Leita í fréttum mbl.is

Lýðræðið hafnar stjórnarskrá ESB aftur

steingrimur_jInnan Evrópusambandsins hefur lengi verið unnið að því að þróa sambandið í átt að ríkjasambandi í ætt við það sem við þekkjum frá Bandaríkjunum. Mikilvægur liður í þessari þróun hefur að undanförnu verið áform um að fá samþykkta sérstaka stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið. Það voru því talsverð áföll fyrir þessi áform þegar væntanlegri stjórnarskrá sambandsins var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslum bæði í Hollandi og í Frakklandi árið 2005. Sérstaka athygli vakti að þessi tvö ríki, í innsta kjarna Evrópusambandsins, höfnuðu stjórnarskránni. Þarf vart að spyrja hvernig farið hefði í öðrum ríkjum þar sem stuðningur við samrunaferlið hefur hefðbundið verið minni ef þar hefði verið kosið. Sumir héldu að þar með væri samrunaferlið úr sögunni úr því að almenningur hefði komist að lýðræðislegri niðurstöðu um að hafna breytingum í þá átt.

Embættismenn ESB voru þó á öðru máli og áttuðu sig fljótlega á því að það hefðu verið mistök að leyfa fólkinu sem býr í viðkomandi löndum að ákveða sjálft um framtíð sína. Þannig varð Lissabonsáttmálinn eða umbótasáttmálinn svokallaði til. Þar eru gerðar efnislega sömu breytingar á ESB og lagðar voru til í stjórnarskránni, eini munurinn sá að breytt var um nafn, „stjórnarskrá“ varð að „sáttmála“ og þar með var komist hjá því að láta almenning kjósa um málið. Að sjálfsögðu var þá mikið talað um að sáttmálinn og stjórnarskráin væru tvennt ólíkt en illa tókst að leika það leikrit til enda. Eitt sinn hrökk t.d. upp úr Valéry Giscard d'Estaing, fyrrverandi forseta Frakklands og forseta stjórnarskrárnefndar Evrópusambandsins, að Lissabonsáttmálinn væri hið sama og stjórnarskráin sem búið var að hafna en „aðeins hafi verið breytt um form til að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslum“.

Írar fá einir að kjósa... og segja nei
Stjórnvöld eins ríkis ákváðu þó að leyfa almenningi í landi sínu að segja sína skoðun á þessu öllu og lagði sáttmálann fyrir þjóðaratkvæði. Reyndar hefur hæstiréttur landsins úrskurðað að meiriháttar breytingar á tengslum landsins við ESB verði að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu en kannski hefur reynsla Íra af þjóðaratkvæðagreiðslum um málefni ESB líka spilað inn í. Árið 2001 kusu Írar um Nice-sáttmálann og höfnuðu honum af ýmsum ástæðum, ekki síst vegna þess að margir töldu að með honum væru hagsmunir smáríkja fyrir borð bornir en líka vegna þess að hann þótti brjóta gegn hlutleysisstefnu Íra í utanríkismálum. En ESB-sinnar létu ekki þjóðina segja sér fyrir verkum og efndu til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu ári seinna og beittu ótrúlegum hræðsluáróðri til að fá sáttmálann loks samþykktan. Hjá Evrópusambandinu virðist nefnilega á köflum ríkja það sérstaka viðhorf til lýðræðis að þá einungis eigi að taka mark á almenningi og niðurstöðum kosninga að þær séu samruna- og sambandsríkjaöflunum í Brussel að skapi.

En nú eru Írar sem sagt aftur búnir að segja skoðun sína á valdatilfærslunni frá Írum til ESB og aftur sögðu þeir nei. Írar hafa hafnað Lissabonsáttmálanum. Þar með hafa þrjár milljónir Íra einar fengið að greiða atkvæði um málið, af 490 milljón íbúum ESB í heild sinni. Hótanir eru þegar farnar að heyrast úr ýmsum hornum sambandsins um að gera ekkert með niðurstöðu írsku þjóðarinnar. Vandamál er komið upp sem þarf að „leysa“ sagði einn snillingurinn í Brussel. En í bili verður þó að minnsta kosti enginn Lissabonsáttmáli eins og að var stefnt. Skilyrðið fyrir upptöku hans var samþykki allra ríkja sambandsins.

Lýðræðið virt að vettugi í ESB
Írska kosningin nú er aðeins eitt dæmi af mörgum um lýðræðishallann innan ESB, um þær ógöngur sem hin evrópska sambandsríkishugmyndafræði er komin í gagnvart almenningsáliti álfunnar. Reynt er að komast hjá því ef nokkur kostur er að spyrja almenning álits. Ef skoðanir kjósenda falla ekki að hugmyndafræði embættismanna og hagsmunaafla bak við tjöldin er annaðhvort kosið aftur eða hótunum beitt í endurteknum kosningum ef þær eru þá yfirleitt haldnar. Við bætist að kosningaþátttakan til Evrópuþingsins er komin vel undir helming kosningabærra manna, sums staðar í rétt rúmlega 20%, og hefur minnkað við hverjar kosningar frá þeim allra fyrstu árið 1979. Slík kosningaþátttaka segir meira en mörg orð um gjána milli almennings og ráðamanna innan Evrópusambandsins.

Ísland getur státað af virku lýðræði og mikilli þátttöku í kosningum. Jafnframt hafa hér verið uppi hugmyndir um að þróa lýðræði áfram í átt að auknu beinu lýðræði þar sem kjósendur fái með virkari hætti að kjósa um stór álitamál. Af ofansögðu er ljóst að slíkt virkt og raunverulegt lýðræði, að ekki sé nú talað um aukið beint lýðræði, rúmast illa innan vébanda Evrópusamruna-hugmyndafræðinnar. Hyggjum að þessu, góðir landsmenn, þegar Evrópumálin eru rædd og munum að Írar eru frændur okkar.

Steingrímur J. Sigfússon,
formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs

(Birtist áður í Morgunblaðinu 18. júní 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.1.): 22
  • Sl. sólarhring: 299
  • Sl. viku: 2124
  • Frá upphafi: 1187905

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 1899
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband