Leita í fréttum mbl.is

ESB-stefna Samfylkingar?

stefan johann
Í huga margra er Samfylkingin eini flokkurinn sem hefur það skýrt á stefnuskrá sinni að Íslendingar skuli ganga í Evrópusambandið. Þannig er að minnsta kosti málflutningur margra forystumanna flokksins. En hver er sú stefna sem flokkurinn sjálfur hefur markað? Stefnan felst í póstkosningu flokksins árið 2002 og landsfundarsamþykktum eftir það sem segja meðal annars að samningsmarkmið skuli skilgreind áður en til umsóknar kemur. Því verki hefur ekki verið sinnt í hálfan áratug. Öfugt við það sem ýmsir forystumenn halda fram er Samfylkingin því ekki í stakk búin til að styðja umsókn um aðild að ESB ef hún ætlar að virða sínar eigin lýðræðislegu samþykktir.
 
Þrískilyrt kosning meðal flokksmanna
Í þessu sambandi er rétt að rifja upp víðtækasta lýðræðislega umboð sem flokkurinn hefur gefið forystunni í þessu máli. Það var þegar öllum flokksfélögum gafst kostur á að taka afstöðu til málsins í póstkosningu haustið 2002. Að vísu tóku aðeins um 20-30% flokksfólks þátt (eftir því hvernig flokksskráin var metin), en eigi að síður var þessi kosning einstök á ýmsa lund. Um hvað var kosið? Kosningin var þrískilyrt, eins og þáverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar lýsti. Spurt var: „Á það að vera stefna Samfylkingarinnar að Íslendingar skilgreini samningsmarkmið sín, fari fram á viðræður um aðild að Evrópusambandinu og að hugsanlegur samningur verði síðan lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar.“ 81,5% þeirra sem tóku þátt í kosningunni sögðu já við þessu, 15,6% voru á móti og um 3% skiluðu auðu eða ógildu atkvæði.
 
Hvað svo? Landsfundir flokksins hafa ályktað á svipuðum nótum. En hefur eitthvað gerst frekar? Hefur umræðunni verið þokað áfram, t.d. um samningsmarkmiðin, sem var fyrsta skilyrðið? Nei. Á landsfundinum árið 2003 var ætlunin að fylgja eftir þeim undirbúningi sem átt hafði sér stað með póstkosningunni árinu áður, en landsfundurinn túlkaði póstkosninguna með þessum hætti: „Á grunni víðtækra upplýsinga tók síðan almennur flokksfélagi í Samfylkingunni ákvörðun í sögulegri kosningu haustið 2002 um að setja aðildarumsókn að Evrópusambandinu á stefnuskrá flokksins á grundvelli skilgreindra samningsmarkmiða.“ Og ennfremur: „Samfylkingin mun því stofna sérstakan 9 manna málefnahóp um Evrópumál sem m.a. skoði ávinning Íslands af aðild að Evrópusambandinu, skilgreini hver helstu samningsmarkmið eigi að vera við aðildarumsókn, meti stöðu EFTA og EES- samningsins og greini áhrif evrunnar á íslenskt efnahagslíf. “

Um hvað vilja menn semja?
Sem sagt: Setja skyldi aðildarumsókn á stefnuskrá á grundvelli skilgreindra samningsmarkmiða og stofna skyldi sérstakan starfshóp til að vinna að þessum samningsmarkmiðum. Framkvæmdastjórn flokksins kom því síðan í verk að skipa starfshóp um samningsmarkmiðin stuttu síðar. Undirritaður var beðinn að taka sæti í þessum hópi. Óskað var ítrekað eftir því að hann kæmi saman, en af því varð aldrei og því hefur ekkert starf farið fram svo vitað sé. Þess vegna verður ekki séð að Samfylkingin hafi fylgt því eftir sem samþykkt var í póstkosningunni og samþykkt á landsfundi árið 2003, þ.e. að skilgreina svokölluð samningsmarkmið sem væru forsenda umsóknar um aðild að Evrópusambandinu. Þrátt fyrir það hefur nú mátt skilja á ýmsum þingmönnum og forystumönnum Samfylkingar að nú sé rétt að sækja um aðild. Þar með yrði póstkosningin og samþykkt landsfundar virtar að vettugi.
 
Ætla mætti að í svo stóru máli yrðu lýðræðislegar samþykktir virtar. Enn hefur engin sjáanleg vinna farið fram um samningsmarkmiðin meðal flokksmanna með þeim hætti sem samþykkt var í póstkosningunni 2002 og áréttað í landsfundarsamþykktum eftir það. Þjóðin veit því enn ekkert um hvað Samfylkingin vill semja, þ.e. hver stefna hennar sem flokks er þegar kæmi að því að semja. Í hálfan áratug hefur það verið látið hjá líða að skilgreina samningsmarkmiðin. Það eina sem þjóðin veit er að sumir forystumenn Samfylkingarinnar þrá það heitast að koma landinu inn í Evrópusambandið. Og nú vilja hinir áköfustu stuðningsmenn aðildar gera það með hraði. Það er auðvelt á tyllidögum að hvetja til opinnar, lýðræðislegrar og ígrundaðrar samræðu. Það getur verið erfitt að fylgja slíkri hvatningu eftir, ekki hvað síst þegar álíka ólga er í samfélaginu og nú má upplifa. En ætti það ekki að vera lágmarkskrafa í svo stóru máli að það sé undirbúið vandlega í samræmi við lýðræðislegar samþykktir?
 
Stefán Jóhann Stefánsson
varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar
 
(Birtist áður í Morgunblaðinu 23. desember 2008)
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 276
  • Sl. viku: 2362
  • Frá upphafi: 1165279

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 2029
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband