Leita í fréttum mbl.is

Hvaða hagur er af krónunni?

esbneitakkÞað er ótvíræður hagur af því að hafa eigin gjaldmiðil. Vissulega fylgja bæði kostir og gallar hverju fyrirkomulagi, en allar helstu skýrslur sem skrifaðar hafa verið um þessi mál hér á landi síðustu áratugi komast að þeirri niðurstöðu að þegar litið sé á málin í víðu samhengi sé hentugra fyrir Íslendinga að hafa eigin gjaldmiðil fremur en að vera með gjaldmiðil á borð við evru.

Tímaritið Vísbending undir ritstjórn Benedikts Jóhannessonar birtir grein á forsíðu fyrir viku síðan undir heitinu Hvað kostar að hafa krónuna? Þar eru rakin nokkur atriði, m.a. úr skýrslu Seðlabanka Íslands frá því síðasta haust, en nær einungis þau sem gætu bent til ókosta við að hafa eigin mynt. Það er nánast ekkert fjallað um ókostina við hugsanlega evruupptöku eða kostina við krónuna.

Reyndar er athyglisvert hjá ritstjóranum að fullyrða að útilokað sé að taka upp annan gjaldmiðil nema verðbólga sé svipuð hér á landi og á heimasvæði þess gjaldmiðils sem ætlunin er að taka upp. Þarna hittir ritstjórinn á vissan hátt naglann á höfuðið og vísar óbeint til þess grunnvallarvanda sem evrusvæðið á við að glíma. Þar hefur verðbólga verið með ólíkum hætti, t.d. í Þýskalandi og á svokölluðum kjarnasvæðum evrunnar annars vegar og á jaðarsvæðunum hins vegar. Það er ein helsta ástæðan fyrir mismunandi samkeppnisstöðu, misvægi í utanríkisviðskiptum ríkjanna og mismunandi eigna- og skuldaþróun. Það má telja nokkuð víst að verðbólga yrði með öðrum hætti hér á landi en í öðrum evrulöndum ef við yrðum með evru og það myndi skapa vissa erfiðleika. Ritstjórinn virðist hins vegar snúa blinda auganu að þeim þætti.

Önnur fullyrðing sem evrusinnar jafnan viðhafa er sú að krónan sé ónýt sem gjaldmiðill. Því er til að svara að þrátt fyrir fjármagnshöft hér á landi í kjölfar fjármálakreppunnar þá finnur almenningur og langflest fyrirtæki lítið fyrir höftum og krónan virkar alveg ágætlega sem greiðslumiðill, meira að segja betur en evran á Kýpur þar sem sparifé fólks er í höftum. Vissulega eru ýmsir fjárfestar heftir nú, sem áður gátu flutt fé á milli landa, en kostnað þeirra verður að vega á móti þeim ábata sem almenningur hefur af þeim stöðugleika sem fjármagnshöftin veita eftir ólgusjó fjármálakreppunnar.

Skiptakostnaður við krónuna óverulegur
Þá er komið að efnisatriðunum. Fyrst talar ritstjórinn um að svokallaður skiptakostnaður við krónuna, þ.e. að þurfa að skipta úr einni mynt yfir í aðra, sé á bilinu 5-15 milljarðar króna. Hér má minna á, eins  og fram kemur í nýlegri gjaldmiðlaskýrslu Seðlabankans, að skiptakostnaður af þessu tagi hefur víðast hvar minnkað veruleg á síðustu áratugum. Þegar Danir höfnuðu evrunni í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir nokkrum árum var það meðal annars vegna þess að þeir töldu þennan kostnað vera svo óverulegan að hann skipti engu máli þegar metið væri hvort taka ætti upp evru eða ekki. Auk þess er þetta ekki nettókostnaður sem þarna er reiknað með, heldur brúttó. Skiptikostnaður vegna viðskipta er nefnilega um leið tekjur fyrir aðila í innlendri fjármálastarfsemi, þannig að nettókostnaður fyrir samfélagið er miklu minni – og líklega það lítill að hann skiptir ekki máli.

Annað atriði sem ritstjóri Vísbendingar nefnir er að krónan sé hindrun á erlenda fjárfestingu. Vissulega getur smæð hagkerfis og lítt útbreiddur gjaldmiðill haft sín áhrif. Það hefur þó ekki komið í veg fyrir áhuga ýmissa erlendra aðila á að fjárfesta hér í framleiðslufyrirtækjum, landi og hlutabréfum í gegnum tíðina. Vissulega mætti fjárfesting vera meiri hér sem stendur, en of mikil fjárfesting gæti líka komið okkur í koll eins og við sáum á uppgangstímum fyrir bankakreppuna þegar lánsfé var almennt ódýrt um allan heim vegna of lágra vaxta.

Utanríkisviðskipti í nokkrum evrulöndum hafa verið í kreppu 
Þriðja atriðið sem ritstjórinn nefnir er að utanríkisviðskipti gætu aukist um 70 milljarða króna með því að hafa evru.  Ekki kemur fram hvort hér ætti að vera um nettóaukningu að ræða eða hvort höfundur reikni með að framleiðsluvörur væru fluttar milli landa til að bæta við örlitlu skrefi við í framleiðslunni og flytja svo aftur út til þess að fullvinna annars staðar, líkt og er einkennandi fyrir Holland og Belgíu, þar sem utanríkisviðskipti mælast brúttó meira en landsframleiðslan. Slíkt væri ótrúlegt miðað við fjarlægð Íslands frá öðrum löndum. Auk þess má í þessu samhengi minna á að útflutningur hefur minnkað hlutfallslega frá ýmsum jaðarsvæðum evrunnar og þau átt við þrálátan viðskiptahalla að glíma. Það sýnir að varasamt er að nota hrá líkön í hagfræði til að reyna að spá fyrir um þróun að þessu leyti.

Fjórða atriðið sem ritstjórinn nefnir er að með evru fengjum við lægri raunvexti. Það kann að vera að raunvextir yrðu eitthvað lægri, en í því sambandi má minna á að vextir og verðbólga, og þar með raunvextir, eru með mjög misjöfnu móti á evrusvæðinu. Trúin var sú fyrir upptöku evrunnar að vextir og verðbólga, og þar með raunvextir, myndu leita í sama farið. Þetta virtist vera að gerast um það leyti sem evran var tekin upp og fyrst á eftir, en síðustu árin fyrir fjármálakreppuna og síðustu ár hefur þróunin verið í ólíka átt þannig að raunvextir hafa verið með ólíku móti. Auk þess má benda á að hér gildir það sama og er varðar skiptakostnað vegna gjaldmiðils, að kostaður eins er að jafnaði tekjur annars, þannig að nettókostnaðurinn fyrir samfélagið er væntanlega mjög lítill, ef nokkur.

Ýkjur Vísbendingar 
Með því að leggja saman ýktar tölur um kostnað vegna ofangreindra atriða fær ritstjóri Vísbendingar út álitlega summu sem ýmsir fjölmiðlar og bloggarar hafa endurómað síðustu daga. Ritstjórinn gerir sig þó ekki aðeins sekan um að ýkja mögulegan kostnað við krónuna, heldur lítur hann algjörlega fram hjá þeim hag sem af henni er.  Til dæmis gerir sjálfstæð mynt það að verkum að við þurfum ekki hér á landi að lækka nafnlaun starfsmanna með sama hrikalega hættinum og gert hefur verið í nokkrum evrulöndum, og auk þess að reka stóran hluta starfsmanna. Krónan hefur í leiðinni gert það að verkum að viðskiptahallinn hefur horfið og að við höfum nú afgang af venjulegum viðskiptum til að greiða af okkar erlendu skuldbindingum. Hún gerir það í leiðinni að atvinna er að vaxa. Værum við með evru hefði viðskiptahalli að líkindum verið mun stærra vandamál, hér væri minni hagvöxtur og minni atvinna. Það þarf varla að minna á að í sumum jaðarlöndum evrusvæðisins er atvinnuleysi um 28% og um helmingur yngstu aldurshópanna á vinnumarkaði er án atvinnu.

Sjálfsagt kemur að því að Vísbending fjallar einnig um hag okkar Íslendinga af því að hafa krónuna sem sjálfstæðan gjaldmiðil. En spurningin er bara hvort ritstjórinn, sem er einn helsti talsmaður þess hér á landi að Ísland eigi að taka upp evruna, hafi nokkurn áhuga á slíku?

En svo vikið sé að spurningunni í upphafi þá er svarið það að hagur af krónunni er m.a. sá að hér er hagvöxtur og atvinna á uppleið og viðskiptahalli er horfinn á meðan þessu er þveröfugt varið í vandræðalöndum evrunnar. Við erum líka frjáls af því að stýra okkar málum á sjálfstæðan hátt, t.d. er varðar úrvinnslu skulda- og eignamála bankanna, en þurfum ekki að lúta forræði ESB í þeim efnum. Það munar um það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 297
  • Sl. sólarhring: 311
  • Sl. viku: 2777
  • Frá upphafi: 1164984

Annað

  • Innlit í dag: 258
  • Innlit sl. viku: 2387
  • Gestir í dag: 234
  • IP-tölur í dag: 233

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband