Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Gunnar Bragi Sveinsson eykur samvinnuna við Norðmenn á grunni EES-samningsins

Fram kemur í þessari frétt Morgunblaðsins að stjórnvöld á Íslandi og í Noregi stefna að því að auka samstarfið til að gæta hagsmuna sinna innan EES-samstarfsins. Eins og áður hefur komið fram hefur EES-samningurinn breyst talsvert frá því hann var undirritaður og nær nú til víðari sviða en áður. Þannig vekur hann æ oftar upp spurningar, bæði hér á landi og í Noregi, hvort hann standist stjórnarskrá landanna.
 
Frétt um málið á mbl.is er svohljóðandi: 
 

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fundaði í dag með Ingvild Næss Stub, aðstoðarevrópumálaráðherra Noregs. Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu rætt hafi verið um EES-samninginn á fundinum, framkvæmd hans og hagsmunagæslu innan EES-samstarfsins.

„Þau fóru yfir breytta stefnu Noregs í málefnum EES og þær aðgerðir sem ný norsk ríkisstjórn hefur gripið til í því skyni að efla þátttöku og hagsmunagæslu Noregs á vettvangi EES. Utanríkisráðherra gerði grein fyrir breyttum áherslum nýrrar ríkistjórnar Íslands í Evrópumálum og lagði áherslu á mikilvægi EES-samningsins, sem er grunnurinn að samstarfi Íslands við Evrópusambandið,“ segir ennfremur.

Þá hafi ráðherrarnir verið sammála um mikilvægi þess að auka enn frekar samstarf Íslands og Noregs á vettvangi EES með það fyrir augum að efla hagsmunagæslu ríkjanna innan EES-samstarfsins. 

mbl.is Vilja efla samstarfið á vettvangi EES
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundur um Bretland og EES á vegum Evrópu­vaktarinnar í hádegi á fimmtudag í Háskóla Íslands

Evrópuvaktin, RNH (Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt) og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands boða til hádegisfundar fimmtudaginn 30. janúar klukkan 12.00 til 13.00 í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, með dr. Richard North sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á Evrópusambandinu og sérstaklega stöðu Breta innan þess.

Frá þessu er greint á vef Evrópuvaktarinnar. 

Þar segir ennfremur:

 

Miklar umræður eru nú í Bretlandi um framtíðarsamband landsins og ESB. David Cameron forsætisráðherra hefur lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Breta að ESB á árinu 2017 fái hann brautargengi í þingkosningum 2015. Mörg viðhorf eru reifuð og dr. Richard North hefur fært rök fyrir því sem hann kallar Norway Option – norska kostinn. Þar lítur hann á samband Noregs við ESB á grundvelli EES-samningsins. Skoðanir hans á því efni eiga ekki síður erindi til Íslendinga en Breta eða Norðmanna.

Dr. Richard North stundar rannsóknir og greiningu á stjórnmálum og þróun þeirra. Hann er rithöfundur og bloggari. Hann hefur starfað á öllum stigum stjórnsýslu en hóf störf að umhverfis-heilbrigðismálum á sveitarstjórnarstigi. Hann sinnti hagsmunagæslu fyrir smáframleiðendur í viðskiptalífinu, var í fjögur ár rannsóknastjóri fyrir stjórnmálaflokk á ESB-þinginu. Í tíu ár hefur hann starfað sem sjálfstæður ráðgjafi fyrir breska þingmenn og ráðherra í ríkisstjórn Bretlands.

Richard hefur skrifað nokkrar bækur með blaðamanninum Christopher Booker og má þar nefna Mad Officials og Great Deception - the definitive history of the European Union auk þess Scared to Death þar sem lýst er fyrirbærinu hræðsla. Þá hefur hann sjálfur skrifað nokkrar bækur þar á meðal Ministry of Defeat um misheppnaðar aðgerðir Breta í suðurhluta Íraks og Many Not the Few, um hina hliðina á orrustunni um Bretland í síðari heimsstyrjöldinni. Nýjasta ritverk hans ber heitið The Norway Option sem er gefið út af Bruges Group og snýst um tengsl Noregs við ESB.

Richard stóð með öðrum að því að koma á fót lýðræðishreyfingunni The Harrogate Agenda og hann bloggar á síðunni EUreferendum.com þar sem hann greinir og segir álit sitt á þróun ESB-málefna. Hann er einn þeirra sem keppa til úrslita í ritgerða- og tillögusamkeppni á vegum IEA, Institute of Economic Affairs í London, um svonefnd Brexit-verðlaun, það er stöðu Bretlands eftir úrsögn úr ESB, keppninni er ekki lokið. 

 


Leiðtogar á Spáni og Ítalíu óttast vaxandi ESB-andstöðu

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, og Enrico Letta, forsætisráðherra Ítalíu, óttast vaxandi áhrif þeirra sem eru gagnrýnir á og hafa efasemdir um ýmislegt í gerðum ESB.

Ráðherrarnir létu fara frá sér ummæli í þessa veru í byrjun vikunnar eins og fram kemur á EUObserver.com

Þar kemur jafnframt fram að Letta segir það vera skammsýni ef leiðtogar ESB taki ekki mark á rísandi bylgju evruandstæðinga í þeim kosningum sem framundan eru til þings sambandsins. Rajoy óttast að ESB-þingið geti orðið illa starfhæft eftir kosningarnar í vor vegna ESB-andstöðunnar. 


Hollenska þingið hafnar kosningu um ESB

ESB-andstæðingum í Hollandi tókst með 60 þúsund undirskriftum að fá hollenska þingið til að ræða tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um valdaframsal til ESB. Þingið hafnaði hins vegar tillögunni. Þá ætla ESB-andstæðingar að safna 300 þúsund undirskriftum til að krefjast atkvæðagreiðslu um ESB.

Frá þessu er sagt í Europaportalen.se.

Þar segir einn af hvatamönnum undirskriftanna, Thierry Baudet, að árið 2005 hafi 60% Hollendinga greitt atkvæði gegn þeim ESB-sáttmála sem síðan varð að Lissabon-sáttmálanum. Eftir það hafa völdin í Brussel yfir þjóðum ESB bara aukist, segir Baudet. 

Samtökin Burgerforum-EU sem standa fyrir þessum aðgerðum segja að völd ESB yfir aðildarþjóðum aukist stöðugt án þess að fólk geri sér grein fyrir því. Þetta gerist hægt og bítandi.

Skoðanakannanir sýna að tveir þriðju hlutar Hollendinga vilji halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aukna valdayfirfærslu til Brussel. Sami fjöldi Hollendinga telur að neitun þeirra á forvera Lissabon-sáttmálans hafi að engu verið höfð.

Hollendingar eru sem sagt ekki hrifnir af lýðræðinu í ESB. 


Útlit fyrir að þýskur evruandstæðingaflokkur fá í fyrsta sinn sæti á ESB-þinginu

Útlit er fyrir að flokkur andstæðinga evrunnar fá í fyrsta sinn sæti á þingi Evrópusambandsins, eins og fram kemur í meðfylgjandi frétt mbl.is.

Stjórnmálaflokkurinn AfD (Alternative für Deutschland) mælist með 7% fylgi í Þýskalandi samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem gerð var af fyrirtækinu Emnid fyrir þýska dagblaðið Bild am Sonntag. Könnunin var gerð í tilefni af kosningunum til Evrópuþingsins sem fram fara í maí næstkomandi.

Fram kemur í frétt AFP að flokkurinn þurfi í það minnsta 3% til þess að fá sæti á Evrópuþinginu en hann er gagnrýninn á Evrópusambandið og einkum og sér í lagi þátttöku Þjóðverja í evrusvæðinu. 

Til þessa hefur verið lítill áhugi á kosningunum til ESB-þingsins í maí. Kannski tilkoma þessa þýska evruandstæðingaflokks verði til þess að auka áhugann á þeim. 


mbl.is Þýskir evruandstæðingar með 7% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir EES-samninginn hafa tekið miklum breytingum

Sigmundur
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir EES-samninginn hafa tekið gríðarlegum breytingum frá því hann var samþykktur. Spurningin er sú hvort þróun hans endurspegli ekki að einhverju leyti þær breytingar sem eiga sér stað á ESB sjálfu. Við vitum aldrei hvert það þróast.

 

Sigmundur var í viðtali við Sigurjón Egilsson í Sprengisandsþætti Bylgjunnar. Þar nefndi forsætisráðherrann að EES-samningurinn hefði tekið mjög miklum breytingum. Hann hefði  verið fáeinar blaðsíður til að byrja með en yxi nú nánast stjórnlaust. Jafnframt sagði ráðherrann að það væri ljóst að Íslendingar ættu að geta haft meiri áhrif á þróun reglugerða innan EES-samningsins. Það ætti að vera hægt bæði á upphafsstigum reglugerðavinnunnar og eins við innleiðingu hér á landi. Þar ætti að vera hægt að taka meira tillit til aðstæðna hér á landi. Það kosti hins vegar mikla vinnu og fjármagn til að sinna þessu svo vel væri.

Þessi þróun á EES-samningnum sem Sigmundur nefnir leiðir þó hugann að þeirri spurningu hvort eitthvað álíka eigi ekki við þróunina á Evrópusambandinu sjálfu. Það byrjaði sem bandalag til að stuðla að frjálsum viðskiptum (og til að tryggja frið), en er nú orðið að miðstýrðu pólitísku bandalagi með mikinn lýðræðishalla af ýmsu tagi. 

 

 

Þéttara samstarf þjóða á norðurslóðum

Það var athyglisvert sem Sigmundur nefndi í sambandi við mögulega samvinnu við Norðmenn innan EES-samningsins. Hann sagði að það ætti að geta skilað árangri fyrir Íslendinga að hafa nánara samstarf við Norðmenn því það væri margt sameiginlegt með aðstæðum í Noregi og hér á landi, sérstaklega þegar borið væri saman við meginland Evrópu.

 

Ennfremur nefndi forsætisráðherra að þróun EES-samningsins gerði það að verkum að núningur við ákvæði í stjórnarskrá Íslands yrði sífellt meiri. Á sínum tíma, áður en EES-samningurinn var samþykktur hér á landi, hefði verið unnið umdeilt lögfræðiálit um að EES-samningurinn stangaðist ekki á við stjórnarskrá Íslands. Þróunin síðan benti æ oftar til þess að vafamál væri að slíkt álit stæðist vegna þeirra breytinga sem hefðu átt sér stað á EES-samningnum.
 
Þetta þarf náttúruleg a að skoða vel. 

Botninn úr málstað ESB-aðildarsinna vegna blekkingariðju

bjorn_bjarnason
Augljóst er að botninn er dottinn úr málflutningi þeirra sem boðað hafa aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hin misheppnaða vegferð frá sumri 2009 þegar aðildarumsóknin var lögð fram hefur veikt mjög málstað ESB-aðildarsinna. Þeir tala ekki heldur lengur um aðild heldur rétt fólks til að viðræðum við ESB verði lokið.
 
 
Svo sagði Björn Bjarnason á Evrópuvaktinni í gær. Hann sagði jafnframt:
 

Guðmundur Steingrímsson, forystumaðaur Bjartrar framtíðar, er helsti talsmaður þess sjónarmiðs að ljúka beri viðræðunum við ESB. Hann sagði til dæmis í þingræðu fimmtudaginn 16. janúar:

„Til að geta tekið upplýsta ákvörðun um það hvort hag Íslendinga sé best borgið innan Evrópusambandsins eða t.d. með áframhaldandi veru einungis í Evrópska efnahagssvæðinu þá þurfum við að klára aðildarviðræður. Við þurfum að sjá samning, öðruvísi getum við ekki afsannað ýmsar bábiljur sem eru núna ansi fyrirferðarmiklar í umræðunni um það hvað muni standa í samningnum. Einu sinni sögðu menn að ef við mundum gera samning við Evrópusambandið þyrftu íslensk ungmenni að ganga í evrópskan her. Nú er búið að loka kaflanum um varnar- og öryggismál. Þar stendur alveg skýrt og skorinort í sérstökum íslenskum fyrirvara að ekkert slíkt verði uppi á teningnum. Samningaviðræðurnar byggja auðvitað á eðli og gerð Evrópusambandsins en líka á sérstöðu þjóðanna. Það sem við þurfum að fá úr skorið er upp að hve miklu marki mun samningurinn byggja á sérstöðu Íslendinga. Þetta þarf að koma fram.

Það á alltaf að hringja viðvörunarbjöllum í lýðræðissamfélagi þegar ríkjandi stjórnvöld reyna að koma í veg fyrir að ferli sem miðar að því veita okkur sem bestar upplýsingar til að taka skynsamlegar ákvarðanir er hindrað. Það á alltaf að hringja viðvörunarbjöllum. Við eigum að geta tekið upplýstar ákvarðanir. Við eigum að fá að sjá samninginn í þessu tilfelli.“

Þetta er dæmigerður málflutningur fyrir þá sem tala eins og þeir viti ekki neitt um hvað bíði Íslendinga eftir aðild að ESB. Látið er eins og Íslendingar muni semja um eitthvert allt annað Evrópusamband en nú starfar. Það takist með viðræðum íslenskra embættismanna við Brusselmenn að skapa allt annan veruleika innan sáttmála ESB en nú ríkir. Málsvarar þessa þekkingarleysis á ESB eru annaðhvort hreinlega ekki með á nótunum í umræðum um ESB eða þeir stunda vísvitandi blekkingar.

Þegar upp er staðið er það þessi blekkingarleikur sem hefur spillt málstað ESB-aðildarsinna mest. Þeir hafa neitað að ræða málið með vísan til staðreynda. Þeir hafa grafið undan eigin trúverðugleika og glíma nú við trúnaðarbrest sem þeir hafa sjálfir skapað. Þetta hefur einnig skaðað íslenska utanríkisráðuneytið sem hefur misserum saman sent frá sér tilkynningar um frábæran framgang ESB-viðræðnanna þegar í raun hefur ekki verið lokið öðru en því sem þegar lá fyrir að yrði auðleyst vegna aðildar Íslands að EES.

Merkilegt er að Guðmundur Steingrímsson skuli nefna umræðuna sem spratt hér á landi vorið 2010 um sameiginlegan her á vegum ESB og aðild Íslendinga að honum gerðust þeir aðilar að ESB. Það er rétt hjá Guðmundi að kaflanum um utanríkis- og öryggismál hefur verið lokað í viðræðum ESB og Íslands.

Hér á síðunni hefur efni þessa máls verið rakið í fimm greinum. Niðurstaðan sem fyrir liggur er í samræmi við þá stöðu innan ESB um þessar mundir að hvert ESB-ríki á síðasta orð um utanríkis- og öryggismál. ESB þurfti ekki annað en staðfesta það við Íslendinga. Hitt nefnir Guðmundur Steingrímsson ekki að í Lissabon-sáttmálanum er gert ráð fyrir sameiginlegri varnarstefnu ESB-ríkjanna og sameiginlegu afli til að fylgja henni eftir. Gerðust Íslendingar aðilar að ESB yrðu þeir að gangast undir þessi sáttmálaákvæði. Það er yfirlýst markmið þeirra sem stefna að fullri framkvæmd Lissabon-sáttmálans að framkvæma þetta ákvæði hans eins og önnur þegar tækifæri gefst til að stíga samrunaskref á þessu sviði. 

Seðlabankastjóri Evrópu með pínlega yfirlýsingu

Hún er nú heldur pínleg þessi yfirlýsing seðlabankastjóra Evrópu um að stófelldur bati sé á evrusvæðinu. Fréttin lýsir hinu gagnstæða, sem sé því að hætta sé á japönsku ástandi því það stefnir í verðhjöðnun og viðvarandi mikið atvinnuleysi. 

Verðbólgan fer úr 0,9 prósentum í 0,8 prósent þrátt fyrir ýmsar þensluaðgerðir. Verðbólgumarkmiðið er 2% þannig að þetta lýsir verulegri ógn við efnahagsstjórn í ESB. Atvinnuleysið stendur í stað í heildina litið við 12%. Hagvöxtur er að jafnaði sáralítill.

Að tala um stórfelldan bata á evrusvæðinu er því rangnefni. Nær væri að segja að efnahagsskúta ESB sé enn í haugasjó með laskað stýri. Því miður fyrir heimsbyggð alla.

Ein helsta ástæðan fyrir þessu er illa hannað evrusamstarf sem aldrei átti að ná til fleiri en þriggja eða fjögurra ríkja.


mbl.is „Stórfelldur“ bati á evrusvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Bjarnason og Atli Gíslason skrifa um ESB-umsóknina

atligjonb
Jón Bjarnason Atli Gíslason hvetja til þess í grein í Morgunblaðinu í dag að umsóknin um aðild að ESB verði formlega afturkölluð. Jafnframt lýsa þeir því hvernig málið var unnið í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar. Grein þeirra er fróðleg lesning.
 
Jón Bjarnason er varaformaður Heimssýnar og fyrrverandi ráðherra og Atli Gíslason er hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.  
 
Jón og Atli byrja á því að lýsa því viðhorfi Vilhjálms Bjarnasonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins að þar sem umsókn eigi að fela í sér vilja til inngöngu í ESB sé eðlilegast að draga umsóknina til baka þar sem ekki er vilji til þess meðal þjóðar, þings og ríkisstjórnar að ganga í sambandið. 
 
Jafnframt lýsa Jón og Atli því ferli sem málið fór í gegnum í þingflokki Vinstri grænna og innan ríkisstjórnarinnar. Greinin er hin fróðlegasta og skemmtilegasta lesning - og er birt  hér í heild sinni:
 


 
 
Afturköllum umsóknina um aðild að ESB
 
 
 
 
Hörðustu ESB-sinnar eins og Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður viðurkenndu á Alþingi (16.1. 2014) að umsókn um aðild að ESB fæli beinlínis í sér vilja til inngöngu í sambandið. Hinsvegar væri ekki meirihluti innan þingflokka núverandi ríkisstjórnar fyrir inngöngu og því væri réttast að slíta þeim viðræðum formlega. Það er aðeins gert með því að Alþingi afturkalli umsóknina frá í júlí 2009.
 
Reiptog um ESB vorið 2009
 
Okkur er minnistæð ESB-umræðan innan þingflokks VG við ríkisstjórnarmyndunina vorið 2009. Hún miðaði að stórum hluta að því að snúa niður þann hóp sem fylgdi hugsjónum, kosningaloforðum og grunnstefnu flokksins og neitaði að styðja aðildarumsókn að ESB. Lítið fór fyrir efnislegri umræðu innan þingflokksins um hvað umsóknin fæli í sér. Vísað var til þess að Norðmenn hefðu fellt aðildarsamning án þess að þurfa að breyta neinu hjá sér í samningsferlinu. Enginn nefndi að slíkt var ekki lengur í boði af hálfu ESB. Samþykktum ESB þar að lútandi hafði verið breytt eftir að Norðmenn felldu samninginn. Ýmsir reyndu að sannfæra sjálfa sig og aðra um að hægt væri að sækja um í þykjustunni, hringja dyrabjöllunni og hlaupa svo fyrir horn þegar húsráðandi opnaði. Aðrir töluðu digurbarkalega og sögðust ætla að sýna ESB í tvo heimana, setja fram hörð skilyrði, fyrirvara og tímasetningar sem sambandið yrði að samþykkja áður en gengið væri til samninga. Aumust voru þó rök þeirra sem sögðust verða að samþykkja umsóknina, leika sér að fullveldinu til þess eins að samþykkja kröfur Samfylkingarinnar. Þessu reiptogi innan þingflokksins lauk með því að fimm þingmenn undir forystu Atla Gíslasonar lögðu fram bókun sem kvað á um að umsókn um aðild að ESB yrði ekki studd. Síðar kom í ljós að margir í þingliði VG voru í raun stuðningsmenn aðildar að ESB.
 
Þá var horfið frá því að umsókn að ESB væri » ríkisstjórnarmál«, heldur yrði hún einskonar þingmannamál og réði meirihluti Alþingis örlögum slíkrar tillögu. Var fallist á að hverjum þingmanni væri frjálst að tala fyrir sinni skoðun í ESB-málum og greiða um þau atkvæði í samræmi við hana. Sú yfirlýsing rataði inn í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Síðar var reynt að virða þá samþykkt að vettugi.
 
Nú er búið að kíkja í pakkann
 
Þrátt fyrir alla svardaga fór auðvitað svo að ESB neitaði að taka við skilyrtri umsókn enda stóð það aldrei til af þeirra hálfu. - Það væri Ísland sem sækti um aðild á forsendum ESB, en ekki öfugt. - Bréfið sem utanríkisráðherra fór með til Brussel var stutt og án skilyrða. Síðar kom það einnig í ljós að Icesave-samningarnir voru skilgetið afkvæmi ESB-umsóknarinnar. Þótt stjórnmálamenn og forystumenn ríkisstjórnar héldu áfram til heimabrúks yfirlýsingum eins og að »kíkja í pakkann«, »ná sem bestum samningum«, » kanna kosti og galla aðildar« var svar ESB alltaf kalt og skýrt: Allt eða ekkert.
 
Um aðildarumsókn og stækkunarferil segir svo á heimasíðu ESB: »Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu - sem fylla 90 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið.« (Sjá frumtexta á ensku hér neðst).
 
Afturköllun IPA-styrkjanna er skýr staðfesting á stefnu og skilyrðum ESB fyrir framgang umsóknar að sambandinu. Aðeins er hægt að hraða ferlinu með því að flýta aðlöguninni.
Þótt við Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra værum á fullkomlega öndverðum meiði í ESB-málum hélt hann því aldrei fram að hægt væri að semja sig frá lagaverki og sáttmálum ESB. Hinsvegar er hægt að hafa lúmskt gaman af því hvernig Össur hæðist að ESB-einfeldni og tvískinnungi formanna fyrrverandi ríksstjórnarflokka í bók sinni, Ári Drekans. Hún er mjög reyfaraleg á köflum, en það er önnur saga.
 
Alþingi ber að sýna heiðarleika og afturkalla umsóknina
 
Nú hefur umsóknarferlið staðið í fjögur ár og löngu er komið í ljós það sem reyndar var vitað fyrir að ESB veitir engar varanlegar undanþágur frá sáttmálum sínum, laga- eða regluverki. Ríkisstjórn sem er andvíg inngöngu í ESB getur ekki haldið aðlögunarferli áfram. Það er komið nóg af tvískinnungi. Það er að okkar mati heiðarlegast og réttast að afturkalla umsóknina strax formlega eins og núverandi ríkisstjórnarflokkar lofuðu fyrir síðustu kosningar. Annars bíður þeirra eilíf umræða um svikabrigsl með utanríkismálin í uppnámi.
 
Með hreint borð, ESB-umsóknina út af borðinu, er hægt að byggja upp eðlileg samskipti Íslands og ESB á grunni tvíhliða samninga eins og við gerum við aðrar þjóðir.
 
Það er svo sjálfstætt mál hvort og hvenær efnt verður til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt er: »Vilt þú að Ísland gangi í ESB?« Slíka tillögu geta ESB-sinnaðar ríkisstjórnir (verði þær aftur til í framtíðinni) lagt fram hvenær sem þeim sýnist eða einstakir þýlyndir þingmenn.
 
 »Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules, some 90,000 pages of them. And these rules are not negotiable.«


 

Meirihluti landsmanna á móti inngöngu í ESB

Eins og nýbirt könnun MMR sýnir er meirihluti landsmanna á móti inngöngu í ESB og hefur þeim fjölgað örlítið síðasta mánuðinn sem eru á móti aðild eins og myndin sem fylgir með fréttinni sýnir. Aðeins 32% landsmanna segjast vera hlynnt inngöngu.

Þetta kemur fram á mbl.is:

MMR kannaði nýlega afstöðu almennings til þess að Ísland gangi í Evrópusambandið. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 32,3% hlynnt því að Ísland gangi í Evrópusambandið nú, borið saman við 25,0% í janúar 2013 (15.-20. janúar 2013). Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 50,0% vera andvíg því að Ísland gangi í Evrópusambandið, borið saman við 62,7% í janúar 2013.

Spurt var: Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að Ísland gangi í Evrópusambandið (ESB)?

Svarmöguleikar voru: Mjög andvíg(ur), frekar andvíg(ur), hvorki andvíg(ur) né hlynnt(ur), frekar hlynnt(ur), mjög hlynnt(ur), veit ekki og vil ekki svara.

Samtals tóku 90,0% afstöðu til spurningarinnar.

Fólk yfir 50 ára aldri var líklegra til að segjast hlynnt því að Ísland gangi í Evrópusambandið (ESB) en þeir sem yngri eru. Af þeim sem tóku afstöðu og voru hlynnt því að Ísland gangi í ESB voru hlutfallslega flestir á aldrinum 50-67 ára. 41,6% einstaklinga á aldrinum 50-67 ára sögðust hlynnt því að Ísland gangi í ESB, 35,6% einstaklinga á aldrinum 68 ára og eldri voru hlynnt inngöngu, 29,4% einstaklinga á aldrinum 30-49 ára voru hlynnt inngöngu og 26,3% einstaklinga á aldrinum 18-29 ára voru hlynnt inngöngu Íslands í ESB. 


mbl.is Fleiri hlynntir inngöngu í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 132
  • Sl. sólarhring: 346
  • Sl. viku: 2541
  • Frá upphafi: 1165915

Annað

  • Innlit í dag: 113
  • Innlit sl. viku: 2204
  • Gestir í dag: 112
  • IP-tölur í dag: 110

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband