Leita í fréttum mbl.is

Óskhyggja Jóns Sigurðssonar

c_sigurdurkariJón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, skrifaði grein í Morgunblaðið sl. þriðjudag þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni að nú sé tími til kominn að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Í greininni víkur Jón meðal annars að sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB og segir að forsendur hennar eigi ekki við á Íslandsmiðum. Við þessa fullyrðingu Jóns Sigurðssonar er ástæða til að gera alvarlega athugasemd, enda vandséð að hún eigi við rök að styðjast. Íslendingar yrðu bundnir af sjávarútvegsstefnu ESB við aðild.

Það er ekki langt síðan samin voru drög að nýrri stjórnarskrá ESB og var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslna um hana í flestum aðildarríkjum þess. Sú stefnumörkun ESB um sjávarútvegsmál sem fram kom í hinni nýju stjórnarskrá var alveg skýr: Sjávarútvegsstefnan skyldi vera sameiginleg fyrir öll aðildarríkin, stjórn fiskveiða skyldi vera á hendi ESB, en ekki aðildarríkjanna, og meginreglur þess efnis skyldu lögfestar í stjórnarskrá.

Ákvæði stjórnarskrár geyma grundvallarlög sem almenn lög mega ekki brjóta í bága við. Sú meginregla gildir jafnt um stjórnarskrá Íslands og stjórnarskrár annarra ríkja. Sú réttarskipan sem kveðið er á um í stjórnarskrá á við um alla þá sem undir hana heyra. Það dettur til dæmis engum í hug að jafnræðisregla 65. gr. íslensku stjórnarskrárinnar nái til ákveðins hóps einstaklinga í okkar samfélagi en ekki til annarra. Það dettur heldur engum í hug að tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar tryggi sumum rétt til að láta í ljós skoðanir sínar og sannfæringu en ekki öðrum. Ákvæði stjórnarskrárinnar kveður með öðrum orðum á um þá réttarskipan sem við höfum komið okkur saman um að fylgja og sömu réttindi og sömu skyldur fyrir alla borgara. Um þessi grundvallaratriði hygg ég að þurfi ekki að deila.

Þau drög að stjórnarskrá ESB, sem hér hefur verið vísað til, voru felld í þjóðaratkvæðagreiðslum í Hollandi og Frakklandi. Í kjölfarið hvarf stjórnarskráin af yfirborði jarðar, en hefur nú skotið upp kollinum á nýjan leik. Nú í formi fjölda samninga, sem ekki munu verða lagðir fyrir íbúa sambandsins og verða vafalítið að lögum án þeirra vitundar. En efnisatriði þessara samninga eru í öllum grundvallaratriðum þau sömu og stjórnarskrárinnar sem hafnað var. Í þeim verður endanlega staðfest, að stjórn sjávarauðlinda verður á valdi ESB, en ekki aðildarríkja þess, og réttaráhrif þeirra fyrir aðildarríkin verða þau sömu.

Í ljósi þessara staðreynda vekur það furðu mína að fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson, skuli í grein sinni slá því föstu að forsendur sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB muni ekki eiga við á Íslandsmiðum gerist Ísland aðili að sambandinu. Öll aðildarríki ESB munu þurfa að beygja sig undir þær grundvallarreglur sem sambandið byggist á og starfar eftir. Annaðhvort eru ríkin hluti af sambandinu eða ekki með þeim kostum og göllum sem aðild fylgir.

Að mínu mati halda fullyrðingar Jóns Sigurðssonar ekki vatni, enda er ekkert sem bendir til þess að þær eigi við rök að styðjast. Fram til þessa hefur engin þjóð fengið varanlega undanþágu frá hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB. Eðlilega hafa þjóðir fengið tímabundinn frest til að laga sig að ýmsum grundvallarreglum sem gilda innan ESB, en ekki undanþágu til frambúðar. Og það er ekkert sem bendir til að annað verði uppi á teningnum í tilviki Íslands verði sótt um aðild að sambandinu.

Það er mikilvægt að upplýst, fordómalaus og yfirveguð umræða um Evrópumál fari fram hér á landi á grundvelli þeirra staðreynda sem fyrir liggja. Sú umræða má hins vegar ekki stjórnast af óraunhæfri óskhyggju og fullyrðingum sem ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum.

Sigurður Kári Kristjánsson,
alþingismaður og varaformaður Heimssýnar

(Birtist áður í Morgunblaðinu 4. maí 2008 og á bloggsíðu höfundar)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 331
  • Sl. sólarhring: 375
  • Sl. viku: 2094
  • Frá upphafi: 1186701

Annað

  • Innlit í dag: 297
  • Innlit sl. viku: 1842
  • Gestir í dag: 275
  • IP-tölur í dag: 269

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband