Leita í fréttum mbl.is

Evrópusambandið hótar Króötum

Stjórnvöld í Króatíu hafa ákveðið að láta undan kröfum Evrópusambandsins um að heimila fiskiskipum frá Ítalíu, Slóveníu og öðrum Evrópusambandsríkjum að stunda áfram veiðar á svæðum í lögsögu landsins sem þau höfðu áður lýst yfir að draga þyrfti úr veiðum á til að vernda fiskistofna og minnka mengun. Evrópusambandið gerði króatískum stjórnvöldum ljóst að ef þau myndu láta verða af þeim áformum myndi það tefja fyrir viðræðum um aðild Króatíu að sambandinu, sérstaklega í ljósi þess að Slóvenar fara nú með forsætið í sambandinu.

Það er athyglisvert að Evrópusambandið skuli ekki bera meiri virðingu fyrir nauðsyn þess að vernda fiskistofna og draga úr mengun. Það kemur þó ekki á óvart ef litið er til þess hvernig ástandið er í efnahagslögsögu sambandsins þar sem fiskistofnar eru víða að hruni komnir vegna ofveiði og almennt slæmrar umgengni á liðnum árum. Fyrir vikið hefur Evrópusambandið í auknum mæli sóst eftir því að fá aðgang að lögsögum annarra ríkja fyrir fiskiskipaflota sína, ekki síst í Vestur-Afríku þar sem þeir hafa gengið hart að mörgum miðum að sögn heimamanna.

Þegar við Íslendingar sömdum um EES-samninginn gerði Evrópusambandið kröfu um að fiskiskip þess fengju að veiða ákveðið mikið hér við land þrátt fyrir að samningurinn hafi ekkert með sjávarútvegsmál að gera. Íslensk stjórnvöld samþykktu að lokum að heimila takmarkaðar slíkar veiðar. Halda menn svo virkilega að Evrópusambandið myndi sætta sig við það til lengri tíma að aðeins Íslendingar fengju að veiða í fyrrum lögsögu Íslands kæmi til aðildar að sambandinu?

Einnig má rifja það upp í þessu sambandi þegar sænsk stjórnvöld hugðust í byrjun árs 2003 takmarka veiðar á ákveðnum svæðum í fyrrum efnahagslögsögu Svíþjóðar til að vernda fiskistofna og draga úr mengun, rétt eins og króatísk stjórnvöld ætluðu sér nú. Evrópusambandið brást snögglega við og kom þeim skilaboðum til sænskra ráðamanna að þeim væri þetta með öllu óheimilt. Eftir aðildina að sambandinu hefði Svíþjóð einfaldlega ekkert löggjafarvald lengur yfir sinni fyrrum lögsögu.

Staðreyndin er nefnilega einfaldlega sú, eins og t.a.m. má lesa um í skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra sem kom út fyrir tæpu ári síðan, að við aðild að Evrópusambandinu myndu yfirráðin yfir auðlindum Íslandsmiða færast frá Íslandi og til stofnana sambandsins í Brussel rétt eins og í tilfelli allra núverandi aðildarríkja þess sem eiga land að hafi.

Heimildir:
Croatia abandons fishing zone to boost EU bid (Euobserver.com 13/03/08)
Ofveiði fiskiskipa frá ESB við strendur V-Afríku stefnir villtum dýrum í hættu (Heimssýn.is 30/11/04)
Svíar hafa ekkert löggjafarvald yfir "Evrópusambandshafinu" (Heimssýn.is 25/01/03)
Evrópusambandið sakað um ofveiði og að virða ekki fiskveiðisamninga (Heimssýn.is 23/05/03)

Ítarefni:
Héldum við yfirráðum okkar yfir auðlind Íslandsmiða við aðild að ESB?
Skýrsla Evrópunefndar forsætisráðherra

---

Rétt er að hafa ávallt hugfast að umræðan um Evrópumálin snýst fyrst og síðast um það hvort við Íslendingar eigum áfram að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: haraldurhar

   Króatía tók sér með stuðningi þýskalands og nató, nær alla strönd Júgóslavíu, og ekki undra mig að þeir komist ekki upp með að einoka öll fiskimiðinn að auki.

haraldurhar, 13.3.2008 kl. 22:21

2 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Tja, ertu ekki að blanda saman tveimur óskyldum málum hérna? Þetta er, hvað sem öðru líður, þeirra lögsaga eins og staðan er í dag. Það mun þó eðli málsins samkvæmt breytast ef landið gengur í Evrópusambandið eins og útlit er fyrir að verði jafnvel strax á næsta ári.

Hjörtur J. Guðmundsson, 13.3.2008 kl. 22:47

3 Smámynd: Halla Rut

Og það sama munum við Íslendingar kalla yfir okkur með þessari aðild. Ég álít það fólk sem berst sem hæðst fyrir inngöngu beinlínis hættulegt Íslensku mannlífi og menningu og væri næst að kalla það liðhlaupa.

Halla Rut , 17.3.2008 kl. 00:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 230
  • Sl. sólarhring: 252
  • Sl. viku: 2342
  • Frá upphafi: 1112384

Annað

  • Innlit í dag: 198
  • Innlit sl. viku: 2106
  • Gestir í dag: 192
  • IP-tölur í dag: 192

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband