Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Hagsmunum Grikkja var fórnað á altari evrusvæðisins

Ný skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um björgunaraðgerðir ESB og AGS í Grikklandi er ófögur lesning.

Fjallað er um skýrsluna í leiðara Morgunblaðsins í dag. Þar segir:

Trekk í trekk var vandi landsins vanmetinn og reglur sjóðsins beinlínis sveigðar til þess að fegra stöðu landsins út á við. Sjóðurinn gaf út hagvaxtarspár sem vitað var að gætu ekki staðist og líku máli gegndi um atvinnuleysisspár. Þessar spár voru síðan notaðar til þess að heimila tvo björgunarpakka upp á hundruð milljarða evra, án þess að Grikkland uppfyllti þau skilyrði sem til þurfti.

Í skýrslunni kemur fram að harkalegur niðurskurður sjóðsins á útgjöldum gríska ríkisins kom verr niður á efnahag landsins en opinberlega var gert ráð fyrir, meðal annars vegna þess að evran veitti ekkert svigrúm í hagkerfinu til slíkra aðgerða. Ekki bætti úr skák að niðurskurðurinn byggðist á þeim sömu fegruðu hagvaxtarspám sem sjóðurinn vissi sjálfur að gætu varla staðist.

Það að þáttur evrunnar er nefndur til sögunnar sýnir enn og aftur hversu lánsamir Íslendingar voru að hafa eigin gjaldmiðil til að mæta þeim áföllum sem hér dundu yfir íslenskt efnahagslíf. Þá kemur einnig glöggt fram í skýrslunni að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hugsaði ekkert um hagsmuni Grikkja þegar kom að úrlausn Grikklandskrísunnar en einbeitti sér í staðinn að skammtalækningum til þess að verja lítt skilgreinda sam-evrópska hagsmuni.

Framkvæmdastjórnin fær harða gagnrýni í skýrslu sjóðsins. Hún er sögð óskilvirk og að hún hafi náð takmörkuðum árangri við úrlausn Grikklandskrísunnar. Þá hafi framkvæmdastjórnin enga reynslu af krísustjórnun.

Í skýrslunni segir jafnframt að innan hinnar heilögu þrenningar sjóðsins, framkvæmdastjórnarinnar og Seðlabanka Evrópu, sem taka átti á vanda Grikklands, hafi verið mikill skoðanaágreiningur, einkum um hagvaxtarspár. Ambrose Evans-Pritchard, viðskiptaritstjóri Daily Telegraph, gengur svo langt að segja að Íslandsvinurinn Olli Rehn ætti að segja af sér fyrir »glæpi gegn Grikklandi og gegn hagfræðinni«. Með því myndi Rehn axla sömu ábyrgð og fjármálaráðherrar ESB-landanna og sýna að framkvæmdastjórnin skildi alvöru málsins. Viðbrögð framkvæmdastjórnarinnar við gagnrýni skýrslunnar hafa hins vegar verið á allt annan veg: algjör afneitun.

Grikklandsævintýri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er fyrir löngu orðið að martröð. Skýrslan, sem átti að vera leyndarmál en kemur nú fyrir augu almennings fyrir tilstuðlan Wall Street Journal, sýnir að hagsmunum Grikkja var fórnað á altari evrusvæðisins. Evrópusambandinu hefur á undanförnum misserum verið lýst sem brennandi húsi. Efast má um að þann eld takist að slökkva í bráð með þeim handarbaksvinnubrögðum sem skýrslan greinir frá.


Mikið ósætti í Evrópu um ESB - stór hluti þjóðanna á móti aðild

Þessi frétt staðfestir að stór hluti þjóða þeirra ríkja sem eiga aðild að ESB er mjög ósáttur við veruna í sambandinu og vill yfirgefa ESB.

Danir hafa hafnað evrunni og hafa nú miklar efasemdir um ESB í heild sinni.

 


mbl.is Dönum sem vilja úr ESB fjölgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB hefur þá lítinn áhuga á okkur eins og staðan er

Það er athyglisvert mat hjá forsetanum að ESB hafi nú minni áhuga á okkur vegna ótta ráðamanna í Evrópu um að Íslendingar muni hafna aðild að sambandinu.

En það þýðir ekki að ESB hafi gefist upp við að lokka okkur til sín. Sambandið bíður færis. Verum viss um það.


mbl.is Annar veruleiki í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræður við ESB á þessari stundu er út í bláinn

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna við Evrópusambandið sé ekki á dagskrá að óbreyttu. Til þess þurfi miklar breytingar bæði hér heima og eins í Evrópu.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hefur í samræmi við þetta sett ráðuneytisbremsu á aðlögunarferlið.

Það er í raun stórundarlegt að einhverjir skuli halda því fram að það sé sjálfgefið að það verði kosið um áframhald viðræðna eins og ekkert sé. Slíkar skoðanir bera vott um ótrúlega pólitíska blindu.

Staðreyndin er að þjóðin er á móti inngöngu í ESB, ríkisstjórnin er á móti og meirihluti þingsins líka. Ef haldið yrði áfram með aðildarviðræður yrðu báðir stjórnarflokkarnir komnir í sömu ömurlegu aðstöðuna og Vinstri græn voru í á síðasta kjörtímabili; að vera á móti aðild en stefna samt að aðild með viðræðum.

Reyndar er það sem stendur í stjórnarsáttmálanum algjörlega skýrt í þessum efnum. Þar er kveðið skýrt á um að stjórnin sé á móti aðild og sá varnagli ennfremur sleginn að ef svo ólíklega vildi til að meirihluti Alþingis vildi halda áfram viðræðum þá yrði það ekki gert öðru vísi en að undangenginni þjóðaratvkæðagreiðslu.

Það er því ekki eftir neinu að bíða að núverandi ríkisstjórn leggi fyrir Alþingi tillögu til samþykktar þess efnis að staðfestur verði sá vilji núverandi ríkisstjórnar - og reyndar hinnar fyrri líka því viðræðurnar voru komnar á ís - að þessum viðræðum verði formlega hætt.

Til hliðsjónar er hér gott að hafa það sem stendur í ríkisstjórnarsáttmálanum um þetta og jafnframt það sem segir í landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins og flokksþingssamþykkt Framsóknarflokksins:

Í sáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks segir um umsóknina um aðild að ESB: Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er fróðlegt að bera sáttmálatextann saman við samþykktir æðstu stofnana flokkanna sem að ríkisstjórninni standa.

Landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins hljóðar svo: „Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Flokksþingssamþykkt Framsóknarflokksins hljóðar svo: „Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

 


mbl.is Þjóðaratkvæði um ESB ekki á dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran feykir Finnlandi í suðræna skuldasiglingu

Ýmislegt bendir til þess að Finnland sé um sumt að komast í svipaða aðstöðu og vandræðaríki evrunnar. Framleiðsla dregst saman, atvinnuleysi eykst, skuldir aukast og viðskiptahalli er orðinn viðvarandi.

Þetta kom þó ekki fram í máli forseta Finnlands þegar hann var hér um daginn.

Ástæðan fyrir samdrættinum er tvenns konar eftir því sem finnskir hagfræðingar segja. Í fyrsta lagi hefur verðbólga verið hærri en í samkeppnislöndunum á evrusvæðinu í lengri tíma, en það gerir það að verkum að samkeppnisstaða finnsks iðnaðar hefur versnað, erfiðara gengur að selja finnskar vörur, staða fyrirtækja í Finnlandi versnar og atvinna dregst saman. Finnskir hagfræðingar segja að finnskt efnahagslíf hefði þurft hærri stýrivexti en Seðlabanki Evrópu ákvað. Þeir eru hins vegar bundnir í evrusamstarfinu og háðir þeim meðaltalsvöxtum sem seðlabankinn ákveður fyrir svæðið.

Hin ástæðan fyrir því að erfiðlega gengur hjá Finnum er að samdráttur á evrusvæðinu dregur úr eftirspurn eftir útfluttum vörum þeirra.

Finnar virðast ræða þetta lauslega, en þó virðist lítill máttur í þeirri umræðu því evrustjórnin, Seðlabanki Evrópu, virðist svo órafjarri að það dregur úr þjóðmálaumræðu um þetta.

Finnar ræða meira um það þessa dagana að þeir þurfi nú að fara að borga með sínum sköttum fyrir syndir suðrænna evruþjóða sem ekki hafi beitt nægilegum aga við stjórn ríkisfjármála. Það virðist vera miklu auðveldara að ræða málin þannig, þ.e. þegar hægt er að skeyta skapi sínu á annarri þjóð eða þjóðum. Það er auðveldara en að ræða um kerfisgalla evrunnar.


Evrópusamruninn hefur gengið of langt

Viðbrögð Breta og fleiri benda til þess að Evrópusamruninn hafi gengið lengra en þjóðir í álfunni sætta sig við með góðu móti.

Sumar þjóðir láta sig hafa það að lúta regluveldinu í Brussel og embættismenn og stjórnmálamenn láta jafnvel sem þeim líki vel. Æ oftar kemur nú hins vegar upp á yfirborðið að fólk í álfunni er hundóánægt með miðstýrt skrifræði ESB.


mbl.is Þjóðir ESB fái „rauða spjaldið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 33
  • Sl. sólarhring: 498
  • Sl. viku: 2540
  • Frá upphafi: 1166300

Annað

  • Innlit í dag: 30
  • Innlit sl. viku: 2177
  • Gestir í dag: 29
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband