Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Kjánatvenna aðildarsinna

Tvenn kjánarök fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu eru algeng í umræðunni. Sameiginlegt kjánarökunum er séríslenskan þeirra og að tilvísun til Evrópusambandsins er nánast engin.

Fyrstu kjánarökin eru þau að íslenska krónan sé ónýt og þess vegna eigum við að ganga í Evrópusambandið. Í rökfærslu brýtur staðhæfingin grunnregluna non sequitur þar sem af forsendunni, að krónan sé ónýt, flýtur ekki niðurstaðan, að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið. Ísland gæti tekið upp dollar, svissneskan franka, norska krónu eða japanskt jen ef það yrði að varpa krónunni fyrir róða.

Önnur kjánarökin eru að það sé lýðræðislegur réttu þjóðarinnar að fá að greiða atkvæði um aðildarsmning. Þjóðin fékk ekki rétt til að greiða atkvæði um hvort sækja skyldi um aðild. Það má heldur ekki greiða atkvæði um hvort við ættum að halda áfram umsóknarferlinu. En það er höfuðatriði að fá að greiða atkvæði um aðildarsamning, segja aðildarsinnar.

Þessi röksemdafærsla kveður á um að það sé ekki hægt að taka afstöðu til Evrópusambandsins nema á grundvelli aðildarsamnings. Aðildarsinnum einum leyfist að taka afstöðu og berjast fyrir aðild en við hin eigum að bíða eftir samningi.

 Nýjustu útgáfuna af kjánatvennu aðildarsinna má lesa hjá Evrópusamtökunum. Auðvitað.

(Tekið héðan.)


Alþingi: 200 mílurnar verði íslenskar

 Sjávarútvegsstefna ESB fjallar um nýtingu á sameiginlegri auðlind og er gerð í samkomulagi aðildarríkja ESB um nýtingu og samvinnu. Í þessu sambandi telur meiri hlutinn mikilvægt að leggja áherslu á meginreglur hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem telja verður að tryggi ákveðin grundvallarréttindi sem ekki verða skert með reglum ESB, m.a. fullveldisréttinn um 200 mílna fiskveiðilögsögu.

Ofanritað er tekið úr áliti meirihluta alþingis frá 16. júlí 2009 þegar samþykkt var að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Vinstrivaktin gegn ESB vekur athygli á því að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur ekki heimild alþingis til að semja við Evrópusambandið á annarri forsendu en að Ísland undirgangist ekki sjávarútvegsstefnu sambandsins.

Dagsetning á afturköllun umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu er tímabær.


Spánn næsta fórnarlamb evrunnar

Evran er tortímandinn í jaðarríkjum Evrópusambandsins. Grikkir, Portúgalar og Írar eru með evruna sem myllustein um háls efnahagslífsins sem sligar undan skuldum en fær ekki viðspyrnu til að lækka kostnað og auka þar með samkeppnishæfnina.

Ísland gat fellt krónuna og búið sér til athafnarými sem jók starfsemi útflutningsgreina og dró úr innflutningi. Af því leiðir varð kreppan ekki jafn djúp hér og í evru-ríkjum.

Spánn stendur frammi fyrir lækkun matsfyrirtækja á greiðslugetu ríkissjóðs. Fjármálamarkaðurinn mun taka snúning á Spáni og veðja á að landið segi sig til sveitar hjá Evrulandi.


mbl.is Boða þingkosningar í nóvember
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ragnar Arnalds um Evrópuherinn

Áformin um fyrirhugaðan ríkisher ESB eru umræðuefni sem ESB-sinnar forðast eins og heitan eldinn. Það er skiljanlegt. Hernaðarbrölt hljómar alltaf heldur illa í eyrum flestra Íslendinga. En það er tilgangslaust að stinga höfðinu í sandinn. Umræðan um hernaðaruppbyggingu ESB verður sífellt meira áberandi. 

Hér á síðunni var á það bent fyrir skömmu að Merkel, kanslari Þýskalands, hefði rætt um nærtækustu verkefni ESB og eitt þeirra væri uppbygging "Evrópuhersins" eins og hún nefndi þessa draumsýn sína þótt auðvitað sé ESB langt í frá það sama og Evrópa.

Við myndum þó vita lítið um þessa fyrirhuguðu skrautfjöður í hatti stórríkisins ESB ef ekki væri uppi bullandi ágreiningur innan þess um framkvæmdina og þá einkum um það hvar aðalstöðvarnar verði staðsettar. Willam Hague, utanríkisráðherra Breta, blandaði sér í umræðuna fyrir fáeinum dögum og reyndar með neikvæðum hætti því að hann gagnrýndi fyrirhugaða hernaðaruppbyggingu og tók hana sem dæmi um útþenslustefnu ESB.

Deilurnar um staðsetningu höfuðstöðvanna snýst um þau áform Þjóðverja að hafa þær á einum stað á meginlandinu. En það mega Bretar ekki heyra nefnt. Sú samhæfing hernaðaraðgerða ESB sem nú á sér stað er skipulögð frá fimm herstöðvum í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Grikklandi og á Ítalíu.

Hague lýsti því yfir 18. júlí s.l. að Bretar myndu aldrei samþykkja þá hugmynd að byggja upp einar hernaðarlegar höfuðstöðvar í stað miðstöðvanna í fyrrnefndum fimm löndum. "Þar er rauðalínan", bætti Hague við. 

Hér er því enn eitt ágreiningsefnið á ferðinni sem klofið getur ESB enn frekar til viðbótar við gjaldmiðilsmálin og stóru spurninguna um áframhaldandi samrunaferli. ESB ber flest helstu einkenni nýs stórríkis nú þegar, eins og að var stefnt, og auðvitað finnst leiðtogum ESB að stórríkið verði að hafa sérstakan ríkisher.

Ragnar Arnalds  

(Tekið héðan.)


Ísland, Evrulandið og hitt Evrópusambandið

Neyðarfundur leiðtoga þeirra 17 ríkja sem mynda evru-svæðið var haldinn í síðustu viku til að bjarga myntsamstarfinu. Spiegel tekur saman í stuttri grein helstu ákvarðanir neyðarfundarins. Að frátöldum beinum aðgerðum til aðstoðar ríkja í neyð s.s. Grikklands, Írlands og Portúgal eru búið að samþykkja varanlega lánasjóð fyrir evru-svæðið.

Ásamt lánasjóði Evrulands samþykkti neyðarfundurinn að aðgerðaráætlun yrði gerð til að auka samkeppnishæfni evru-ríkjanna. Slík áætlun mun óhjákvæmilega fela í sér stóraukna miðstýringu á efnahagskerfum ríkjanna 17 sem eru með evru fyrir lögeyri.

Þegar útfærsla á samþykktum neyðarfundarins liggur fyrir munu þau tíu ríki Evrópusambandsins sem standa utan evru-samstarfsins verða að gera upp við sig hvort þau ætla að stökkva um borð í evru-bátinn eða standa á hafnarbakkanum.

Engar líkur eru á því að þau tíu ríki Evrópusambandsins sem standa utan evru-samstarfsins muni á næstu árum munstra sig á skútuna sem fjármálaráðherra Ítalínu líkti við Titanic.

Umsókn Íslands er um aðild að Evrulandinu. En í ,,hinu Evrópusambandinu" verða ríki eins og Bretland, Danmörk og Svíþjóð.

Íslensk stjórnvöld, í það minnsta sá hluti stjórnvaldsins sem er á forræði Samfylkingarinnar, þarf að útskýra fyrir þjóðinni hvaða erindi hún á í Evruland.


ESB klofnar vegna evrunnar

Björgunarpakkinn sem leiðtogar Frakklands og Þýskalands komu sér saman um handa Grikklandi gæti bjargað evru-samstarfi 17 ríkja en aðeins á kostnað samstarfsins við þau tíu ríki Evrópusambandsins sem standa utan Evrulands.

Eftir sigurvímu  í Brussel vegna árangurs Merkel og Sarkozy var reynt  að ,,kæla" sannfæringu margra að vandamál evru-svæðisins væru úr sögunni.

Aðalstjórnmálaskýrandi Telegraph, Peter Oborne, segir samkomulagið stórt skref í átt að samruna efnahagskerfa evru-svæðisins undir þýsku forræði. 

Bretland mun ekki ganga á vit Evrulands og söguleg rök fyrirbjóða pólskum stjórnmálamönnum að leggja lífsmöguleika pólska ríkisins undir þýska hagsmuni.

Ef tekst að bjarga evrunni mun það valda klofningi í Evrópusambandinu. Annars vegar þýsk-franska Evrulandið og hins vegar jaðarríki í vestri, norðri og austri s.s. Bretland, Svíþjóð og Pólland.

Jaðarríkin munu annað tveggja búa við einhvers konar samning um Evrópska efnahagssvæðið eða tvíhliða samninga við Brussel.

Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu líkist æ meir nátttrölli á björtum degi.

(Tekið héðan.)


Grikkjum bjargað en Evrópa sekkur

Grikkir fá afskrifaðar um 20 prósent ríkisskulda sinna og komið verður á fót ígildi gjaldeyrissjóðs Evrópu með víðtækum heimildum til að kaupa skuldir ríkja í efnahagsvanda gegn því að stýra efnahagskerfi þeirra.

Þetta eru meðal atriði sem leiðtogar Þýskalands og Frakklands komu sér saman um í síðustu viku og hinir fimmtán oddvitar evru-ríkja, sem eiga að heita í fyrirsvari fyrir ríki, samþykktu undanbragðalaust.

Tveir kunnáttumenn um Evrópusambandið leggja út af björgun Grikklands:

Ed Conway segir Evrópusambandið standa í kviksyndi þar sem pólitískar samþykktir leiðtoganna njóta ekki lýðræðislegs stuðnings og munu ekki halda þegar fram í sækir.

Daniel Hannanútskýrir að Evruland þarf hjálp Breta til að breyta stofnsamþykktum ESB í framhaldi björgunaráætlun Grikklands. Bretland eigi að veita hjálpina en fá í staðinn tilbaka valdheimildir sem Brussel hefur tekið til sín síðustu áratugi.

Athyglisverð umræða er framundan um hvaða útgáfa af Evrópusambandinu lifir og hvað verður um þau ríki sem ekki finna sig í því sambandi sem verður ofaná.

Fylgist með.


Samúðarkveðjur til Norðmanna

Stjórn Heimssýnar sendi í dag samúðarkveðjur til systursamtaka sinna í Noregi vegna harmleiksins í gær.

Kveðjan er svohljóðandi í íslenskri þýðingu;

Kæru vinir, hugur okkar er hjá norsku þjóðinni eftir harmleikinn í Osló og Útey í gær.

Stjórn Heimssýnar.


Auglýst eftir pólitískri forystu fyrir ESB-andstöðu

Framsóknarflokkurinn er líklegri en Sjálfstæðisflokkurinn til að taka forystuna fyrir andstöðunni gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, segir Evrópuvaktin. Líkur eru á því að þetta sé rétt mat.

Til að ná forystu í málaflokknum þarf utanríkispólitíska sýn um hvar hagsmunum Íslands sé best borgið. Framsóknarflokkurinn er með forsendur til að byggja upp trúverðuga utanríkispólitík sem svarar til þeirrar sannfæringar þjóðarinnar að við eigum ekki heima í meginlandsbandalaginu með höfuðstöðvar í Brussel.

Í Evrópuumræðunni skilar forysta Sjálfstæðisflokksins auðu, sem flokknum mun hefnast fyrir.


18% aflans til Írlands - 82% til ESB

Það verður æ furðulegra eftir því sem tíminn líður að Össur utanríkisráðherra skuli komast upp með að halda því fram, að Ísland þurfi enga undanþágu frá sjávarútvegsreglum ESB, án þess að utanríkismálanefnd Alþingis kalli hann fyrir og krefjist skýringa, en ummæli Össurar ganga algerlega í berhögg við samningsmarkmiðin sem samþykki Alþingis við aðildarumsókn byggði á.

Össur hefur haldið því fram að reglan um ,,hlutfallslegan stöðugleika" (relative stabilitiy) tryggi hagsmuni Íslendinga. Hann og aðrir áhugamenn um ESB-aðild Íslands ættu að kynna sér hver verið hefur reynsla nágranna okkar Íra af sjávarútvegsreglum ESB í tímans rás.

Sjávarútvegsráðherra Írlands, Simon Covery, vakti máls á því fyrir skömmu að verðmæti sjávarafurða af fiskimiðum Íra væri árlega um það bil 1,2 milljarðar evra en Írar fengju einungis 18% aflans í sinn hlut eða rúmar 200 milljónir evra. Gróft reiknað má því segja að skip annarra ríkja taki fimm af hverjum sex fiskum á Írlandsmiðum og telur ráðherrann að stærsti hlutinn sé veiddur af frönskum skipum. Hann virðist þó gera sér litlar vonir um breytingar til batnaðar því að valdið til að stjórna veiðum á fiskimiðum Íra er alfarið hjá ESB. Hann sér því ekki annað ráð til úrbóta en að krefjast þess að hluta þess afla sem erlend skip veiða við Írlandsstrendur verði landað á Írlandi, helst allt að helmingi aflans.

Að sjálfsögðu fá Írar einnig nokkurn afla á fiskimiðum annarra aðildarríkja. Engu að síður telja þeir sig mjög afskipta við kvótaúthlutanir og rekja þá hörmungarsögu aftur til þess tíma er þeir gengu í fyrirrennara ESB, svonefnt Evrópubandalag.

Gerir Össur sér grein fyrir því að Íslendingar gætu með tíð og tíma komist í svipaða aðstöðu innan ESB og Írar? Að sjálfsögðu er engin trygging fólgin í reglunni um ,,hlutfallslegan stöðugleika" því að hún er einungis viðmiðunarregla sem meiri hluti ráðherraráðsins getur breytt hvenær sem henta þykir, rétt eins og nú eru uppi áform innan ESB að endurskoða"Sameiginlegu fiskveiðistefnuna" í heild sinni og taka m.a. upp framseljanlega kvóta.

Ákvarðanir um breytingar á fiskveiðistefnunni eru teknar í ráðherraráðinu, þar sem Íslendingar myndu fá langt innan við 1% atkvæða ef þeir gengju í ESB. Fiskveiðiríki ESB hafa eyðilagt fiskistofna sína, eins og alkunna er, með gengdarlausu brottkasti, ofveiði og miðstýrðri óstjórn. ESB hefur því brýna þörf fyrir að komast að gjöfulli fiskimiðum. Ábyrgð þeirra manna er mikil og þung sem stuðla að því að íslensk fiskimið verði sett undir erlenda stjórn.

Ragnar Arnalds

(Tekið héðan.)


Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 66
  • Sl. sólarhring: 522
  • Sl. viku: 2573
  • Frá upphafi: 1166333

Annað

  • Innlit í dag: 61
  • Innlit sl. viku: 2208
  • Gestir í dag: 60
  • IP-tölur í dag: 57

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband