Leita í fréttum mbl.is

Er EES-samningurinn orðinn úreltur?

efta1Ekkert bendir til þess að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sé orðinn úreltur þó ýmsir hafi vissulega orðið til þess í gegnum tíðina að halda því fram. Fyrir þeim fullyrðingum hafa þó aldrei verið færð nein haldbær rök. Samningurinn hefur þvert á móti gegnt því hlutverki sem honum var ætlað að gegna í upphafi og er ekkert sem bendir til annars en að sú verði raunin áfram. Það sést ekki sízt vel á því að fulltrúar aðila samningsins, Evrópusambandsins fyrir hönd aðildarríkja þess og EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Liechtensteins, hafa á árlegum fundum síðan samningurinn tók gildi staðfest að framkvæmd hans gengi vel og að ekki séu vísbendingar um annað um fyrirsjáanlega framtíð.

Hitt er svo annað mál að afstaða margra þeirra, sem vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið, til EES-samningsins hefur tekið grundvallarbreytingum á undanförnum árum. Þeir voru upphaflega almennt hlynntir samningnum, enda sáu þeir hann fyrir sér sem leið til þess að færa Ísland nær aðild að sambandinu. Gjarnan var talað um "inn um bakdyrnar" í því sambandi. EES-samningurinn var í þeirra hugum aldrei annað en stökkpallur inn í Evrópusambandið. Hann átti aldrei að duga nema í fáein ár að þeirra mati.

Í dag, rúmum 13 árum eftir að EES-samningurinn tók gildi (1. janúar 1994), sjá sömu aðilar, og arftakar þeirra, hann fyrir sér sem þröskuld í vegi þess að koma Íslandi inn í Evrópusambandið ólíkt því sem áður var. Þeir ætluðu samningnum aldrei svo langan líftíma og hvað þá að þeir séu sáttir við að hann haldi áfram að vera grundvöllurinn að sambandi Íslands við Evrópusambandið. Þeir vilja því gjarnan grafa undan tiltrú fólks á honum og því að hann feli í sér varanlegt fyrirkomulag í þeim efnum. Fyrir þeim tilraunum er þó enginn fótur eins og áður segir.

Hitt er svo annað mál að umræddir stuðningsmenn aðildar að Evrópusambandinu eru ekki einir um að hafa gagnrýnt EES-samninginn. Ófáir þeirra, sem andvígir eru aðild að sambandinu, eru einnig andvígir aðild Íslands að samningnum. Sú gagnrýni beinist einkum að því að samningurinn sé upp að vissu marki fullveldisskerðandi þar sem Ísland þurfi að taka upp ákveðinn hluta af lagagerðum Evrópusambandsins án þess að hafa mikið um þær að segja. Ófáir Evrópusambandssinnar gagnrýna EES-samninginn raunar á sömu forsendum, en lausn þeirra er að ganga í Evrópusambandið til að "endurheimta" það fullveldi sem þó stenzt ekki nánari skoðun, enda ljóst að áhrif okkar innan sambandsins yrðu nánast engin færum við þar inn.

Rétt er þó að taka það fram að sýnt hefur verið fram á að íslenzk stjórnvöld hafa mikla möguleika á að hafa áhrif á það hvaða lagagerðir falla undir EES-samninginn og hverjar ekki. Er m.a. fjallað um það í ítarlegri og fróðlegri skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra sem gefin var út í marz 2007.

Gagnrýnendur EES-samningsins úr röðum sjálfstæðissinna hafa bent á að samhliða vaxandi regluverki Evrópusambandsins hafi sífellt fjölgað þeim lagagerðum sem falli undir hann og Ísland hefur þurft að taka upp sem aftur hefur haft vaxandi íþyngjandi áhrif á rekstur íslenzkra fyrirtækja. Í stað samningsins vilja þeir að samið verði um tvíhliða samninga við Evrópusambandið sambærilega við það sem Svisslendingar hafa gert með góðum árangri.

Þrátt fyrir nokkuð skiptar skoðanir að þessu leyti eru sjálfstæðissinnar almennt sammála um að það sé a.m.k. ljóst að EES-samningurinn sé margfalt betra hlutskipti en aðild að Evrópusambandinu yrði, enda hefur m.a. verið sýnt fram á að einungis 6,5% lagagerða sambandsins falla undir samninginn, nokkuð sem vissulega má segja að sé engu að síður 6,5% of mikið.

Hjörtur J. Guðmundsson


Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.7.): 14
  • Sl. sólarhring: 196
  • Sl. viku: 764
  • Frá upphafi: 1232710

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 661
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband