Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2025

Leiðindasuð

Í fljótu bragði virðist einkennilegt að miklu fleiri séu hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslu um svokallaðar viðræður við Evrópusambandið, en þeir sem vilja að Íslandi gangi í sambandið. 

Ýmsar skýringar koma til greina.  Því hefur verið haldið fram að fá þurfi svör við ósvöruðum spurningum og það hljómar ekki vel að standa í vegi fyrir því að svarað sé.  Staðreyndin er að engu sem skiptir máli er ósvarað.  Svarið er þetta:  Evrópusambandið ræður í Evrópusambandinu. Það verður ekki samið um neitt annað og svo verður heldur ekki samið um það sem óviss framtíð ber í skauti sér.  Þar gildir það sama:  Evrópusambandið ræður. 

Önnur skýring er að menn telji að með kosningu megi útkljá málið í eitt skipti fyrir öll og losna við Evrópusuðið.  Því miður er það ekki þannig.  Norðmenn kusu tvisvar, en suðið er enn í gangi. Suðið byggir m.a. á Evrópusambandshefðinni, að kjósa aftur og aftur þangað til rétt niðurstaða fæst.  Þá má hætta að kjósa. 

https://www.visir.is/g/20252671063d/-evropusudid-hverfi-ekki-med-thjodar-at-kvaeda-greidslu  


Breyttur skilningur Samfylkingar á ESB-viðræðum

Tuttugu og tveimur árum eftir að Samfylkingin efndi til atkvæðagreiðslu í flokknum um afstöðu til spurninga í Evrópumálum hefur forystufólk flokksins áttað sig á því að spurningarnar þá voru út í hött (eða alltént barn síns tíma).

Forystan virðist að minnsta kosti sum hver hafa áttað sig á því að möguleg aðild Íslands að Evrópusambandinu felur það í sér að við yrðum hluti af því eins og það er í dag; tækjum upp regluverk og annað. Eina frávikið gætu mögulega verið afmarkaðar og tímabundnar undanþágur. Þetta kom skýrt fram í nýlegu viðtali við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi formann Samfylkingarinnar, í nýlegum útvarpsþætti.

Það má því segja að Samfylkingin hafi eitthvað lært á þessum tveimur áratugum, eða frá því er lögð var eftirfarandi spurning fyrir flokksfólkið: „Á það að vera stefna Samfylkingarinnar að Íslendingar skilgreini samningsmarkmið sín, fari fram á viðræður um aðild að Evrópusambandinu og að hugsanlegur samningur verði síðan lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar?“ Megnið af umræðunni snerist á sínum tíma um að það væri um eitthvað raunverulegt að semja og sem kunnugt er hélt Össur Skarphéðinsson þess háttar sjónarmiðum stíft fram. Það er því ágætt að Samfylkingin hafi á tveimur áratugum lært að það er ekki um neitt að semja nema hugsanlega einhverjar tímabundnar og afmarkaðar undanþágur sem skipta litlu máli til lengdar. Hins vegar yrðum við að hraða allri regluaðlögun um leið og möguleg umsókn yrði send inn að nýju.


Asni klyfjaður gulli

Margir muna þá tíð þegar styrkir til þarfra verka tóku að streyma frá Evrópusambandinu til landsins.  Íslendingar höfðu sótt um aðild, mikið lá við að smyrja það ferli og hvað er betra til þess en gull og evrur?

Nú berast fréttir af hliðstæðu flæði peninga.  Hveragerði fær háa upphæð til að hreinsa skólp.   Hveragerði er eflaust í hópi ríkari sveitarfélaga í Evrópu og miklu ríkara en fátæku sveitarfélögin í Búlgaríu.   Hverju er þá svarað þegar Búlgarinn spyr hverju þetta sæti?  Jú, þetta er stofnkostnaður.  Þegar Hvergerðingar eru komnir inn verður það þeirra hlutverk að borga.

https://www.visir.is/g/20242664254d/stor-styrkur-i-hveragerdi-fra-evropusambandinu


Gullmolar á nýju ári

Stefán Karlsson heitir maður.  Hann er stjórnmálafræðingur sem hefur getið sér gott orð fyrir kennslu og ekki er hann ónýtur penni.

Stefán skrifar í Morgunblaðið um fullveldi Íslands og þar er nokkurt samsafn gullmola.  Hann tekur hugmyndina um að "deila fullveldi" í nefið með stuttri spurningu:

Spyrja má hvað Íslendingar hafa með það að gera að eignast hlutdeild í fullveldi Þýskalands.

Það er nefnilega ekki aðeins þannig að hlutur Íslands í fullveldi Þýskalands yrði svo lítill að hann skipti engu máli, heldur hafa Íslendingar ekkert með hann að gera. 

Stefán ræðir í sömu grein þá staðreynd, sem sumir vilja gera sem minnst úr, að Evrópusambandið stefnir opinberlega á sífellt meiri samruna og að verða eitt stórt ríki. Það er reyndar komið býsna langt í þá átt. Í stórríkinu verður lögð áhersla á að draga úr menningarmuni.  Þannig er saga þeirra sem ráða ferðinni, Þjóðverja og Frakka.  Um þetta segir Stefán:

Stefnt verður að því að koma á yfrþjóðlegri alríkismenningu sem m.a. byggist á því að fækka tungumálum. Sterkum áróðri verður haldið uppi til að sýna fram á að lítil menningarsamfélög séu úrelt enda Þrándur í Götu einingarhugsjónar Evrópuríkisins. Það liggur beint við að álykta að í víðlendri margra hundraða milljóna ríkisheild verði talið of kostnaðarsamt og óarðbært, dýrt sport og fortíðarhyggja að halda við litlum málsamfélögum. 

Þetta er því miður að öllum líkindum laukrétt.  Á meðan verið er að ná afgangnum af þjóðunum inn og koma samrunaferlinu í höfn hentar auðvitað ekki að hafa hátt um þessi mál, en það örlar á þeim, t.d. þegar rætt er um að fækka þurfi opinberum tungumálum í Evrópusambandinu.

https://www.facebook.com/photo/?fbid=10162600163297905&set=gm.790497916576168&idorvanity=439592811666682 

 


Nýtt ár

Heimssýn óskar landsmönnum öllum gæfu og gengis á nýju ári.  Megi það verða gott og gjöfult fyrir heimsbyggð alla.


Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.1.): 367
  • Sl. sólarhring: 486
  • Sl. viku: 2959
  • Frá upphafi: 1181131

Annað

  • Innlit í dag: 311
  • Innlit sl. viku: 2644
  • Gestir í dag: 289
  • IP-tölur í dag: 286

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband