Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Flestir Lettar eru á móti upptöku evrunnar en verða samt

Evran er ekki vinsæl þessi árin í Evrópu. Svíar, Danir og Bretar vilja ekki sjá hana, Tékkar og Póverjar óttast hana og Þjóðverjum og Frökkum líður ekki vel með hana. Þau ríki sem síðast gengu í ESB eiga að taka evruna upp þegar þau uppfylla m.a. skilyrði um verðbólguþróun, vaxtaþróun og skuldaþróun.

Lettar vilja samt ekki taka evruna upp - en þeir fá líklega engu um það ráðið úr þessu. Sextíu og tvö prósent þjóðarinnar eru á móti því að taka upp evruna, en þjóðin verður samt líklega látin taka hana upp í byrjun næsta árs.

EUobserver greinir frá þessu.

 


Ráðherrar Íhaldsmanna í Bretlandi vilja úr ESB

Eins og þessi frétt ber með sér er vaxandi andstaða við aðild Breta að ESB, einnig meðal Íhaldsmanna sem eiga aðild að ríkisstjórn.

Menntamálaráðherra Breta virðist vilja ganga mun lengra en Cameron forsætisráðherra. Blaðið Telegraph hefur eftir honum í dag að hann myndi greiða atkvæði með úrsögn Breta úr ESB.


mbl.is Íhaldið gerir uppreisn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er della að hafa þjóðaratkvæði um framhald viðræðna við ESB

voteÞjóðaratkvæðagreiðslur eru góðar til síns brúks, en ofnotkun á þeim þjónar engum tilgangi. Það er t.d. algjör óþarfi fyrir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk að láta kjósa um framhald viðræðna við ESB ef flokkarnir ná saman um stjórnarmyndun.

Ætli flokkarnir að láta kjósa um framhald viðræðna eru þeir komnir í sömu afkáralegu stöðuna og Vinstri grænir voru þegar þeir samþykktu umsókn um aðild að ESB þótt þeir væru móti aðild.

Þegar stefna flokkanna er skoðuð, þ.e. annars vegar landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins og hins vegar flokksþingssamþykkt Framsóknarflokksins, er alveg kristaltært að það er ekki vilji æðstu stofnana flokkanna, ef þeir ná saman um stjórnarmyndun, að það þurfi þá að kjósa um framhald viðræðna um aðild að ESB. Þegar samþykktirnar eru skoðaðar er það hreint út sagt tóm vitleysa ef flokkarnir ætla að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræður.

Rétt er hér að taka fram að Heimssýn hefur ekki ályktað um þessi mál nýlega og það sem hér er til umfjöllunar er fyrst og fremst eins konar greining á því sem fram hefur komið.

Lesendur geta sjálfir sannfærst um þetta með því að lesa samþykktirnar, og eru þeir eindregið hvattir til þess. Í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins segir: „Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Í flokksþingssamþykkt Framsóknarflokksins segir: „Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Þegar þessi texti er skoðaður er alveg ljóst að flokkarnir vilja ekki að Ísland gerist aðili að ESB og að þeir vilja hætta aðildar(aðlögunar)viðræðum. Jafnframt er alveg ljóst að setningin um þjóðaratkvæðagreiðslu er þannig orðuð að þá aðeins að það eigi að halda viðræðum áfram þá verði að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla.

Nái flokkarnir tveir saman er hins vegar ekkert sem knýr á um að viðræðum verði haldið áfram. Þess vegna væri það algjör vitleysa ef flokkarnir ætla að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna.

Einhverra hluta vegna virðast sumir stuðningsmenn flokkanna hafa dregið þá ályktun að ekki verði hjá því komist að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna, en að ofansögðu ætti að vera ljóst að slíkt er alvarleg hugsanavilla.

Í þessu samhengi má minna á að ýmsir fræðimenn hafa varað við ofnotkun á þjóðaratkvæðagreiðslum, og að þær séu oft síður en svo heppilegt tæki til að leysa úr alvaralegum ágreiningsefnum.

Hér skal þó ekki lagt endanlegt mat á gagnsemi þjóðaratkvæðagreiðslna, en af ofansögðu ætti að vera ljóst að ef Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur ná saman um stjórnarmyndun er það algjörlega út í hött að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna vegna þess að þessir flokkar vilja ekki áframhaldandi viðræður og því væri það algjör della að stuðla að því að þeim verði haldið áfram. Falli flokkarnir í þá gryfju, vegna óljósar og illa skilgreindrar lýðræðisástar, þá væru þeir komnir í nákvæmlega sömu stöðu og Vinstri grænir voru í þegar þeir samþykktu að sækja um aðild að ESB þótt þeir væru á móti aðild.

 


Má segja sannleikann um Spán?

Aðstoðarritstjóri Daily Telegraph, Jeremy Warner, hefur verið hundskammaður fyrir að lesa á milli línanna í skýrslu AGS um Spán, en hann segir að spænski ríkissjóðurinn og spænskir bankar muni innan tíðar þurfa á raunverulegri björgunaraðgerð að halda frá bæði AGS, ESB og SE (Seðlabanka Evrópu) þar sem þeir muni ekki geta staðið í skilum með sitt.

Evrópuvaktin fjallar um þetta í dag.

Ábyrgir fjölmiðlar eru í erfiðri stöðu. Þeir þurfa að segja sannleikann eins og hann blasir við. Frásagnir af erfiðri fjárhagsstöðu banka og ríkja geta hins vegar aukið á erfiðleikana.

Túlkun Warners á efni AGS um Spán kemur þó ekkert sérstaklega á óvart í ljósi þess sem hefur verið að gerast. ESB og SE hafa þó í lengstu lög viljað koma í veg fyrir að Spánn væri settur í formlega björgunaráætlun, þótt bankar þar hafi notið aðstoðar, þar sem Spánn er eitt stærsta hagkerfið í Evrópu. Það er ekki víst að björgunarsjóðir ESB næðu að halda bæði Spáni og Ítalíu á floti ef evrusóttin breiðist frekar út. Þess vegna hefur björgunin á Spáni verið skírð öðrum og vægari nöfnum en notuð hafa verið yfir björgunaðgerðir á Grikkland, Kýpur og víðar.


Evruhöftin við lýði áfram

Fram kemur í þessari frétt mbl.is að enn sé hætta á bankaáhlaupi á Kýpur, þ.e. að fólk vilji taka allt sitt út úr bönkum þar, og þess vegna séu gjaldeyrishöft enn við lýði. Stjórnmálamenn og embættismenn segja höftin vera óhagkvæm til lengdar, en sem stendur sé öruggara að hafa þau en taka áhættuna á að allt fari veg allrar veraldar með því að aflétta þeim.

Þetta hljómar kunnuglega. Nú verður fróðlegt að sjá hvort höftin muni breiðast út í fleiri evrulöndum, því víðar eru bankar í erfiðleikum en á Kýpur.


mbl.is Höftin áfram við lýði á Kýpur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fátækir Grikkir borga fyrir lúxus í Hörpu

Íslendingum er boðið á ókeypis tónleika ungra evrópskra listamanna í Hörpu á morgun. Tónleikarnir eru m.a. í boði Grikkja, Kýpurbúa og annarra ESB-þjóða sem nú eiga um sárt að binda, en ESB hefur tekið af sameiginlegum verðmætum Evrópubúa til að leggja í Evrópustofu sem kostar þessa tónleika.

Unga tónlistarfólkið sem kemur fram er án alls vafa mjög fært á sínu sviði og leikur án efa tónlist sem unun er á að hlýða. Það er við hæfi að flutt verði tónlist eftir Richard Wagner, auk þess sem fluttur verður Óður Beethovens til gleðinnar, sem Evrópustofa segir að sé einkennislag Evrópusambandsins!

Á meðan hlustað er á þessa frábæru tónlist eru svo tónleikagestir beðnir um að láta hugann reika til þeirra Evrópubúa sem nú eiga um sárt að binda vegna smíðagalla ESB og evrunnar.

 


Næstu skref í ESB-málunum

Vefurinn neiesb.is er með blogg á Eyjunni og birtir þar samantekt um stöðuna í ESB-málinu. Kjarninn í því sem þar kemur fram er samþykkt stefna þeirra flokka sem nú standa í stjórnarmyndunarviðræðum. Textinn frá þessu bloggi er endurbirtur hér:

 

Nú liggur fyrir að þeir stjórnmálaflokkar vinna saman að myndun ríkisstjórnar á Íslandi sem eru þeirrar skoðunar að Ísland eigi ekki að ganga í ESB og að stöðva beri viðræður um aðild að sambandinu. Þessi skoðun kemur skýrt fram í samþykktum æðstu stofnana flokkanna. Jafnframt eru þessir flokkar þeirrar skoðunar að ef það ætti á annað borð að halda viðræðum áfram þá yrði það ekki gert nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins segir: „Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Í flokksþingssamþykkt Framsóknarflokksins segir: „Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Af þessu er ljóst að ef Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynda saman ríkisstjórn þá verði viðræðum við ESB strax hætt með formlegum hætti. Jafnframt er ljóst að það er ekki vilji flokkanna að halda viðræðum áfram og því engin þörf á að láta að kjósa um framhaldsviðræður við ESB. Það má minna á að viðræður hófust án þess að þjóðin væri spurð og því þarf ekki aðkomu hennar heldur þegar viðræðunum er hætt. Það ætti hins vegar að vera sjálfsagt að meta hvernig viðræðurnar hafa farið fram til þessa og gefa út skýrslu um stöðuna.

Það er jafnframt ljóst að ESB í dag er allt annað samband en það sem ákveðið var að sækja um aðild að fyrir tæpum fjórum árum. Ennfremur er ljóst að æ fleiri sérfræðingar og stjórnmálamenn, að ekki sé minnst á sístækkandi hóp Evrópubúa, sem hafa efasemdir um að evru- og ESB-samstarfið muni skila þeim árangri sem til stóð. Margir ganga meira að segja svo langt, meðal annars sumir þeir sem stóðu að innleiðingu evrunnar, að segja að það verði að losa Evrópuríkin við höft evrunnar ef hagur jaðarþjóðanna eigi að geta vænkast. Það kann því margt að breytast í ESB og í evrusamstarfinu á næstu árum.

Eins og margar aðrar þjóðir standa Íslendingar nú frammi fyrir ýmsum vanda í efnahagsmálum sem leysa þarf úr. Það er brýn þörf á því að við einbeitum okkur við það verk, en látum ekki villuljós eins og ESB-aðild, evruvæðingu, eða aðildarviðræður tefja för okkar. Við þurfum að nýta þá krafta sem farið hafa í tímafrekar viðræður í annað og betra, nefnilega að vinna að lausn vandamála okkar hér og nú.


Blaðamaður fjallar um óleysanlega úlfakreppu evrusvæðisins

ulfakreppaSem fyrr standa jaðarríkin í Evrópu frammi fyrir nánast óleysanlegri úlfakreppu. Að óbreyttu geta þau aðeins vonast eftir því að fyrir einhverjar ótrúlegar sakir þá muni hagvöxtur fara að taka við sér og atvinnuleysi dragist saman. Ekkert bendir þó til slíkrar þróunar í fyrirsjáanlegri framtíð. Evrukreppunni er ekki að linna. Hún er aðeins að dýpka.  
 

Ofangreint kemur fram í pistli Harðar Ægissonar, blaðamanns á Morgunblaðinu, en hann hefur á undanförnum árum skrifað um viðskipti og efnahagsmál af talsverðri vandvirkni og þekkingu. Pistill hans í dag sem er í greinaflokknum Sokkinn kostnaður og er birtur á síðu 12 í viðskiptahluta Morgunblaðsins. Pistillinn er hér birtur í heild sinni:


Hagkerfi evrusvæðisins hefur dregist saman á hverjum ársfjórðungi frá því í árslok 2011. Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs nam samdrátturinn á meðal aðildarríkjanna sautján 0,6%. Það er jafn mikill samdráttur og mældist á síðasta ársfjórðungi liðins árs. Staðan er jafnvel enn dekkri þegar litið er til þróunar atvinnuleysis innan myntbandalagsins. Í mars mældist fjöldi atvinnulausra yfir 20 milljónir manns - 12,1% af fjölda vinnubærra manna - og hefur aldrei verið meiri frá stofnun myntbandalagsins.

 

Við þessar aðstæður þarf ekki að undra að Evrópski seðlabankinn hafi loks ákveðið að lækka stýrivexti í síðustu viku í fyrsta skipti í tíu mánuði - úr 0,75% í 0,5%. Vaxtalækkunin var viðbúin í ljósi þess að verðbólga mælist lítill sem engin um þessar mundir og hagvísar gefa til kynna að mjög sé farið að hægja á allri framleiðslu á evrusvæðinu. Mario Draghi, bankastjóri Evrópska seðlabankans, segist ekki útiloka frekari vaxtalækkanir á næstunni.

 

 

Ólík vaxtakjör

Miklu meira þarf hins vegar að koma til. Þrátt fyrir að vaxtalækkanir muni hjálpa aðþrengdum fjármálastofnunum í jaðarríkjunum, sem hafa þurft að reiða sig á opinbera fjármögnun í gegnum Evrópska seðlabankann, þá munu slíkar aðgerðir einar og sér hafa lítil áhrif á hagvaxtahorfur í verst stöddu evruríkjunum. Margir greinendur hafa kallað eftir rótttækari og sértækari aðgerðum til að örva lánveitingar til minni og meðalstórra fyrirtækja á evrusvæðinu. Vextir á skammtímalánum til slíkra fyrirtækja í jaðarríkjunum eru núna um helmingi hærri - um 6% á láni undir milljón evrur til 1-5 ára - en í Frakklandi og Þýskalandi. Algjör straumhvörf hafa orðið í þessum efnum á umliðnum árum en allt fram til ársloka 2010 voru vextir nánast þeir hinir sömu innan allra evruríkjanna.  

 

Þeir sem höfðu væntingar um að stefnubreytinga væri að vænta varðandi möguleg bein uppkaup Evrópska seðlabankans á ríkisskuldabréfum jaðarríkjanna urðu fyrir vonbrigðum. Draghi undirstrikaði að slíkt kæmi ekki til greina og það væri undir stjórnvöldum komið að leysa fjárhagsvandræði sín með kerfislægum umbótum og ráðdeild í ríkisrekstri.  

 

Óleysanleg úlfakreppa?

Slík stefna gæti hugsanlega gengið ef öll ríki á evrusvæðinu væru ekki samtímis að draga saman ríkisútgjöld. Þrátt fyrir að staða Þýskalands sé með þeim hætti að talsvert svigrúm sé fyrir hendi til að grípa til aðgerða til að auka ríkisútgjöld og örva innlenda eftirspurn, sem myndi um leið sporna við samdráttarskeiði verst stöddu evruríkjanna, þá eru engar vísbendingar um að ráðamenn í Berlín séu sömu skoðunar. Öðru nær. Sú skoðun er ríkjandi á meðal þýskra stefnusmiða að við stjórn efnahagsmála sé rétt að fylgja sömu lögmálum og gilda um heimilisrekstur. Ekkert gæti hins vegar verið jafn fjarri lagi.  

 

Enn sem fyrr standa jaðarríkin því frammi fyrir nánast óleysanlegri úlfakreppu. Að óbreyttu geta þau aðeins vonast eftir því að fyrir einhverjar ótrúlegar sakir þá muni hagvöxtur fara að taka við sér, atvinnuleysi dragist saman, skatttekjur aukist og skuldir ríkisins, sem hlutfall af landsframleiðslu, fari um leið minnkandi. Ekkert bendir þó til slíkrar þróunar í fyrirsjáanlegri framtíð. Evrukreppunni er ekki að linna. Hún er aðeins að dýpka.         

 


Evran veldur þjóðflutningum

Ástæðan fyrir straumi fólks til Þýskalands frá jaðri evrusvæðisins í suðri er sú sundirleitni í hagþróun sem evrusamstarfið veldur.

Þjóðverjar hafa getað haldið verðbólgu í skefjum betur en aðrir, útflutningsverð þeirra hefur verið hagstæðara en verð í jaðarríkjunum og fyrir vikið selja Þjóðverjar meira og framleiða meira.

Þeir þurfa því á meira vinnuafli að halda um leið og atvinnuleysið vex í jaðarlöndunum; komið upp undir 30% á Spáni og í Grikklandi.

Það er því ljóst að þrátt fyrir talsverða tilflutninga á fólki eru þeir langt frá því að vera nægilega miklir til þess að jafna atvinnustig í evrulöndunum. Þetta undirstrikar að evrusvæðið er óhagkvæmt gjaldmiðilssvæði.


mbl.is Rúm milljón fluttist til Þýskalands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er stefna D og B varðandi ESB?

altingiÞað er gagnlegt að rifja upp nú þegar stjórnarmyndunarviðræður standa yfir hjá Framsóknarflokki  og Sjálfstæðisflokki hver stefna þeirra er varðandi aðild að ESB. Í því efni skiptir mestu máli hvað æðstu stofnanir flokkana hafa samþykkt., þ.e. það sem Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti á síðasta landsfundi sínum á þessu ári og það sem Framsóknarflokkurinn samþykkti á síðasta flokksþingi sínu sem einnig var haldið á þessu ári.

Það hefur áður komið fram að báðir flokkarnir telja að hag Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins.

Í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins segir:  Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Samþykktina er að finna hér: http://www.xd.is/media/landsfundur-2013fl/utanrikisnefnd_loka.pdf

Þetta verður ekki skilið öðru vísi en svo að Sjálfstæðisflokkurinn vilji hætta viðræðum við ESB strax. Þetta er grundvallaratriði.

Í öðru lagi er ekki hægt að skilja þetta öðru vísi en svo að ef til þess kemur að viðræður verði teknar upp aftur verði það ekki gert nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þennan texta er ekki hægt að skilja svo að flokkurinn vilji eða ætli að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Ætla má að þessi hluti textans hafi verið hugsaður til nota ef Sjálfstæðisflokkurinn færi í samstarf við flokk eða flokka sem væru fylgjandi aðild og áframhaldandi viðræðum.

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn með sömu stefnu í málinu
Í flokksstjórnarsamþykkt Framsóknarflokksins segir: Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Samþykkt Framsóknarflokksins er að finna hér: http://www.framsokn.is/wp-content/uploads/2013/03/ályktanir.pdf

Efnislega er þetta sama afstaða og hjá Sjálfstæðisflokknum. Framsóknarmenn vilja hætta viðræðum. Þeir vilja jafnframt að viðræðum verði ekki haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Á sama hátt og gildir um ályktun Sjálfstæðismanna er síður en svo hægt að ganga út frá því að Framsóknarmenn vilji að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um málið, nema þá helst til að skera úr um ágreining við mögulegan samstarfsaðila í ríkisstjórn.

Þetta er sem sagt hin pólitíska staða flokkanna sjálfra miðað við samþykktir þeirra eins og þær eru á vef flokkanna: Þeir vilja hætta viðræðum. Þeir telja enga þörf á að kjósa um málið, en ef það á að halda viðræðum áfram verði kosið um það í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það liggur því beinast við að álykta út frá þessu að nái þessir tveir flokkar saman, sem er náttúrulega ekkert öruggt enn, þá sé ESB-málið dautt og það sé engin þörf á að kjósa um málið.

En hvað sögðu forystumenn, frambjóðendur og hver er skilningur kjósenda?
Nú virðist það vera skilningur margra að jafnvel þótt stefna flokkanna sé skýr, eins og samþykktir þeirra bera með sér, og jafnvel þótt skýr niðurstaða hafi fengist í kosningunum með sigri Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um að hætta aðildarviðræðum við ESB þá eigi eftir sem áður að láta kjósa um málið með einhverjum hætti. Endanleg framtíð þess eigi að vera í höndum þjóðar í beinni kosningu. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig og það má rökstyðja það með lýðræðisrökum jafnvel þótt ekkert í samþykktum flokkanna segi að þetta eigi að vera niðurstaðan. Ein rökin geta verið þau að aðeins með þjóðaratkvæðagreiðslu sé hægt að útkljá málið í eitt skipti fyrir öll og fá alla til að sætta sig við niðurstöðuna. Önnur rök eru þau að það sé eðlilegt að sá réttur, sem hefur verið í umræðunni, að kjósendur eigi að eiga síðasta orðið í ESB-málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu, verði ekki frá þeim tekinn.

Eigi að fylgja þessum sjónarmiðum eftir þarf að teygja samþykktir flokkanna ansi langt, því þessi rök eru ekki nægjanlega skýr og gild svo hægt sé að samræma þau samþykktum flokkanna. Með því að vísa til óljóst skilgreindrar lýðræðisástar og þess að þetta sé eina leiðin til að ljúka málinu gætu þessir flokkar verið farnir að beita sams konar rökum og Vinstri grænir gerðu í ríkisstjórn með Samfylkingunni og réttlættu þannig gerðir sínar í ríkisstjórn og á þingi, sem þeim áttu að vera þvert um geð miðað við stefnu flokksins.

Hvað sögðu þá formenn flokkanna og aðrir forystumenn í kosningabaráttunni. Mátti af orðum þeirra ráða eitthvað annað en stóð í samþykktri stefnu flokkanna? Það verður ekki séð að svo hafi verið, heldur hafi menn haldið sig við stefnuna, jafnvel þótt fimir fjölmiðlamenn hafi reynt að toga ýmislegt til og teygja, sem vonlegt var.

Hvernig verður viðræðum hætt?
Síðan er það spurningin hvernig viðræðum um aðild verði hætt. Verður það gert með einfaldri samþykkt ríkisstjórnar og verkstjórn utanríkisráðherra eða þarf að koma til samþykkt Alþingis? Vegferðin með umsóknina hófst með samþykkt þingsins og því má telja eðlilegt að henni verði jafnframt lokið með samþykkt þingsins. Þessa hlið þarf þó sjálfsagt að skoða betur með hliðsjón af lögum, stjórnskipun og eðli máls.

Aðalatriðið er það að samþykktir flokkanna fela það í sér að viðræðum skuli hætt og það er ekkert sem segir að halda þurfi þjóðaratkvæðagreiðslu um málið nema ef halda eigi viðræðum áfram. Það vilja þeir flokkar ekki sem nú eru að semja um ríkisstjórnarsamstarf, þannig að slíkar kosningar ættu að vera óþarfar. Sjálfsagt er þó að kanna þessi mál nánar, bæði lagalegar, pólitískar og efnahagslegar hliðar þess, en ekki hvað síst að fara ofan í saumana á því hvernig haldið hefur verið á aðildarviðræðunum til þessa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 260
  • Sl. sólarhring: 373
  • Sl. viku: 2669
  • Frá upphafi: 1166043

Annað

  • Innlit í dag: 212
  • Innlit sl. viku: 2303
  • Gestir í dag: 202
  • IP-tölur í dag: 201

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband