Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2024

Skilaboðaskjóðan

Á morgun, 1. júní 2024 velja Íslendingar sér forseta.  Forseti hefur bæði formleg og óformleg völd og það er brýnt að forseti Íslands hafi djúpan skilning á mikilvægi þess að stjórnvaldið leki ekki til vandalausra í útlöndum.

Svör frambjóðenda við spurningum Heimssýnar voru birt hér á Heimssýnarbloggi 26. maí.  Flestir höfðu einhvers konar fullveldisyfirbragð á svörum sínum, en slógu þó úr og í.

Arnar Þór Jónsson, Ástþór Magnússon og Eiríkur Ingi Jóhannesson voru afdráttarlausir.  Af þeim virðist Arnar Þór hafa langmest fylgi og það er eftirtektarvert að það hefur aukist jafnt og þétt frá þeim degi þegar hann tilkynnti framboð sitt. 

Það er lítill vafi á því að framboð fullveldissinna, ekki síst Arnars Þórs hefur mótað kosningabaráttuna og samfélagsumræðuna í aðdraganda þessara kosninga.  Með því að að kjósa frambjóðanda sem er afdráttarlaus fullveldissinni senda kjósendur skýr skilaboð inn í umræðuna.

 


Á mannamáli

Það er ekki ofmælt að EES er ein sú skrýtnasta skepna sem til er.  Íslendingar borga verulegar upphæðir fyrir aðild að bandalagi, sem þeir voru með fríverslunarsamning við áður en bandalagið varð til.  Að launum fá fyrirtæki á Íslandi ekki fullan markaðsaðgang fyrir helstu framleiðsluafurð Íslands, fisk, heldur dýrar og íþyngjandi reglur sem hefta verslun Íslendinga við rúmlega 90% af heimsbyggðinni.

Upp á síðkastið hefur Evrópusambandið viljað færa sig upp á skaftið í hernaðarmálum. Allt er það sagt vera í nauðvörn, en þá er horft framhjá þeirri staðreynd að vesturveldin eyða nú þegar tæplega tuttugu sinnum meiri peningum til hermála en Rússar gera.  Eitthvað annað hangir á spýtunni, líklega löngun til að styðja við hergagnaiðnað gömlu evrópsku nýlenduveldanna.

Og nú er boðað „flóknara samstarf“.  Á mannamáli þýðir það að hið opinbera og fyrirtæki þurfi að ráða fleira fólk til að eiga við hið „flókna samstarf“.   Það þurfi að borga meira fyrir kerfið.

 

https://www.ruv.is/frettir/erlent/2024-05-30-floknara-samstarf-og-fleiri-askoranir-framundan-i-ees-samstarfinu-413950


Bakkafullur lækur og skrautleg svör

Um daginn birtust hér á Heimssýnarbloggi svör forsetaframbjóðenda við nokkrum spurningum sem lúta að fullveldi Íslands og einstökum málum því tengdu.  

Það kom ekki á óvart að svör Arnars Þórs Jónssonar voru afdráttarlaus og skýr, enda hefur Arnar Þór margsagt að erindi hans sé fyrst og fremst að standa vörð um fullveldið, mannréttindi og lýðræði.   

Ástþór Magnússon og Eiríkur Ingi Jóhannsson eru greinlega hallir undir að varðveita fullveldið og draga ekki dul á það.  Svör annarra frambjóðenda bjóða upp á meiri sveigjanleika í túlkun, en flestir nefna sjálfstæði eða fullveldi í jákvæðu samhengi.  Allmargir frambjóðendur nefna sérstaklega að þeir myndu taka því alvarlega ef þeim bærust margar undirskriftir með áskorun um að hafna því að staðfesta lög frá Alþingi.

Tveir frambjóðendur skiluðu auðu, Ásdís Rán Gunnarsdóttir og Baldur Þórhallsson.   Ljóst er að framboð Ásdísar Ránar hefur færri hendur til að sinna ritgerðum um fullveldismál en hin svokölluðu stærri framboð og eins að áherslur Ásdísar Ránar hafa að minnsta kosti að einhverju leyti verið á öðrum sviðum.   Afstaða Baldurs Þórhallssonar til svokallaðra Evrópumála hefur ætið verið skýr.  Hann hefur talið best fara á því að Íslendingar nytu leiðsagnar gömlu evrópsku nýlenduveldanna og fengju í staðinn sæti á fundi eða leyfi til að gala í tóma tunnu, eftir því hvernig menn líta á málin.   Það má segja að það hefði verið að bera í bakkafullann lækinn að endurtaka þá afstöðu eina ferðina enn.


Lóðbeint til helvítis

Það er mikilvægt að rifja öðru hverju upp lærdóminn af Brexit. 

Í fyrsta lagi er ekki ætlast til að lönd yfirgefi Evrópusambandið, og líklega ekki heldur EES.  Sambandið gerir það sem það getur til að koma í veg fyrir það.

Í öðru lagi skellur á syndaflóð af heimsendaspám í hvert sinn sem eitthvað kemur til umræðu sem stríðir gegn samrunaþróun Evrópu.   Þannig var það í Noregi og Svíþjóð þegar gengið var til atkvæða um aðild þessara landa að sambandinu.  Þannig var líka í tengslum við Brexit.  Ótrúlegasta fólk og fjölmiðlar trúðu því að Bretar mundu sigla lóðbeint til helvítis ef þeir skildu við sambandið. 

Annað hefur heldur betur komið á daginn.  Hjálagður er nýlegur bæklingur breska viðskiptaráðuneytisins sem staðfestir að í efnahagsmálum gengur Bretum ýmist betur eða álíka vel og öðrum stórríkjum í Evrópu. Horfurnar fyrir Bretland eru líka betri en horfurnar á meginlandinu.  Af einhverjum ástæðum fer fáum sögum af þessum málum.  Það er svosem ekki nýtt að gömlu evrópsku nýlenduveldin trúi því ekki að önnur ríki geti haldið velli án leiðsagnar frá stórborgum Evrópu.

 

https://assets.publishing.service.gov.uk/media/65ba6d52f51b1000136a7e3d/brexit-4th-anniversary-accessible-version.pdf


Ekki vitleysan þar

Ragnar heitir maður Önundarson.  Hann er mörgum eftirminnilegur vegna skrifa um Pótemkintjöld í aðdraganda hrunsins.  Hann skrifar oft um samfélagsmál, og það af skynsamlegu viti.  Í nýlegri færslu birtir hann tölur um hvernig markaðsvæðing raforku hefur leikið buddur heimila og iðnaðar á hinum norðurlöndunum.  Einhver hluti gróðans af verðhækkun ratar sjálfsagt "heim" aftur, en viðbúið er að stór, og líklega stækkandi, hluti gróðans hverfi til einhverra Tortóluhreppa.  Erfitt er um það að segja, en greinar Ragnars eru fróðlegar og þær mættu fleiri lesa.

https://www.facebook.com/onundar  


Svör forsetaframbjóðenda við spurningum Heimssýnar

Heimssýn sendi forsetaframbjóðendum nokkrar spurningar.  Svör bárust frá öllum, nema framboðum Ásdísar Ránar og Baldurs Þórhallssonar.    Hér eru spurningarnar og svörin

Undanfarin ár hefur stjórnvald í sumum málaflokkum færst að hluta til útlanda.  Ekki er séð fyrir endann á þeirri þróun.

 

 1) Telur þú að forseti Íslands ætti almennt að beita sér gegn frekari tilfærslu á valdi til útlanda    

 

2)     Ef svarið við 1) er jákvætt, með hvaða hætti ætti forsetinn að beita sér?

 

3)  Muntu, sem forseti, staðfesta lög sem í daglegu tali eru nefnd bókun 35?

 

4)  Muntu, sem forseti, staðfesta lög sem í daglegu tali eru nefnd orkupakki 4, eða önnur lög sem framselja stjórnvald í orkumálum Íslendinga til Evrópusambandsins eða stofnana þess?

 

5) Muntu, sem forseti, staðfesta lög sem framselja stjórnvald í farsóttarmálum til útlanda?

 

 

 

Frá framboði Arnars Þórs Jónssonar

 

1)      Telur þú að forseti Íslands ætti almennt að beita sér gegn frekari tilfærslu á valdi til útlanda?

Ekki er augljóst að sú valdatilfærsla sem átt hefur sér stað undanfarin ár, þótt ekki sé talað um það sem er í bígerð, standist stjórnarskrá.  Hlutverk forsetans er að standa vörð um stjórnarskrána og því verður ekki hjá því komist að forseti spyrni við og beiti sér gegn óhóflegri, og í framkvæmd óafturkræfri, tilfærslu á valdi til útlanda.  

 

2)     Ef svarið við 1) er jákvætt, með hvaða hætti ætti forsetinn að beita sér?

Forsetinn á í stöðugu samtali við Alþingi og ríkisstjórn. Eins og landsmönnum er kunnugt getur forseti hafnað því að staðfesta lög og í skjóli þeirrar heimildar getur forsetinn beitt sér með jákvæðum hætti.

 

3)  Muntu, sem forseti, staðfesta lög sem í daglegu tali eru nefnd bókun 35?

Það er vandséð að bókun 35 standist stjórnarskrá Íslands.  Forsetinn getur ekki staðfest lög sem ganga gegn stjórnarskrá.  Sjálfur tel ég að bókun 35 sé óráð.  

 

4)  Muntu, sem forseti, staðfesta lög sem í daglegu tali eru nefnd orkupakki 4, eða önnur lög sem framselja stjórnvald í orkumálum Íslendinga til Evrópusambandsins eða stofnana þess?

Ekki er ljóst að það fyrirkomulag sem verið er að koma á og lýtur að framsali á valdi í orkumálum til erlends ríkjasambands standist stjórnarskrá.  Sé vilji til þess hjá þjóðinni væri eðlilegt að leitast við að breyta stjórnarskrá.  Ég hef miklar efasemdir um að Íslendingar vilji færa erlendum embættismönnum meiri völd í orkumálum á Íslandi, en þeir hafa nú þegar.  Sjálfur vil ég það ekki.

 

5) Muntu, sem forseti, staðfesta lög sem framselja stjórnvald í farsóttarmálum til útlanda?

Það er undarlegt, og hættulegt, að vilja framselja ákvörðunarvald í farsóttarmálum til erlendrar stofnunar sem alþjóðleg stórfyrirtæki hafa óumdeilanlega mikil völd yfir. Forseti Íslands hlýtur að íhuga mjög vandlega að hafna því að staðfesta lög af því tagi.

 

 

Frá framboði Ástþórs Magnússonar

 

1)      Telur þú að forseti Íslands ætti almennt að beita sér gegn frekari tilfærslu á valdi til útlanda?

 

2)     Ef svarið við 1) er jákvætt, með hvaða hætti ætti forsetinn að beita sér?

Standa vörð um fullveldi og auðlindir þjóðarinnar. Ný lög sem ganga á þann rétt á þjóðin að skera úr um í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

3)  Muntu, sem forseti, staðfesta lög sem í daglegu tali eru nefnd bókun 35?

 Ef þau lög eru ekki að ganga á fullveldi eða auðlindir þjóðarinnar þá mun ég sem forseti staðfesta þau, nema að til komi hávær krafa um að tiltekið mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá mun ég setja það mál í slíkan farveg. 

 

4)  Muntu, sem forseti, staðfesta lög sem í daglegu tali eru nefnd orkupakki 4, eða önnur lög sem framselja stjórnvald í orkumálum Íslendinga til Evrópusambandsins eða stofnana þess?

Ný lög sem ganga á fullveldi eða auðlindir þjóðarinnar á þjóðin að skera úr um í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

 

5) Muntu, sem forseti, staðfesta lög sem framselja stjórnvald í farsóttarmálum til útlanda?

Öll lög sem ganga á rétt þjóðarinnar til sjálfsákvörðunar eða fullveldi eiga að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

 

 

Frá framboði Eiríks Inga Jóhannssonar

 

1)      Telur þú að forseti Íslands ætti almennt að beita sér gegn frekari tilfærslu á valdi til útlanda?
 Valda flutningur frá sjálfstæðu lýðveldi á ekki að eiga sér stað og tímabært að snúa við þessari þróun og afturkalla þann skaða sem hefur orðið.
Ríki getur ekki talist sjálfstætt ef að erlendir aðila hafa eitthvað með stjórnsýslu þess að segja.
 

2)     Ef svarið við 1) er jákvætt, með hvaða hætti ætti forsetinn að beita sér?
        Forsetinn fer með forsæti með ríkisráði  og getur komið þessum málum á veg einnig getur forseti gert samninga við útlönd.  þegar kemur að lögum sem alþingi hefur samþykkt getur forsetinn lagt fram tillögur og lög fyrir þinginu til að breyta og aftur kalla en svo er það þingsins að samþykkja það og kjósenda að þrýsta á þingmenn sína.
 

3)  Muntu, sem forseti, staðfesta lög sem í daglegu tali eru nefnd bókun 35?
     Best væri að þessi bókun færi ekki gegnum þingið til forseta,  Ef svo færi yrði þjóðaratkvæðis greiðsla um Bókun 35 undir mínu forsæti.
  Það á ekkert að vera æðri Íslenskum lögum á Íslandi annað en stjórna skrá íslenska lýðveldisins.  Það þarf að vanda betur til í milliríkja samningum og tryggja að ekki séu samþykkt ákvæði sem eiga ekki við beinni samkeppni í viðskiptum við erlend ríki.  Ísland deilir ekki sameiginlegum landamærum og hefur því ekki þörf á samkeppnis lög sem meginlands ríki þurfa. 

 

4)  Muntu, sem forseti, staðfesta lög sem í daglegu tali eru nefnd orkupakki 4, eða önnur lög sem framselja stjórnvald í orkumálum Íslendinga til Evrópusambandsins eða stofnana þess?
Nei, ég mundi vinna í því að fella orku pakka 3 og fleiri samnings og laga mistök í milliríkja samningum okkar.

 

5) Muntu, sem forseti, staðfesta lög sem framselja stjórnvald í farsóttarmálum til útlanda?
      Samstarf í sóttvarna málum og vöktun er ágætt en engin stofnun eða ríki á að hafa vald yfir okkar innanlandsmálum.

 

 

Frá framboði Höllu Hrundar Logadóttur

Ég mun standa vörð um hagsmuni Íslands og sem forseti Íslands mun ég standa vörð um fullveldi, sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstæði þjóðarinnar og tryggja að hagsmunir almennings séu ávallt í fyrirrúmi.

 Forsetinn ætti að taka frumkvæði í opinni umræðu og samráði við þjóðina til að tryggja að hagsmunir landsins séu ávallt í fyrirrúmi. Ég mun íhuga hvert mál fyrir sig með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Þegar kemur að orkumálum, tel ég mikilvægt að halda þeim innanlands og tryggja að ákvörðunarvald sé í höndum Íslendinga. Ég hef séð afleiðingar þess þegar ríki missa stjórn á auðlindum sínum og mun því beita mér fyrir vitundarvakningu um verðmæti náttúruauðlinda okkar og valdheimildum til að tryggja stjórn Íslands yfir þeim.

 

 

Frá framboði Höllu Tómasdóttur

Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn og með kosningarathöfnum sínum leggja kjósendur grundvöll að starfi Alþingis og forseta. Þegar kjósendur greiða atkvæði samkvæmt 2. mgr. 79. gr. og 26. gr. stjskr. taka þeir aftur á móti þátt í löggjafarstarfsemi. Þar eru kjósendur löggjafaraðili. Það er hins vegar mín skoðun að enginn eigi að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands með fyrirfram mótaðar skoðanir um tiltekin málefnasvið eða hugmyndir um að gefa löggjafanum nokkur fyrirmæli. Forseti á fyrst og fremst að hlusta á þjóðina og alla hópa samfélagsins og meta þá hvort að það sé ástæða til þess að vísa málum til þjóðarinnar. Langtum eðlilegast væri fyrir forseta að beita sér í málefnum á sviði mannréttinda og jafnréttis og mála sem varða hagsmuni næstu kynslóðar. Ég hef hugsað mikið um Icesave málið, sem var mál þar sem óábyrg framganga þáverandi valdhafa hefði bitnað á kynslóðum til langs tíma og á getu okkar til að sinna eldra fólkinu okkar, það samræmist ekki hugmyndum mínum um kynslóðajafnrétti og réttlæti. En forseti þarf fyrst og fremst að hlusta á þjóðina og fara fyrir grunngildum hennar.

 

Frá framboði Helgu Þórisdóttur

Undanfarin ár hefur stjórnvald í sumum málaflokkum færst að hluta til útlanda.  Ekki er séð fyrir endann á þeirri þróun. 

 1)      Telur þú að forseti Íslands ætti almennt að beita sér gegn frekari tilfærslu á valdi til útlanda? NEI 

 2)     Ef svarið við 1) er jákvætt, með hvaða hætti ætti forsetinn að beita sér? _ 

  3)  Muntu, sem forseti, staðfesta lög sem í daglegu tali eru nefnd bókun 35 ? JÁ 

 4)  Muntu, sem forseti, staðfesta lög sem í daglegu tali eru nefnd orkupakki 4, eða önnur lög sem framselja stjórnvald í orkumálum Íslendinga til Evrópusambandsins eða stofnana þess? Ef um er að ræða framsal á grundavallar auðlindum íslenskrar þjóðar, mannréttindum eða sjálfstæði - og ef ákvörðun þings endurspeglar ekki vilja þjóðarinnar myndi ég stíga inn í og leyfa þjóðinni að eiga lokasvar. 

 5) Muntu, sem forseti, staðfesta lög sem framselja stjórnvald í farsóttarmálum til útlanda? Vísa í svarið hér að ofan þar sem ég vísa í mannréttindi og sjálfstæði. 

 

Frá framboði Jóns Gnarr

  1. Ég tel ekki að forseti eigi að hafa mikil afskipti af ákvörðunum alþingis nema að undangengnu ákalli frá þjóðinni. Ég myndi skoða slíkt vandlega einsog í tilfellum EES samningsins eða ESB aðildar, minnugur því sem á gekk í forsetatíð frú Vigdísar

 

  1. Já, nema kæmi til ákall í formi undirskriftarlista. Þá myndi ég hugleiða það og leita mér dómgreindar

 

  1. Já, nema í tilfelli undirskriftalista 

 

  1. Já nema í ljósi almennra mótmæla og eða undirskriftalista

 

 

Frá framboði Katrínar Jakobsdóttur

Samkvæmt okkar lýðræðisskipulagi er það er í höndum Alþingis og ríkisstjórnar á hverjum tíma að taka afstöðu til slíkra mála. Það er hins vegar ljóst að bera þarf mál sem geta haft langtímaáhrif á samfélagið, eins og til dæmis inngöngu í Evrópusambandið, undir þjóðina. Ég geri þó fastlega ráð fyrir að Alþingi sjálft myndi taka ákvörðun um að gera það án aðkomu forseta en klárlega myndi ég sem forseti tryggja það ef það yrði ekki raunin.

Almennt tel ég að forseti eigi ekki að tjá sig um mál sem eru til meðferðar á Alþingi eða kunna að koma til meðferðar þar og mér finnst það sama eiga við um forsetaframbjóðendur enda ekki hægt að leggja mat á þau fyrr en að þinglegri meðferð lokinni.

Ég legg áherslu á að forseti hefji sig yfir alla flokkspólitík. Hann þarf að geta lagt óhlutdrægt mat á þau lög sem samþykkt eru á þingi. Þau sjónarmið sem ég myndi hafa að leiðarljósi er hvort lögin varða grundvallargildi félagsins, hvort þau muni hafa langtímaáhrif á samfélagið og hvort djúpstæður ágreiningur er um þau sem til dæmis getur birst með fjölda undirskrifta. Fyrrum forseti orðaði það svo að gjá hafi skapast milli þings og þjóðar.

 

 

 

Frá framboði Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur

 

1) Telur þú að forseti Íslands ætti almennt að beita sér gegn frekari tilfærslu á valdi til útlanda?

NEI

 2) Ef svarið við 1) er jákvætt, með hvaða hætti ætti forsetinn að beita sér?

3) Muntu, sem forseti, staðfesta lög sem í daglegu tali eru nefnd bókun 35?

Ég vil svara því til eins og ég gerði hjá Lögréttu í pallborði með lögfræðinemum. Full ástæða er til að landsmenn séu ætíð upplýstir um eðli þeirra samninga sem Ísland gerir við önnur ríki.

4) Muntu, sem forseti, staðfesta lög sem í daglegu tali eru nefnd orkupakki 4, eða önnur lög sem framselja stjórnvald í orkumálum Íslendinga til Evrópusambandsins eða stofnana þess?

Við erum aðilar að samningum við Evrópulöndin um orkumál nú þegar. Það er sameiginlegt ábyrgð jarðarbúa að vinna að heilbrigðum og heilbrigðari lausnum í orkumálum.
Ekki myndum við vilja að Ítalía t.d  myndi láta bara eins og aðrir kæmu þeim ekki við og ákveða að brenna bara olíu og menga fyrir nágrannaþjóðum sínum, eða hvað?  Rétt Íslendinga til að hafa óskertan aðgang að eigin orku má að mínu mati ekki skerða en er það yfirleitt í kortunum?

Ég hef meiri áhyggjur af landsölu og þeim auðlindarétti sem útlendingar fá í kaupunum. Hvað hyggjast þeir fyrir, það veit enginn. það er vandinn og vert að hafa í huga.

5) Muntu, sem forseti, staðfesta lög sem framselja stjórnvald í farsóttarmálum til útlanda?

 
Full ástæða er til að landsmenn séu ætíð upplýstir um eðli þeirra samninga sem Ísland gerir við önnur ríki. Ef mér fyndust slík lög málum blandin myndi ég fylgjast vel með gangi mála í meðförum þingsins og ef ástæða væri til að ætla að um afsal sjálfstæðra ákvarðana Íslendinga væri að ræða, myndi ég krefjast þess að þjóðin væri meðvituð um stöðu sína til framtíðar. Við munum öll þegar við gátum ekki ferðast landa á milli nema gegn framvísun bólusetningaskírteinis í Covid. Við erum í þessu tilfelli sem spurt er um að tala um óorðna hluti og því erfitt að segja af eða á. Við þiggjum nú þegar bólusetningar sem börn sem sporna gegn ýmsum sjúkdómum sem áður drógu menn til dauða og bjarga mannslífum. Þetta þarf að skoða á grundvelli þeirra sjúkdóma sem kunna að reynast mannkyni skæðir. Ég bjó lengi í BNA og þar er sjálfsákvörðunarréttur fólks til bólusetninga barna sinna virtur, sumir segja að það sé slæmt og óábyrgt gagnvart öðrum. Ég sjálf lét bólusetja mín börn eins og vani er hér á landi við algengum sjúkdómum.

 

 

 

Frá framboði Viktors Traustasonar

1) Mér finnst mikilvægast að forseti passi upp á það að slíkar ákvarðanir séu ekki teknar nema búið sé að tryggja það að meirihluti kjósenda sé á bakvið þær. Annars finnst mér að reglur og takmarkanir á slíku eigi heima í stjórnarskrá og vera ekki háðar geðþótta einnar manneskju.

2) Ég hugsa að svar "1)" geti ekki flokkast sem jákvætt frekar en neikvætt.

3) Sem forseti myndi ég ekki skrifa undir neitt frumvarp sem 10% kjósenda hefur mótmælt. Slík mál krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að útkljá málið áður en lengra er haldið, líkt og stjórnlagaráð mælti með.

4) Sem forseti myndi ég ekki skrifa undir neitt frumvarp sem 10% kjósenda hefur mótmælt. Slík mál krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að útkljá málið áður en lengra er haldið, líkt og stjórnlagaráð mælti með.

5) Sem forseti myndi ég ekki skrifa undir neitt frumvarp sem 10% kjósenda hefur mótmælt. Slík mál krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að útkljá málið áður en lengra er haldið, líkt og stjórnlagaráð mælti með.


Síendurtekið bull

Fréttamaður RÚV ræðir við Arnar Þór Jónsson um EES og fleira í viðtali vegna forsetaframboðs.  Á 15. mínútu kemur í tvígang fram í máli fréttamannsins að Íslendingar sæki menntun til Evrópu í skjóli EES-samningsins.   Arnar Þór leiðréttir þetta ekki, þótt ástæða hefði verið til, enda hafði hann mörgu að svara.

Því fer best á að leiðrétta þetta hér og nú.  Íslendingar stunduðu nám í evrópskum háskólum í aldaraðir, fyrir daga EES.  Evrópskir háskólar eru fullir af nemendum frá löndum sem ekki eru í EES. Engin ástæða er til að ætla að aðgangur Íslendinga að háskólum í löndum Evrópusambandsins mundi breytast þó svo EES gufaði upp.

Málflutningur af þessu tagi endurspeglar þá döpru staðreynd að það er erfitt að finna eitthvað sem er „EES að þakka“.  Í örvæntingunni yfir því að finna ekkert verða til goðsagnir, eins og sú að íslenskir námsmenn í útlöndum eigi eitthvað undir EES.  Hver apar söguna upp eftir öðrum þangað til flestir trúa því að hún sé sönn.  En hún er það ekki.

https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/x24-forystusaetid/36268/aps3m4


Auðvitað er það markmiðið

Það hefur aldrei verið launungarmál að markmiðið með samrunaþróun Evrópusambandsins er sambandsríki Evrópu.  Slíkt sambandsríki yrði líklega (og vonandi) tiltölulega lýðræðislegt.  Það þýðir að Íslendingar réðu þar nánast engu.  Annað væri hryllilega ólýðræðislegt.  

Gömlu evrópsku nýlenduveldin gætu með öðrum orðum ráðskast með Ísland að vild. 

Það er undarlegt að nokkrum á Íslandi skuli nokkurn tímann hafa þótt það góð hugmynd.  Þó kannski að þeim frátöldum sem ætla sér fána og lúður að gjöf fyrir að gerast þegnar í Evrópusambandinu, og eru þar með fullsæmdir.

 

https://www.fullveldi.is/?p=45457 

 


Þingmaður gefst upp

Sífellt ljósara verður að framleiðniaukning síðari ára og áratuga skilar sér mun frekar í flóknari og dýrari reglum, en peningum í launaumslagið.   Peningurinn fer með öðrum orðum í ríkum mæli í að ráða fólk í fyrirtæki og stofnanir til að framfylgja sífellt flóknari reglum um allt mögulegt og ómögulegt. 

Óli Björn Kárason, þingmaður, ræðir um dýrar reglur í Morgunblaði dagsins og segir m.a.:

Auðveldasta leið okkar til að auka samkeppnishæfni samfélagsins er að tryggja einfaldara og skilvirkara regluverk en í öðrum löndum Evrópu.

Markmiðið með Evrópusambandinu og EES er vitaskuld að samræma reglurnar.  Óli Björn gefst upp á sístækkandi regluskógi og segir í raun að tímabært sé að endurskoða þann grunn sem samband Íslands og Evrópusambandsins byggir á.  Víðtæk fríverslun, þar sem löggjafarvaldið er í höndum Alþingis hlýtur að vera markmiðið í þeirri endurskoðun.

 

https://www.facebook.com/groups/heimssyn/permalink/650775157215112/

 


Að kalla skóflu skóflu

Í yfirstandandi kosningabaráttu spyrja margir um afstöðu til Evrópusambandsaðildar. 

Þó það nú væri!   Eðilegt er að kjósendur fái að vita hvaða skoðun forseti hafi á því hver eigi að setja lög á Íslandi.

Í ljós hefur komið að sumir telja enn að hægt sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu til að „sjá hvað sé í boði“.  Það hefur ávallt verið ljóst hvað í boði er, allir fulltrúar Evrópusambandsins eru á einu máli um það.  Í boði er að gangast undir vald sambandsins, lög og dóma, eins og þau eru nú og eins og þau verða í framtíðinni.  Flóknara er það ekki.   Aðildarferlið snýst um að laga sig að þeirri staðreynd.  „Samningaviðræður um aðild“ eru skrauthvörf fyrir aðildarferli. Á það hafa fulltrúar Evrópusambandsins líka margoft bent.

Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu var skilyrðislaus ósk um aðild að sambandinu. Þegar ósk af því tagi hefur verið samþykkt fer í gang ferli sem miðar að því að laga löggjöf hins verðandi aðildarlands að löggjöf sambandsins.  Þegar því ferli er lokið má segja að landið sé í framkvæmd komið í sambandið og að atkvæðagreiðsla um aðild sé bara formsatriði.


Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 487
  • Sl. sólarhring: 499
  • Sl. viku: 2325
  • Frá upphafi: 1187552

Annað

  • Innlit í dag: 449
  • Innlit sl. viku: 2069
  • Gestir í dag: 423
  • IP-tölur í dag: 415

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband