Leita í fréttum mbl.is

Frá lýðræði til evru

kristinn-h-gunnarssonHið almenna fyrirkomulag efnahagsmála í lýðræðisríkjum er á þann veg að ríkisstjórn með meirihluta þjóðþings á bak við sig ber höfuðábyrgð á ríkisfjármálum, svo sem ákvörðun skatta og útgjalda. Jafnframt hefur ríkisstjórnin í hendi sér tæki peningamálastjórnunarinnar beint eða óbeint með áhrifum sínum á löggjöf. Grundvallaratriðið er að þeir sem nú fara með valdið eru kosnir og styðjast við meirihluta kjósenda í störfum sínum. Evran brýtur upp þetta mynstur. Upptaka evru þýðir að stjórn peningamála er færð í hendur sameiginlegs yfirþjóðlegs stjórnvalds í Seðlabankanum í Frankfurt.

Stjórnvöld í einstökum ríkjum hafa ekkert yfir Seðlabanka Evrópu að segja. Athyglisvert er að fram kemur í bókinni: Hvað með evruna? eftir þá Eirík Bergmann Einarsson og Jón Þór Sturluson, sem kom út fyrr á þessu ári, að völdin sem Seðlabanka Evrópu eru færð, séu óafturkræf. Leiðin til evrunnar er leiðin undan áhrifum kjósenda. Hún er leiðin frá lýðræðinu.

Lækkun launa
Bókin, sem ég nefndi áðan: Hvað með evruna? er fróðleg lesning og ágætt innlegg í umræðuna um Evrópumálin. Ég vil hvetja áhugamenn um þessi málefni til þess að kynna sér efni bókarinnar. Höfundar eru fylgjandi evrunni og aðild að Evrópusambandinu, en reifa málið engu að síður út frá báðum hliðum. Þar er meðal annars rakin sú breyting á launum og vinnumarkaði sem verður þegar gengi og vextir í einu ríki eru ekki lengur ákvarðaðir út frá aðstæðum þar heldur á miklu stærra efnahagssvæði. Eðlilega tekur Seðlabanki Evrópu mið af heildinni í störfum sínum. Gengisbreyting er
þá ekki lengur leið til þess að lækka framleiðslukostnað í niðursveiflu heldur verður eina ráðið í viðkomandi ríki bein launalækkun eða aukið atvinnuleysi. Ég hygg að verkalýðshreyfingin á Íslandi hafi aldrei samið um lækkun launa og ólíklegt er að hún muni gera það.

Á þetta mun örugglega reyna í evruumhverfi. Breytileg launaþróun eftir löndum hverfur ekki úr sögunni við það eitt að taka upp evru, ekkert frekar en breytilegir vextir milli evrulanda. Þeir Eiríkur Bergmann og Jón Þór benda á í bók sinni að laun í nokkrum evrulöndum hafi frá 1999 hækkað meira en t.d. í Þýskalandi og Austurríki. Það veldur hærri framleiðslukostnaði og fyrirtæki þar standa lakar að vígi í samkeppni við fyrirtæki í löndunum þar sem launin eru lægri. Eina leiðin til þess að jafna samkeppnisskilyrðin er að lækka launin með beinum hætti eða horfast í augu við atvinnuleysi. Önnur úrræði hafa stjórnvöld ekki.

Fjármálastefnunefnd
Sú staðreynd að stjórn peningamála er hjá Seðlabanka Evrópu en efnahagsstjórnunin að öðru leyti í höndum ríkisstjórna veldur togstreitu þarna á milli. Peningamálastefna og ríkisfjármálastefna verða að spila saman. Þetta veldur því að uppi eru kröfur um aukin áhrif hins yfirþjóðlega valds Evrópusambandsins í efnahagsmálum. Ákvörðun um sameiginlegan gjaldmiðil getur varla leitt til annars en einhverrar útgáfu af Evrópuríki með miðlæga efnahagsstjórn, að öðrum kosti er vandséð hvernig evran muni eiga framtíð fyrir sér.

Þeir Eiríkur Bergmann og Jón Þór Sturluson eru greinilega á þeirri skoðun og leggja til að þegar Ísland hefur tekið upp evruna verði sett á fót sérstök fjármálastefnunefnd, skipuð sérfræðingum á sviði hagfræði og efnahagsmála. Hin nýja nefnd fari með stjórn á tilteknum afmörkuðum tekjustofnum hins opinbera og þurfi ekki að fá staðfestingu Alþingis eða framkvæmdavaldsins á ákvörðunum sínum. Þetta telja þeir afar mikilvægt þar sem annars gæti tekið alllangan tíma að móta aðgerðir og fá þær samþykktar á þjóðþinginu. Þá fer myndin að skýrast, evran er greinilega upphaf vegferðar frá lýðræðinu byggð á vantrú á þjóðkjörnum stjórnmálamönnum og á oftrú á sérfræðingum.

Kristinn H. Gunnarsson,
þingmaður Frjálslynda flokksins

(Birtist áður í 24 stundum 29. júlí 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 34
  • Sl. sólarhring: 345
  • Sl. viku: 2115
  • Frá upphafi: 1188251

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 1923
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband