Leita í fréttum mbl.is

Alvarlegar afleiðingar atvinnuleysis

Gudbjorg Linda RafnsdottirAfleiðingar atvinnuleysis geta verið mjög umfangsmiklar og alvarlegar. Þær eru ekki bara fjárhagslegar, heldur einnig félagslegar og heilsufarslegar. Í sumum evrulöndunum er nú talað um týndu kynslóðina, því stór hluti hennar hefur litla eða enga vinnu fengið. 

Neiesb.is birtir viðtal við Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, sem greinir í viðtalinu frá ýmsum athyglisverðum niðurstöðum rannsókna á afleiðingum atvinnuleysis.

Viðtalið á vef Nei.esb.is er birt hér í heild sinni:

„Þetta er orðið svakalegt ástand í atvinnumálunum víða í Evrópu ekki síst fyrir ungt fólk sem kemst ekki inn á vinnumarkaðinn“, segir Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands í samtali við neiesb.is, en blaðamaður neiesb.is hafði samband við hana til að ræða áhrif langvarandi atvinnuleysis. Guðbjörg Linda hefur gert rannsóknir á stöðu fólks á vinnumarkaði og á vinnutengdri líðan.

Guðbjörg Linda segir að tala megi um þríþættar afleiðingar langvarandi atvinnuleysis. Í fyrsta lagi séu afleiðingarnar fjárhagslegar, í öðru lagi heilsufarslegar og í þriðja lagi félagslegar. „Fjárhagslegar afleiðingar eru það sem fólk þekkir kannski best, þær liggja í augum uppi. Jafnvel þótt fólk fái atvinnuleysisbætur, þá er langvarandi atvinnuleysi boðberi fátæktar“ segir Guðbjörg og bætir við: „En það sem minna er fjallað um er að vinnan hefur sterk áhrif á sjálfsmynd einstaklinga. Það að komast á vinnumarkað er partur af því að verða fullorðinn, ekki síst á Íslandi þar sem atvinnustigið hefur verið hátt og almennur dugnaður verið tengdur því að vera duglegur að vinna.“

„Þegar fólk lendir í langvarandi atvinnuleysi, þá verður sjálfsmynd þess fyrir miklum hnekk. Vissulega getur það farið eftir aldri og stöðu hversu alvarlegar afleiðingarnar verða. En það er þekkt að þessi hópur finnur oft fyrir miklu eirðarleysi, svefnvandamálum, þunglyndi og kvíða. Og þegar atvinnuleysið á sér stað í langan tíma þá getur þetta orðið vítahringur sem fólk kemst illa út úr.“

Fólk á það til að einangra sig og verða framtakslaust. Það upplifir ákveðna skömm og finnst það hljóti að vera eitthvað mikið að hjá því sjálfu. Fólk hættir því gjarnan smám saman að sækja um vinnu, því það er óöruggt og búið að missa trúna á sjálfum sér. Og ef þessu fólki býðst þrátt fyrir allt starfsviðtal, þá kemur það oft illa út úr því viðtali, því það telur fyrirfram að því verði hafnað“. „Það tekur yfirleitt ekki langan tíma fyrir fólk að brotna á þennan hátt“ segir Guðbjörg Linda.

„Í þessari stöðu þróar ungt fólk jafnvel með sér andfélagslega hegðun, fer að misnota áfengi og önnur vímuefni og leiðist út í svokallaðan „slæman félagsskap“. Það hefur misst trúna á framtíðinni, misst trúna á samfélaginu og á sjálfum sér“.

Guðbjörg Linda bendir jafnframt á að tengsl atvinnuleysis og áfengisneyslu sé einnig þekkt hjá eldri aldurshópum. Þá aukast líkurnar á sambandsslitum og hjónaskilnuðum í kjölfar aukins andlegs álags og fjárhagsáhyggja sem atvinnuleysinu fylgir.

Tengsl langvarandi atvinnuleysis og heilsufarsvandamála
Guðbjörg Linda segir að sálin og líkaminn séu svo nátengd að algengt sé að það bresti eitthvað líkamlega hjá fólki sem líður illa andlega. Það útskýri meðal annars það að fólk sem þarf að þola langvarandi atvinnuleysi endi oft á örorkubótum, ekki eingöngu vegna andlegra kvilla, heldur og líkamlegra. En hún segir: „Það eru hreinlega sterk tengsl á milli lélegs heilsufars og langtíma atvinnuleysis. Það ríkir ákveðin goðsögn í samfélaginu um að atvinnulaust fólk vilji fara á örorkubætur til þess eins að sleppa við takmarkanirnar sem fylgir atvinnuleysisbótum. En það er í fáum tilvikum þannig. Aukning örorkuþega á tímum atvinnuleysis skýrist aðallega af því að langvarandi atvinnuleysi gerir fólk hreinlega veikt. Við höfum ótal dæmi sem sýna það. Að auki þá sjáum við einnig að þeir sem standa höllum fæti á vinnumarkaði, meðal annars vegna heilsubrests, eru líklegir til að missa fyrr vinnunna en aðrir“.

Mikið atvinnuleysi hefur einnig slæm áhrif á fólk sem er á vinnumarkaði
„Svo er annað sem mér finnst lítið hafa verið fjallað um, en það er að ef við búum við mikið atvinnuleysi, þá búum við einnig við aukið óöryggi á vinnumarkaði. Fólk sem hefur vinnu óttast að einn góðan veðurdag þá missi það sjálft vinnuna. Sá ótti sem það hefur í för með sér getur veikt samningsstöðu einstaklinga og eykur jafnvel líkurnar á að hægt sé að brjóta á þeim lögvörðu réttindum sem fólk annars hefur“, segir Guðbjörg.

„Ef þú hefur unnið náið með fólki sem var sagt upp þá getur þér liðið mjög illa, verið með samviskubit yfir því að halda vinnunni meðan félögunum var sagt upp, auk þess sem það sækir á þig að þú sért áreiðanlega næst eða næstur. Við sáum þetta á Íslandi eftir bankahrunið, þar sem fólk á öllum aldri missti vinnuna. Vinnutengd vanlíða jókst meðal starfsfólks sem þó hélt vinnunni á stöðum sem urðu illa úti í hruninu“.

Að festast í fátækt
„Í Evrópu sjáum við aðra og þriðju kynslóð fólks sem er atvinnulaust og það er aðeins farið að glitta í það hér á landi. Þetta er fátæktargildra. Langvarandi atvinnuleysi er auk þess dýrt fyrir samfélög þar sem færri eru þá til þess að standa undir velferðarkerfinu með því að greiða tekjuskatt og útsvar.“

Guðbjörg Linda segir það því vera aðal skyldu stjórnvalda að tryggja hátt atvinnustig til að koma í veg fyrir það mein sem mikið og langvarandi atvinnuleysi hefur í för með sér fyrir einstaklinga og samfélög.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 157
  • Sl. sólarhring: 272
  • Sl. viku: 1210
  • Frá upphafi: 1118270

Annað

  • Innlit í dag: 151
  • Innlit sl. viku: 1071
  • Gestir í dag: 144
  • IP-tölur í dag: 142

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband