Leita í fréttum mbl.is

Umsögn Heimssýnar um orkubálkinn

Með þriðja orkulagabálki Evrópusambandsins er stigið stórt skref í framsali á valdi til erlends ríkjasambands sem Ísland á enga aðild að.  Það er sérstakt og mikið áhyggjuefni í ljósi þess að um er að ræða orkumál en orka náttúrunnar er ein af helstu stoðum samfélags á Íslandi.

 

Valdaframsal

Með þriðja orkulagabálknum er stjórnvald framselt til erlends ríkjasambands.  Á það einkum við í tengslum við landsreglarann og hina evrópsku landsreglarastofu (ACER).  Um einstök atriði valdaframsalsins er vísað til álitsgerðar Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst frá 19. mars 2019.

Valdaframsal til erlends ríkis eða ríkjasambands getur orðið afdrifaríkt og það getur reynst mjög torvelt og jafnvel margra kynslóða verk að endurheimta valdið.  Það sýnir reynsla fjölmargra þjóða; þar á meðal Íslendinga.  Hér skal áréttað að ekki er um að ræða alþjóðastofnun sem falið er ákveðið og skýrt verkefni heldur erlent ríkjasamband sem segja má að sé hliðstætt Bandaríkjunum, Sovétríkjunum sálugu eða Kína svo dæmi séu tekin.  Hið erlenda ríkjasamband hefur margháttaða hagsmuni í öllum málum.  Þeir fara stundum saman við hagsmuni Íslendinga en stundum alls ekki.

Löggjöf og allar ákvarðanir hins erlenda ríkjasambands munu ávallt taka mið af hagsmunum sambandsins og aðstæðum í sambandinu en ekki hagsmunum og aðstæðum Íslendinga.  Svo vill til að nánast öll helstu atriði í orkumálum Evrópusambandsins eru ólík því sem er á Íslandi.   Á það við um framleiðslu, dreifingu og tengingar; markað og vægi orkuframleiðslu og orkusölu fyrir samfélagið.  Það væri því mjög sérkennileg niðurstaða að gangast undir vald hins erlenda ríkjasambands og binda hendur stjórnvalda á Íslandi í þessu mikilvæga máli um ókomna tíð.

 

Fyrirvarar

Tillagan sem um ræðir er, eins og hún birtist á vef Alþingis, án nokkurs fyrirvara.  Ljóst er að með samþykkt hennar bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða þar umrædda bálka í landsrétt, sbr. kafla 6.4 í álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst um málið frá 19. mars 2019.  Skipta þá fyrirvarar í íslenskum lögum eða yfirlýsingar einstakra valdamanna ekki máli.  Til þeirra þátta verður vart litið þegar úrskurðað verður í samræmi við frumgerð hinna evrópsku lagabálka.  Má í því sambandi minna á nýlegan dóm varðandi innflutning á hráu kjöti.

Rætt hefur verið um að hafa fyrirvara á afléttingu á hinum stjórnskipulega fyrirvara.  Þótt það sé vissulega betri kostur en að hafa enga fyrirvara ber engu að síður að gjalda varhug við slíku.  Slíkum gjörningi hlýtur að fylgja óvissa.  Fyrirvarar hafa nefnilega ríka tilhneigingu til að þynnast út eða hverfa með ýmsum hætti.  Fyrirvarinn sem hér um ræðir hverfur t.d. ef lagður verður sæstrengur.    

 

Óvissa

Óvissa hentar illa, ekki síst í nútímasamfélagi.  Allt þetta orkubálksmál má segja að einkennist af því að óvissa eykst.   Það er óvíst hvernig landsreglarinn fer með vald sitt og eins Landsreglarastofa Evrópusambandsins (ACER).  Það er óvíst hvaða svigrúm íslensk stjórnvöld hafa til að bregðast við óvæntum aðstæðum og það er óvíst hversu lengi fyrirvarar halda; hvort þeir halda yfir höfuð eitthvað og með hvaða hætti verður sótt að þeim.  Fjölmargir sérfræðingar hafa bent á ýmsa óvissuþætti, m.a. varðandi stjórnun auðlinda, hættu á skorti á raforku og svigrúm og getu til viðbragðavið slíku. 

Sem eitt af ótalmörgum dæmum um óvissu má hugsa sér spurninguna:  Hvernig fer ef Íslendingar komast að því að best sé að selja Bretum rafmagn?  Evrópskar stofnanir hafa skyldum að gegna gagnvart sambandsríkjunum, ekki utanaðkomandi ríkjum.  Munu þær ekki leita leiða til að koma í veg fyrir að „hrein“ raforka verði seld út úr orkubandalaginu?  Hvaða afleiðingar hefur það ef lagabálkar um Landsreglarastofu virkjast ef sæstrengur verður lagður milli Íslands og Bretlands? 

Í óvissukerfi af þessu tagi er skynsamlegast að halda öllum valdheimildum hjá þeim sem þurfa að bregðast við, þ.e. stjórnvöldum á Íslandi, en ekki að dreifa þeim til annarra aðila, óháð því hversu velviljaðir þeir kunni að vera fólki á Íslandi.   Halda ber því til haga að á þetta atriði lagði Henrik Bjørnebye, lagaprófessor við Háskólann í Osló, áherslu, á opnum fundi í Háskólanum í Reykjavík 13. ágúst 2018.  Henrik taldi það hafa verið mikils virði að norsk stjórnvöld hefðu getað brugðist við ófyrirséðum aðstæðum og breytingum sem upp hafa komið í orkumálum á undanförnum áratugum og forðað landsmönnum frá miklu tjóni.  

 

Rök með orkulagabálknum

Í umræðu undanfarinna vikna hefur verið erfitt að greina haldbær rök sem lúta að því að Ísland gangist undir hina evrópsku orkulöggjöf.  Í stuttu máli má segja að rökin lúti að hagsmunum neytenda, vilja til að markaðsvæða orkuframleiðslu og orkusölu og síðast en ekki síst að ekki megi stefna EES-samningnum í tvísýnu.

Neytenda- og markaðsmál eru augljóslega með þeim hætti að sinna má þeim með fullum sóma án þess að framselja agnarögn af valdi til útlanda.  Hvers kyns tilraunir má gera í markaðsvæðingu með löggjöf frá Alþingi án þess að gangast undir erlent vald.  Markaðsvæðing með þeim hætti hefur þann ótvíræða og stóra kost að unnt er að lagfæra það sem út af kann að bregða, sbr. fyrri kafla um óvissu.

Engar raunverulegar vísbendingar hafa komið fram um að EES-samningurinn sé undir í þessu máli.  Í samningnum er beinlínis gert ráð fyrir að þjóðþing hafni löggjöf.  Norðmenn hafa gert það án nokkurra eftirmála.  Eftir höfnun fer málið aftur til meðferðar hjá EES og nærtækt er að þar komi sú niðurstaða að orkulöggjöfin henti ekki Íslandi af ástæðum sem margoft hafa verið kynntar og lúta að einangrun landsins.  Ekkert bendir til annars en að Evrópusambandið láti sér í léttu rúmi liggja að Ísland verði utan garðs í þessu máli. 

Gangist Ísland undir orkulöggjöfina mun það á hinn bóginn magna andstöðu við EES-samninginn en hún hefur af ýmsum ástæðum farið hratt vaxandi að undanförnu.  

 

Eignarhald og stefna orkubandalagsins – Hvert er stefnt með orkulagabálkum?

Það er til lítils að eiga auðlind ef frelsið til að selja eða nýta afurðina er takmarkað.  Vald Evrópusambandsins er töluvert og sívaxandi í málum sem lúta að dreifingu og sölu raforku.  Það eykst verulega með þriðja orkulagabálknum og mun án efa aukast með orkulagabálkum sem á eftir koma.  Einlægur vilji Evrópusambandins til að stjórna orkumálum innan Evrópusambandsins og EES er skýr og þangað er stefnt skref fyrir skref.  Alþingismenn verða að gera upp við sig hvort þeir vilji taka þátt í þeirri vegferð og nú er rétti tíminn til þess. 

Evrópusambandið vill að framleiðsla og sala orku verði á markaði.  Þar þykir ekki henta að hafa markaðsráðandi ríkisfyrirtæki á borð við Landsvirkjun og finnst mörgum að þar sé alls ekkert pláss fyrir ríkisfyrirtæki.  Embættismenn Evrópusambandsins virðast vera á þeirri skoðun, samanber nýlegar og ákveðnar kröfur sambandsins á hendur nokkrum aðildarlöndum um aðlögun að reglum sambandsins.  Þær kröfur greina túlkendur tilkynninga sambandsins sem kröfur um einkavæðingu orkufyrirtækja, samanber fréttatilkynningu Reuters um einkavæðingu vatnsaflsvirkjana í Frakklandi og fleiri löndum sem lesa má um hér: https://af.reuters.com/article/energyOilNews/idAFL8N21Q3Y9.  Vilji alþingismenn ekki skipta upp orkufyrirtækjum í opinberri eigu og selja þau er eðlilegt að halda ekki inn á þá braut að færa Evrópusambandinu valdheimildir í orkumálum.

 

Í stuttu máli hvetjum við í Heimssýn alþingismenn til að hafna algerlega þriðja orkulagabálki Evrópusambandsins.  Samþykkt hans mundi hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar sem allt bendir til að yrðu þvert á yfirlýstan vilja þingmanna og gegn yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 494
  • Sl. sólarhring: 517
  • Sl. viku: 2851
  • Frá upphafi: 1165768

Annað

  • Innlit í dag: 440
  • Innlit sl. viku: 2466
  • Gestir í dag: 414
  • IP-tölur í dag: 410

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband