Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Evruland er eins flokks ríki

Ímyndið ykkur Washington án Repúblíkanaflokksins og þá fáið þið hugmynd um pólitíska landslagið í Brussel, segir í grein í amerísku fréttaveitunni Bloomberg. Greinin tekur útgangspunkt í stöðu Svíþjóðar sem góðu heill ákvað að standa utan evrunnar og prísar sig sæla í ljósi fyrirsjáanlegra hörmunga myntsamstarfsins.

Seinni hluti greinarinnar fjallar um einsflokksræðið í Brussel, þar sem valið hefur staðið um breiðara samstarf fleiri ríkja eða nánari samstarf færri ríkja. Enginn í Brussel hefur haldið fram stjórnmálastefnu sem segir ,,minna samstarf færri ríkja" - það leyfist ekki að efast um samrunaþróunina.

Framkvæmdastjórnin, sem ein má leggja fram lagafrumvörp, er ekki lýðræðislega kosin heldur tilnefnd af sambandssinnum. Án andstæðra fylkinga sem tefla fram ólíkum stjórnmálastefnum verður til einstefnuhugsun sem leiðir til ófarnaðar, eins og að stofna til gjaldmiðlasamstarfs án þess að hafa til þess pólitískar stofnanir sem m.a. færu í sér sameignleg fjárlög aðildarþjóða Evrulands.

Eins flokks ríki lenda fyrr heldur en seinna á öskuhaug sögunnar.


Skapandi aðalsamningamaður Íslands

Stefán Haukur Jóhannesson er aðalsamningamaður Íslands í aðlögunarferlinu að Evrópusambandnu sem enginn meirihluti er fyrir og ætti að stöðva strax. Í útvarpsviðtali nýverið sagði Stefán Haukur í endursögn Jóns Baldurs L'Orange

Við setjum fram semingsmarkmið og þeim markmiðum reynum við að ná í þessum viðræðum. Þetta snýst um að finna sérstakar lausnir. Það eru mörg fordæmi fyrir því, ESB hefur fallist á, og verið nokkuð ,,creative" í því að finna sérstakar lausnir fyrir ríki sem eru að ganga til liðs við sambandið, og sem ríki hafa sett á oddinn og ríki hafa einhverja sérstöðu í

Fyrir það fyrsta liggja samningsmarkmið Íslands ekki fyrir, hvorki Stefán Haukur né yfirmaður hans, Össur Skarphéðinsson, segja upphátt hvaða markmið eru sett fram í viðræðum við ESB. Það er verið að makka á bakvið tjöldin hvað þurfi að bjóða Íslendingum til að fá þá um borð sökkvandi Evrulands.

Í öðru lagi virðist Stefán Haukur stunda skapandi stjórnmál sem embættismaður ætti ekki að gefa sig í. Stefán Haukur lét að því liggja að Ísland kæmi út á sléttu ef við yrðum aðilar, við myndum fá tilbaka það sem við greiddum í Evrópusambandið. Rétt er að við munum borga 15 milljarðatil ESB og bjartsýnar áætlanir gera ráð fyrir að við gætum fengið 12 milljarða til baka með styrkjum.

Skapndi er kurteist orð yfir lygi og blekkingu.


Buddu-konur eru aðildarsinnar

Búðarlokuhugsunarháttur aðildarsinna lætur ekki að sér hæða. ,,Allt er falt fyrir fé," er sniðmát aðildarsinna og þeim tekst að töfra fram hnarreistar konur til að funda hjá sér undir yfirskriftinni

Hvað ertu að kaupa, kona?

Svarið er þetta: ef maður er í Evrópusambandinu kaupir maður kólígerla með matvælunum.

En hvernig látum við hér á Heimssýnarbloggi, auðvitað fara íslenskar alþýðukonur eftir fordæmi útrásarkvenna og kaupa Evrópusambandið rétt eins og fjármálaútrásina.

Aðildarsinnar þekkja sitt heimafólk.


Ísland yrði lagt inn í Evruland

Forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins Herman van Rompuy sendi út ákall vegna fjármálakreppunnar á evru-svæðinu, þar sem 17 ríki ESB deila með sér gjaldmiðli. Van Rompuy hvatti til þess að ráðamenn tali skýrar og nefni hlutina réttum nöfnum.

Við verðum að tala hreint út og segja hvað gjaldmiðlasamstarf felur í sér. Það þýðir að við erum í ,,Evrulandi." Sameiginlegur gjaldmiðill felur í sér að við erum eitt ríki, í það minnsta í fjárhagslegum skilningi. Við sjáum það skýrt að ákvarðanir í einu landi hafa áhrif á heildina. Við getum einfaldlega ekki haft einn gjaldmiðil en 17 ólíkar stjórnmálastefnur.

("We must start to be more explicit about what a monetary union means. It means we are in 'Euroland'. Sharing a currency means we are in one country, at least monetarily speaking. That makes it much clearer why the decisions of one, affect all! We simply cannot have one currency and 17 divergent policies.")

Íslandi stendur ekki lengur til boða að ganga í Evrópusambandið, - Evruland skal það heita.

(Tekið héðan.)


Staðfestan í afstöðunni til Evrópusambandsins

Heimssýn sendi í gær út fréttabréf með niðurstöðum könnunar Capacent-Gallup um afstöðu þjóðarinnar til aðildar að Evrópusambandinu. Fréttin er eftirfarandi:

Í könnun sem Capacent-Gallup gerði fyrir Heimssýn sögðust 57,3 prósent vera andvíg aðild Íslands að Evrópusambandinu en 42,7 prósent fylgjandi, séu aðeins tekin svör þeirra sem tóku afstöðu með eða á móti.
Könnunin byggir á 589 svörum við spurningunni ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB)?
Heildarskipting á svörum er eftirfarandi:
Alfarið, mjög eða frekar andvíg aðild: 50,1 prósent
Hvorki hlynnt né andvíg aðild: 12,6 prósent
Alfarið, mjög eða frekar hlynnt aðild: 37,3 prósent
Könnunin mældi viðhorf til aðildar á tímabilinu mars til júní.

Aðildarsinnar telja sig á grundvelli könnunarinnar vera í stórsókn: segir Eyjan, fullyrðir Össur, kætist Já Ísland og Evrópusamtökin eru við að missa sig.

Aðildarsinnar eru sveltir af góðum fréttum fyrir sinn málstað og þess vegna búa þeir til veruleika að lifa í. Þeir finna prósentutölur í öðrum könnunum, og leita helst að lægstu tölu fylgjenda til að sýna sjálfa sig í sem bestu ljósi. Aðferðafræðilega halda slík vinnubrögð ekki vatni, en hvað um það, það má alltaf setja spunavélina af stað.

Hér að neðan er tafla úr sömu könnun. Taflan sýnir staðfestuna í afstöðu fólks til Evrópusambandsaðildar. Vel innan við þriðjungur þeirra sem segjast hlynntir aðild fylla flokk ákveðnustu stuðningsmanna. Aftur er helmingur andstæðinga aðildar alfarið andvígur.

Stærsti hluti aðildarsinna samkvæmt könnuninni er hálfvolgur í trúnni, velur að auðkenna sína afstöðu með því að segjast ,,frekar hlynnt(ur)".

Okkur á Heimssýnarblogginu þótti við hæfi að birta þessar upplýsingar að kveldi þjóðhátíðardagsins. 

Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB)?

Alfarið hlynnt(ur)

10,3%

Mjög hlynnt(ur)

10,8%

Frekar hlynnt(ur)

16,3%

Hvorki hlynnt(ur) né andvíg(ur)

12,6%

Frekar andvíg(ur)

15,4%

Mjög andvíg(ur)

10,0%

Alfarið andvíg(ur)

24,7%


Þjóðhátíð í skugga umsóknar

Umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu svertir minningu Jóns Sigurðssonar sem á 200 ára afmæli í dag. Jón helgaði líf sitt sjálfstæði Íslands. Hann lagði grunninn að pólitísku sjálfstæði Íslands sem fékkst í áföngum frá 1874 með stjórnarskrá til 1944 með lýðveldisstofnun. Baráttan fyrir efnahagslegu sjálfstæði var háð samhliða og lauk ekki fyrr en 1975 með útfærslu landhelginnar í 200 mílur.

Umsóknin um aðild Íslands að Evrópusambandinu er umsókn um að Ísland afsali sér fullveldinu gegn 0,8 prósent áhrifum í Evrópusambandinu og þau áhrif munu lækka niður í 0,08 prósent þegar atkvæðavægi í ráðherraráði breytist frá og með 2014.

Umsóknin færir Evrópusambandinu á silfurfati yfirráð yfir fiskveiðilandhelginni. Beri umsóknin þann eitraða ávöxt að Ísland verði aðildarríki mun strandríkið Ísland leggja sína hagsmuni í hendur meginlandsríkjasambands. Samningaviðræður Íslands við önnur ríki á Norður-Atlantshafi væru á forræði Evrópusambandsins.

Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu á að draga strax tilbaka.


Krónan bjargaði Íslandi, staðfest

Krónan bjargaði Íslandi með því að án hennar hefði ekki verið mögulegt að fella gengið um leið og bankarnir voru settir í gjaldþrot. Snögg umskipti á samkeppnisstöðu landsins var forsenda fyrir íslensku leiðinni úr fjármálakreppunni, að láta bankana falla.

Írlandi, Portúgal og Grikklandi eru allar íslenskar bjargir bannaðar sökum þess að löndin hafa ekki eigin mynt og eru aðildar að Evrópusambandinu.

Hvers vegna er ekki búið að stofna krónuvinafélagið?


mbl.is Segir Ísland vera komið inn úr kuldanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfvelgja Vinstri grænna verður dýrkeypt

Hver man ekki eftir því áróðursbragði ESB-sinna hér á landi fyrir fáeinum árum þegar reynt var að telja fólki trú um að Norðmenn væru um það bil að fara að sækja að nýju um aðild að ESB? Þá var hamrað á því að Íslendingar myndu sitja einir eftir í EES ásamt Lichtenstein og gætu ekkert annað gert en að sækja um aðild.

 

Áhrifamáttur þessa áróðurs hefur þó mjög farið dvínandi seinustu árin, því að allar skoðanakannanir sem gerðar hafa verið í Noregi frá árinu 2005 sýna afgerandi meirihluta gegn aðild að ESB. Nú berast fréttir um skoðanakannanir þar í landi sem sýna að 66,2% norskra kjósenda segja nei við ESB-aðild en aðeins 25,7% eru fylgjandi aðild og 8% tóku ekki afstöðu. Sérstaka athygli vekur hve eindregið unga fólkið í Noregi er í afstöðu sinni. Meðal þeirra sem yngri eru en 30 ára eru 77% andvígir ESB-aðild en aðeins 15% styðja aðild. Meiri hluti kjósenda allra stjórnmálaflokka í Noregi er á móti aðild.

 

Þrátt fyrir aðildarumsókn Íslands er staðan hér á Íslandi ekki ósvipuð. Aðeins einn stjórnmálaflokkur hér styður aðild, Samfylkingin, og skýrt hefur legið fyrir í öllum skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið undanfarin tvö ár eða frá vori 2009 að mikill meirihluti landsmanna er andvígur ESB-aðild. Hins vegar heppnaðist Samfylkingunni að smygla aðildarumsókn gegnum Alþingi með því að fá allmarga þingmenn Vinstri grænna til að greiða atkvæði með því að umsókn yrði send, þótt hinir sömu þingmenn lýstu því yfir að þeir væru andvígir aðild og áskildu sér rétt til að greiða atkvæði á móti aðildarsamningi. Ljóst var að hefðu allir þingmenn greitt atkvæði í samræmi við samfæringu sína hefði tillagan um aðildarumsókn verið felld. Atkvæði þingmanna VG réðu úrslitum. 

 

Krossferð Össurar til Brussel er dæmd til að mistakast og þar á bæ er öllum kunnugt um að hvorki Íslendingar né Norðmenn hafa hug á að ganga í ESB. Vandinn hér heima er hins vegar sá að íslenskir skattgreiðendur borga brúsann og þar er um milljarða króna að ræða. Jafnframt hefur VG lent illilega milli steins og sleggju í þessu máli. Hætt er við að margir fyrrum kjósendur VG sem andvígir eru aðild treysti ekki flokknum þegar næst verður kosið vegna þess að flokkurinn greiddi götu aðildarumsóknar að ESB. Á hinn bóginn munu þeir sem mikinn áhuga hafa á ESB-aðild styðja Samfylkinguna þar sem stefna VG er að Ísland standi utan við ESB. Fylgið mun því tálgast jafnt og þétt af VG frá báðum hliðum meðan afstaða flokksins í þessu máli er jafn hálfvolg og tvíbent og raun ber vitni.

 

Æ færri trúa því í alvöru að það þurfi að taka mörg ár „að kíkja í pakkann“ og „sjá hvað í boði er“ eins og afstaða VG var réttlætt með fyrir bráðum tveimur árum. Nú þegar hefur VG orðið fyrir þungum búsifjum út af þessu máli, sbr. nýlegar úrsagnir, og flest bendir til þess að hálfvelgja flokksins í þessu stærsta og örlagaríkasta máli þjóðarinnar eigi eftir að verða flokknum afar dýrkeypt á komandi árum nema forystulið hans taki á sig rögg og segi sig með skýrum hætti frá þessu feigðarflani Samfylkingarinnar í náðarfaðm ESB.

 

Ragnar Arnalds

 

(Tekið héðan.)


Rænulaus íslensk stjórnmálastétt

Grikkland er gjaldþrota og Evrópusambandið er hvorttveggja í pólitískri og fjármálalegri kreppu. Enginn veit hvenær eða hvernig upplausinni lýkur. Hitt er kristalstært að Evrópusambandið sem Ísland sótti um aðild að sumarið 2009 tekur gagngerum breytingum þessi misserin. Hér á Íslandi þegja stjórnmálamenn um ástandið í Evrópusambandinu og láta eins og það komi sér ekki við.

Styrmir Gunnarsson tekur rænulausa alþingismenn til bæna í pistli á Evrópuvaktinni.

Þrátt fyrir þetta ástand í Evrópu, þeirri Evrópu, sem Alþingi Íslendinga hefur samþykkt að sækja um aðild að, hefur enginn þingmaður séð ástæðu til að hefja umræður um það á þingi hvers vegna í ósköpunum Ísland eigi að kasta sér út í þetta fúafen. Hvað veldur þessum sofandahætti íslenzkra þingmanna? Fylgjast þeir ekki með? Gera þeir sér ekki grein fyrir því hvað er að gerast í því ríkjabandalagi, sem við erum að sækja um aðild að? Hvar er varðstaða þeirra um íslenzka hagsmuni?

Hér er hvergi ofmælt hjá Styrmi.


mbl.is Mótmæli í Grikklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðildarsinnar: ESB-aðild breytir sáralitlu

Í aðdraganda umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu, sumarið 2009, töluðu aðildarsinnar fjálglega um stórkostlegan ábata sem mætti hafa af aðild. Bara við umsóknina myndi gengi krónunnar styrkjast. Við inngöngu myndu lífskjör batna hér um tugi prósenta, s.s. vegna lægri vaxta og ódýrari matvæla.

Eftir því sem hörmungar evrusvæðisins aukast verður erfiðara fyrir íslenska aðildarsinna að selja alþjóð sama áróðurinn. Nýjasta tilbrigðið í málflutningi aðildarsinna er að ESB-aðild breytir sáralitlu. Friðrik Jónsson er óþreytandi málflutningsmaður aðildar. Hann skrifar

Árangur ríkja innan ESB, sem samstarf sjálfstæðra ríkja, virðist fyrst og fremst byggja á getu og atorku ríkjanna sjálfra til að standa sig. Aðildin að ESB þjónar hins vegar eins og smurning og viðbótaraflgjafi fyrir þau ríki.

En um leið og hann sleppir röksemdinni að aðild færi þjóðríkjum hvorki velsæld né volæði, heldur sé ,,smurning" og ,,viðbótaraflgjafi" biður Friðrik lesendur að líta til Eystrasaltsríkjanna og hversu velmengunin sé mikil þar - þökk sé Evrópusambandsaðild. Egill Helgason lætur þessa ódýru brellu blekkja sig og endurbirtir pistil Friðiks, en sleppir hreinskilninni um að aðild breyti litlu.

Þeir sem skoða Evrópusambandið og evruna af alvöru, til dæmis hagfræðingurinn Pau de Grauwe og Martin Wolf blaðamaðurá Financial Times, benda á að Evrópusambandið sé eiginlega hvorki né samband. Það sé með stórríkjametnað en enga getu til að fylgja eftir yfirlýstum metnaði. Fjármálakreppa evru-svæðisins verður ekki leyst með því að benda á Eystrasaltslöndin sem fyrirmynd. Kreppan er í sjálfu skipulagi og hönnun Evrópusambandsins.

Innbyggt ójafnvægi í Evrópusambandinu kemur fram á Írlandi og Suður-Evrópu í dag en gæti brotist fram við Eystrasalt eða Austur-Evrópu í náinni framtíð.

Aðildarsinnar eins og Friðrik og Egill gera sjálfa sig ótrúverðuga með mótsagnakenndum málflutningi og valkvæðum rökum. En þeim er vorkunn - flestar fréttir af ESB og evru þessi misserin eru vondar. Hvers vegna ekki að skálda í eyðurnar til að samfylkingarliðið fái sinn skammt af blekkingu?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 70
  • Sl. sólarhring: 213
  • Sl. viku: 649
  • Frá upphafi: 1116842

Annað

  • Innlit í dag: 68
  • Innlit sl. viku: 569
  • Gestir í dag: 67
  • IP-tölur í dag: 66

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband