Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2025

Frumvarp Þorgerðar Katrínar um bókun 35 – stærra en Icesave og þriðji orkupakkinn?

Í nýlegri færslu færslu vakti Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur, athygli á frumvarpi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um svokallaða bókun 35 við EES-samninginn. Hann heldur því fram að málið sé í raun umfangsmeira og afdrifaríkara en bæði Icesave-deilan og innleiðing þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Sú afstaða kallar á nánari skoðun – og ekki síður á lýðræðislega umræðu um lagalegan grundvöll og forræði innlendrar löggjafar. Frumvarpið og lagalegur forgangur EES-regluverks Samkvæmt því sem Hjörtur bendir á felur frumvarpið í sér að allt regluverk frá Evrópusambandinu, sem tekið hefur verið eða verður tekið upp í gegnum EES-samninginn, skuli hafa forgang fram yfir almenn íslensk lög. Hér er því lagt til að komið verði á lagalegri forgangsreglu sem byggir ekki á því hvort lög séu nýrri eða sértækari – heldur einvörðungu á uppruna þeirra í EES-kerfinu. Ef þetta yrði að lögum væri verið að festa slíka stöðu í íslenskan rétt með ótvíræðum hætti – og þar með að vissu leyti að setja evrópska lagasetningu ofar vilja Alþingis. Hjörtur bendir á að slík breyting brjóti í bága við þá grundvallarreglu að Alþingi ráði för í innlendri löggjöf og varpar jafnframt fram þeirri spurningu hvort hér sé í raun um að ræða fyrirframgefna uppgjöf í stað þess að láta á málið reyna fyrir dómstólum. Ákvarðanataka eða sjálfviljug undanhald? Eitt af því sem vekur sérstaka athygli í umfjöllun Hjartar er sú fullyrðing að ef frumvarpið næði ekki fram að ganga væri enn opinn möguleiki á að málið færi fyrir EFTA-dómstólinn og þar gæti niðurstaðan hugsanlega fallið Íslandi í vil. Með frumvarpinu væri hins vegar búið að afsala sér þeim möguleika og dómaforræði án þess að reyna á lagalega túlkun samningsins með formlegum hætti. Í því ljósi má efast um þá fullyrðingu að frumvarpið sé ætlað til að tryggja íslenskt forræði í EES-málum. Ef niðurstaðan felur í sér að Alþingi verði bundið af forgangi evrópsks réttar, án þess að möguleiki sé til lagalegrar endurskoðunar, hljómar það fremur sem veiking innlendrar ákvarðanatöku en styrking. Lýðræðisleg áhrif og skortur á umræðu Hjörtur dregur enn fremur fram að sú breyting sem frumvarpið boðar myndi ná til alls regluverks framtíðarinnar ekki aðeins innistæðutrygginga eða orkumála eins og í fyrri deilum. Því má með réttu spyrja hvort hér sé um að ræða stærsta stjórnarfarslega álitamálið í tengslum við EES frá upphafi. Ef svo er, þá er það athyglisvert og að sama skapi áhyggjuefni, hversu takmörkuð opinber umræða hefur enn sem komið er átt sér stað um frumvarpið.


Hvers vegna ætti Evrópusambandið að refsa Íslandi?

Í pistli Hjartar J. Guðmundssonar á stjornmalin.is frá 10. apríl, undir yfirskriftinni:  Hvers vegna ætti ESB að refsa okkur er fjallað um viðtalið við Lilju Alfreðsdóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra, sem Heimsýnar bloggið sagði frá í gær. Lilja Dögg benti réttilega á að Ísland hafi enga aðkomu að yfirstandandi tollastríði og að það væri fráleitt að sambandsríki í Brussel beindu viðurlögum gegn Íslandi: „Það er ekki eins og við séum að setja refsitolla á það,“ segir hún, og bætir við að Evrópa ætti ekki að svara í sömu mynt og Bandaríkin. Slíkt myndi aðeins leiða til stigmögnunar og skaða alþjóðahagkerfið. Hjörtur tekur þetta röklega mat Lilju upp á næsta stig og bendir á stærra samhengi: Að Evrópusambandið sé síður en svo saklaust þegar kemur að efnahagslegum þvingunum. Hann rifjar upp að ESB hafi ítrekað hótað eða beitt slíkum aðgerðum – og nefnir sérstaklega makríldeiluna sem dæmi um slíka framgöngu. Orðrétt segir Hjörtur: Til að mynda í makríldeilunni vegna veiða á makríl í okkar eigin efnahagslögsögu. Þá beitti sambandið Færeyinga refsiaðgerðum um árið vegna síldveiða þeirra í sinni lögsögu. Langur vegur er þannig frá því að Evrópusambandið hafi efni á því að gagnrýna aðra fyrir það að hóta vinaþjóðum efnahagsþvingunum í trássi við gerða samninga. Evrópusambandið hefur einnig beitt sambærilegum þrýstingi gegn Sviss í tengslum við samningsviðræður um framtíðarsamskipti aðila. Þegar Sviss neitaði að samþykkja yfirráð ESB-dómstólsins yfir tvíhliða samningum, brást sambandið við með beinum aðgerðum: ESB neitaði að viðurkenna áfram hlutdeild svissneskra kauphalla í evrópskum fjármálamarkaði (svokallað equivalence) árið 2019. Jafnframt lét sambandið ákveðna samninga renna út án endurnýjunar m.a. á sviði heilbrigðismála sem hafði bein áhrif á svissneska framleiðendur og aðgang þeirra að innri markaðinum. Markmið þessara aðgerða var augljóslega að beita efnahagslegum þrýstingi til að knýja fram pólitíska undirgefni. Hótanir, þögn og þrýstingur Þótt Evrópusambandið hafi ekki formlega hótað Íslandi refsitollum í tengslum við tollastríð við Bandaríkin, þá vekur það spurningar að sambandið hafi ekki heldur útilokað slíkt. Sú afstaða – að láta í veðri vaka að Ísland gæti lent í þvingunum skapar óvissu og getur haft sambærileg áhrif og bein hótun. Langur vegur er þannig frá því að Evrópusambandið hafi efni á því að gagnrýna aðra fyrir það að hóta vinaþjóðum efnahagsþvingunum,“ skrifar Hjörtur í lok pistilsins – og það er sannarlega setning sem vert er að hafa í huga þegar rætt er um framtíðarstöðu Íslands gagnvart ESB.


Lilja Dögg gagnrýnir umræðu um mögulega refsitolla frá ESB

Í nýlegri umræðu á vettvangi Spursmála vakti Lilja D. Alfreðsdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, athygli á því sem hún telur vera villandi og jafnvel hræðsluáróður í tengslum við mögulega Evrópusambandsaðild Íslands. Hún sagði það sérstakt að heyra íslenska ráðamenn tala eins og hætta væri á því að Evrópusambandið myndi beita Ísland refsitollum og spurði einfaldlega: Af hverju ætti Evrópusambandið að gera það?

Spurningin um refsitolla
Lilja telur þessar vangaveltur byggðar á veikri eða engri röksemdafærslu. Ísland sé ekki að beita ESB neinum refsiaðgerðum og engar vísbendingar séu um að ESB hyggist beita slíku móti. Hún óttast að slík umræða sé meðvituð leið til að skapa ótta hjá almenningi og fá þjóðina til að líta á ESB aðild sem "nauðsynlega vörn" gegn einhverju sem ekki hefur átt sér stað.

"Það sem ég vara við er að stjórnvöld fari að nýta þetta til þess að hræða þjóðina inn í það að við verðum að fara inn í Evrópusambandið af því að annars sé Evrópusambandið að fara að setja refsitolla á Ísland" sagði hún.

Viðbrögð við tollastríði
Í samtalinu kom einnig fram gagnrýni Lilju á viðbrögð við tollastefnu Donalds Trump. Hún telur að Evrópa ætti ekki að svara tollum Trumps með eigin aðgerðum, því slíkt gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir alþjóðaviðskiptakerfið. Stigmögnun viðskiptaþrýstingsins gæti valdið hnignun í hagkerfum, minnkandi viðskiptum og lakari lífskjörum á alþjóðavísu.

Ísland sem smáríki í flóknum heimi
Lilja bendir á að Ísland sé lítið ríki sem þurfi að gæta sín sérstaklega í flóknu alþjóðlegu umhverfi. Markaðsaðgengi skipti öllu máli fyrir íslenska vöruútflutninginn og þar með fyrir lífskjörin. "Við erum bara peð á þessu stóra taflborði alþjóðaviðskipta," sagði hún og lagði áherslu á að hagsmunagæsla yrði að byggja á yfirvegun og skýrri stefnu en ekki á ótta.

"Ef við höfum ekki gott markaðsaðgengi þá verða þessi lífskjör sem við erum vön í dag ekki hin sömu."


Kristrún hér er nesti til Brussel!

Þau skoðanasystkin og forsætisráðherra frænd og vinaþjóðanna Íslands og Noregs, Kristrún Frostadóttir og Jonas Gahr Støre hafa bæði reimað á sig sína skó og haldið til Brussel til að biðja um að lenda ekki að ósekju á milli ESB og USA í yfirastandandi tollastríði. En við kjósendur biðjum ykkur að bera höfuðið hátt og fara ekki bónleiðina og slíta ekki "maríunum" ykkar að óþörfu, heldur einfaldlega minna á það sem okkur ber samkvæmt samningum sem ber að virða.

Erna Bjarnadóttir fyrrum formaður Heimssýnar og hagfræðingur ritar grein um þetta í skoðanadálkinn á visir.is í gær undir yfirskriftinni: Ekki biðja um undan­þágur heldur krefjast réttar sam­kvæmt EES-samningnum. 

Grein Ernu á Visir.is


Bara upp á punt

Undarlegar fréttir berast af samskiptum Noregs og Íslands við Evrópusambandið.  Svo virðist sem einhver í sambandinu telji heppilegt að berja á Bandaríkjaforseta með því að tolla vörur frá Íslandi og Noregi. 

Sá hefur líklega aldrei heyrt af EFTA og EES, eða lítur svo á að þeir séu bara merkingarlaust skraut.

Kannski ætlunin sé að nota tækifærið til að þröngva Íslendingum og Norðmönnum inn í bandalagið, nú sé lag að fá einhvern til að borga reikningana. 

https://www.ruv.is/frettir/erlent/2025-04-07-thurfum-ad-hjalpa-evropusambandinu-ad-rettlaeta-undanthagu-islands-og-noregs-440974


Bara ef við hefðum gengið í sambandið....

Evrópusambandið bráðvantar peninga.  Það vill auka nýsköpun og allt mögulegt fleira.  Þetta fleira er að efla hergagnaframleiðslu.   Evrópusambandið hefur ekki sama svigrúm og flest ríki til að hækka skatta.  Tollar renna hins vegar að mestu leyti til sambandsins. 

Þess vegna er ekki víst að Evrópusambandinu finnist mjög leiðinlegt að fara í tollastríð.

Ef Ísland væri í Evrópusambandinu mundu þeir tollar leggjast langtum þyngra á Íslendinga en meðaljóna í Evrópusambandinu.  Íslendingar flytja nefnilega mikið inn frá Bandaríkjunum. 

Ef Ísland væri í Evrópusambandinu væri með öðrum orðum verið að ræsa færiband sem flytti fjármuni frá Íslendingum í sjóði hergagnaframleiðenda í Evrópu.   Nóg er nú samt.

 


Skynsemin ræður í Noregi

Norska stjórnmálastéttin hefur jafnan verið áhugasamari um að koma Noregi í Evrópusambandið, en hinn almenni kjósandi í Noregi.  Líklega ráða þar atvinnutækifæri sem tengjast stéttinni nokkru, kannski miklu. 

Félagsþroski í Noregi er þó á köflum svo mikill að valdamönnum dettur ekki í hug að sæja um aðild, eina ferðina enn, nema fyrir liggi viðvarandi og traust meirihlutafylgi hjá þjóðinni fyrir slíkum gjörningi. 

Alveg væri nú ágætt ef valdamenn á Íslandi gætu sýnt sama þroska. 

https://stjornmalin.blog.is/blog/stjornmalin/entry/2312851/

 


Bókun 35 - nokkur atriði sem Alþingi ætti að ræða

Bókun 35 er á leið til umræðu á Alþingi. 

Ótalmörgum spurningum er ósvarað.  Hvaða gildandi lög hefur bókunin áhrif á?  Hvers vegna skipti utanríkisráðuneyti skyndilega um skoðun í málinu?  Hvers vegna gekk bókun 35 gegn stjórnarskrá árið 1993 en ekki árið 2025? Hví líta sumir svo á að stjórnarskráin sé aukaatriði þegar kemur að fyrirmælum frá Frakklandi, Þýskalandi og þeirra fylgiríkjum?

Þessar spurningar og ótalmargar aðrar verða ugglaust til umræðu í sölum Alþingis á næstunni. 

Gæti verið að það væri best að leyfa bókun 35 að liggja áfram í því salti sem hún hefur verið í undanfarin 30 ár og snúa sér að þarfari verkum?

 

 

 

1. Bókun 35 geirneglir kerfi sem er á afar gráu svæði gagnvart stjórnarskrá og hugmyndum alls þorra fólks á Íslandi um lýðræði. Kerfið gengur út á að færa dóms- og einkum löggjafarvald í sívaxandi mæli til embættismanna erlends ríkjasambands.

2. Bókun 35 stenst ýmist ekki eða líklega ekki stjórnarskrá að rökstuddu mati margra helstu stjórnspekinga landsins, þar á meðal fv. forseta hæstaréttar og háskólamanna í lögum. Sama sögðu sérfræðingar utanríkisráðuneytis árið 2020 og núverandi innviðaráðherra í fyrra. (sjá t.d. umsagnir Hjartar J. Guðmundssonar og Arnars Þórs Jónssonar sem eru á https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalin/erindi/156/85/?ltg=156&mnr=85). Óþarfi ætti að vera að minna Alþingismenn á að þeir hafa svarið eið að stjórnarskrá lýðveldisins, en skal það samt gert hér.

3. EES-samningurinn hefði að öllum líkindum aldrei verið samþykktur með bókun 35 innanborðs. Það eru mjög vond og óeðlileg vinnubrögð að koma valdaframsali í gegnum Alþingi með því að kippa framsalið í litla búta og þröngva þeim svo einum og einum í gegn.

4. Bókun 35 er ný forgangsregla sem setur lagasafn Íslands í uppnám. Hvaða lög falla úr gildi? Það er vægast sagt óljóst Mun fyrirvari um sæstreng í lögum um orkumál verða að engu, svo dæmi sé tekið? Áður en Alþingi samþykkir bókun 35, standi vilji til þess, þarf að svara spurningum af þessu tagi.

5. Bókun 35 flækir stjórnkerfi Íslands. Það er dýrt og það gerir óinnvígðum enn erfiðara að átta sig á hvað gildir og hvað ekki.

6. Það er óljóst hver hin raunverulega ástæða er fyrir því að utanríkisráðuneytið leggur allt í einu svona mikla áherslu á að Alþingi samþykki bókun 35. Fjarvera bókunar 35 í þá 3 áratugi sem EES hefur verið í gildi hefur ekki verið til teljandi vandræða og það er líka vandræðalaust að leyfa málinu að fara fyrir dóm, sé það vilji þeirra sem ráða í Brussel.

7. Meirihluti þjóðarinnar er andvígur bókun 35, skv. skoðanakönnun Prósents í september 2024. Núverandi ríkisstjórn hefur sagt að mikilvægt sé að leyfa þjóðinni að ráða í svokölluðum Evrópumálum. Nú er ágætt tækifæri til þess.

 

https://www.visir.is/g/20252703654d/nokkur-atridi-i-orstuttu-mali-vardandi-bokun-35


Nei, ekki aka út af!

Bandaríkjamenn eru í tollastríði við Evrópusambandið.  Þeir leggja 20% toll á vörur frá sambandinu. Sá tollur hefði getað orðið 40% eða 60% og verður það kannski á morgun.

Evrópusambandið á í blóðugri styrjöld í A-Evrópu og vill bæta í þann rekstur. Allir innanbúðarmenn eru kallaðir a dekk. Andstæðingurinn virðist njóta stuðnings Bandaríkjanna, og reyndar margra fleiri. 

Sjaldan hefur á síðari árum verið eins skýrt hversu miklvægt er að stjórnvald á Íslandi haldist á Íslandi og sé í umboði þeirra sem þar búa. 

Hvað er þá fáránlegra en að samþykkja bókun 35 sem færir vald frá Íslandi til Evrópusambandsins?

 

Jón Bjarnason ritar, sem fyrr, ágætlega um þessi mál:

https://jonbjarnason.blog.is/blog/jonbjarnason/


Stundir sannleikans renna upp

Ef Ísland væri í Evrópusambandinu væri nú efnahagslegt uppnám á Íslandi, vegna tolla í viðskiptum við Bandaríkin. 

Það væri þó bara upphafið.  Boðaðir eru tollar á innflutning frá Bandaríkjunum til Evrópusambandsins.  Ef Ísland væri þar innanborðs færu þeir peningar að langmestu leyti í sjóði sambandsins, en ekki í sjóði íslenska ríkisins.

Ýmsar sveitir í Evrópusambandinu eiga lítil viðskipti við Bandaríkin, og kannski skiptir svona lagað ekki höfuðmáli á þeim bæjum.  Íslendingar eiga hins vegar mjög mikil viðskipti við Bandaríkjamenn og þau skipta miklu máli í íslenskum efnahag. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 9
  • Sl. sólarhring: 123
  • Sl. viku: 1257
  • Frá upphafi: 1215340

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 1111
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband