Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Evran og matseðill Evrópusambandsins

hjorleifur guttormsson
Kostulegasta staðhæfingin í fjölskrúðugri umræðu um Ísland og Evrópusambandið síðustu mánuði er að Íslendingar þurfi að sækja um aðild að ESB til að fá úr því skorið hvaða kostir séu þar í boði. Fyrst að því búnu geti þjóðin áttað sig á um hvað málið snúist og gert upp hug sinn til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir sem þannig mæla gera það trúlega á ólíkum forsendum. Annars vegar tilheyra þeir hópi þeirra sem hafa uppgerðan hug til aðildar að ESB og telja slíka framsetningu til þess fallna að komast yfir þröskuldinn með aðildarumsókn. Hins vegar er fólk sem lítið hefur sett sig inn í baksvið Evrópusambandsins og heldur að í samningaviðræðum sé hægt að ganga að borði og efna þar í samkomulag sem falli að íslenskum hagsmunum. Sem nýlegt dæmi um fulltrúa hinna fyrrnefndu má nefna Jónas H. Haralz og Einar Benediktsson sem í hálfa öld hafa verið fylgjandi aðild. Í síðari hópnum er freistandi að telja drjúgan hluta þeirra framsóknarmanna sem fylgja nýrri línu Guðna Ágústssonar að hafa enga stefnu en krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður sem fyrst.
 
Reglur ESB liggja á borðinu
Grundvallarreglur Evrópusambandsins liggja fyrir og í þeim felast þeir kostir sem blasa við ríkjum sem sækja um aðild. Það þarf ekki umsókn eða samningaviðræður til að draga þær fram í dagsljósið. Svigrúm framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem fjallar um umsóknir nýrra ríkja er lítið sem ekkert til að víkja frá meginreglum sambandsins í samningum um aðild. Sveigjanleikinn í samningaviðræðum af hálfu ESB hefur hingað til falist í að fresta um skamma hríð gildistöku einstakra ákvæða gagnvart viðsemjendum en ekki að undanskilja þá varanlega frá meginreglum. Upplýsinga um þetta geta menn aflað sér með því að fara yfir samningsniðurstöðu við einstök ríki, m.a. Noreg, Svíþjóð og Finnland á árinu 1994. Það er engin sókn nú innan Evrópusambandsins eftir að fjölga aðildarríkjum, hvað þá að breyta sáttmálum þess til að koma til móts við nýja umsækjendur. Það er því óheiðarlegt að reyna að telja almenningi trú um að Ísland eigi völ á einhverjum undanþágum sem máli skipta við samningaborð.
 
„Undanþágukrafa varasöm“
Hinn 15. september sl. birtist í Fréttablaðinu viðtal við aðstoðarevrópumálaráðherra Svíþjóðar Håkon Jonsson. Flokkur hans, Frjálslyndi þjóðarflokkurinn, studdi í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2003 upptöku evru, en hún var felld með miklum mun, þannig að Svíþjóð er ekki aðili að Myntbandalagi Evrópu. Í viðtalinu varar sænski ráðherrann eindregið við því að Íslendingar leggi í upphafi hugsanlegra aðildarviðræðna fram stífar kröfur um undanþágur frá gildandi reglum ESB, m.a. á sjávarútvegssviði. Með því segir hann myndu vakna spurningar um grundvallarafstöðu Íslendinga, hvort þeir vilji í raun undirgangast það sem aðild felur í sér eða ætli að leita eftir inngöngu á forsendum sem þeir velji sér sjálfir. Af svipuðum toga eru hugmyndirnar um að Ísland taki einhliða upp evru án aðildar að ESB.
 
Að smeygja upp á þjóðina beislinu
Sú staða sem kappsfullir talsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu reyna nú að ná fram er stórvarasöm fyrir þjóðarhagsmuni. Upptaka evru er gerð að meginatriði í stað þess að fjalla heiðarlega um eðli og þróun Evrópusambandsins, það fullveldisafsal sem felst í aðild og áhættuna sem tekin væri um yfirráð náttúruauðlinda innan íslenskrar efnahagslögsögu. Í evru-aðild á að vera fólginn sá hókus-pókus sem bjargað geti gjaldþrota efnahags- og peningamálastjórn síðustu ára. Samtök atvinnulífsins og Samfylkingin leggjast hvað fastast á þessa sveif, studd af kunnuglegum öflum í Framsóknarflokknum. Þessir aðilar ætla mönnum að gleyma því að undirrót verðbólgu og óstöðugleika síðustu ára er fyrst og fremst sú stóriðjustefna og óhefta útrás fjármálafyrirtækja sem fyrri ríkisstjórnir bera ábyrgð á. Sú stefna var vissulega studd af ofangreindum aðilum, Samfylkingin þar ekki undanskilin. Sömu öfl vilja nú halda hrunadansinum áfram, m.a. með óbreyttri ef ekki hertri stóriðjustefnu.
 
Í ákefðinni að smeygja ESB-beislinu upp á þjóðina er þagað þunnu hljóði um þá staðreynd að aðild að Myntbandalagi Evrópu stendur aðildarríkjum ESB ekki til boða nema að uppfylltum ströngum skilyrðum sem fyrst og fremst taka mið af hagsmunum stórkapítalsins í ríkjum Mið-Evrópu. Áróðurinn fyrir að Ísland eigi hið snarasta að sækja um aðild að ESB til að geta tekið upp evru sem lausn frá tímabundnum vanda er helber blekking, til þess fram borin að koma Íslandi sem fyrst inn í Evrópusambandið. Nær væri að menn einbeittu sér að því að stjórna málefnum lands og þjóðar í krafti þess sem þrátt fyrir allt lifir eftir af fullveldinu.
 
Hjörleifur Guttormsson,
náttúrufræðingur
 
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 24. september 2008)


Heiðursaðild að ESB er ekki til

arni thor sigurdsson
Í umræðunni um Evrópumálin og gjaldmiðilsmálin hafa talsmenn aðildar Íslands að ESB æ ofan í æ talað um mikilvægi þess að Ísland „léti reyna á" og kannaði „hvað okkur býðst" í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þar með er látið í veðri vaka að Ísland gæti náð einhverjum sérstökum samningum, að Ísland gæti orðið einhvers konar „heiðursfélagi" í Evrópusambandinu sem nyti einstakra vildarkjara. Hafa margir málsmetandi einstaklingar og fjölmiðlar haldið þessu fram. Þetta er að sjálfsögðu bábilja.

Ef skoðaðar eru yfirlýsingar og fullyrðingar forystumanna og háttsettra embættismanna innan Evrópusambandsins er deginum ljósara að ekkert slíkt er í boði. Í besta falli hafa þeir sem eru velviljaðir Íslendingum látið í það skína að Ísland gæti fengið einhverjar tímabundnar undanþágur, einkum frá sjávarútvegsstefnu sambandsins. En það er í raun algert aukaatriði.

Það má öllum vera ljóst hvað felst í aðild að Evrópusambandinu. Allar samþykktir og sáttmálar um aðild að Evrópusambandinu liggja fyrir, lög og reglur Evrópusambandsins sömuleiðis. Öll aðildarríki verða að beygja sig undir þá skilmála. Undanbragðalaust. Það er ekki hægt að velja sætu berin úr og skilja þau súru eftir. Nema hvað?! Það er ekki í boði neitt „íslenskt ákvæði" sem undanþiggur Ísland að standa við þær skuldbindingar sem aðrar þjóðir þurfa að gera. Þess vegna er allt tal um að láta reyna á aðild, kanna hvað okkur býðst o.s.frv. til þess eins fallið að slá ryki í augu fólks.
 
Stjórnmálamenn eiga að koma hreint fram gagnvart þjóðinni og segja kost og löst á Evrópusambandsaðild en ekki að gefa í skyn að eitthvað annað og betra fylgi aðild en raun er á. Þannig er alveg ljóst að við myndum m.a. missa forræði yfir stjórn sjávarútvegsmála til Brussel og hið sama á við um viðskiptasamninga við önnur ríki. Um það á ekki að þurfa að deila.
 
Árni Þór Sigurðsson,
þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs
 
(Birtist áður í Fréttablaðinu 23. september 2008)
 

Reikniskekkjur skjálfhentra ESB - sinna

bjarni hardarson
Handarskjálfti getur tíðum leitt til þess að rangt er slegið inn á reiknivélum og svo virðist nú farið þeim aðildarsinnum sem reiknað hafa út að aldrei hafi fleiri Íslendingar verið hlynntir ESB - aðild en nú. Ef litið er á tölur á heimasíðu Samtaka iðnaðarins sést að þetta er rangt. Fylgið við aðild að ESB náði meiri hæðum í netbólukreppunni í byrjun þessarar aldar en rénaði fljótt um leið og um hægðist á mörkuðum.
 
Þannig töldu 67% þeirra sem tóku afstöðu í febrúar 2002 að Ísland ætti að ganga í ESB en nú er sambærileg tala 60%. Frændur okkar Svíar gengu í ESB í krafti einnar atkvæðagreiðslu sem sýndi meirihlutafylgi við aðild. Bæði fyrir og eftir þá kosningu hefur meirihlutinn verið andvígur ESB - aðild þar í landi en úr ESB er engin leið út.

Skrýtla í skrifræðinu
Í nýjum Lissabonsáttmála er reyndar ein skrýtla um úrsögn þar sem gert er ráð fyrir að þjóð megi ganga úr ESB en verði þá fyrst að sæta því að vera gíslingu hinna ESB landanna í tvö ár án þess að ráða nokkru um sín mál eða koma nokkuð að ákvörðunum innan sambandsins. Í öllu skrifræði sambandsins er þetta eitt af örfáum dæmum um skopskyn og enn fyndnara þegar einhver tekur reglu sem þessa alvarlega.

En áfram um talnafræðin. Þegar horft er til sögu Svía og niðurstöður skoðanakannanna á Íslandi síðustu ár er handarskjálfti ESB - sinna hér heima ofur skiljanlegur. Reynslan kennir þeim að meirihlutafylgi við ESB - aðild er mjög hverfult. Fæstir hafa skoðað málið til þrautar og fyrir flestum rennur upp önnur mynd þegar þeir átta sig á að með aðild að ESB hefur Ísland glatað nýfengnu fullveldi um alla framtíð. Fullveldi sem hefur skilað okkur svo fram á brautina að frá því að vera frumstæðust og fátækust allra Evrópuríkja erum við nú þau efnamestu.

Reynsla Norðmanna bendir raunar til að við kosningar sé þjóðleg hollusta og skynsemi mun meiri en í yfirborðslegum skoðanakönnunum. Meirihluti Norðmanna hefur samþykkt ESB aðild í könnunum en hafnað hinu sama í kosningum.

En hinu er ekki að neita að ef fjármálakreppan dýpkar enn og verðbólgan heldur áfram er líklegt að fylgi við ESB aðild eigi jafnvel enn eftir að aukast - áður en það hjaðnar hratt á ný, líkt og gerðist á árinu 2002. Þá gerðist það að fylgi við ESB féll mjög hratt um mitt ár 2002 og hefur síðan lónað í 40% allt fram til ársins 2006 að það fór að skríða hægt uppundir helming en sú þróun stöðvaðist í raun og veru fyrir ári síðan. Munurinn á ágústtölum Samtaka Iðnaðarins nú (48,8%) og ágústtölunum frá 2007 (47,9%) er innan skekkjumarka.

Almenningur á að hlýða ESB!
ESB - sinnar eiga ekki langt að sækja það að vera ónákvæmir á reiknivélum þegar kemur að skoðunum almennings. Hjá sjálfu Brusselvaldinu hefur aldrei tíðkast að farið sé eftir skoðunum almennings, - það er almenningur sem á að fara eftir skoðunum valdsins. Kosningar eru til að staðfesta þegar markaða stefnu og ef almenningur hafnar því sem fyrir hann er lagt er það vegna þess að sami almenningur hefur ekki skilið kosningarnar. Þessu er nú haldið fram um Lissabonkosningar Íra.

Frakkar höfðu hafnað sömu tillögum í þjóðaratkvæðagreiðslu með mjög afgerandi hætti og sama gerðu Hollendingar. Í stað þess að farið væri að vilja almennings var nafni á hinni nýju stjórnarskrá breytt og hún kölluð Lissabonsamningur. Síðan sjá þjóðþingin um að keyra það í gegn sem almenningur hafði hafnað.  Andstaða almennings við Evrópusamrunann innan ESB landanna er orðin áþreifanleg og feigðarmerki sambandsins flestum augljós.
 
Bjarni Harðarson,
þingmaður Framsóknarflokksins
 
(Birtist áður í 24 stundum og á bloggsíðu höfundar)
 

Skoðanakönnun um stöðu Íslands

Alþingismaður nokkur sagði mér, að í hann hefði verið hringt um daginn vegna almennrar skoðanakönnunar og hann spurður, hvort rétt hefði verið að vísa manni nokkrum héðan til Ítalíu. Hann spurði: Má ræða málið? Nei, hann átti að svara já eða nei. Þannig vilja margir hafa það að leyfa aðeins tvo kosti til umræðu og afgreiðslu. Hér verður þvert á móti athugað, hvort leita megi álits þjóðarinnar um stöðu Íslands í Evrópu með raðvali. Eins og lesendum Morgunblaðsins má vera kunnugt, má með því móti meta rökvíslega afstöðu til fleiri en tveggja kosta.
 
Í áliti alþingisnefndar í fyrra var það rætt af stillingu, að líf gæti verið utan Evrópska efnahagssvæðisins og Evrópusambandsins. Þetta kom fram á aðalfundi Heimssýnar í tali tveggja nefndarmanna, Illuga Gunnarssonar og Katrínar Jakobsdóttur. Ég segi af stillingu, því að lengst af hefur verið fjallað um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu af þeim trúboðshita, sem fylgdi tali utanríkisráðherrans, þegar tekist var á um aðildina. Þá er það góðs viti um rökræður, þótt þess gæti lítið í fjölmiðlum, að í nefnd stjórnar ríkisins um stöðu Íslands, sem nú er að störfum, er Illugi Gunnarsson enn og raunar í forystu ásamt manni úr Brüssel-fylkingunni.
 
Hér raða ég kostum um stöðu Íslands eftir fjarlægð þeirra frá vilja ráðastéttarinnar. Þá verður fyrstur sá kostur, að Ísland hafi samskipti við Evrópusambandið samkvæmt EFTA-samningnum; það gerist með því að segja EES-samningnum upp. Um það eru skýr ákvæði, að þá taka EFTA-ákvæði gildi. (Það verður síðan viðfangsefni stjórnvalda að móta samskiptin á þeim grundvelli).
 
Annar kostur væri að halda EES-samningnum. Þar gætu raunar verið tvö sjónarhorn, annars vegar það, að hann verði takmarkaður við fjórskilyrðin. Hitt sjónarhornið væri að eyða sem mestu af því, sem greinir að Ísland og Evrópusambandið; þetta er vitaskuld sjónarhorn ráðastéttarinnar, sem hefur um áratugi unnið að slíkri aðlögun til þess svo að geta lagt aðild að Evrópusambandinu fyrir þjóðina með þeim orðum, að munurinn sé nánast enginn. Hér má nýjast vísa í orð viðskiptaráðherra, að ekki eigi að leggja aðild fyrir þjóðina, fyrr en um hana geti orðið býsna breið samstaða.
 
Þriðji kosturinn væri að sækja um aðild með skilyrðum um forræði auðlinda til lands og sjávar; það má hafa á fleiri stigum, og þar koma sér vel eiginleikar raðvals, að það truflar ekki málsmeðferð, þótt lögð séu fram sex-sjö afbrigði. Fjórði kosturinn væri að sækja um aðild án skilyrða.
 
Ráðamenn hafa lagt mál fyrir þjóðina til atkvæðagreiðslu annars vegar í máli, sem flokkarnir voru í vandræðum með, þar sem skoðanir voru sterkar og þvert á flokka, nefnilega heimild til sölu áfengis, og hins vegar þegar það hefur styrkt málstaðinn að fá fram einróma stuðning, nefnilega við stofnun lýðveldis. Nýleg eru tvö dæmi, þar sem ráðamenn lögðu mál fyrir með aðeins tveimur afbrigðum, þótt þau væru vissulega þannig vaxin, að minnst þrjú afbrigði áttu við. Annað var almenn atkvæðagreiðsla í Reykjavík um flugvöll, en hitt tengdist stækkun álversins í Straumsvík. Þar var leitað afstöðu um breytingu á deiliskipulagi, sem gaf færi á stækkun álversins, án þess að lagt væri fyrir, hvort stækka ætti álverið. Mikils háttar maður í Hafnarfirði kom fram sem andstæðingur stækkunar, en studdi breytinguna á deiliskipulagi. Það gat hann ekki tjáð í atkvæðagreiðslunni, en með raðvali var einfalt að hafa kostina þrjá, og þá hefði hann getað tjáð sig í atkvæði í samræmi við orð sín.
 
Sem stendur er það kjarni málsins um stöðu Íslands, hvernig stjórn ríkisins, í hinum ýmsu ráðuneytum, mótar lög landsins til að eyða fyrirstöðu við aðildarstefnu, eins og hefur verið markmið ráðastéttarinnar í hálfa öld. Sem stendur vinna verslunarkeðjur meginlandsins að því að auka svigrúm sitt í Evrópusambandinu og veikja samtök bænda. Hér er einmitt til umfjöllunar lagafrumvarp, sem gefur íslenskum verslunarkeðjum færi á að ryðja úr hillum sínum íslenskum afurðum. Frumvarpið á upptök sín í Brüssel. Umræða um þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og hún hefur verið, beinir athyglinni frá slíku starfi ráðastéttarinnar. Öðru máli gegndi, ef umræðan yrði um raðval sex-sjö kosta um stöðu Íslands. Þá yrði hún með þeirri breidd, sem efni standa til.
 
Björn S. Stefánsson
 
(Birtist áður í Morgunblaðinu 8. ágúst 2008)


Frjálslyndir demókratar hættir að berjast fyrir evrunni

Euro645Frjálslyndir demókratar í Bretlandi hafa lagt á hilluna eitt helsta baráttumál sitt síðustu ára, að tekin verði upp evra í Bretlandi. Leiðtogar þeirra opinberuðu þessa stefnubreytingu á flokksráðstefnu í vikunni og þykja þetta að vonum miklar fréttir. Frjálslyndir demókratar eru sem kunnugt er þriðji stærsti stjórnmálaflokkur Bretlands á breska þinginu og hafa um árabil verið taldir Evrópusambandssinnaðasti stjórnmálaflokkur landsins.
 
Helsta ástæðan fyrir þessari stefnubreytingu er að sögn leiðtoga Frjálslyndra demókrata að þeir sjái ekki fram á að barátta fyrir upptöku evru í Bretlandi muni skila árangri og í annan stað að evran hafi ekki verið að skila sér sem skyldi. Tilgangslaust væri að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið þar sem það væri augljóst að evrunni yrði hafnað. Það væri því alger tímaeyðsla að leggja áherslu á upptöku evrunnar í Bretlandi.
 
Talsmaður Frjálslyndra demókrata í fjármálum, Vince Cable, sagði í samtali við The Observer sl. sunnudag að gríðarlega hækkun á húsnæðisverði í ýmsum evruríkjum mætti rekja til þess að þau afsöluðu sér sjálfstæðri peningamálastjórn þegar þau tóku upp evruna. Sagði hann ljóst að það væru mörg vandamál til staðar á evrusvæðinu sem þyrfti að laga og gaf jafnframt í skyn að það hefðu verið mistök hjá Frjálslyndum demókrötum að berjast fyrir upptöku evrunnar. Hann sagði ennfremur að það væri ekki skynsamlegt að taka upp evru eins og staðan væri í efnahagsmálunum í dag.
 
Nick Clegg, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, sagði á flokksráðstefnunni að þó hann væri hlynntur því að taka upp evru í Bretlandi þá gerði hann sér grein fyrir því að það væri ekki raunhæft eins og staðan væri í dag. Hann lagði þó áherslu á að flokkurinn vildi enn taka upp evru í Bretlandi þegar rétti tíminn væri til þess en ljóst þætti að hann væri ekki núna. Það væri deginum ljósara að enginn áhugi væri fyrir því að taka það skref.
 
Cable neitaði því að sama skapi að Frjálslyndir demókratar hefðu sagt skilið við grunnafstöðu sína til Evrópusambandsins, en sagði að þeir myndu þó berjast fyrir minni miðstýringu og minni skriffinsku innan sambandsins fyrir kosningar til Evrópusambandsþingsins á næsta ári. Hann sagði ýmislegt vera að Evrópusambandinu. Sameiginleg landbúnaðarstefna sambandsins væri t.d. alger hörmung og það þyrfti nauðsynlega að koma á umfangsmiklum umbótum innan stofnanan þess.
 
Heimildir:
Lib Dems' policy U-turn over euro entry (Independent on Sunday 14/09/08)
 

Evran fellur um 8% gagnvart dollar á innan við mánuði

Franska dagblaðið Los Echos greinir frá því í dag að gengi evrunnar hafi nú fallið um 8% gagnvart dollaranum á innan við mánuði og að gengi hennar hafi ekki verið lægra gagnvart dollaranum frá því í upphafi þessa árs. Ástæðan fyrir gengisfalli evrunnar eru versnandi efnahagshorfur á evrusvæðinu sem leitt hafa til minni eftirspurnar eftir evrum. "Þú kaupa ekki evrur sem langtímafjárfestingu," hefur Blomberg fréttastofan eftir einum viðmælanda sínum sem starfar við verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipti. AFP fréttastofan hefur eftir öðrum að seðlabankar heimsins séu farnir að hafa áhyggjur af hlutfalli evra í gjaldeyrisforðum sínum.

Heimildir:
La rupture de l'euro (Los Echos 04/09/08)
Euro sinks against dollar amid recession fears (AFP)
Euro Trades Near 7-Month Low Versus Dollar Before ECB Decision (Blomberg 04/09/08)


Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 39
  • Sl. sólarhring: 72
  • Sl. viku: 2002
  • Frá upphafi: 1176856

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 1824
  • Gestir í dag: 36
  • IP-tölur í dag: 36

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband