Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Sigrún Magnúsdóttir útskýrir ESB-málin fyrir þingmanni Samfylkingar

Sigrún Magnúsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, útskýrði í morgun stöðu ESB-mála fyrir Helga Hjörvar, þingmanni Samfylkingar, í morgunþætti Ríkissjónvarpsins. Þjóðin er á móti ESB-aðild, þingið er á móti ESB-aðild og ríkisstjórnin er á móti ESB-aðild. Ákvæði um þjóðaratkvæði er varnagli ef einhverjum skyldi detta í hug að halda viðræðum áfram. En þar sem enginn áhugi er á aðild þá er engin ástæða til að vera að halda viðræðum áfram, hvað þá að láta fara að kjósa um það. 

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, reynir samt hvað hann getur að halda lífi í þeirri hjákátlegu hugmynd að láta þjóðina fara að kjósa um það nú hvort halda eigi viðræðum áfram.

Sigrún benti á að það séu brýnni verkefni sem takast þurfi á við þessa stundina. Þjóðin þarf á því að halda að tekist sé á við þau verkefni sem við blasa en tíma og fjármunum sé ekki eytt í gagnslausar umræður og viðræður sem ekkert kemur út úr. 


mbl.is Ekki þörf á þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúar ESB-landa taka kosningar til ESB-þings ekki alvarlega

Fáeinir stórlaxar í Svíþjóð rituðu nýverið grein með áskorun til sænsku þjóðarinnar um að taka þátt í kosningum til ESB-þingsins af alvöru. Stórlöxunum finnst þátttaka Svía í kosningunum það lítil að þingmenn þeirra hafi í raun ekki skýrt umboð frá sænsku þjóðinni.
 
Þetta kemur fram í sænska vefritinu Europaportalen.se.
 
Forkólfar áskorunarinnar óttast einnig annars vegar uppgang nýnasista og álíka hópa í Evrópu og hins vegar að sænskur útflutningur fái ekki nógu gott brautargengi.
 
Þetta fólk viðurkennir að efnahagsvandinn í Evrópu hefur verið gífurlegur. Það er virðingarvert. En það er ákaflega athyglisvert að þetta fólk, sem er í forystu nokkurra samtaka í þessu ágæta lýðræðislandi, skuli viðurkenna að lýðræðinu sé verulega ábótavant í ESB.


Þingmenn ESB þrýsta á vitlausa hnappa og styðja óvart áframhaldandi djúpsjávarveiðar

Í síðasta mánuði þrýstu 18 þingmenn ESB óvart á nei-hnapp í staðinn fyrir já-hnapp í kosningum um bann við djúpsjávarveiðum í Norð-Austur Atlandshafi. Fyrir vikið voru 342 þingmenn á móti banni en 326 með banninu.
 
Þetta kemur fram í Europaportalen.se.
 
Atkvæðagreiðslur af þessu tagi hljóta að vekja upp spurningar um vinnubrögðin á þingi Evrópusamandsins. Það virðist reyndar vera regla fremur en hitt að þingmenn átti sig eftir á að þeir hafi kosið "vitlaust".  
 
Eins og sjá eru skoðanir mjög skiptar til djúpsjávarveiða í Atlantshafinu. Sú spurning hlýtur að vakna hvort róttækir umhverfishópar myndu fara að stýra veiðiaðferðum á Íslandsmiðum í gegnum áhrif sín á ESB-þinginu ef Íslendingar gengju í ESB. 
 
 

Embættismenn ESB í naflaskoðun vegna afstöðu Íslendinga

Hvað er ESB orðið ef fámenn þjóð með framúrskarandi lýðræðisskipulag, en gjaldeyrishöft, vill ekki ganga í ESB? Þurfum við þá ekki að skoða hvað er að ESB? Þannig spyrja ESB-þingmenn í dag.

Ofangreint kemur fram á visir.is í dag. Þar segir einnig: 

Efasemdir Íslands um ESB-aðild og ákvörðun um að gera hlé á aðildarviðræðunum varpar slæmu ljósi á sambandið og ætti að vera ástæða til naflaskoðunar. Þetta sögðu nokkrir Evrópuþingmenn þegar framvinduskýrslan um aðildarviðræðurnar var rædd í Strassborg á miðvikudag. 

Stefan Füle stækkunarstjóri kynnti skýrsluna og stöðu viðræðnanna og sagði að ferlinu væri ekki lokið frá sjónarhorni ESB.

Í umræðum var viðhorf þingmanna til aðildar Íslands almennt jákvætt. Írinn Pat the Cope Gallagher, sem hefur farið fremstur í flokki þeirra sem gagnrýna framferði Íslands í makríldeilunni, sagðist gjarna vilja sjá Ísland í hópi aðildarríkja og hvatti alla aðila til þess að ná samningum sem fyrst, til að binda enda á þessa „langvinnu og óþörfu“ deilu.

Eistinn Indrek Tarand talaði fyrir Græningja og sagði að sú staðreynd að Íslendingar væru hikandi í afstöðu sinni til aðildar segði ekki minna um ESB en Ísland. “

Þingkona frá Finnlandi og þingmaður frá Króatíu sögðu meðal annars að staðan græfi undan trú á ESB og stækkunarferlið. 


Fátækt í Evrópu orðin ógnarleg að mati félagsmálakommisars ESB

Félagsmálaframkvæmdastjóri ESB, Laszlo Andor, sagði í dag að fátækt í Evrópu hafi náð nýjum hæðum. Hann segir fátækt hafa aukist í Evrópu, aðallega í jaðarlöndum og á jaðarsvæðum og þar sé fátæktin orðin meiri en vitað er um áður hjá hinum verst settu, svo sem heimilislausum. 
 
Þetta kemur fram í EUOBSERVER í dag.  
 


Ríkisstjórnin gaf fyrirheit fyrir kosningar, segir RUV!

Ekki er nú öll vitleysan eins. Fréttamaður ríkisútvarpsins hafði eftir Árna Páli Árnasyni formanni Samfylkingar í tíufréttum ríkissjónvarpsins að ríkisstjórnin hafi gefið fyrirheit fyrir kosningar! Allir sem eitthvað fylgjast með vita að ríkisstjórn er mynduð eftir kosningar að undangengnum löngum og ströngum samningaviðræðum. Því er tóm della að tala um að ríkisstjórn geti gefið fyrirheit fyrir kosningar - því hún er eðli málsins samkvæmt ekki til þá.

Við skulum gefa Árna og fréttmanninum þann séns að þau eigi við að einhverjir í Framsóknarflokknum eða Sjálfstæðisflokknum hafi rætt um möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna við ESB. Málið er bara - eins og þetta fólk á að vita - að æðstu samkundur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks samþykktu að stefna að því að hætta viðræðum við ESB. Jafnframt undirstrikuðu æðstu lýðræðissamkundur flokkanna að flokkarnir væru á móti aðild að ESB. Ekki nóg með það, því báðar flokksstofnanirnar - sem eru æðstu lýðræðislegu stofnanir flokkanna, þ.e. landsfundur Sjálfstæðisflokks og flokksþing Framsóknarflokks, samþykktu að flokkarnir hefðu engin áform um að halda áfram viðræðum. Ef, hins vegar, svo færi að halda ætti viðræðum áfram þá yrði það undir engum kringumstæðum gert nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessi stefna var svo skjalfest sem verkefnalisti ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmálanum því þessi stefna hlaut brautargengi í kosningunum.

Það eru engin áform um að halda viðræðum áfram - og því engin ástæða til þess að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna.

Árni Páll Árnason og Guðmundur Steingrímsson keppast hins vegar við að setja þessa hluti á haus og sífra um að ríkisstjórnin hafi gefið fyrirheit eða lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna.

Slíkt er náttúrulega algjör firra eins og allir geta séð sem kunna að lesa sér til um stjórnarsáttmála og stefnur flokkanna.

Er ekki mál að linni? 

Er ekki kominn tími til að nokkrir helstu fjölmiðlarnir í landinu fari að taka hlutverk sitt alvarlega og miði fréttir sínar við þær samþykktir sem skipta máli, samþykktir sem hafa farið í gegnum lýðræðislegt ferli stærstu flokksstofnana og Alþingiskosningar.  


Ríkisstjórnin vill ekki að Ísland gangi í ESB

Er þetta ekki farið að verða sæmilega skýrt? Ráðherrar með Sigmund Davíð Gunnlaugsson í broddi fylkingar ítreka aftur og aftur að það sé ekki stefnan að halda áfram viðræðum og ríkisstjórnin vilji ekki að Ísland gerist aðili að ESB.
 
Samt halda Árni Páll, og stundum Katrín Jakobsdóttir meira að segja líka, auk ESB-aðildarhliðhollra fjölmiðla hér á landi áfram að sífra um áframhald viðræðna og þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna. Það er eins og forysta stjórnarandstöðuflokkanna og starfsmenn hinna ESB-aðildarhliðhollu miðla hafi ekki lesið stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
 
Meira að segja Vilhjálmi Bjarnasyni finnst nú komið nóg.
 


mbl.is „Þessi ríkisstjórn vill ekki ganga í ESB“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilhjálmur Bjarnason hefur lesið stjórnarsáttmálann og viðurkennir að ESB-draumurinn er búinn

Það er greinilegt að Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins er búinn að átta sig á því að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar stendur að stöðva skuli viðræðurnar og að ríkisstjórnin er á móti aðild að ESB. Vilhjálmur veit líka að textinn um þjóðaratkvæðagreiðslu er varnagli ef svo ólíklega færi að vilji væri til þess meðal kjörinna þingfulltrúa að halda áfram með viðræður við ESB.

Þótt Vilhjálmur hafi áhuga á frekari viðræðum veit hann að niðurstaðan af lýðræðislegu ferli, sem samanstendur af landsfundum Sjálfstæðisflokks, flokksþingi Framsóknarflokks, þingkosningum og samstarfssamningi flokkanna, er sú að stöðva viðræðurnar vegna þess að æðstu samkundur flokkanna eru á móti aðild að ESB.

Vilhjálmur er greindur maður, eins og alþjóð veit eftir frækilega framgöngu hans í spuringakeppnum ríkissjónvarpsins, - og þótt hann sé stundum stífur á meiningunni veit hann að þetta er nú búið spil hjá ESB-aðildarsinnum - og best að fara að snúa sér að einhverju öðru og uppbyggilegra.

 


mbl.is „Miklu betra að slíta viðræðunum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll þekkir ekki fyrirheit ríkisstjórnarinnar

Árni Páll heldur því fram að ríkisstjórnin hafi gefið fyrirheit um þjóðaratkvæðagreislu um aðildarviðræður við ESB. Það er undarlegt að forystumaður stjórnmálaflokks á þingi, þ.e. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hafi ekki kynnt sér þau fyrirheit sem koma fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Eina fyrirheitið um þessi mál þar er að vera á móti aðild að ESB og hætta aðildarviðræðum. Við það hefur ríkisstjórnin staðið.

En Árni Páll rembist eins og rjúpan við staurinn við mistúlka fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar eins og meðfylgjandi frétt á Eyjunni.is sýnir.

Það er ekki nema von að fylgið hafi hrunið af Samfylkingunni fyrir kosningar og haldi sig enn víðsfjarri þegar forystumenn flokksins eru ekki betur upplýstir en þetta.

Eiga kjósendur og stuðningsmenn Samfylkingar ekki rétt á því að forystumenn þeirra segi satt og rétt frá? Umræða ríkisstjórnar um þjóðaratkvæðagreiðslu er varnagli ef svo ólíklega færi að pólitískur vilji myndaðist fyrir því að halda viðræðum áfram.

Fyrst ríkisstjórnin er á móti aðild, þær hafa verið stöðvaðar og þingmenn telja best að hætta þessu - þá er engin ástæða til að vera með svona ruglumræðu eins og formaður Samfylkingar hefur aftur og aftur. 


Evrópa á barmi efnahagslegs hengiflugs

eurobroken

Evrópa er á barmi hengiflugs mikillar efnahagskreppu. Atvinnuleysi  í Evrópu er enn í hæstu hæðum, eykst meðal ungmenna í álfunni og er nú 41,6% á Ítalíu. Fátækt eykst þar verulega og forseti landsins varar við félagslegum ófriði í landinu vegna þess.  

Um þetta fjallar höfundurinn Michael Snyder á erlendri vefsíðu nýverið. Hann segir að gert sé ráð fyrir að atvinnuleysi í Grikklandi verði innan skamms 32%, en það hefur verið nálægt 25% að undanförnu. Þá fari opinberar skuldir á Ítalíu í 140 prósent miðað við landsframleiðslu og í Grikklandi verði skuldirnar 200 prósent miðað við landsframleiðslu. Það myndi þrengja enn frekar að starfsemi hins opinbera í þessum löndum. Ástandið fari nú versnandi í nokkrum stærstu hagkerfum álfunnar eins og Ítalíu, Frakklandi og Spáni - og svo séu þýskir stórbankar í vandræðum vegna mikilla skulda.

Þessi höfundur dregur upp mjög dökka mynd af ástandinu. Grunntölur hans virðast þó nokkuð réttar. Hann segir að Evrópa standi frammi fyrir efnahagslegri martröð og ástandið eigi aðeins eftir að vernsa. Það er, segir hann, erfitt að koma orðum að þeirri örvæntingu sem verkamenn víðs vegar um Evrópu finna fyrir núna. Ef þú getur ekki fætt fjölskyldu þína og ekki fengið vinnu sama hversu mikið þú reynir þá hlýtur það að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir sálarlífið, segir þessi höfundur.

Við vitum að ástandið hefur víða verið svart í Evrópu. En við skulum vona að það eigi ekki eftir að versna jafn mikið og hér er lýst. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 285
  • Sl. sólarhring: 382
  • Sl. viku: 2694
  • Frá upphafi: 1166068

Annað

  • Innlit í dag: 235
  • Innlit sl. viku: 2326
  • Gestir í dag: 225
  • IP-tölur í dag: 223

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband