Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Nýr forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um evruna og ESB

c_euro645_100770Dr. Gunnar Ólafur Haraldsson er nýr forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og tók hann við af Dr. Tryggva Þór Herbertssyni sem lét af þeim störfum um síðustu áramót. Markaðurinn, viðskiptablað Fréttablaðsins, innti í gær Gunnar um skoðun hans á þeirri umræðu sem verið hefur í gangi að undanförnu um evruna og krónuna. Gunnar sagði fyrir það fyrsta ekki vera búið að skoða nægilega vel allar hliðar málsins til þess að hægt sé að taka ákvörðun um að kasta krónunni. „Það hefur til að mynda ekki verið fullskoðað hvernig við myndum haga hagstjórninni, með lítil sem engin áhrif á gjaldmiðilinn. Að taka upp evruna getur líka haft mikil áhrif á vinnumarkaðinn og þau áhrif hafa heldur ekki verið rannsökuð ofan í kjölinn. Þetta er ekki bara spurning um að telja kostina og ókostina. Það þarf að vega og meta hversu þungt þessir kostir og ókostir vega. Spurningin um fyrirkomulag þessara mála á ekki að vera dægurmál."

Gunnar telur ekki ráðlagt að taka upp evru án þess að ganga í Evrópusambandið. „Ef við tækjum upp evruna þyrftum við strax að reyna að aðlaga íslenska hagkerfið sem best að sveiflum í evrópska hagkerfinu. Sögulega séð hefur Ísland oft verið í uppsveiflu á meðan Evrópa er í niðursveiflu og öfugt. Ef við tækjum upp evruna án þess að ganga í sambandið gætum við lent í því að vera með lága vexti í uppsveiflu og háa vexti í kreppu." Hann bendir líka á að þótt Íslendingar tækju upp evruna væru hagstjórnarvandamál hvergi nærri úr sögunni.

„Áhrifin af uppsveiflu eða niðursveiflu koma alltaf einhvers staðar fram. Ef það gerist ekki að hluta til í gegnum gengið, þá gerist það bara einhvers staðar annars staðar. Svo má heldur ekki gleyma því að við verðum ekki laus við áhrifin af gengissveiflum þótt við tökum upp evruna. Aðrir gjaldmiðlar sveiflast líka, þetta verða þá bara ekki gengissveiflur sem verða til af ástandinu hérna innanlands. En sveiflurnar myndu vissulega minnka."

(Athugasemd Heimssýnarbloggsins: Því er við þetta að bæta að hvorki er ein hagsveifla til staðar innan Evrópusambandsins né evrusvæðisins þó sveiflurnar þar á bæ séu allajafna miklum mun líkari en það sem gengur og gerist á milli Íslands og aðildarríkja sambandsins. Sums staðar er uppsveifla innan evrusvæðisins, s.s. á Spáni, á meðan erfiðlega hefur gengið að örva hjól atvinnulífsins t.a.m. í Þýskalandi og Frakklandi. Miðstýrðir stýrivextir Seðlabanka Evrópusambandsins, sem gilda á öllu evrusvæðinu, hafa fyrir vikið verið einhvers konar málamiðlun og í raun ekki hentað neinu af evruríkjunum. Hugmyndafræðingar evrusvæðisins gerðu ráð fyrir því í upphafi að hagsveiflur evruríkjanna myndu smám saman samlagast en það hefur þó enn ekki gerst heldur hafa sveiflurnar til þessa miklu fremur fjarlægst.)

Ýmsir hafa haldið því fram að evran muni, hvort sem okkur líkar betur eða verr, lauma sér bakdyramegin inn í íslenskt efnahagslíf, samfara því að umsvif íslenskra stórfyrirtækja verði í sífellt meira mæli í erlendum gjaldmiðli. Fullyrt hefur verið að það myndi gera peningamálastjórn Seðlabankans áhrifalausa. „Ég sé ekki að þetta myndi breyta miklu frá því sem nú er, því að stórum hluta hafa stýrivextir Seðlabankans ekki virkað sem skyldi. Bankarnir hafa nú þegar greiðan aðgang að erlendu lánsfjármagni og eru því að miklu leyti undanskildir áhrifum af stýrivöxtum Seðlabankans. Ég held það sé alltaf, þrátt fyrir allt [s.s. hvort sem hér á landi væri í notkun evra eða króna], almenningur í landinu sem ber þyngstu byrðarnar af peningamálastjórninni."


Áhugaverðar fréttir af Evrópumálunum

blodESB telur þjóðir ekki geta tekið upp evru án aðildar að sambandinu
Amelia Torres, talsmaður Evrópusambandsins (ESB) í efnahagsmálum, sagði í fréttum Ríkisútvarpsins, að evran væri órjúfanlegur hluti af ESB og ríki geti aðeins tekið upp evruna með því að ganga í sambandið fyrst. Að auki þurfi hagkerfi ríkjanna að uppfylla ströng skilyrði til að fá að ganga í Myntbandalag Evrópu, EMU.
Meira á Mbl.is

Seðlabankastjóri: Engin evra án ESB-inngöngu
Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri segir að ekki komi til greina að Íslendingar taki upp evru nema þeir gangi í ESB fyrst. Talsmaður ESB í efnahagsmálum tekur í sama streng og segir evruna órjúfanlegan hluta sambandsins.
Meira á Rúv.is

Peningamálastefnan bítur áfram, segir Seðlabankinn
Gengi krónunnar féll um tæp tvö prósent í dag vegna sterks orðróms um að Kaupþing hyggist færa uppgjör sitt yfir í evru. Kaupþingsmenn neita að tjá sig. Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri segir að peningamálastefnan muni hafa bit áfram, jafnvel þótt einhverjir viðskiptabankanna kjósi að gera reikninga sína upp í erlendum gjaldmiðlum.
Meira á Vísir.is

Frásagnir af andláti krónunnar eru ýktar
„Frásagnir af andláti krónunnar eru dálítið ýktar," segir Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings og telur að ef til vill hafi verið ofmetin í umræðunni áhrifin af því ef fjármálafyrirtæki færðu eigið fé sitt yfir í erlenda mynt.
Meira á Vísir.is

Fjármálaráðherra undrast orð formanns Sf um krónuna
Árni Mathiesen fjármálaráðherra álítur að tal Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, um ónýta krónu sé áróður fyrir inngöngu í Evrópusambandið. Að öðru leyti sé það óskiljanlegt af stjórnmálaleiðtoga sem vilji láta taka sig alvarlega. Hann hefur hvorki þungar áhyggjur af krónunni né uppgjöri fyrirtækja í erlendri mynt.
Meira á Rúv.is

Áhætta í evrulaunum
Launþegar taka mikla áhættu með því að þiggja laun í evrum, segir aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands. Hann telur hverfandi líkur á að evran laumi sér bakdyramegin inn í íslenskt efnahagslíf. Hún verði aldrei tekin upp nema um það ríki pólitísk sátt.
Meira á Vísi.is


mbl.is ESB telur þjóðir ekki geta tekið upp evru án aðildar að sambandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evra og hagstjórn

illugi_gunnarssonÞegar ríkisstjórnarflokkarnir og Samfylkingin samþykktu að ráðist yrði í byggingu Kárahnjúkavirkjunar og að álver skyldi rísa við Reyðarfjörð, lá fyrir að tímabundið rót myndi koma á íslenskt efnahagslíf. Á móti kom það mat manna að langtímaáhrif þessara framkvæmda á hagkerfið væru til góðs. Hagstjórnarvandinn jókst hins vegar til muna vegna hækkunar á lánshlutfalli Íbúðalánasjóðs og gríðarlegra útlána bankanna til íbúðakaupa. Sá hagstjórnarvandi sem glímt hefur verið við undanfarin misseri var því fyrirsjáanlegur og kom ekki á óvart. Seðlabankinn hefur borið hitann og þungann af þessum vanda og nokkuð hefur borið á gangrýni á ríkisvaldið og sveitarfélögin vegna þess að þau hafi ekki dregið úr útgjöldum sínum. Einnig hefur borið á þeirri hugmynd að hægt væri að leysa hagstjórnarvandann með því að taka upp evru.

Grein Illuga Gunnarssonar, hagfræðings, má lesa í heild á Vísi.is.


Skautað létt yfir staðreyndir

ragnar_arnaldsMargir þeir sem nú heimta evru í stað krónu gera sér ekki grein fyrir að Íslendingar uppfylla ekki skilyrðin fyrir upptöku evru og munu ekki gera það í fyrirsjáanlegri framtíð. Fyrir svo utan hitt að evran myndi verka eins og olía á verðbólgueldinn. Til þess að taka upp evru í tengslum við aðild að ESB þurfa ríki að uppfylla mörg skilyrði. Sum þeirra uppfyllir íslenskt efnahagslíf. En eitt þeirra er og verður torsóttast fyrir Íslendinga; þ. e. að um nokkurt skeið sé verðbólga hér ekki meiri en 1.5% yfir meðaltali verðbólgu í þeim þremur ríkjum ESB þar sem hún er minnst. Sú tala var 1.3% árið 2005. Einnig verður torsótt fyrir Ísland uppfylla það skilyrði að meðalvextir hér séu innan við 2% hærri en meðalvextir þeirra ríkja ESB þar sem þeir eru lægstir.

Umfjöllun Ragnars Arnalds, formanns Heimssýnar, um Evrópumálin má lesa í heild sinni á bloggsíðu hans.


Ísland og Evrópa - Hvernig verður þessu sambandi bezt háttað?

Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, ritar hér grein um Evrópuhugsjónina að fornu og nýju, eins og hún kemur honum fyrir sjónir, og færir söguleg og efnahagsleg rök fyrir sjónarmiðum sínum um ýmis viðfangsefni íslenzkra stjórnmála nútímans.

Aðfararorð:
Ekkert er nýtt undir sólunni.  Þess vegna getur reynzt gagnlegt að skoða söguna, þegar nútíminn er metinn eða reynt er að rýna inn í framtíðina.  Í tilraun til að svara ofangreindri spurningu verður hér stiklað á stóru í þeirri sögu Evrópu, er að sameiningu hennar lýtur, því að þau mál hafa markað Evrópu frá stríðslokum 1945.   Þá verða lauslega reifaðir einstaka drættir í sögu Íslands til að reyna að greina megintengsl á milli menningarlegrar og efnalegrar stöðu þjóðarinnar annars vegar og sambandsins við erlend ríki hins vegar.

20. öldin var mikill örlagatími í sögu Íslands og Evrópu.  Evrópuþjóðir bárust þá á banaspjótum í tveimur grimmilegum og mannskæðum styrjöldum, sem breiddust út um heim allan.  Afleiðing hinnar seinni var glötun forystuhlutverks Evrópu í heiminum.  Á Íslandi urðu á 20. öldinni róttækari breytingar á menningu, atvinnuháttum og efnahag en orðið höfðu frá landnámi, enda endurheimti þjóðin þá sjálfstæði sitt.  

Árið 1991 urðu vatnaskil í efnahagsmálum Íslands, er horfið var frá miðstýringu ríkisvaldsins á fjármálum og atvinnumálum, sem mótuð hafði verið í anda sameignarstefnu Karls Marx á 4. áratuginum (frá 1931).  Með auknu fjármagnsfrelsi í kjölfar EES samningsins og sölu ríkisfyrirtækja var snúið endanlega af braut útvatnaðrar sameignarstefnu og „pilsfaldakapítalisma“ og grunnur lagður að íslenzku efnahagsundri (“Wirtschaftswunder”) með markaðsvæðingu í anda Ludwigs Erhards, efnahagsmálaráðherra Konrads Adenauers, kanzlara V-Þýzkalands.

Innflutningshöft og fjármagnshöft höfðu verið  bjargráð vinstri manna allt frá 1931 og vaxandi allan 4. áratuginn, og aftur í kjölfar styrjaldarinnar var glutrað niður tækifæri til vestrænnar hagþróunar, þegar Bretton Woods samkomulagið var sniðgengið og horfið til efnahagslegrar einangrunarstefnu í stað öflugs samstarfs við Alþjóða gjaldeyrisvarasjóðinn og Alþjóðabankann.

„Viðreisnarstjórnin“, 1959-1971, gekk hins vegar til samstarfs við þessa aðila og aflétti innflutningshöftunum og skömmtunarseðlunum, en ekki fjármagnshöftunum.  Skattpíning hafði eðli málsins samkvæmt farið vaxandi með hverri vinstri stjórninni á fætur annarri, en „Viðeyjarstjórnin“, 1991-1995, hóf skattalækkanir, og óðar tók þá skattstofninn að dafna og skatttekjur að vaxa.

Fjármagnstekjuskattur og tekjuskattur af fjármálafyrirtækjum skilaði árið 2006  um 30 milljörðum króna á ári í ríkissjóð, en hafði nánast engu skilað á undan markaðsvæðingunni.

Kenningar Adams Smiths um styrk verkaskiptingar og sérhæfingar á frjálsum markaði, sem leiða mundu til aukinnar framleiðni og þar af leiðandi bættra kjara almennings, sannaðist ljóslega hérlendis.  Á tímabilinu 1995-2006 uxu ráðstöfunartekjur heimilanna um meira en 50 % að raunvirði.  Allir þjóðélagshópar hafa notið góðs af góðærinu, ekki sízt hinir lakast settu, þó að enn megi betur gera.  Hafa hér enn einu sinni sannazt orð Nóbelverðlaunahafans í hagfræði um, að markaðshagkerfið sé stórvirkasta tækið, sem fundið hafi verið upp til að vinna bug á fátækt.  Þetta birtist hérlendis t.d. í þeirri staðreynd, að lægstu tekjur hafa vaxið meira en frítekjumarkið, svo að fólk hefur komizt upp fyrir skattleysismörk.

Með orðhengilshætti er hægt að halda því fram, að skattar þeirra hafi aukizt hlutfallslega mest, sem voru áður annaðhvort undir frítekjumarkinu eða rétt yfir því.  Frítekjumarkið hækkar sjálfvirkt með vísitölu neyzlukostnaðar og einnig með lækkun skatthlutfalls af tekjum.  Það væri vinnuletjandi og óréttlátt gagnvart þeim, sem skattbyrðarnar bera, að hækka einvörðungu frítekjumarkið og fækka þannig skattgreiðendum.  Miklu nær er að jafna skattbyrði af launatekjum og fjármagnstekjum með því að lækka hina fyrr nefndu, eins og hafið er. 

Þessi jákvæða þróun skattbyrði á sér ekki sinn líka í V-Evrópu hluta ESB. Jafnvel mannfræðingar hafa nú leitt rök að því, að verkaskipting í þjóðfélögum hins viti borna manns, “homo sapiens”, hafi riðið baggamuninn fyrir rúmum 30 þúsund árum í samkeppni hans við hinn sterka, öfluga og aðlögunarhæfa veiðimann, Neanderthalsmanninn, sem hafði búið í Evrópu í rúmlega 200 þúsund ár, þegar forfeður okkar komu þangað fyrst fyrir um 40 þúsund árum.

Kaffihúsaspeki Karls Marx (að kaffihúsum ólöstuðum), ásamt öllum síðari tíma útgáfum hennar, hefur reynzt hugarburður helber og grillusafn, sem hvergi stenzt markaðshagkerfinu snúning, enda stendur það eðli mannsins nær. Jafnaðarstefnan hefur á hinn bóginn hvarvetna leitt til biðraða eftir niðurgreiddri þjónustu, sem drabbast niður, og útjöfnunar á fátækt.

Í þessari grein verður með ýmsum hætti leitazt við að sýna fram á, að Íslendingum vegni þá bezt, þegar þeir njóta hámarks frelsis í stjórnarfarslegu og atvinnulegu tilliti, og  að binda trúss sitt meira en orðið er við stórveldin sé síður til farsældar fallið.
  
Forsagan:
Hugmyndin um sameiningu Evrópu er ekki ný af nálinni.  Elztu heimildir um slíkt eru frá Rómverjum komnar á 1. öld fyrir tímatal vort.  Rómverjar voru góðir skipuleggjendur, og þeir voru líka snjallir verkfræðingar.  Stjórnendur Rómar höfðu þess vegna fulla burði til að láta drauma sína um landvinninga rætast.  Þeir voru hagsýnir og raunsæir og leyfðu íbúum í ríkjum Rómarveldis að halda trú sinni, siðum og venjum, ef þeir aðeins lutu Róm og guldu henni skatt.  Allt ríki sitt tengdu þeir með vegakerfi, og í Rómarríki blómguðust verzlun og viðskipti undir rómverskum lögum, mælieiningum og mynt.

Framsókn Rómverja í Norður-Evrópu var hins vegar stöðvuð árið 9 e.kr. nálægt Osnabrück í Þýzkalandi af germönskum her undir forystu manns, er Rómverjar nefndu Arminius, en gæti hafa heitið Hermann.

Bardaginn í Tevtoborgarskógi, þar sem þrjár legíónir rómverska hersins, sem voru í landvinningaleiðangri inn í Germaníu undir forystu stjórnmálamannsins og herforingjans Varusar, voru gjörsigraðar og stráfelldar, skipti sköpum um þróun Evrópu, því að Rómverjar reyndu ekki aftur að leggja undir sig Germaníu.

Ef þessi sigursæli germanski her hefði látið kné fylgja kviði og haldið við svo búið vestur yfir Rín og inn í hin frjósömu héruð Gallíu, hefði sagan getað orðið önnur en raun varð á. Germanir kusu hins vegar að halda hver til síns heima eftir að hafa rekið Rómverja af höndum sér.   Vesturhluti Rómarríkis féll síðan 467 árum seinna í hendur germanskra ættbálka og sundraðist í mörg ríki.

Næsta tilraun til sameiningar Evrópu var gerð af Karlamagnúsi, Frankakonungi, á síðari hluta 8. aldar, en ríkið liðaðist í sundur eftir hans dag, gróflega í þá ríkjaskipan, sem er við lýði á meginlandinu enn þann dag í dag.

Vestur-Evrópa var sameinuð í trúarlegum efnum undir andlegt veldi páfans í Róm um 1200.  Á 16. öld klofnaði þetta kirkjuríki með síðbót þýzka munksins Marteins Lúthers, og í kjölfarið fylgdi mikil vargöld í Evrópu, sem náði hámarki með 30 ára stríðinu 1618-1648.  Þá klofnaði Þýzkaland í mörg furstadæmi, en ýmis önnur ríki lifðu sitt blómaskeið í kjölfar friðarsamninga. 

Á 19. öld varð rómantísk þjóðernisvakning á meðal þýzkumælandi manna, sem náði hámarki með sameiningu Þýzkalands með „blóði og járni“ undir forystu járnkanzlarans, Ottós von Bismarcks.

Á 20. öld keyrðu vopnaviðskipti Evrópuþjóða um þverbak.  Við lok síðari heimsstyrjaldarinnar kom kjarnorkusprengjan til skjalanna, og þá varð Evrópumönnum ljóst, að við svo búið mátti ekki standa.  Var þá stofnað Kola-og stálbandalagið, sem tvinna skyldi saman hagsmuni hinna stríðandi fylkinga í Evrópu til að bæta friðarhorfur.  Upphaflega voru þar Benelúx löndin, Frakkland og Þýzkaland, og það þróaðist fljótlega í tollabandalag 12 ríkja, Efnahagsbandalagið, sem hafði það hlutverk að örva viðskipti á milli landanna, og náðist góður árangur með tollalækkunum og afnámi viðskiptahafta á mörgum sviðum.

Nú hefur þetta viðskiptabandalag þróazt í ríkjasamband 27 þjóða frá 1. janúar 2007, Evrópusambandið. 

Íslandssagan:
Á tímum Karlamagnúsar í Achen voru Norðmenn að ná tökum á siglingatækni og skipasmíðum, sem gerði þeim kleift að leggja á haf út.  Á 9. öld hófu íbúar Vestur-Noregs siglingar til Bretlandseyja og settust þar margir að.  Blómguðust millilandaviðskipti og efnuðust íbúar Vestur-Noregs dável.  Þetta fór ekki fram hjá Víkurkonungi í Osló, og var um árið 870 ákveðið að gera allan Noreg norður í Þrændalög að einu skattlandi Víkurkonungs.  Veittu hersar, jarlar og aðrir lendir menn í Vestur-Noregi innrásarher konungs öflugt viðnám, en urðu að lúta í lægra haldi.  Stukku þá margir Vestlendingar af landi brott til Bretlandseyja, Færeyja og Íslands fremur en að sverja Víkurkonungi trúnaðareiða og gangast undir skattlagningu hans.

Noregskonungar sýndu löndunum í vestri mikinn áhuga, enda varð miðstöð norska ríkisvaldsins fljótlega á Vesturlandinu.  Um árið 1000 var á Alþingi samþykkt, fyrir tilstuðlan Noregskonungs, að Íslendingar létu skírast til kristinnar trúar.  Í kjölfarið varð Ísland hluti af andlegu ríki páfans í Róm.  Ísland fylgdi Noregi undir dönsku krúnuna um miðja 14. öld með mægðum og erfðum.

Þáttur í uppreisn þýzka munksins Marteins Lúthers gegn páfa var að velta latínu úr sessi sem alls ráðandi kirkjumáli og hefja móðurmálið til vegs og virðingar.  Um svipað leyti fann Johan Guthenberg upp prentlistina.  Íslendingar voru fljótir að átta sig á þessu, og aldrei verður Oddi Gottskálkssyni fullþökkuð vist hans í fjósi Skálholts Ögmundar Pálssonar, biskups, við grútartíru að þýða Nýja Testamentið á íslenzku. Var fljótlega eftir Siðbót gefin út biblía í íslenzkri þýðingu, sem sennilega hefur orðið tungunni til bjargar.

Á 19. öld náðu bylgjur rómantísku stefnunnar Íslandsströndum og leiddu óðar til sjálfstæðishugmynda landsmanna.  Fjölnismenn lögðu grunninn að menningarlegri og stjórnmálalegri endurreisn landsins, og með sameiginlegu átaki landsmanna tókst að endurreisa Alþingi árið 1845.

Sómi Íslands, sverð þess og skjöldur, sjálfstæðishetjan Jón Sigurðsson, öðrum mönnum framsýnni, gerði sér grein fyrir mikilvægi verzlunarfrelsis fyrir efnahag landsmanna.  Hann fékk það í lög leitt upp úr miðri 19. öld.

Um aldamótin 1900 voru Íslendingar fátækasta þjóð Evrópu, enda höfðu sjúkdómafaraldrar í fólki og fénaði ásamt eldgosum, jarðskjálftum og kuldatíð nánast gengið af þjóðinni dauðri.  Með þrautseigju hjarði hún þó, en fólki tók ekki að fjölga í landinu fyrr en að vesturferðum loknum í lok 19. aldar.

Með Heimastjórn, 1904, hófst framfaraskeið, sem hefur skilað Íslendingum í hóp auðugustu þjóða heims.  Er nú svo komið, að þjóðartekjur á mann munu í Evrópu aðeins vera hærri í þremur löndum, og framfarasóknin er hvergi stórstígari en hér um þessar mundir.

Það er ekkert, sem bendir til, að innganga í ríkjasamband á ný (ESB) mundi hraða þessari framfarasókn enn meir, en með inngöngu mundi þjóðfélag okkar fara að draga meir dám af hinum stærri þjóðfélögum Evrópu, þar sem íbúar búa við mun rýrara frelsi og minni hagvöxt en við.

Evrópusambandið:
Til að móta stefnuna gagnvart ESB er ekki aðeins þarft að kunna skil á sögunni, heldur er nauðsynlegt að þekkja eðli þessa ríkjasambands og átta sig á, hvert það stefnir.

Með ESB og forverum þess hefur vissulega tekizt að varðveita friðinn í Evrópu, og tekizt hefur að auka viðskiptin innan Evrópu með svo nefndum Innri markaði, sem reistur er á fjórfrelsinu; frjálsum flutningi á vörum, fjármagni, fólki og þjónustu á milli landa.  Hvað varðar fólk í atvinnuleit og þjónustustarfsemi hafa þó sum ríki V-Evrópu fyrirvara á gagnvart nýju, fátæku ríkjunum í mið-og austurhluta Evrópu.  Út á við er ESB „Festung Europa“, víggirðing, í viðskiptalegu tilliti, og beitir framkvæmdastjórnin í Brussel innflutningshömlum og öðrum samkeppnihamlandi aðferðum.  Með ESB hefur ekki tekizt að tryggja nægilega öflugt atvinnulíf til að útvega öllum vinnufúsum höndum atvinnu.  Áherzla í „gömlu Evrópu“ á rétt launþega til að halda vinnu ásamt tiltölulega háum lágmarkslaunum og atvinnuleysisbótum hafa leitt til tregðu atvinnurekenda við að ráða fólk.  Háir skattar á atvinnulífið hafa einnig dregið úr hvata til fjárfestinga og framleiðniaukningar.  Þetta hefur minnkað samkeppnihæfni atvinnulífsins og valdið fjármagns-og fyrirtækjaflótta, flótta atvinnutækifæranna, frá kjarnaríkjunum 12 í ESB.  Þessar hömlur ríkisvalds í ESB-löndunum á einkaframtakið hafa leitt til sáralítillar atvinnusköpunar og fjöldaatvinnuleysis í mörgum landanna þrátt fyrir sáralitla fólksfjölgun og jafnvel fækkun þar.  Ofan á þessa kerfislægu þrúgun gömlu ESB-landanna bætist sífellt óhagstæðari aldurssamsetning íbúanna vegna lítillar viðkomu, og lífeyrissjóðirnir standa þar á brauðfótum.  Sumir stærstu ríkissjóðirnir eru stórskuldugir, og horfur eru á skattahækkunum af þessum sökum.  Meðal stærstu ríkjanna, nema Bretlands, er áhugi fyrir samræmdri skattastefnu ríkja ESB.

Framtíð Evrópu er þess vegna þyrnum stráð, eins og fyrri daginn, að breyttu breytanda, og ekki fýsilegt fyrir smáþjóð að kasta sér í fang þessara tröllskessa.

Hvert stefnir ESB? 18 ríki af 27 hafa þegar samþykkt tillögu stjórnarskrárráðstefnu sambandsins upp á einar 200 þéttskrifaðar blaðsíður, flest með einföldum meirihluta viðkomandi þjóðþings, en 9 ríki eru á móti. Árið 2005 felldu tvær þjóðir, Frakkar og Hollendingar, stjórnarskrártillöguna í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Varð þetta forkólfum ESB mikið áfall vegna þess, að stjórnkerfi ESB er sniðið við 12-15 ríki, en ekki 25-30, eins og reyndin er.  Stjórnkerfi ESB er þess vegna óstarfhæft.  Það ríkir hins vegar mikill ágreiningur innan ESB um það, hvert á að stefna, og ýmsir stjórnmálamenn innan ESB eru komnir langt fram úr umbjóðendum sínum í draumum um æ nánara samband ríkjanna.  Lítill áhugi er almennt í Evrópu á stofnun Bandaríkja Evrópu, en stjórnarskrárdrögin eru óneitanlega skref í þá átt með „utanríkisráðherra Evrópu“, Evrópuher o.s.frv.

Á fyrri hluta árs 2007 er Þýzkalandskanzlari, Angela Merkel, í forsæti ráðherraráðs ESB.  Þýzka ríkisstjórnin gerði árið 2006 áætlun, sem ætlað er að rífa sambandið upp úr hjólfari stöðnunar.  Hún snýst um að stöðva stækkunarferlið við 27 aðildarríki þar til nýtt stjórnskipulag hefur verið samþykkt til handa ESB.  Ætlunin er að stytta, breyta og í sumum tilvikum að útvatna núverandi stjórnarskrárdrög á árunum 2007-2008.  Á fyrri hluta árs 2009 er síðan gert ráð fyrir, að þjóðþing aðildarríkjanna 27 samþykki nýtt stjórnfyrirkomulag handa ESB án þjóðaratkvæðis.  Þessi áætlun styðst við yfirlýsingu Sarkozys, forsetaframjóðanda í Frakklandi, um, að hann vilji „lágmarks stjórnarskrá“.  Þar með dugi samþykki franska þingsins, ef hann nær kjöri, þar sem málið hafi verið á stefnuskrá hans í kosningabaráttunni.  Svipaðan leik á George Brown, verðandi forsætisráðherra, að leika í Stóra-Bretlandi með hrossakaupum um fjárlög og landbúnaðarstefnu ESB, sem dugi til að fá brezka þingið til að samþykkja nýtt stjórnskipulag ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessi áætlun Berlínar virðist vera örvæntingarfull tilraun Þjóðverja til að bjarga ESB út úr sjálfheldu.  Kraftaverk má kalla, ef þessi áætlun Þjóðverja heppnast. 

Myntbandalag:
Gengisstefna er sennilega á meðal vandasamari viðfangsefna hagfræðinnar.  Er hverju landi mikilvægt að eiga öflugan seðlabanka, sem hefur á að skipa hæfum sérfræðingum í þessum efnum.  Því var ekki til að dreifa á fyrri hluta 20. aldarinnar á Íslandi, enda urðu Alþingismönnum þá á afdrifarík mistök við hagstjórnina.  Í byrjun aldarinnar var Ísland í myntbandalagi við Danmörku og önnur Norðurlönd, sem reist var á gullfæti.  Í heimsstyrjöldinni fyrri riðlaðist þetta bandalag, og eftir 1922 var genginu í raun leyft að fljóta.  Hélzt það til 1931, er gengi íslenzku krónunnar var bundið við sterlingspundið.  Til að verja þessa tímabundnu „frystingu“ gengisins tók vinstri stjórn þess tíma upp gjaldeyrishöft og innflutningshöft, sem ágerðust með hléum í þrjá áratugi þar til viðreisn efnahagslífsins var hrundið af stokkunum árið 1959 með stuðningi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.  Ísland hafði þá dregizt aftur úr öðrum vestrænum þjóðum vegna andstöðu stjórnlyndra stjórnmálamanna við lögmál markaðshagkerfisins.  Á síðari hluta 20. aldarinnar óx stjórnun peningamála fiskur um hrygg með stofnun Seðlabanka Íslands, sem nú starfar sjálfstætt og gegnir því meginhlutverki að viðhalda jafnvægi í peningamálum landsins, en verðgildi íslenzku krónunnar er frjálst og markast af stöðu og horfum í efnahagslífinu.

Binding gengisins við aðrar myntir hefur alltaf gefizt íslenzku efnahagslífi illa, og alltaf hefur slíkt endað með gengissprengingu.  Það virðast þess vegna ekki vera haldbær hagfræðileg rök fyrir því að binda íslenzku krónuna við aðrar myntir, hvorki norrænu krónurnar, sterlingspund, evru né bandaríkjadal af þeirri einföldu ástæðu, að þá tæki gjaldmiðillinn að sveiflast eftir allt öðrum lögmálum en íslenzkt atvinnulíf.  Slíkt yrði líklegast til að magna sveiflurnar í íslenzku efnahagslífi, en frjáls, eiginn gjaldmiðill deyfir sveiflurnar að öðru jöfnu.   Gengisáhætta minnkar við bindingu, en hverfur þó aldrei.  Vilji fyrirtæki hins vegar draga úr gengisáhættu sinni gagnvart ákveðnum gengissvæðum, er þeim leyfilegt að hafa bókhald sitt í þeirri mynt, en sé umtalsverður hluti tekna þeirra eða gjalda í íslenzkum krónum, getur slík bókhaldsbreyting valdið þeim skráveifum.

Hvernig hefur myntbandalagið EMU (European Monetary Union) reynzt?  Kennistærðir hagfræðinnar benda allar til, að evran hafi hingað til orðið efnahagslífi evrulandanna dragbítur.  Skoðanakannanir “Eurobarometer” benda ekki til þess, að almenningur í þessum löndum sé hrifinn af evrunni.  Árið 2002 voru væntingar svo miklar til evrunnar, að 59 % íbúanna töldu, að hún yrði þeim til hagsbóta.  Það fjarar stöðugt undan vinsældum evrunnar, og fjórum árum síðar höfðu vinsældir hennar í sömu löndum hrapað um meira en 10 %.  Skemmst er að minnast höfnunar Dana og Svía á upptöku evru, og ekkert bendir til, að Bretar muni telja áhættunnar virði að fórna pundinu fyrir evru. 

Aðdáendur ESB á Íslandi telja evruna samt vera áþreifanlegt dæmi um árangur ESB.  Þó er það staðreynd, að sáralítill hagvöxtur hefur verið á evrusvæðinu frá því að hún var tekin upp, þó að efnahagslíf heimsins hafi annars staðar blómstrað með methagvexti á sama tímabili.  Sumar evruþjóðir hafa átt í miklum efnahagsþrengingum vegna versnandi  samkeppnistöðu útflutningsgreina sinna með hækkandi tilkostnaði heima fyrir og háu gengi evrunnar.  Eru Ítalir dæmi um slæmt efnahagsástand og vaxandi atvinnuleysi vegna rígskorðaðs gengis.

Efnahagslífið á Íslandi hefur aldrei og mun aldrei verða samstiga efnahgslífi evrulands.  Evrópubankinn í Frankfurt miðar ákvarðanir sínar, t.d. um vextina, við að halda meðaltalsverðbólgu undir 2,0 %.  Staðan gæti hæglega orðið sú, ef innganga Íslands í ESB og upptaka evru yrði að veruleika, að hagvöxtur á Íslandi færi yfir 6 % vegna verðmætrar auðlindanýtingar, en vextir Evrópubankans færu hins vegar undir 2 % vegna verðhjöðnunar þar.  Þetta mundi valda neikvæðum raunvöxtum á Íslandi og þá taumlausri ofhitnun efnahagslífsins hér.  Stjórnvöld fengju enga rönd við reist vegna fullveldisafsals til Brussel.  Slíkt mundi valda hér óðaverðbólgu með geigvænlægum afleiðingum.  Útflutningsatvinnuvegirnir hér mundu þá gefast upp hver af öðrum.  Það yrði brotlending, af því að Alþingi væri bundið í báða skó varðandi greiðsluhalla ríkisstjóðs og skuldasöfnun við útlönd.  Frumorsökin væri hins vegar niðurnjörvun gengisins, sem leiða mundi til kreppu og líklega landflótta, og það tæki óratíma að koma hjólunum aftur í gang.

Óþarft er að tíunda stöðu mála í hinu tilvikinu, ef t.d. aflasamdráttur eða verðfall á áli veldur íslenzku efnahagslífi búsifjum á meðan þensla væri í Evrópu.  Stjórnvöld hérlendis stæðu þá ráðþrota með gengið niður neglt, og almenningur sypi seyðið af fjötrum evrópska myntsambandsins, EMU. Öryggislokinn, sem í fyrra dæminu var lokaður og olli yfirþrýstingi, stæði nú opinn, og engum þrýstingi væri þess vegna unnt að ná upp í hagkerfinu.

Fylgismenn ESB halda því fram, að vextir muni lækka á Íslandi við upptöku evru.  Því er til að svara, að nú eru vextir sniðnir að markaðsaðstæðum á Íslandi, og háir vextir örva sparnað og auka efnahagslegan stöðugleika.  Fjöldi fólks hérlendis hefur af þessum sökum umtalsverðar fjármagnstekjur.  Mikill sparnaður styrkir öll hagkerfi.  Með digrum sjóðum, t.d. enn stærri gjaldeyris varasjóði Seðlabanka Íslands en nú er, verður minni þörf á jafnháum vöxtum við sama neyzlustig.  Spyrja má, hvort millibankavextir séu yfirleitt hærri t.d. í Noregi og Sviss, þar sem digrir sjóðir eru bakhjarlar sjálfstæðra mynta þessara landa, en hjá Evrópubankanum.  Þar er lítill munur á. 

Aðild:
Hérlendis predikar formaður eins stjórnmálaflokksins og fáeinir aðrir Alþingismenn, að Íslendingar skuli hið bráðasta taka upp aðildarviðræður við ESB.  Ekki einvörðungu virðist hér vera um algert óráð að ræða, heldur óframkvæmanlegt vegna þess, að ESB er stjórnlaust og rekur fyrir veðrum og vindum.  Þjóðverjar reyna að lappa upp á sambandið, en munu vart hafa erindi sem erfiði.  Framtíð ESB er í algerri óvissu, og enginn veit, hvernig það muni þróast.  Það er ekki loku skotið fyrir sundrun þess eða mun lauslegri umgjörð. Um fyrirsjáanlega framtíð verður eins og út úr kú að reka áróður fyrir aðild Íslands að ESB, eins og hér hefur verið rakið.  Verði einhvern tímann samið um einhvers konar aðild að einhvers konar bandalagi, er hafa mundi í för með sér fullveldisafsal Alþingis til yfirþjóðlegrar stofnunar að einhverju leyti, krefst slíkt stjórnarskrárbreytingar.

Í ljósi sögunnar verður því ekki trúað, að slík afturför nái nokkurn tíma hljómgrunni í almennum kosningum á Íslandi, jafnvel þótt að þjóðinni yrði sorfið með einum eða öðrum hætti.  Hún hefur ýmsa fjöruna sopið.

Niðurlag:
Endurnýjanlegar orkulindir eru gullfótur Íslands. Athafnafrelsi og ríkidæmi Íslendinga hefur frá innleiðingu markaðshagkerfisins 1991 aukizt meira en nokkurrar annarrar þjóðar í Evrópu, ef frá eru taldar þjóðir, er endurheimtu frelsi sitt við skipbrot sameignarstefnunnar 1989.  Þetta er bezti árangursmælikvarðinn.  Gagnvart efnahagsundrinu íslenzka beita jafnaðarmenn og sameignarsinnar þeim öfugmælum, að fátækt hafi aukizt á Íslandi.  Þetta er dæmi um hugtakabrenglun.  Þeir eiga við, að sá hluti þjóðarteknanna, sem áður féll þeim fjórðungi landsmanna í hlut, sem lægstar höfðu tekjurnar, hafi minnkað hlutfallslega, og að sama skapi hafi hlutur hæsta fjórðungsins vaxið hlutfallslega.  Ráðstöfunartekjur fólks í öllum stéttum þjóðfélagsins, einnig hjá bótaþegum, hafa vaxið mikið, og bilið á milli meðaltekna á hverju tekjubili hefur einnig vaxið, einkum vegna aukinnar tilkomu fjármagnstekna í efri tekjuhópunum.  Í markaðshagkerfi knýr tekjumunurinn þróunina áfram.  Þekking er grundvöllur þessarar þróunar.  Íslendingar eiga að ganga áfram á sömu braut og sýna, að bókvitið verði í askana látið.  Það verður t.d. gert með því að laða fjárfesta til að skrá eignir sínar á Íslandi og gera Ísland að fjármálamiðstöð, eins og Dr Hannes H. Gissurarson hefur með skarpskyggnum hætti fjallað um.  Slíkt mun hins vegar ekki vekja hrifningu í Brussel.

Að lokum er við hæfi að birta hér lokaerindi kvæðisins „Á Þingvöllum 1895“ eftir hinn framsýna hugsjónamann og skáldjöfur, Einar Benediktsson:

En kaupi sér nokkur manns vinskap og vild
því verði, að Ísland hann svíki,
skal byggja´ honum út inn í fjandmanna fylgd
og föðurlandssvikarans ríki.
Þar skipta ei flokkunum skoðanir manns,-
þeir skiptast um hagnað og tjón þessa lands.
 


Financial Times: Bretar gerðu rétt með að taka ekki upp evru

Stórblaðið Financial Times lýsti þeirri skoðun sinni 4. janúar sl. að tvennt hefði einkum reynst bresku efnahagslífi vel síðan 1997. Í fyrsta lagi að Englandsbanka var veitt sjálfstæði og í annan stað að Bretar hafa ekki tekið upp evruna. Blaðið segir að þrátt fyrir að verðbólga í Bretlandi sé nú jafn há og það hæsta sem gest hefur innan evrusvæðisins síðan evran var tekin í notkun bendi hagmælingar til þess að hefðu Bretar tekið upp evruna hefði verðbólgan í landinu orðið mun hærri.

Því er við að bæta að bent hefur verið á það sama í tilfelli Íslands. Þ.e. að allar líkur séu á því að væri evra í notkun hér á landi væri verðbólgan nú enn hærri en raunin er eins og staðan er í dag. Ekki síst vegna þess að með evru giltu hér á landi einungis miðstýrðir stýrivextir evrusvæðisins sem myndu seint taka mið af íslenskum aðstæðum.

Þess má geta að lokum að Financial Times hefur lengi verið ötull stuðningsmaður evrusvæðisins og talsmaður þess að Bretar tækju upp evruna - allt þar til undir það síðasta.


Formaður Framsóknar ekki í evruhugleiðingum

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í samtali við Ríkissjónvarpið í kvöld að ekkert bendi til þess að krónan fari að skipta minna máli og að upptaka evrunnar sé ekki í sjónmáli nú fremur en áður. Jón sagði núverandi aðstæður í efnahagsmálum þjóðarinnar tímabundnar og að aðalatriðið í þessum efnum væri að Íslendingar ættu að taka sínar eigin ákvarðarnir í þessum málum út frá styrkleika en ekki vandræðum og út frá metnaði en ekki uppgjöf.


Óhugsandi fyrir aðildarríki ESB að vera ekki aðilar að EES

valgerdurÍ tilefni af þeim ummælum Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, að EES-samningurinn kunni að verið í hættu náist ekki að semja um aðild Rúmeníu og Búlgaríu að Evrópska efnahagssvæðinu má rifja upp viðtal Morgunblaðsins við Aðalstein Leifsson, stjórnmálafræðing við Háskólann í Reykjavík, frá því 5. október sl. Þar sagði Aðalsteinn að engin ástæða væri til að ætla annað en að samkomulag muni nást við Evrópusambandið vegna stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins í kjölfar aðildar Rúmeníu og Búlgaríu að sambandinu.

"Viðræðurnar núna eru mun minni í sniðum en samningaviðræðurnar vegna samhliða stækkunar ESB og EES 1. maí 2004, en Íslendingar fengu sérstaklega góða niðurstöðu úr þeim viðræðum," segir Aðalsteinn. "Í þeim viðræðum sem nú standa yfir er einnig hægt að byggja á niðurstöðunni frá 2004, sem ætti að hjálpa okkur til að ná góðri lendingu. Hins vegar eru viðræðurnar gríðarlega mikilvægar vegna þess að það er ómögulegt að sjá fyrir sér ástand þar sem ríki er aðili að ESB en ekki að EES."

Aðalsteinn segir að öll ríkin verði að vera með í Evrópska efnahagssvæðinu vegna þess að nýju aðildarríkin geti ekki sett upp landamæraeftirlit og haft sérstaka viðskiptaskilmála gagnvart Íslandi, Noregi og Liechtenstein sem önnur ríki Evrópusambandsins hafi ekki. "Annaðhvort eru öll aðildarríki ESB með í EES eða ekkert þeirra. EES-samningurinn er blandaður samningur, sem þýðir að bæði ESB í heild og hvert og eitt aðildarríki ESB eru aðilar að samningnum. Samningurinn nær til allra þátta innri markaðarins og það er ekki hægt að skipta honum upp þannig að EFTA-ríkin í EES, Ísland, Noregur og Liechtenstein, hafi aðeins frjálsan aðgang að sumum ríkjanna sem eru á innri markaðinum en aðrir skilmálar gildi gagnvart öðrum ríkjum," segir Aðalsteinn. "Annaðhvort tekur ríki þátt í innri markaðinum eða ekki."

Aðalsteinn segir að ráðherraráð Evrópusambandsins geti ákveðið, eins og gert var tímabundið þegar sambandið stækkaði árið 2004, að setja stækkaðan EES-samning í gildi til bráðabirgða jafnvel þótt ekki hafi verið gengið frá endanlegu samkomulagi vegna aðildar Rúmeníu og Búlgaríu. Segir hann að slík lausn væri þó alltaf til bráðabirgða.

Það kemur annars ekki á óvart að Valgerður vilji EES-samninginn feigan eins og ófáir aðrir Evrópusambandssinnar.


mbl.is Segir EES-samninginn kunna að vera í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norrænt samstarf undir hæl Evrópusambandsins

Halldor_Asgrimsson2Það er merkilegt að Halldór Ásgrímsson skuli halda því fram að norrænt samstarf myndi eflast ef öll norrænu ríkin væru aðilar að Evrópusambandinu. Hvað skyldi hann hafa fyrir sér í því? Staðreyndin er nefnilega sú að reynsla þeirra norrænu ríkja, sem þegar eru aðilar að sambandinu, er allt önnur. Samvinnan á milli þeirra hefur einmitt vikið að stóru leyti fyrir aðild þeirra að Evrópusambandinu.

Þess utan færi norræn samvinna innan Evrópusambandsins ávallt fram á forsendum sambandsins og samkvæmt þeim reglum sem það setti um slíka samvinnu. T.d. gætu norrænu ríkin ekki komið á einhverju því fyrirkomulagi sín á milli sem aðeins gilti um íbúa þeirra ef það stangaðist á við reglur Evrópusambandsins, t.d. um að ekki megi mismuna íbúum sambandsins eftir þjóðerni. Norrænt samstarf innan Evrópusambandsins yrði því alltaf undir hæl sambandsins ef svo má að orði komast.


mbl.is Halldór segir að norræna samstarfið muni eflast ef öll ríkin væru í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill meirihluti Þjóðverja vill ekki evruna

"Fimm árum eftir að evran tók við af þýska markinu telur meirihluti Þjóðverja að það hafi verið slæm hugmynd að skipta um gjaldmiðil. Sextíu prósent eitt þúsund aðspurðra töldu upptöku evrunnar hafa verið afturför, en 39% töldu það hafa verið framfaraskref."

Þetta er í samræmi við ítrekaðar niðurstöður skoðanakannana í Þýskalandi síðan evran var tekin í notkun sem almennur gjaldmiðill.

Og Þjóðverjar eru langt því frá einir um þessa afstöðu sína.


mbl.is Flestum Þjóðverjum þykir eftirsjá að markinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.1.): 77
  • Sl. sólarhring: 311
  • Sl. viku: 2012
  • Frá upphafi: 1184419

Annað

  • Innlit í dag: 70
  • Innlit sl. viku: 1733
  • Gestir í dag: 70
  • IP-tölur í dag: 65

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband