0ShFNDm5tWPk5_Z0w6oHl-XbHbnclWI4o6T5EPeSI_YmaY


Enda er ekki allt talið

Stöldrum við hið evrópska peningatré vísindanna.   Hlutverk vísindasjóða Evrópusambandsins er að innheimta fé hjá aðildarlöndunum og úthluta til stofnana sem fást við rannsóknir.  Ekki verður hjá því komist að sú umsýsla kosti nokkurt fé.  En þá er ekki allt talið, því drjúgur hluti kostnaðarins við úthlutunina kemur hvergi fram í bókhaldi sambandsins og útibúum þess. 

Í upphafi eru viðfangsefnin skilgreind.  Embættismenn bandalagsins vinna að því í samvinnu við embættismenn aðildarlanda.  Vísindamenn koma vitaskuld að því starfi, enda er á þeim þrýstingur að skrifa viðfangsefni sín „inn í“ opinberar áætlanir.  Stór hluti þeirrar vinnu kemur aðeins fram í bókhaldi ráðuneyta og stofnana, ekki í bókhaldi Evrópusambandsins.   Þá kemur að umsóknaferlinu sjálfu.  Þar hafa embættismenn stofnana og ráðuneyta hlutverk, en mest er þó vinna vísindamannanna sem skrifa umsóknir í gríð og erg.  Þar eru ótal vinnustundir sem aðeins koma fram í bókhaldi rannsóknastofnana, ef þær koma nokkurs staðar fram.  Sá biti er stór, því aðeins lítill hluti umsókna hlýtur styrk.  Stór meirihluti umsókna fer í ruslið og vinna þeirra sem að þeim stóðu fer oft fyrir lítið.  

Rannsóknir í kerfi af þessu tagi geta reynst dýrar ef allt er talið, enda fer því fjarri að allt sé talið.


Sá hnútur sem traustast vér bindum

Fyrir þremur áratugum var gerður samningur um svokallað fjórfrelsi.  Annar aðilinn var Evrópusambandið og hinn aðilinn voru nokkur ríki Evrópu sem ekki voru í Evrópusambandinu, en höfðu með sér bandalag um fríverslun.  Evrópusambandið vildi fá að dæma í álitamálum, en það þótti þeim sem ekki voru í því liði algerlega ótækt. 

Upp úr því kom hið svokallaða tveggja stoða kerfi.  Tveggja stoða kerfið átti að takmarka völd Evrópusambandsins í löndum sem ekki voru í því sambandi.  Lítill vafi er á að það fyrirkomulag hafi komið sér betur en einnar stoðar Evrópusambandskerfi, þegar að því kom að úrskurða um greiðsluskyldu íslenska ríkisins í Icesave-málinu.

En bókfellið velkist og þeir hnútar sem traustast eru bundnir rakna á endanum.   Molnað hefur undan tveggja stoða kerfinu og það stefnir í að önnur stoðin muni á endanum hverfa.  Eftir stendur Evrópusambandið með öll völd.   Allt ber það að sama brunni, eins og Hjörtur J. Guðmundsson bendir réttilega á í hjálagðri grein. 

Það verður að koma samskiptum Íslands við lönd Evrópusambandsins í ásættanlegan farveg, sem hlýtur að vera víðtækur fríverslunarsamningur, en ekki stjórnlaust framsal á ríkisvaldi.

https://www.fullveldi.is/?p=5851


Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.3.): 297
  • Sl. sólarhring: 336
  • Sl. viku: 1430
  • Frá upphafi: 1207702

Annað

  • Innlit í dag: 287
  • Innlit sl. viku: 1319
  • Gestir í dag: 263
  • IP-tölur í dag: 263

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband