Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Er ESB að reyna að koma viðræðum í gang aftur?

Það fyrsta sem manni dettur í hug við lestur á þessari frétt er að einhverjir innan ESB séu að reyna að freista þess að halda viðræðum áfram þrátt fyrir að úrslit þingkosninganna sýni að það sé skýr vilji fyrir því að hætta viðræðunum.

Sjálfsagt skýrist þessi frétt nánar, en hún ber það með sér að ESB láti sig í engu varða um það sem hefur verið að gerast á Íslandi.


mbl.is Tvö opnunarskilyrði í sjávarútvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stofnendur evru vilja leysa evrusvæðið upp

oscarÞungaviktarmaður Þjóðverja í stofnun evrunnar segir að kljúfa verði evrusvæðið upp ef ríki í Suður-Evrópu eigi að komast út úr kreppunni.

Morgunblaðið greinir frá þessu og segir svo frá: 

Fyrrverandi fjármálaráðherra Þýskalands, Oskar Lafontaine, vill að evrusvæðið verði leyst upp til þess að gera ríkjum Evrópusambandsins í Suður-Evrópu kleift að ná sér á strik efnahagslega. Þetta er haft eftir Lafontaine á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph og ennfremur að núverandi stefna sé ávísun á hörmungar en hann var fjármálaráðherra Þýskalands þegar evran var sett á laggirnar.

„Efnahagsástandið versnar mánuð eftir mánuð og atvinnuleysi er orðið það mikið að það skapar efasemdir um lýðræðislegar stofnanir sem aldrei fyrr,“ segir Lafontaine. Hann segir aðeins tímaspursmál hvenær ríkin í Suður-Evrópu taki höndum saman og beiti sér gegn forræði Þýskalands innan evrusvæðisins.

Fjármálaráðherrann fyrrverandi segist hlynntur evrusvæðinu en telji einfaldlega að það sé ekki lengur sjálfbært. „Vonir um að tilkoma evrunnar myndi knýja almennt fram skynsamlega hegðun í efnahagsmálum gengu ekki eftir,“ segir hann og bætir við að sú stefna að neyða Spánverja, Portúgala og Grikki til þess að grípa til innri gengisfellingar hefði haft hörmungar í för með sér.

 

Sjá ennfremur frétt Daily Telegraph um málið.


mbl.is Telur evrusvæðið ekki lengur sjálfbært
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svíar gera sér grein fyrir skaðsemi evrunnar

sviarSvíar gera sér grein fyrir skaðsemi evrunnar á þróun efnahagsmála í Evrópu. Það er mat sænskra vísindamanna í dag. Aðeins 9% Svía vilja taka upp evru, en 76% eru á móti því. Jafnframt hefur stuðningur Svía við aðild að ESB minnkað.

Morgunblaðið segir svo frá:

„Evrunni hefur, með réttu eða röngu, verið að mestu kennt um það sem gerst hefur í efnahagslífi Evrópusambandsins sem hefur síðan haft óbein áhrif á sænska hagkerfið,“ segir Sören Holmberg, prófessor í stjórnmálafræði við Gautaborgarháskóla, í samtali við sænska ríkisútvarpið Sveriges Radio, en samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem unnin var í tengslum við rannsókn sem hann stendur að vilja einungis 9% Svía skipta evrunni út fyrir sænsku krónuna. 76% eru því andvíg.

Fram kemur í fréttinni að um ítarlega rannsókn hafi verið að ræða á afstöðu Svía til Evrópusambandsins sem náði allt frá trausti til Evrópuþingsins til þess hvernig veran í sambandinu hafi haft áhrif á stefnu Svíþjóðar í áfengismálum. Niðurstöður hennar séu mjög afdráttarlausar en þær bendi til þess að afstaðan til Evrópusambandsins hafi almennt versnað síðan efnahagserfiðleikarnir hófust á evrusvæðinu árið 2010.

Holberg segir að það sé ljóst að erfiðleikarnir á evrusvæðinu valdi auknum efasemdum Svía í garð Evrópusambandsins en samkvæmt könnuninni hefur stuðningur við aðild Svíþjóðar að sambandinu minnkað og styðja nú 42% hana en 25% vilja ganga úr því. Árið 2010 var stuðningur við aðild 53%. 30% telja að veran í Evrópusambandinu hafi haft frekar eða mjög jákvæð áhrif á möguleika Svía á að hafa áhrif innan sambandsins en 27% frekar eða mjög neikvæð áhrif. 40% telja hins vegar að aðildin að Evrópusambandinu hafi haft frekar eða mjög neikvæð áhrif á sjálfstæði Svíþjóðar en 9% frekar eða mjög jákvæð áhrif.

Þá vilja einungis 11% Svía að Evrópusambandið verði að einu sambandsríki. „Afgerandi meirihluti Svía er andsnúinn þróun í átt að Bandaríkjum Evrópu. Þeir vilja efnahagsbandalag en vilja ekki fara lengra en staðan er í dag,“ segir Holberg sem bætir við að ef þessar efasemdir Svía um Evrópusambandið verði áfram til staðar í svo miklum mæli gæti það haft áhrif á kosningarnar til Evrópuþingsins á næsta ári.


mbl.is 9% Svía vilja taka upp evruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr flokkur ef ekki er farið að þjóðarvilja

Fráfarandi ríkisstjórn sótti um aðild að ESB án þess að spyrja þjóðina álits, og reyndar án þess að stjórnin væri öll á bak við umsóknina. Síðan hefur meirihluti þjóðarinnar verið andvígur aðild að ESB. Ef gengið verður áfram gegn þjóðarvilja með þessum hætti er líklegt að hér spretti upp stór ESB-andstöðuflokkur líkt og er að gerast í Bretlandi, Þýskalandi og víðar.

Þetta kemur m.a. fram í nýlegum pistli Björns Bjarnasonar á Evrópuvaktinni.

Um þetta segir Björn:

Flokkur breskra sjálfstæðissinna eða fullveldissinna, UKIP, sem er í andstöðu við aðild að ESB hlaut um 23% atkvæða í sveitarstjórnakosningum á Englandi fimmtudaginn 2. maí. Þessi mikli árangur hefur valdið pólitískum jarðskjálfta í Bretlandi og sérstaklega innan Íhaldsflokksins.

David Cameron, forsætisráðherra og leiðtogi íhaldsmanna, sagði föstudaginn 3. maí þegar úrslitin lágu fyrir og flokkur hans var í sárum: „Það ber að sýna kjósendum UKIP virðingu.“ Hann hafði áður lýst UKIP og fylgismönnum flokksins sem „sérvitringum, furðufuglum og rasistum í dulargervi“.

UKIP-flokkurinn var stofnaður 1993 eftir að Maastricht-sáttmálinn og sameiginlega myntsamstarfið kom til sögunnar. Helsta baráttumál flokksins er að Bretar segi tafarlaust skilið við Evrópusambandið. Þá leggur hann einnig áherslu á harðari stefnu gegn innflytjendum.

Undanfarið hefur Íhaldsflokkurinn boðað aðgerðir til að sporna gegn komu innflytjenda til Bretlands og í janúar 2013 flutti David Cameron ræðu þar sem hann hét Bretum að þeir gætu kosið um aðild að ESB fyrir árslok 2017 yrðu íhaldsmenn þá enn við völd en kosið verður til breska þingsins 2015.

Sagan kennir Bretum að stóru flokkarnir segjast ætla að bera aðildina að ESB eða þætti tengda henni undir atkvæði kjósenda en svíkja hins vegar loforð í þá veru þegar á hólminn er komið. Margir telja því Cameron hafa búið til enn eina kosningabrelluna með loforði um þjóðaratkvæði fyrir árslok 2017.

David Davis, áhrifamaður í þingflokki íhaldsmanna, brást við útreið flokksins í sveitarstjórnakosningunum með kröfu um að þjóðaratkvæðagreiðslunni yrði flýtt til að ná ESB-málinu úr höndum UKIP. Theresa May innanríkisráðherra hefur hafnað þessari hugmynd en sagt að almenningur eigi rétt á „meiri fullvissu“ um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Hér á landi bíða menn eftir nýjum stjórnarsáttmála til að átta sig á næstu skrefum í ESB-málinu. Þau hljóta að felast í fyrirheiti um að þjóðin eigi síðasta orðið um hvort haldið verði áfram á umsóknarbrautinni og úr því verði skorið á þessu kjörtímabili með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fráfarandi ríkisstjórn klúðraði ESB-umsókninni áður en hún var send til Brussel af því að hún leitaði ekki álits þjóðarinnar áður en aðlögunarferlið hófst. Án náins samráðs við íslensku þjóðina í ESB-málum verður til flokkur hér á landi í anda UKIP og sambærilegra flokka hvarvetna í ESB-löndunum. Almenningur sættir sig ekki við fyrirmæla- og ofríkisstefnuna frá Brussel og undirgefni heimastjórnmálamanna gagnvart Brusselvaldinu.


ESB-ákvæðið í sáttmála krónustjórnar Bjarna og Sigmundar

kronustjorninKrónan verður útgangspunktur ríkissjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Fyrsta verk stjórnarinnar væntanlegu var að sækja kost í Krónunni fyrir úthaldið í myndun stjórnarsáttmála. Annað verk og fyrsta verk samkvæmt sáttmálanum verður að ganga þannig frá málum föllnu bankanna og kröfuhafa þeirra að krónur fáist til að lækka höfuðstól skulda heimila og ríkis.

Þriðja verkið verður að tryggja rekstrarumgjörð fyrirtækja í krónuhagkerfinu og ýta undir fjárfestingu svo skiptir milljörðum króna í því skyni að efla atvinnu og standa undir sem bestri velferð landsmanna til lengdar. Útgjöld til menntamála, heilbrigðismála, félagsmála, samgöngumála, umhverfismála og annarra þátta tekur mið af framangreindu meginmarkmiði.

Fjórða verkefnið verður að stilla ríkisútgjöld og tekjur í krónum þannig af að einhver afgangur myndist til greiðslu skulda.

Fimmta verkefnið í sáttmálanum verður að taka skýrt fram að enginn annar kostur sé í stöðunni en sá að bæta efnahagsstjórn og umgjörð krónunnar, stöðva aðlögunarviðræður við ESB, sem hægt er að gera strax, og spara þannig milljarðakrónur stjórnkerfisins sem hægt er að nota í þarfari verkefni.


Rétt er að minna á að bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur eru á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu.  Þjóðin er einnig á móti aðild að Evrópusambandinu.

Væntanlegir stjórnarflokkar eru búnir að heita því að viðræðum verði ekki haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Verði af slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu verður hnýta saman vilja til viðræðna og til aðildar. Annað væri órökrétt. Fyrst meirihluti þjóðar er á móti aðild og stefna beggja stjórnarflokka er á sömu lund er engin ástæða til að halda slíka atkvæðagreiðslu á næstu misserum.

Fyrirkomulagið er nefnilega þannig að það var utanríkisráðherra Samfylkingar sem sendi inn umsókn um að Ísland gengi í ESB (ekki að ESB gengi í Ísland).

Við vitum hvernig ESB er og hvaða samningum er hægt að ná miðað við stjórnkerfi þess. Það liggur fyrir, t.d. er varðar stjórn fiskveiða og gjaldmiðilsmál.

Þegar af þeim ástæðum er hægt að setja umsóknina og aðlögunarferlið ekki aðeins í frost, heldur í tætarann og eyða svo leifunum á viðunandi hátt.


mbl.is Fóru saman í Krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarlegar afleiðingar atvinnuleysis

Gudbjorg Linda RafnsdottirAfleiðingar atvinnuleysis geta verið mjög umfangsmiklar og alvarlegar. Þær eru ekki bara fjárhagslegar, heldur einnig félagslegar og heilsufarslegar. Í sumum evrulöndunum er nú talað um týndu kynslóðina, því stór hluti hennar hefur litla eða enga vinnu fengið. 

Neiesb.is birtir viðtal við Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, sem greinir í viðtalinu frá ýmsum athyglisverðum niðurstöðum rannsókna á afleiðingum atvinnuleysis.

Viðtalið á vef Nei.esb.is er birt hér í heild sinni:

„Þetta er orðið svakalegt ástand í atvinnumálunum víða í Evrópu ekki síst fyrir ungt fólk sem kemst ekki inn á vinnumarkaðinn“, segir Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands í samtali við neiesb.is, en blaðamaður neiesb.is hafði samband við hana til að ræða áhrif langvarandi atvinnuleysis. Guðbjörg Linda hefur gert rannsóknir á stöðu fólks á vinnumarkaði og á vinnutengdri líðan.

Guðbjörg Linda segir að tala megi um þríþættar afleiðingar langvarandi atvinnuleysis. Í fyrsta lagi séu afleiðingarnar fjárhagslegar, í öðru lagi heilsufarslegar og í þriðja lagi félagslegar. „Fjárhagslegar afleiðingar eru það sem fólk þekkir kannski best, þær liggja í augum uppi. Jafnvel þótt fólk fái atvinnuleysisbætur, þá er langvarandi atvinnuleysi boðberi fátæktar“ segir Guðbjörg og bætir við: „En það sem minna er fjallað um er að vinnan hefur sterk áhrif á sjálfsmynd einstaklinga. Það að komast á vinnumarkað er partur af því að verða fullorðinn, ekki síst á Íslandi þar sem atvinnustigið hefur verið hátt og almennur dugnaður verið tengdur því að vera duglegur að vinna.“

„Þegar fólk lendir í langvarandi atvinnuleysi, þá verður sjálfsmynd þess fyrir miklum hnekk. Vissulega getur það farið eftir aldri og stöðu hversu alvarlegar afleiðingarnar verða. En það er þekkt að þessi hópur finnur oft fyrir miklu eirðarleysi, svefnvandamálum, þunglyndi og kvíða. Og þegar atvinnuleysið á sér stað í langan tíma þá getur þetta orðið vítahringur sem fólk kemst illa út úr.“

Fólk á það til að einangra sig og verða framtakslaust. Það upplifir ákveðna skömm og finnst það hljóti að vera eitthvað mikið að hjá því sjálfu. Fólk hættir því gjarnan smám saman að sækja um vinnu, því það er óöruggt og búið að missa trúna á sjálfum sér. Og ef þessu fólki býðst þrátt fyrir allt starfsviðtal, þá kemur það oft illa út úr því viðtali, því það telur fyrirfram að því verði hafnað“. „Það tekur yfirleitt ekki langan tíma fyrir fólk að brotna á þennan hátt“ segir Guðbjörg Linda.

„Í þessari stöðu þróar ungt fólk jafnvel með sér andfélagslega hegðun, fer að misnota áfengi og önnur vímuefni og leiðist út í svokallaðan „slæman félagsskap“. Það hefur misst trúna á framtíðinni, misst trúna á samfélaginu og á sjálfum sér“.

Guðbjörg Linda bendir jafnframt á að tengsl atvinnuleysis og áfengisneyslu sé einnig þekkt hjá eldri aldurshópum. Þá aukast líkurnar á sambandsslitum og hjónaskilnuðum í kjölfar aukins andlegs álags og fjárhagsáhyggja sem atvinnuleysinu fylgir.

Tengsl langvarandi atvinnuleysis og heilsufarsvandamála
Guðbjörg Linda segir að sálin og líkaminn séu svo nátengd að algengt sé að það bresti eitthvað líkamlega hjá fólki sem líður illa andlega. Það útskýri meðal annars það að fólk sem þarf að þola langvarandi atvinnuleysi endi oft á örorkubótum, ekki eingöngu vegna andlegra kvilla, heldur og líkamlegra. En hún segir: „Það eru hreinlega sterk tengsl á milli lélegs heilsufars og langtíma atvinnuleysis. Það ríkir ákveðin goðsögn í samfélaginu um að atvinnulaust fólk vilji fara á örorkubætur til þess eins að sleppa við takmarkanirnar sem fylgir atvinnuleysisbótum. En það er í fáum tilvikum þannig. Aukning örorkuþega á tímum atvinnuleysis skýrist aðallega af því að langvarandi atvinnuleysi gerir fólk hreinlega veikt. Við höfum ótal dæmi sem sýna það. Að auki þá sjáum við einnig að þeir sem standa höllum fæti á vinnumarkaði, meðal annars vegna heilsubrests, eru líklegir til að missa fyrr vinnunna en aðrir“.

Mikið atvinnuleysi hefur einnig slæm áhrif á fólk sem er á vinnumarkaði
„Svo er annað sem mér finnst lítið hafa verið fjallað um, en það er að ef við búum við mikið atvinnuleysi, þá búum við einnig við aukið óöryggi á vinnumarkaði. Fólk sem hefur vinnu óttast að einn góðan veðurdag þá missi það sjálft vinnuna. Sá ótti sem það hefur í för með sér getur veikt samningsstöðu einstaklinga og eykur jafnvel líkurnar á að hægt sé að brjóta á þeim lögvörðu réttindum sem fólk annars hefur“, segir Guðbjörg.

„Ef þú hefur unnið náið með fólki sem var sagt upp þá getur þér liðið mjög illa, verið með samviskubit yfir því að halda vinnunni meðan félögunum var sagt upp, auk þess sem það sækir á þig að þú sért áreiðanlega næst eða næstur. Við sáum þetta á Íslandi eftir bankahrunið, þar sem fólk á öllum aldri missti vinnuna. Vinnutengd vanlíða jókst meðal starfsfólks sem þó hélt vinnunni á stöðum sem urðu illa úti í hruninu“.

Að festast í fátækt
„Í Evrópu sjáum við aðra og þriðju kynslóð fólks sem er atvinnulaust og það er aðeins farið að glitta í það hér á landi. Þetta er fátæktargildra. Langvarandi atvinnuleysi er auk þess dýrt fyrir samfélög þar sem færri eru þá til þess að standa undir velferðarkerfinu með því að greiða tekjuskatt og útsvar.“

Guðbjörg Linda segir það því vera aðal skyldu stjórnvalda að tryggja hátt atvinnustig til að koma í veg fyrir það mein sem mikið og langvarandi atvinnuleysi hefur í för með sér fyrir einstaklinga og samfélög.


Þrjátíu þúsund starfsmönnum sagt upp á einu bretti í Portúgal

portugalStjórnvöld í Portúgal tilkynntu í gærkvöld að 30 þúsund opinberum starfsmönnum yrði sagt upp störfum, og eftirlaunaaldur yrði hækkaður um ár, úr 65 árum í 66. Þá yrðu ríkisstarfsmenn að vinna 40 stundir í viku hverri, en til þessa hefur vinnuvika þeirra aðeins verið 35 stundir.

Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins. Þar kemur enn fremur fram þetta:

Pedro Passos Coehlo forsætisráðherra sagði þessar ráðstafanir illa nauðsyn, en þær spöruðu ríkinu 4,8 milljarða evra næstu þrjú ár, um 750 milljarða króna.

Portúgalar fengu 78 milljarða evra neyðaraðstoð hjá Evrópusambandinu, Seðlabanka Evrópu og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum í hittiðfyrra, liðlega 12 þúsund milljarða króna.

18 prósenta atvinnuleysi er í Portúgal og efnahagssamdráttur, þriðja árið í röð.


Enn mjög sundurleit þróun á evrusvæðinu

Olli Rehn yfirmaður efnahags- og peningamála staðfestir í yfirlýsingu sem hann gaf að efnahagsstjórnin með evrunni hefur mistekist. Hann segir að sundurleitni sé enn viðvarandi á evrusvæðinu, en evrunni var einmitt ætlað að koma í veg fyrir sundurleitni og stuðla að samrunaþróun í verðlagi, vöxtum og opinberum fjármálum.

Þarf nokkuð frekari vitna við um að tilraunin með evruna hefur mistekist?


mbl.is Samdrætti spáð á evrusvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju er ríkisútvarpið alltaf svona neikvætt?

evrAf hverjur er ríkisútvarpið alltaf svona neikvætt um þróunina á evrusvæðinu og í Evrópusambandinu þessa dagana? Svona spyrja sumir þeir sem hafa litið vonaraugum til ESB og evrunnar. Svarið er einfalt. Það er ekkert sérlega jákvætt að gerast á svæðinu og þess vegna flytur RUV okkur vondar fréttir þaðan.

Þannig sagði RUV frá í hádegisfréttum:

„Áfram er búist við miklu atvinnuleysi á evrusvæðinu á þessu ári og því næsta enda stefnir í að efnahagssamdrátturinn þar nemi 0,4% á árinu. Fjárlagahalli þriggja af fimm stærstu hagkerfum svæðsins verður umfram heimildir.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti í morgun hagspá sína og þótt hún sé kennd við vorið kveður þar við heldur kuldalegan tón. Í fyrsta lagi er búist við að efnahagssamdrátturinn verði meiri á þessu ári en búist var við, 0,4 prósent í stað 0,3 prósenta. Árið 2014 er búist við 1,2 prósenta hagvexti á evrusvæðinu en það er ekki talið nóg til að verulega dragi úr atvinnuleysi. Útlit er fyrir að tólf prósent vinnufærra manna verði án atvinnu í evruríkjunum á þessu ári.

Fjárlagahalli Ítalíu rétt innan marka

Athygli vekur að fjárlagahallinn í Frakklandi, Spáni og Hollandi, þremur af fimm stærstu hagkerfum evrusvæðisins, verður á þessu ári umfram þær heimildir sem ESB setur aðildarríkjunum, að hámarki þrjú prósent af landsframleiðslu. Ítalía er aftur á móti rétt innan þessara marka. Olli Rehn, efnahagsmálastjóri ESB, tilkynnti á blaðamannafundi í Brussel í morgun að Frakkar fengju tvö ár til viðbótar til að rétta þennan halla af, og kom sú yfirlýsing á óvart að mati dagblaðsins Financial Times.

Kýpverska hagkerfið dregst saman um 12,6%

Í hagspánni koma fram í fyrsta sinn útreikningar ESB á afleiðingum bankakreppunnar á Kýpur. Kýpverska hagkerfið dregst líklega saman um 8,7 prósent á þessu ári og 3,9 prósent á því næsta, samtals um 12,6 prósent. Grikkir geta aftur á móti vænst lítils háttar hagvaxtar árið 2014 eftir undangengin harðindaár.“


Evrukreppan er að ná til Danmerkur, Svíþjóðar og Hollands

„Fram að þessu hafa vandamál evruríkjanna fyrst og fremst verið við Miðjaðarhaf og á Írlandi. Grikkland, Spánn, Portúgal og Írland hafa þurft á neyðarlánum að halda og nú síðast Kýpur. Þó ber að taka fram að aðstoðin við Spán snýr til þessa eingöngu að spænskum bönkum.“

Svo segir Styrmir Gunnarsson á vef Evrópuvaktarinnar.

Hann segir ennfremur:

„Nú eru vaxandi umræður um að Ítalía eigi eftir að lenda í sömu stöðu og verði að leita neyðarláns og er bandaríska matsfyrirtækið Moody´s í hópi þeirra, sem það hafa sagt opinberlega. Jafnframt eru vaxandi áhyggur af efnahagslegri stöðu Frakklands.

En það sem þó vekur mesta athygli þessa dagana er að vandamálin eru að leita enn norðar en til Frakklands. Í gær á 1. maí var aðsúgur gerður að Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, þegar hún hugðist halda ræðu í tilefni af hátíðisdegi verkalýðsins, Forsætisráðherrann, sem jafnframt er leiðtogi danskra jafnaðarmanna varð að hætta við flutning ræðunnar vegna mótmæla, sem að henni beindust. Sú reiði, sem þarna braust fram beindist ekki bara að forsætisráðherranum heldur líka að öðrum fulltrúum ríkisstjórnarinnar, sem töluðu eða ætluðu að tala á 1. maí.

Þessi viðbrögð almennings hafa að vonum vakið mikla athygli í Danmörku og benda til þess að ekki sé allt með felldu í dönsku þjóðlífi. Evrukreppan sé líka farin að láta finna fyrir sér þar.

Hingað til hefur verið litið á Holland í sama flokki efnahagslega og Þýzkaland. Nú er upplýst í Daily Telegraph að svo er ekki og fullyrðir blaðið að Holland sé komið nálægt því að falla í svipaða kreppu skuldsetningar og verðhjöðnunar og hrjáð hefur Japan í tvo áratugi. Þetta þýðir að það er heldur ekki allt með felldu hjá Hollendingum og rétt að halda því til haga að bæði Danir og Hollendingar töluðu niður til Íslendinga haustið 2008.

Í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag kemur fram, að þegar námufyrirtæki í Norður-Svíþjóð auglýsti 400 störf laus sóttu hvorki meira né mina en 22 þúsund manns um þau störf. Í ljós kemur að atvinnuleysi í Svíþjóð er komið í 8,8% sem þýðir að nær hálf milljón Svía er án atvinnu. Jafnvel í því mikla velmegunarríki Svíþjóð er nú svo komið að evrukreppan og fjármálakreppan í heild teygir anga sína þangað.

Evrukreppan er ekki lengur staðbundið vandamál Miðjarðarhafsríkjanna og Írlands. Hún er að breiðast út um allt evrusvæðið og til ESB-ríkja, sem ekki hafa tekið upp evru.

Það er gott fyrir Ísland að Samfylkingin mun ekki öllu lengur ráða ríkjum í utanríkisráðuneytinu.“


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 392
  • Frá upphafi: 1121183

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 355
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband