Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

EES-samningurinnn heftir viðskipti fremur en stuðlar að þeim

EES-samningurinn er að breyta um eðli. Í stað þess að vera samningur til að stuðla að frjálsum viðskiptum er hann í æ meiri mæli orðinn að samningi sem heftir viðskipti með vörur sem ekki eru framleiddar samkvæmt sérstökum stöðlum ESB.

Þetta á við um matvörur, bíla og ýmsar vörur svo sem ryksugur. Með þeim breytingum sem hagsmunapotarar evrópskra stórfyrirtækja hafa komið að á reglugerðum af ýmsu tagi eru evrópsku fyrirtækin að skara eld að eigin köku og hindra hagstæð viðskipti íbúa Evrópu við þjóðir utan ESB.

Dæmi um þetta eru reglugerðir um sölu á ryksugum. Frosti Sigurjónsson þingmaður Framsóknarflokksins benti þetta í umræðu og pistli fyrir áramót. Birgir Örn Steingrímsson hefur einnig fjallað um þetta á bloggi sínu. 


ESB meinar Færeyingum að kæra mál til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar

ESB beitir yfirgangi í samskiptum við smáþjóð. Færeyingar vilja að Alþjóðaviðskiptastofnunin fjalli um deilur Færeyinga og ESB um síldveiðar. ESB beitir neitunarvaldi til þess að koma í veg fyrir að málið verði tekið upp.

Það verður ekki annað séð en að þetta sýni yfirgang ESB innan alþjóðasamtaka gagnvart smáþjóð. Er þetta eitthvað sem við gætum átt von á innan ESB? 

Jafnframt má benda hér á að ESB beiti rangri fiskveiðiráðgjöf til þess að berja á smájóðum.  

mbl.is segir svo frá:

Evrópusambandið beitti í dag neitunarvaldi á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) til þess að koma í veg fyrir að deila sambandsins við Færeyinga um síldveiðar þeirra síðarnefndu yrði tekin til meðferðar á vettvangi stofnunarinnar.

Færeysk stjórnvöld kærðu Evrópusambandið til WTO í byrjun nóvember vegna viðskiptaþvingana sem sambandið greip til gegn Færeyjum síðastliðið sumar í kjölfar þeirrar ákvörðunar Færeyinga að setja sér einhliða hærri síldarkvóta í norsk-íslenska síldarstofninum en þeir höfðu áður haft samkvæmt samningum.

Haft er eftir Kaj Leo Holm Johannesen, lögmanni Færeyja, á færeyska fréttavefnum Portal.fo að ákvörðun Evrópusambandsins sé vonbrigði. Hann hafi vonast til þess að sambandið væri reiðubúið að láta á það reyna á vettvangi WTO hvort aðgerðir þeirra gegn Færeyjum stæðust alþjóðlegar skuldbindingar þess. 


mbl.is Beitti neitunarvaldi gegn Færeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxandi klofningur af ýmsu tagi í Evrópusambandinu

Á undanförnum árum hefur klofningur af ýmsu tagi aukist í Evrópusambandinu. Það er bæði pólitískur, efnahagslegur og félagslegur klofningur. Þetta er þvert á þau fyrirheit sem gefin voru um aukna samstöðu og samleitni í sambandinu.

Hér hefur áður verið minnst á efnahagslega mismunun í Evrópusambandinu sem hefur aukist. Ýmsar skýrslur segja frá því hvernig sígur á ógæfuhliðina í þeim efnum. Hinn pólitíski klofningur er ekki síður athyglisverður og alvarlegur fyrir Evrópusambandið.

Hinn pólitíski klofningur felst meðal annars í því að þjóðirnar í norðri hafa ekki áhuga á frekari samrunaþróun í Evrópusambandinu. Skýrt dæmi um þetta er Bretland. Þar er sterk hreyfing fyrir því að Bretland segi sig úr Evrópusambandinu vegna þess að æ meiri völd hafa flust frá lýðræðisstofnunum Breta yfir til Brussel. 

Svipað á við um Hollendinga og fleiri þjóðir í Norður-Evrópu. Jafnvel fjölmörgum Þjóðverjum finnst nóg um samrunaþróunina, þ.e. þróunina í átt til sambandsríkis Evrópu. Það eru helst ýmsar þjóðir í Mið-, Suður- og Austur-Evrópu sem eru fylgjandi samrunaþróuninni. Þær þjóðir hafa jú sumar hverjar við flest og stærst efnahags- og félagsleg vandamál að glíma sem þær vilja fá aðstoð annarra þjóða við að leysa.

Evrópusambandið hefur tekið miklum breytingum á undanförnum áratug. Það hefur líka tekið miklum breytingum frá því þáverandi utanríkisráðherra Íslands sendi inn umsókn um aðild að sambandinu og það tekur enn stórstígum breytingum í átt að sambandsríki.

Íslendingar þurfa að átta sig á þessu. Væntanlega mun skýrsla Hagfræðistofnunar sem kemur út von bráðar fjalla meðal annars um þessa þætti. Það þarf í öllu falli að útskýra vel fyrir Íslendingum hvað er að gerast í Evrópu.

Fyrrverandi ríkisstjórn hafði því miður lítinn áhuga á því að skoða þessar hliðar mála. 


Aukið valdaframsal til ESB veldur deilum í Hollandi

Sívaxandi valdaframsal til ESB veldur nú deilum í Hollandi. Forsætisráðherra landsins lætur sér valdaframsalið í léttu rúmi liggja en verður líklega að beygja sig fyrir meirahluta hollenska þingsins sem krefst þess að þjóðin verði spurð hvort hún vilji aukið valdasframsal til Brussel.

Óánægjan með ESB hefur farið vaxandi. Það virðist hafa þurft 63 þúsund undirskriftir meðal Hollendinga til að knýja í gegn umræðu um málið á hollenska þinginu.

Fróðlegt verður að fylgjast nánar með þeirri umræðu.  Sjá nánar í meðfylgjandi frétt á mbl.is


mbl.is Vilja þjóðaratkvæði um valdaframsal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný skýrsla framkvæmdastjórnar ESB um fátækt

Fjórðungur Evrópubúa á það á hættu að lenda undir fátæktarmörkum að mati framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hlutastörfum fjölgar og ennfremur fjölgar þeim sem vinna sér inn mjög litlar tekjur. Fyrir vikið eykst bilið á milli þeirra sem eru vel stæðir og hinna sem eru undir fátæktarmörkum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu.

EUObserver greinir frá þessu.  Vitnað er til ársskýrslunnar Social and Economic developments in 2013 sem atvinnustjóri ESB, Laszlo Andor, kynnti í gær.

Hann segir að fátækt aukist verulega og þótt atvinnuleysi hafi minnkað örlítið þá sé það ekki nóg. Atvinnuleysið er 12 prósent á evrusvæðinu en 11 prósent í ESB í  heild.  Talið er að 19 milljónir manna séu atvinnulausar á evrusvæðinu. Atvinnuleysi meðal ungs fólks er 23 prósent.  

Tölurnar endurspegla aukið bil á milli evruþjóðanna. Atvinnuleysi á Spáni er 26,7% og 27,3 í Grikklandi - sem er um fimm sinnum meira en í Austurríki og Þýskalandi.

Af 28 löndum ESB eru 21 með reglur um lágmarkslaun, en þau liggja á bilinu frá 160 evrum (25 þúsund krónum) á mánuði í Búlgaríu og upp í tæplega 1.874 evrur (300 þúsund krónur) í Lúxemborg. Í ellefu löndum eru lágmarkslaunin minni en 500 evrur (78 þúsund krónur).

Vegna lágra launa í mörgum löndum mun það ekki koma atvinnulausum yfir fátæktarmörkin þótt þeir fái fullt starf, segir atvinnustjóri ESB, Laszlo Andor. Fram kemur í skýrslunni að 29 prósent atvinnulausra í Evrópu njóta ekki velferðaraðstoðar.

Rétt er að undirstrika það mat fjölmargra hagfræðinga að evrusamstarfið eigi stóran þátt í auka á þann mun sem er á ríkidæmi evruþjóðanna. 


Hollendingar eru ósáttir með ESB

Skoðanakannanir sýna að Hollendingar eru fremur óánægðir með þá þróun sem á sér staðí átt til aukins valdaframsals til ESB. Þeir vilja fá að kjósa um þetta samkvæmt nýlegri skoðanakönnun, en skemmst er að minnast þess að ríflega 60% Hollendinga voru andvígir tillögum sem síðar urðu að Lissabon-sáttmálanum. 
 
Sú tilfinning er sterk meðal Hollendinga að stjórnmálamenn hafi ekki tekið nægjanlegt tillit til þeirrar andstöðu sem Hollendingar hafa sýnt samrunaþróun og valdasamþjöppuní Evrópusambandinu. Sú tilfinning virðist nú fá útrás meðal annars í stuðningi við flokka sem eru mjög gagnrýnir á ESB. Lítilsvirðing embættis- og stjórnmálamanna ESB gagnvart kjósendum hefur þannig vakið upp róttæk öfl sem nú berjast gegn sambandinu. 
 
Sjá m.a. hér: Europaportalen.se  
 
 


Gjaldeyrishöft skjóta rótum í evrulandinu Kýpur

Það er bráðum ár síðan gjaldeyrishöft voru innleidd í evrulandinu Kýpur. Þrátt fyrir ýmsar breytingar á þeim bendir ekkert til þess að þau verði afnumin í bráð. Atvinnuleysi er nú um 20% á Kýpur og skuldir fara almennt vaxandi.
 
Þetta kemur fram í Ríkisútvarpinu í dag.
 
Þar segir að landið hafi fengið neyðarlán upp á 10 milljarða evra í fyrra, eða sem svarar um helmingi landsframleiðslu. Ný skýrsla frá AGS sýnir að efnahagur eyjunnar stendur enn á brauðfótum. Sem kunnugt er þurftu innstæðueigendur að taka á sig tap bankanna á eyjunni. Ennfremur þurftu launþegar að taka á stig um 10% launalækkun. Þrátt fyrir það jókst atvinnuleysi verulega og er um 20% eins og áður sagði.
 
 
 

Svíar óttast geigvænlegar afleiðingar sparnaðarráðstafana ESB í Grikklandi

Svíar ræða nú um geigvænlegar afleiðingar þeirra sparnaðarráðstafana sem ESB hefur þvingað Grikki til að framfylgja. Þær hafa það í för með sér að meðaltekjur hafa lækkað um helming og þriðjungur grísku þjóðarinnar hefur færst niður fyrir fátæktarmörk. Börn hafa nú ekki lengur rétt á því að fá bólusetningu gegn alvarlegum sjúkdómum, börn geta ekki sótt skóla af gagni vegna hungurs og vannæringar, verðandi mæður fá ekki mæðravernd og þurfa svo að taka á sig skuldir þegar þær fæða börn sín.
 
Svíum hryllir við lýsingum af þessu tagi, enda eiga þær meira skylt við stríðshrjáð lönd en þróað Evrópuland. Þetta er samt veruleiki dagsins hjá stórum hluta Grikkja. Sænskum stjórnmálamönnum finnst þetta vera brot á mannréttindum, eins og fram kemur í vefritinu Europaportalen. Atvinnuleysið er 28% og meira en 60 prósent hjá ungu fólki. Einna verst bitnar ástandið þó á konum og ofbeldi gegn þeim hefur aukist.
 
Sænsku stjórnmálamennirnir sem vitnað er til hafa ekki trú á því að sparnaðarleiðir ESB, Seðlabanka Evrópu og AGS muni koma fótunum undir Grikki á nýjan leik.  
 
Orsakir vandans, segja sænsku þingmennirnir sem tilheyra Vinstri flokknum, er meðal annars hinn sameiginlegi gjaldmiðill; evran. Hún á bæði sök á vandanum og kemur í veg fyrir lausn hans. Löndin sem nota evruna eru allt of ólík hvað varðar gerð hagkerfisins, verðbólguþróun og samkeppnisstöðu til að þau geti notað sameiginlegan gjaldmiðil.  
 
 
 
 

Vigdís Hauksdóttir gagnrýnir rándýrar og óþarfar EES-tilskipanir

vigdis
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður Heimssýnar, gagnrýndi í Sprengisandsþætti Bylgjunnar í morgun rándýrar vatnatilskipanir sem Alþingi hefði samþykkt á grunni EES-samningsins. Vigdís sagði tilskipunina vera óþarfa í þeirri mynd sem hún væri hér á landi og væri auk þess mjög dýr í framkvæmd.
 
Vigdís var í morgunþætti Bylgjunnar með þáttastjórnandanum, Sigurjóni Egilssyni, og Jóni Steindóri Valdimarssyni, formanni samtakanna Já-Ísland, en þau samtök berjast fyrir aðild Íslands að ESB.
 
Reyndar kvartaði Jón Steindór í þættinum yfir því að þingmaðurinn Vigdís skyldi jafnhliða þingmennskunni vera formaður fyrir stórum pólitískum baráttusamtökum á borð við Heimssýn. Vissulega er Heimssýn stór og öflug baráttusamtök fyrir góðum málsstað, en til þessa hefur félagafrelsi og málfrelsi verið talið það mikið að þingmenn mættu taka virkan þátt í samtökum sem styðja þann málstað sem þeir trúa á. 
 
Vigdís nefndi í þættinum að endurskoða þyrfti ferli EES-tilskipana og að ríki þyrftu fyrr að koma að ferlinu til þess að hægt yrði að gera athugasemdir í tíma. Of algengt væri að þingmenn samþykktu umræðulítið tilskipanir á borð við vatnatilskipunina og síðan kæmi í ljós að þær hentuðu engan veginn aðstæðum hér á landi.  
 
Þá nefndi Vigdís að áform ESB um eftirlit með bönkum á EES-svæðinu stangaðist algjörlega á við stjórnarskrá Íslendinga. 
 
Jón Steindór þrástagaðist í þættinum á þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna við ESB, en ræddi minna um andstöðu sína við slíka þjóðaratkvæðagreiðslu þegar ákveðið  var að senda inn um sókn að ESB árið 2009. Sem vitað er rann sú umsókn út í sandinn á síðasta kjörtímabili í höndunum á Össuri Skarphéðinssyni, þáverandi utanríkisráðherra. Nú vill Jón Steindór loksins láta kjósa um áframhald viðræðna þegar búið er að stöðva þær - og til að kóróna sérkennilegheitin vill hann láta kosningar fara fram samhliða sveitarstjórnakosningum til að tryggja sæmilega þátttöku í þeim. 
 
Annars var athyglisvert að Jón Steindór viðurkenndi ýmsa vankanta á Evrópusambandinu og hann sagði að gagnrýni Breta á ESB væri án vafa réttmæt, auk þess sem fjármálakrísa stæði yfir í sambandinu. Hann minntist hins vegar ekki á þá samfélagskrísu sem stórir hlutar þjóða verða að búa við vegna evrusamstarfsins og að um helmingur ungs fólks á Spáni og víðar þurfi að vera án atvinnu. Þetta þjóðfélagsástand veldur því að æ fleiri efast nú um evrusamstarfið.

Tækifæri ESB-umsóknar var á síðasta kjörtímabili og það er nú liðið

Tækifærið fyrir ESB-aðildarsinna til að koma Íslandi í Evrópusambandið var á síðasta kjörtímabili. Í upphafi þess var samþykkt að sækja um aðild með fyrirheitum um að viðræður tækju ekki nema eitt til tvö ár. Niðurstaðan var sú að fyrrverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hrökk frá hálfkláruðu verki áður en kjörtímabilið var á enda.

Síðasta ríkisstjórn hefði átt að hafa alla burði til að klára málið. Hún fór af stað án þess að spyrja þjóðina og án þess að annar stjórnarflokkurinn væri fylgjandi aðild að ESB. Þetta kunni náttúrulega ekki góðri lukku að stýra. 

Nú hamast aðildarsinnar, þeir sem ekki máttu heyra minnst á þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir fjórum árum, sem óðir fyrir því að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna.  

Það voru haldnar hér kosningar fyrir tæpu ári. Þá unnu þeir flokkar sem vildu stöðva viðræður við ESB og sá flokkur sem helst hafði barist fyrir aðild beið algjört afhroð.

Kannanir sýna að um 60% þjóðarinnar er á móti aðild, þingið er á móti aðild og ríkisstjórnin er á móti aðild. Ríkisstjórnin hefur stöðvað viðræðurnar.

Hvers vegna í ósköpunum dettur aðildarsinnum í hug nú að krefjast þess að haldin verði sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla til þess að fá þjóðina til að greiða atkvæði um það hvort halda eigi viðræðum áfram. 

Jú - ástæðan er sú að þetta er eina hálmstráið sem aðildarsinnar eiga til þess að halda lífi í umræðunni.

Þeir líta hins vegar algjörlega fram hjá því að það ákvæði sem er í stjórnarsáttmála, kosningastefnuskrám og lýðræðislegum samþykktum stjórnarflokka um þjóðaratkvæði er varnagli til þess gerður að það verði aldrei farið í viðræður á nýjan leik án þess að þjóðin verði spurð fyrst.

En fyrst enginn er fylgjandi aðild - þá ætti ekki að vera nein þörf á því að ræða þetta.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 127
  • Sl. sólarhring: 250
  • Sl. viku: 1062
  • Frá upphafi: 1117661

Annað

  • Innlit í dag: 119
  • Innlit sl. viku: 936
  • Gestir í dag: 115
  • IP-tölur í dag: 115

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband