Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

ESB hefur fært Kýpur aftur um 40 ár

Utanríkisráðherra Kýpur, Ioannis Kasoulides, segir að skortur á samstöðu innan ESB-ríkjanna hafi feykt efnahag Kýpur aftur á það stig sem hann var á eftir innrás Tyrkja árið 1974. Þá var efnahagur Kýpur í rúst vegna innrásarinnar.

EUobserver hefur eftir ráðherranum að Evrópa þykist vera að hjálpa Kýpur, en að verðið fyrir hjálpina sé einfaldlega of hátt. Hjálpin hafi nefnilega í för með sér algjört niðurbrot á efnahagskerfi Kýpverja og muni hafa í för með sér mikla og langvarandi erfiðleika fyrir kýpversku þjóðina.

Það verður því fróðlegt að sjá hvort Jóni Daníelssyni verði að ósk sinni um að gjaldeyrishöftin muni bara vara í örstuttan tíma á Kýpur.


mbl.is Vonast eftir betri efndum á Kýpur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kýpur fyrsta ESB- og evrulandið til að setja á gjaldeyrishöft

Ástandið á Kýpur þykir mjög alvarlegt. Landið er það fyrsta í ESB og fyrsta evrulandið til að setja á gjaldeyrishöft sem takmarka notkun greiðslukorta, úttektir af bankareikningum, verslun erlendis og fleira til þess að koma í veg fyrir að bankarnir tæmist af fé.

Í Financial Times (prentaðri útgáfu) er í dag sagt frá því að það sé mat margra sérfræðinga að aðgerðirnar á Kýpur samræmist engan veginn myntbandalagi.

Talað er um að höftin séu sett á í viku, en ljóst megi vera að þeim verði framlengt að þeim tíma liðnum.

Bankar hafa verið lokaðir í 10 daga en verða opnaðir í dag. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig málin þróast á Kýpur næstu dag.


mbl.is Búist við öngþveiti í bönkum Kýpur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólverjar hafna evrunni

Tveir þriðju hlutar Pólverja vilja ekki að land þeirra gerist aðili að evrusvæðinu samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í gær. Aðeins um þriðjungur vill taka upp evruna.

Donalt Tusk forsætisráðherra Póllands sagði við þetta tækifæri að nú væru engar aðstæður til þess fyrir Pólverja að skipta slotíinu út fyrir evruna. Eftir sem áður er þessi 38 milljón manna þjóð skuldbundin til þess að taka upp evruna samkvæmta aðildarsamningnum við ESB.

Ríkisstjórnin hefur þó lagt til hliðar áform um undirbúning að upptöku evru í yfirstandandi evrukreppu og nægur þingmeirihluti er ekki til að stíga frekari skref í átt til evrunnar sem stendur þar sem íhaldsmenn í stjórnarandstöðu leggjast gegn slíkum áformum.

Donald Tusk vonast þó til þess að Póverjar fái jafnvel að kjósa um evruna í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að hann telur að það verði auðveldara að fá hana samþykkta þar en að fá þann aukna meirihluta á þinginu sem þyrfti til.

Snúin staða það.


Gjaldeyrishöftin eru ógn við evruna segir Financial Times

eurobrokenNú er komið í ljós að björgunarpakki ESB og AGS er ekki nægur til þess að hægt sé að opna bankana á Kýpur. Jafnframt telja fréttaskýrendur í hinu virta fjármálablaði Financial Times að gjaldeyrishöftin á Kýpur séu ógn við evruna og Efnahags- og myntbandalag Evrópu.

Þannig segir Guntram Wolff í vefútgáfu Financial Times að gjaldeyrishöftin á Kýpur merki í raun að það sé komið tvenns konar gengi á evruna. Höftin hafi það í för með sér að verðmæti gjaldmiðilsins sé ekki það sama í Nikósíu og annars staðar. Þingið á Kýpur hefur fallist á höftin með samþykki Seðlabanka Evrópu og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þar með segir höfundurinn, Guntram Wolff, að evrusvæðið sé komið á braut sem geti ekki aðeins stofnað evrusamstarfinu í hættu, heldur öllum hinum sameiginlega innri markaði Evrópu.

Það sem er grundvallaratriði fyrir gjaldmiðilsbandalag, segir Guntram, er getan til þess að flytja fjármagn án hafta og án skilyrða frá einum banka til annars á svæðinu. Þegar gjaldeyrishöft eru komin á er verðmæti evrunnar á Kýpur ekki það sama og verðmæti evru í öðrum bönkum á svæðinu. Það er ekki hægt að nota evru í kýpverskum banka til þess að kaupa vörur í Frankfurt án takmarkana. Í raun þýðir það að evran á Kýpur er ekki nein evra lengur.


mbl.is Bankar á Kýpur áfram lokaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óljóst hvenær bankastarfsemi hefst aftur á Kýpur

Hrikaleg átök voru í nótt á milli stjórnvalda á Kýpur, ESB, Seðlabanka Evrópu og AGS. Um tíma hótaði forseti Kýkur að segja af sér. Erlendir fjölmiðlar segja að Þjóðverjar hafi á endanum haft sitt fram.

Staða bankakerfisins á Kýpur minnir um sumt á íslenska bankakerfið fyrir bankahrunið og lausnin felur í sér einhverja svipaða drætti. Útlendingar hafa sparað talsvert í bönkum á Kýpur, bankakerfið var orðið allt of stórt og leggja þarf niður banka.

Bankakerfið hefur hins vegar verið lokað í tíu daga á Kýpur og óljóst er hvenær bankar verða aftur opnaðir, þótt vonir standi til að það geti orðið á morgun.


mbl.is Sáttur við samkomulagið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efnahagur Frakklands farinn að líkjast jaðarsvæðunum

Í meðfylgjandi frétt EUobserver er vitnað í sérfræðinga Danske Bank sem halda því fram að efnahagsástandið í Frakklandi sé farið að líkjast jaðarsvæðunum í Suður-Evrópu.

Dönsku sérfræðingarnir segja ástæðurnar vera ónógar umbótaaðgerðir, veikan húsnæðismarkað og það að Frökkum hafi ekki tekist að ráða við halla í rekstri franska ríkisins.


Gjaldeyrishöft eða fjármagnshöft á Kýpur?

Almennt hefur verið talað um gjaldeyrishöft þegar ensku orðin capital controls hafa verið þýdd yfir á íslensku. Hér á landi er hins vegar farið að kalla þetta fjármagnshöft. Ætli við verðum ekki að kalla þetta fjármagnshöft á Kýpur sem þingmenn þeirra hafa verið að samþykkja?

EUobserver er hér með stutta frétt um þetta. Þar kemur fram að Kýpur sé fyrsta evrulandið til þess að taka upp gjaldeyrishöft, eða fjármagnshöft, ef við viljum fremur nota það orð. Fólk fær ekki að taka það sem það vill út af bankareikningum sínum. Þetta er náttúrulega ein tegund gjaldeyris- eða fjármagnshafta.

Það skýrist svo væntanlega smám saman hvernig útfærslan verður á þessu.


RUV segir ráðamenn í Brussel hafa misst þolinmæði gagnvart Kýpur

RUV segir að Kýpur gæti hrökklast úr evrusamstarfinu takist ekki samningar um helgina. Svo virðist sem útvega þurfi sem svarar 2500 milljörðum króna á mánudag til að bjarga Kýpur. Miðað við mannfjölda og landsframleiðslu er þetta risavaxinn björgunarpakki.

Fréttmenn á erlendu fréttavakt RUV hafa lýsa ástandinu erlendis oft ágætlega. Best fer því á því hér að vitna til þeirra eigin orða eins og þau koma fyrir á vef RUV.

Ráðamenn í Kýpur hafa frest fram á mánudag til að afla ríkissjóði um 900 milljarða íslenskra króna og forða bankakerfinu frá algjöru gjaldþroti. Forseti Kýpur flaug til Brussel í morgun ásamt fjölmennri sendinefnd til að hefja neyðarviðræður við fulltrúa Evrópusambandsins.

Kýpur þarf meira en 1600 milljarða króna neyðarlán frá Evrópusambandinu til að koma í veg fyrir að bankakerfið fari endanlega á hliðina. Lánið fæst hins vegar ekki nema ríkissjóður Kýpur leggi fram 900 milljarða á móti en deilt er um hvaðan það fé eigi að koma.

Lagður hefur verið til björgunarpakki sem felur meðal annars í sér hömlur á fjármagnshreyfingar til að koma í veg fyrir áhlaup á bankana. Þá er aftur til umræðu að setja skatt á bankainnistæður en mikil andstaða er við þær hugmyndir meðal almennings. Stjórnvöld í Rússlandi segja að slíkur skattur myndi jafngilda eignaupptöku en allt að fjórðungur af innistæðum í kýpverskum bönkum eru í eigu Rússa sem nýta margir landið sem skattaskjól.

Ráðamenn í Brussel virðast hafa misst alla þolinmæði gagnvart Kýpur og hafa meðal annars lagt áherslu á að ekki sé lengur líðandi að hafa skattaskjól innan evrusvæðisins, slíkt samræmist ekki markmiðum myntsamstarfsins. Takist ríkisstjórninni ekki að verða sér úti um fé áður en markaðir opna á mánudaginn munu allar lánalínur lokast sjálfkrafa og eyríkið einangrast frá alþjóðlega fjármálaheiminum.

Það gæti þýtt að Kýpur hrökklaðist út úr evrópska myntsamstarfinu og myndi það setja skuggalegt fordæmi fyrir önnur skuldsett evruríki sem einnig standa frammi fyrir sársaukafullum aðgerðum.


Kirkjan spáir endalokum evrunnar

Kirkjan á Kýpur er enginn smásöfnuður. Fyrir utan hefðbundin samfélagsáhrif kirkjunnar er hún valda- og eignamikil. Yfirmaður kirkjunnar segir Brussel-stjórnina hafa gert mörg mistök, evran eigi sér ekki framtíð og best sé fyrir Kýpur að yfirgefa evruna sem fyrst.

Frétt Morgunblaðsins segir þetta best:

Yfirmaður rétttrúnaðarkirkjunnar á Kýpur, en kirkjan er mjög valdamikil stofnun á eyjunni, segir í viðtali við grískt dagblað í dag vonast til þess að landið yfirgefi evru-svæðið.

Chrysostomos II, erkibiskup, segir í viðtalinu að það sé ekki auðveld ákvörðun að yfirgefa evruna en hana eigi að taka þar sem evran eigi sér ekki framtíð. Erkibiskupinn hefur boðist til þess að aðstoða Kýpur út úr fjárhagsvandanum með því að afhenda ríkinu eignir kirkjunnar en þær eru miklar.

Hann segist hins vegar ekki spá falli evrunnar á morgun en miðað við heilastarfsemi þeirra í Brussel sé ljóst að samstarfið eigi ekki eftir að endast lengi. Því sé best að byrja að huga að brotthvarfi Kýpur úr samstarfinu.

Rétttrúnaðarkirkjan er stærsti landeigandinn á Kýpur og á einnig hlut í fjölmörgum fyrirtækjum, þar á meðal Hellenic bankanum. Er talið að eignir kirkjunnar nemi tugum milljóna evra.


mbl.is Vill að Kýpur yfirgefi evru-svæðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

.... og Össur er að yngjast ...

ossurÞað er jafnmikið til í því að evrusvæðið sé að styrkjast og að Össur, eða aðrar mannlegar verur, eða lífverur yfirhöfuð, séu að yngjast. Það að segja að evrusvæðið sé að styrkjast nú er svona álíka og segja að kappakstursbíll sem lent hefur í hverjum árekstrinum á fætur öðrum sé stöðugt að styrkjast og að hann muni koma fyrstur í mark í kappakstrinum.

Þetta er líka svona álíka og að Össur hafi sagt þegar hann forðum ungur maður um tvítugt - og efnilegur uppfræðari og blaðamaður - kastaðist útbyrðist af tappatogaranum Kofra sem skoppaði á öldunum á Vestfjarðamiðum og var dreginn snarlega upp aftur af röskum Súðvíkingum og Ísfirðingum þar sem hann lá flæktur í trollinu - þá hafi hann spýtt út úr sér þaranum og sagt: Ég stakk mér á eftir þorskinum, strákar!

Grikkland, Írland, Portúgal, Spánn, Ítalía og Kýpur. Allt þetta hefur bara styrkt evrusvæðið að mati Össurar. En hvað skyldi almenningur í þessum löndum segja? Fylgist Össur með fréttunum? Hann segist lesa Moggann reglulega í meðfylgjandi frétt. En hefur hann til dæmis lesið nýlegan pistil sem Hörður Ægisson blaðamaður á Morgunblaðinu skrifaði í blaðið í vikunni um ástandið á Kýpur og á evrusvæðinu?

Við skulum nú samt vona að ástandið fari nú að skána sem fyrst á evrusvæðinu. En í ljósi efnahagslegs stöðumats utanríkisráðherrans á evrusvæðinu og trúar hans á eigin hagspágáfu er vert að rifja upp hvað hann sagði sjálfur um kunnáttu sína á þessum sviðum eins lesa má um í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið.

Af tillitssemi við þá sem telja að nú skuli hlífa en eigi höggva skal lesendum eftirlátið að leita þessi ummæli uppi.


mbl.is Evrusvæðið að styrkjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 125
  • Sl. sólarhring: 348
  • Sl. viku: 2534
  • Frá upphafi: 1165908

Annað

  • Innlit í dag: 108
  • Innlit sl. viku: 2199
  • Gestir í dag: 108
  • IP-tölur í dag: 106

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband