Leita í fréttum mbl.is

Evrópa sérfræðinganna

katrin jakobsdottirMargt athyglisvert kom fram í ferð Evrópunefndarinnar til Brussel sem farin var í vikunni en undirrituð var þar eina konan í ellefu manna hópi sem hitti nítján talsmenn ESB, þar af átján karlmenn. Umfjöllun fjölmiðla um ferðina hefur einkum snúist um eitt atriði sem var könnun nefndarinnar á því hvort hugsanlega væri hægt að taka upp evru og verða aðili að myntbandalagi ESB með tvíhliða samkomulagi án þess að ganga inn í Evrópusambandið. Þetta erindi var hins vegar eingöngu í formi könnunar enda hefur ríkisstjórnin ekki mótað sér þá stefnu að þessa leið eigi að reyna til þrautar og því er vart hægt að segja að nefndin hafi formlega farið með þetta erindi, fremur að þetta hafi verið kannað hjá embættismönnum og hvort einhver lagaleg rök mæltu gegn þessu.

Í stuttu máli sagt voru svör þeirra embættismanna sem nefndin hitti nánast einhlít: Evra verður ekki tekin upp án aðildar að Evrópusambandinu og án þess að Íslendingar uppfylli Maastricht-skilyrðin sem snúast um efnahagslegan stöðugleika. Innganga í ESB tekur að lágmarki um það bil ár — en gæti tekið okkur mun lengri tíma því að breyta þyrfti stjórnarskránni. Eftir það tæki við a.m.k. tveggja ára vera í myntbandalaginu og síðan væri hægt að taka upp evru, svo fremi sem skilyrðin væru uppfyllt. Skilaboðin voru því þessi: Hvað sem Íslendingar ákveða að gera verða þeir að taka til heima hjá sér, takast á við efnahagsástandið og ná stöðugleika. Evran er engin töfralausn og auðvitað er það ekki heldur svo að evruríkin hafi siglt í gegnum núverandi samdráttarskeið án vandræða.

Nefndin kynnti sér einnig sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu ESB og þar kom meðal annars fram að þó að byggt sé á reglunni um hlutfallslegan stöðugleika, sem þýðir að þjóðir veiða þar sem þær eiga sögulega veiðireynslu, þarf samt sem áður að semja um veiðar úr deilistofnum sem gæti haft mikil áhrif á íslenskan sjávarútveg. Undanþágur eru ekki gefnar frá stefnunni nema á mjög þröngum forsendum, t.d. út frá verndarsjónarmiðum, og þá tímabundnar. 

Lýðræðið í ESB
Það sem stóð þó upp úr að mati undirritaðrar var uppbygging Evrópusambandsins sem slík. Sambandið er mikið skrifræðisbákn og það er engin furða að það hafi verið gagnrýnt fyrir lýðræðishalla. Sáttmálar þess eru flestir miklir doðrantar skrifaðir á tungumáli sérfræðinga og flestir talsmenn sambandsins sem við hittum voru á því að þjóðaratkvæðagreiðslur væru mjög til óþurftar enda gæti almenningur ekki skilið slíka sáttmála. Það væri ástæðan fyrir því að Frakkar og Hollendingar sögðu nei við stjórnarskrá sambandsins á sínum tíma og Írar sögðu nei núna við Lissabon-sáttmálanum. Með öðrum orðum: Í hvert sinn sem sambandið leggur stefnumál sín í dóm almennings segir almenningur nei. Og ástæðu þess telja talsmenn sambandsins vera þá að almenningur skilji ekki flókna hluti.

Sömu rök má auðvitað hafa gegn öllu lýðræði og þessi þróun er varhugaverð. Þannig tel ég að niðurstöður ferðarinnar séu ekki síst þær að Íslendingar eiga ekki að hrekjast inn í ESB út af núverandi efnahagsástandi enda þurfum við hvort eð er að ná tökum á því sjálf. Innganga í ESB getur aldrei byggst eingöngu á efnahagslegum rökum heldur hljótum við að velta fyrir okkur eðli ESB og hvernig það er að þróast. Sérstaklega þarf að ræða lýðræðismálin sem eru meðal mikilvægustu hagsmuna Íslendinga og hvaða áhrif það hefur á íslenskt samfélag að færa þungamiðju allrar ákvarðanatöku suður til Brussel þar sem menn virðast telja valdinu best komið hjá sérfræðingunum.

Katrín Jakobsdóttir
varaformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs
 
(Birtist áður í 24 stundum 26. september 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 134
  • Sl. viku: 908
  • Frá upphafi: 1117680

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 810
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband