Má þar nefna að ný reglugerð um verndarráðstafanir varðandi innflutning á samlokum frá Tyrklandi sem eru ætlaðar til manneldis gekk í gildi á Íslandi hinn 22. september sl.
Fram kemur í Stjórnartíðindum ESB að um sé að ræða bivalve molluscs, eða samlokur sem samheiti yfir flokk lindýra, þ.e. skelfisk.
Ástæða bannsins er sú að tyrkneskar samlokur hafa ekki uppfyllt kröfur um hreinlæti. Er því lagt bann við innflutningi á tyrkneskum samlokum til ríkja Evrópusambandsins og EES-svæðisins.
Skilyrði um karrílauf
Annað dæmi er ný reglugerð um sérstök skilyrði fyrir innflutningi á okru og karrílaufi frá Indlandi.
Þriðja dæmið er reglugerð um aukaefni í matvælum, að því er varðar notkun á natrínfosfötum (E 339) í náttúrulegar garnir fyrir pylsur og notkun á brennisteinsdíoxíði - súlfítum (E 220-228) í afurðir, að stofni til úr kryddvíni. Þá tók gildi reglugerð um matvæli »sem eru ætluð ungbörnum og smábörnum, matvæli sem eru notuð í sérstökum læknisfræðilegum tilgangi og þyngdarstjórnunarfæði í stað alls annars fæðis,« svo vitnað sé til texta í umræddri reglugerð.
Þegar óskað var upplýsinga hjá Matvælastofnun um tilefni þessara reglugerðarbreytinga var á það bent að hér væru á ferð nokkrar reglugerðir sem jafn marga sérfræðinga þyrfti til að ræða um. Vannst því ekki tími til að ganga frá málinu.
Ólafur Friðriksson, skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, segir aðspurður mikinn tíma fara í það ár hvert innan ráðuneytisins að tryggja að tilskipanir frá ESB séu innleiddar í íslenskar reglugerðir.
Á erfitt með að hafa undan
»Á okkar skrifstofu erum við með einn starfsmann í þessu verkefni. Hann gerir nánast ekkert annað og á fullt í fangi með að hafa undan. Það er í mörg horn að líta. Við þurfum líka að vinna þetta með okkar sérfræðingum hjá Matvælastofnun. Síðan er umtalsverð sérfræðivinna sem fer fram hjá Matvælastofnun og oft á tíðum þyrfti ráðuneytið, og ef til vill líka Matvælastofnun, að hafa meiri mannafla og getu til þess að fylgjast með því hvaða gerðir eru í farvatninu og hverjar eru til meðferðar í sérfræðinganefndum ESB. Þar er kannski pottur brotinn hjá okkur,« segir Ólafur sem telur mikilvægt að geta gert athugasemdir á fyrri stigum.
»Ef við höfum eitthvað sérstakt til málanna að leggja og ef aðstæður hér á landi eru öðruvísi en annars staðar þá þurfum við að koma þeim sjónarmiðum á framfæri þegar viðkomandi reglugerð er í smíðum. Þegar undirbúningsvinna að reglugerðinni fer fram er mikilvægt að koma að með þau sjónarmið sem við höfum. Ef við höfum málefnalegar ástæður, þá eru miklu meiri líkur á því að það sé hægt að taka á því meðan reglugerðin er í smíðum, heldur en eftir að búið er að gefa hana út og innleiða hana meðal aðildarlanda,« segir Ólafur.
»Mjög umfangsmikil löggjöf«
Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar, segir innleiðingu tilskipana frá ESB í þeim málaflokkum sem varða störf stofnunarinnar alfarið á höndum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.
»Eftirlitið er síðan ýmist hjá okkur eða heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga,« segir Jón og á við eftirlit með framleiðslu dýraafurða. Annað eftirlit á markaði með tilbúnum matvælum sé hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga. »Það mætti eflaust vera fleira fólk í þessum störfum. Þetta er mjög umfangsmikil löggjöf,« segir Jón og svarar því aðspurður til að kröfur um öryggi matvæla aukist sífellt.
Athugasemdir
Við getum alveg sleppt því að fylla reglugerðir okkar af óviðeigandi höftum, eftirliti og rusli sem þvælist bara fyrir öllu venjulegu fólki. Heldur fólk að við getum ekki metið sjálf hvort við kaupum 60W eða 75W peru eða 2500W frekar en 1500W hárþurrku. Verkinu lýkur t.d. fyrr með öflugra tækinu. Okkur ber engin skylda að færa annara þjóða tilskipanir í lög hér nema okkur sýnist svo. ESB myndi ekki rjúfa ESB- samninginn vegna þeirra smáræða og ef þeir gerðu svo, farið hefur þá fé betra.
Ívar Pálsson, 22.10.2014 kl. 17:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.