Leita í fréttum mbl.is

Aðeins einn kostur: krónan áfram

kristinn-h-gunnarssonVandinn í efnahagsmálum er meiri en verið hefur í rúman hálfan annan áratug. Við honum þurfa stjórnvöld og landsmenn að bregðast og eiga þann eina kost að gera það af eigin rammleik, á eigin ábyrgð og með eigin úrræðum. Við getum ekki búist við því að skattgreiðendur erlendis vilji taka á sig byrðar og greiða skuldir annarra þjóða. Ef við leitum nú til annarra, svo sem Evrópusambandsins, og viljum fá að taka upp gjaldmiðil þeirra, þá er verið að óska eftir fjárhagsaðstoð og hún fæst ekki nema gegn gjaldi. Það þarf alltaf að borga til þess að komast út úr efnahagsvandanum. Að auki þarf að koma á efnahagslegum stöðugleika með lágum vöxtum og lágri verðbólgu áður en gjaldmiðilssamstarf er til umræðu.

Það er sama hvernig litið er á málið, Íslendingar þurfa alltaf sjálfir að ná tökum á efnahagsmálunum með sinn eigin gjaldmiðil, krónuna, áður en lengra er haldið. Því til viðbótar, þá er hugsanlegur ávinningur af aðild að Evrópusambandinu eða gjaldmiðilssamstarfi, svo sem á vexti og verðlag, bundinn því að rekin sé skynsamleg efnahags- og ríkisfjármálastjórn innanlands. Við tryggjum ekki erlendis í þessum efnum. Þegar upp er staðið er það alltaf í okkar höndum hvernig til tekst, innan sem utan Evrópusambandsins. Núna reynir á ríkisstjórnina og framtíð hennar veltur á því hvort hún veldur verkefni sínu. Það er ekki góðs viti að helmingur ríkisstjórnarinnar er upptekin af Evrópusambandinu og talar þannig að aðild að því komi í staðinn fyrir efnahagsstjórnun.

Skárri horfur
Að undanförnu hafa atvinnurekendur kvartað yfir háum vöxtum og skorti á lánsfé og frá verkalýðshreyfingunni hefur mest borið á áhyggjum af vaxandi atvinnuleysi. Nýjustu upplýsingar staðfesta þetta ekki, enn sem komið er. Samtök atvinnulífsins gerðu könnun meðal félagsmanna sinna í síðustu viku og hún leiddi í ljós að 72% svarenda höfðu ekki glímt við lausafjárskort og að tæpur helmingur fyrirtækjanna hyggst halda óbreyttum fjölda starfsmanna til áramóta. Framkvæmdastjóri samtakanna viðurkenndi að niðurstaðan kæmi sér skemmtilega á óvart. Eðlilega því hann hefur haft stór orð uppi um yfirvofandi hrun. Hagstofan birti svo í vikunni upplýsingar um atvinnuþátttöku og atvinnuleysi á 2. ársfjórðungi 2008. Það reyndist hafa minnkað frá sama tíma í fyrra, var 3,1% í stað 3,2%. Atvinnulausir voru að meðaltali 5.700, en voru 5.800 í fyrra og 7.200 á 2. ársfjórðungi ársins 2006.

Það eru ekki komin fram þau áhrif sem óttast var, sem betur fer. Líklegt er að samdráttur í atvinnu komi mun seinna fram en haldið hefur verið fram, sem gefur stjórnvöldum meiri tíma til þess að undirbúa aðgerðir og tímasetja þær þannig að þær komi í kjölfar lækkandi verðbólgu. En hafa verður í huga að þótt störfum muni ef til vill fækka um 3-4000 á næsta ári þá er það aðeins um 15% af þeim 25.000 sem starfandi hefur fjölgað frá 2004. Stækkun vinnumarkaðarins um 16% á aðeins 4 árum er gríðarleg og endurspeglar mikla þenslu í íslensku efnahagslífi. Mikilvægt er að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins fari ekki á taugum og leggi raunhæft mat á aðstæður. Engin ástæða er til þess, hins vegar, að draga úr því að erfiðleikar eru framundan bæði hjá almenningi og fyrirtækjum. Til dæmis glíma bændur við miklar verðhækkanir á sínum aðföngum sem eru þeim þungbærar.

Jafnvægi í viðskiptum
Mikilvægast er að draga úr umsvifunum í þjóðfélaginu og ná jafnvægi í viðskiptum við útlönd. Undanfarin ár hafa einkennst af erlendri lántöku fyrir innlenda neyslu og ýmis útgjöld. Segja má að hluti af lífskjörunum hafi verið tekin að láni erlendis. Slíkt gengur ekki til lengdar og það endaði auðvitað með því að gengið féll. Nú er komið að skuldadögunum og þá þarf að draga saman seglin þar til að jafnvæginu er náð. Því fyrr sem það gerist þeim mun betra. Þá styrkist gengið þar sem þörfin fyrir gjaldeyri en ekki meiri en framboðið og það verður stöðugra. Eitt af því sem þarf að huga að er staða viðskiptabankanna og skuldsetningu þeirra erlendis. Huga þarf að reglum um fjármagnsflutninga sem styðja við jafnvægi á gjaldeyrismarkaði.

Verðbólgan sem nú ríður yfir er að hluta til af orsökum sem við ráðum ekki við en að stórum hluta til vegna þenslunnar innanlands. Háir vextir eru óhjákvæmilegir meðan verðbólgan er svo há sem raun ber vitni. Verði orðið við kröfum um vaxtalækkun strax þá er hætta á því að vextir verði neikvæðir. Það kemur skuldurum að vísu vel fyrst um sinn, en viðheldur þenslunni og þar með verðbólgunni með þeim afleiðingum að sparifjáreigendur og lífeyrissjóðir munu tapa. Þess vegna er lykilatriðið í efnahagsstjórnuninni að ná niður verðbólgunni. Það eiga allir mest undir því þegar til lengdar lætur, sérstaklega skuldsett heimili og fyrirtæki.

Kristinn H. Gunnarsson,
þingmaður Frjálslynda flokksins

(Birtist áður í Morgunblaðinu 19. júlí 2008 og á heimasíðu hofundar)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 34
  • Sl. sólarhring: 345
  • Sl. viku: 2115
  • Frá upphafi: 1188251

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 1923
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband