Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2014

Fróðlegur pistill á RUV um efnahagsstöðuna í Evrópu

Það gengur hægt fyrir evrulöndin að rétta úr kreppukútnum. Þetta var sérstaklega rætt á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um síðustu helgi. Það eru hins vegar pólitísk átök um hvernig eigi að taka á kreppuvandanum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í fróðlegum pistli Sigrúnar Davíðsdóttur sem fluttur var í Spegli Ríkisútvarpsins nýverið. 

Þar kemur fram að menn séu smám saman að hverfa frá þeirri sparnaðarhneigð til að bjarga evrunni sem Þjóðverjar hafa helst verið talsmenn fyrir. Nú er meira að segja AGS farið að tala fyrir því að ríkisstjórnir evrulandanna verði að auka útgjöld, t.d. með fjárfestingum, til þess að komast út úr vandanum. Það sé eina leiðin til að vinna á atvinnuleysi sem er að meðaltali um 12%, en er allt upp í 50% á vissum svæðum og hjá yngstu aldurshópunum.

Sjá pistilinn hér:  Efnahagsstaðan í Evrópu.


Evran olli hruni í Finnlandi

Forsætisráðherra Finnlands segir að það þurfi að byggja Finnland upp að nýju eftir hina fölsku byrjun sem landið fékk með evrunni fram undir 2008.

Vitanlega skiptir þarna fleira máli en evran. Hún er hins vegar einn megin áhrifavaldurinn á stöðu Finna í dag.

Sjá frétt EUObserver um málið hér

 


Efnahagsstaða evruríkjanna versnar

Lánshæfiseinkunnir meta efnahagsstöðu ríkjanna og árangur efnahagsstjórnar. Þessar einkunnir hjá evruríkjunum fara versnandi eins og meðfylgjandi frétt ber með sér. Þótt það komi ekki á óvart, ætti það að vekja sérstaka athygli hjá þeim sem hafa hampað Finnlandi sérstaklega, að lánshæfiseinkunn finnska evruríkisins fer nú lækkandi. Evran á sinn þátt í að valda falli í einkunn Finna.
mbl.is Meðaleinkunn ESB-landa versnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr formaður Heimssýnar: Þessi umsókn er búin

Fáir þekkja betur til umsóknarferlisins að ESB á sínum tíma en Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra. Hann er nýkjörinn formaður Heimssýnar og segir í nýlegu viðtali við Eyjuna.is að umsóknin sem send var ESB á sínum tíma sé úr gildi fallin. Hér er rétt að minna á þær forsendur sem gerðar voru í umsókninni, m.a. um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál, en það var einmitt fyrst og fremst vegna þeirra sem ESB treysti sér ekki til að halda áfram með umsóknina.
 
 
Föstudagur 10.10.2014 - 12:17 -

Nýr formaður Heimssýnar: Þessi umsókn er búin

Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar. Eyjan/Gunnar

Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar. Eyjan/Gunnar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

„Það þarf að ljúka þessu máli. Umsóknin er stopp og hefur siglt í strand. Það er ekki hægt að halda áfram á grundvelli samþykktar Alþingis og því á að afturkalla umsóknina eins og stjórnarflokkarnir hafa lofað að gera,“ segir Jón Bjarnason, nýkjörinn formaður Heimssýnar.

Á aðalfundi Heimssýnar var Jón kjörinn formaður og Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, kjörin varaformaður.

Jón segir að þrátt fyrir breytingar í aðalstjórn hreyfingarinnar verði stefnumálin eftir sem áður þau sömu. Þar efst á blaði sé að afturkalla aðildarumsóknina að Evrópusambandinu.

Tilraun til þess var gerð á síðasta þingi. Viðræðum var formlega slitið en tillaga utanríkisráðherra um að afturkalla umsóknina náði ekki í gegn að ganga, meðal annars vegna mikillar andstöðu í samfélaginu. Aðspurður hvers vegna umsóknin megi ekki liggja í þeim farvegi, þar sem ljóst er að stjórnarflokkarnir munu ekkert aðhafast í málinu á kjörtímabilinu, svarar Jón:

Við erum enn umsóknarríki og höfum undirgengist þær skuldbindingar sem í því felst. ESB lítur á okkur sem umsóknarríki. Það er hlé á þessum viðræðum og það hefur komið í ljós með skýrslum Hagfræðistofnunar og Alþjóðamálastofnunar að þeir sem sækja um aðild verða að taka yfir öll lög og reglur sambandsins og framselja valdið til Brussel í fjöldamörgum málum. Það liggur fyrir og Alþingi gaf ekki heimild til frekara framsals. Þess vegna er þessi umsókn stopp en hún bindur okkur inn í ákveðið ferli við ESB á meðan hún liggur þar. Þess vegna þarf að afgreiða þetta mál,

segir Jón og bætir við:

Núverandi ríkisstjórn hefur ákveðið að afturkalla umsóknina. Við munum hvetja þau til að standa við þessi loforð sín, því allt sem fram hefur komið í efnisumræðunni lýtur að því að það eigi að afturkalla umsóknina. Það er svo sjálfstætt mál ef menn vilja sækja um á öðrum forsendum. En þessi umsókn er búin.

 

Sprengisandur fjallar um lýðræðishallann í ESB

Það var athyglisvert sem fram kom í umræðum í þættinum Á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að mikill lýðræishalli væri í ESB, ekki síður en á Evrópska efnahagssvæðinu. Það var Þorbjörn Þórðarson fréttamaður á Stöð2 sem hvað skýrast kvað að orði í þeim efnum.

Það er kannski ástæða fyrir íslenska fjölmiðla að fara aðeins nánar ofan í saumana á lýðræðishallanum í ESB. Hann kemur ekki bara fram í því að Brusselvaldið heimtar að við breytum stjórnarskránni til að hleypa í gegn tilskipunum sem henta okkur misvel. Hann kemur ekki hvað síst fram í því að stór hluti íbúa ESB-ríkjanna er hundóánægður með þær ákvarðanir sem teknar hafa verið í krafti ESB eins og kosningar til ESB-þingsins sýndu í vor. 


Kynlegir kvistir í kommisarastólana hjá ESB?

Það virðist vera einhverjum vandkvæðum bundið að samþykkja þá framkvæmdastjóra sem aðildarríkin tilnefna í stöður hjá ESB. Nú er þing Evrópusambandsins að rannsaka bakgrunn margra þeirra og því er bið á að þeir komist í stólana, svo sem vegna of náinna tengsla við þrýstihópa.
 
Eins og fram kemur í tengdri frétt eru það nú einkum fulltrúar Bretlands, Spánar, Tékklands og Ungverjalands sem eru til sérstakrar skoðunar.
 
Það virðist einkum vera breski fulltrúinn, Jonathan Hill, sem þykir þess verður að vera skoðaður alveg sérstaklega vel af þingi Evrópusambandsins vegna náinna tengsla Hill við fjármálageirann í gegnum fjármálaráðgjafaskrifstofu (lobbybureau) sína í London.  
 
Ungverski framkvæmdastjórakandidatinn hefur verið gagnrýndur fyrir að vera fulltrúi ríkisstjórnar í Ungverjalandi sem dregið hafi úr málfrelsi í landinu. Fulltrúi Spánar þykir hafa of náin tengsl við olíuiðnaðinn, en til stendur að hann verði framkvæmdastjóri (ráðherra) yfir orku og loftslagsbreytingum.
 
Það er líklega rétt hjá ESB að kanna vel bakgrunn þeirra sem veljast í framkvæmdastjórastöður. Þess er skemmst að minnast þegar framkvæmdastjóri yfir heilbrigðistmálum, John Dalli frá Möltu, var rekinn vegna of náinna samskipta við ýmsa hagsmunahópa sem ekki voru skráð eins og stjórnsýslureglur ESB kveða á um. Þá kom í ljós að náinn samstarfsmaður hans hafði boðið sænskum munntóbaksframleiðendum að Dalli myndi breyta löggjöf ESB þeim í hag gegn álitlegri mútugreiðslu.
 
Þessar aðstæður sýna að einhverju leyti þann vanda sem ESB þarf að fást við vegna mismunandi viðhorfa og menningar í aðildarlöndunum. 
 


Bleyjur á ESB-beljurnar

Þýskir bændur hafa brugðið á það ráð að setja bleyjur á beljur sínar í framhaldi af nýrri reglugerð um það hvar kusurnar mega smella mykjunni.

Mbl.is greinir frá þessu: 

Fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins hef­ur í hyggju að setja regl­ur um það hvar kýr megi skíta en sam­kvæmt fyr­ir­huguðum regl­um verður þeim óheim­ilt að gera slíkt á landsvæði með meira en 15 gráðu halla. Mark­miðið er að koma í veg fyr­ir að grunn­vatn meng­ist.

Fram kem­ur í frétt Thelocal.de að Bænda­sam­tök Bæj­ara­lands í Þýskalandi hafi harðlega mót­mælt þess­um fyr­ir­huguðum regl­um ESB og kraf­ist þess að þýsk stjórn­völd beiti sér gegn því að þær taki gildi. Haft er eft­ir Ant­on Kreit­ma­ir hjá sam­tök­un­um að kúa­mykja sé ekki meng­un­ar­vald­ur held­ur verðmæt­ur áburður.

Tákn­ræn mót­mæli fóru fram gegn fyr­ir­hugaðri laga­setn­ingu í gær á sveita­býli bónd­ans Johanns Huber þar sem kýr­in Dor­is var sett í bleyju úr plasti. Henni var síðan ásamt öðrum kúm beitt á landsvæði sem yrði ólög­mætt tækju regl­urn­ar gildi. Fram kem­ur í frétt­inni að regl­urn­ar þýddu að sveita­býli í alpa­héruðum Bæj­ara­lands gætu ekki haldið kýr. 


mbl.is Mótmæla Brussel með bleyju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Bjarnason eftir aðalfund Heimssýnar

jonb

Jón Bjarnason, nýkjörinn formaður Heimssýnar fjallar um aðalfundinn og stefnumál samtakanna á bloggi sínu í dag. Hann segir að ríkisstjórn Jóhönnu og ESB hafi siglt aðildarviðræðum í strand á miðju ári 2011.

Sjá hér pistilinn hjá Jóni í heild

 Umsóknarferlinu að ESB var siglt í strand á miðju ári 2011, þegar ljóst var að Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins myndu ekki opinbera formlega kröfur sínar í sjávarútvegsmálum gagnvart Íslendingum. ESB kaus  heldur að  vísa alfarið á lög og reglur sambandsins í þeim efnum og ítrekaði að frá þeim yrði ekki vikið.

Ísland gat því ekki heldur birt formlega kröfur sínar og vegna þessa gátu viðræður um sjávarútvegskaflann aldrei hafist.

Ágúst Þór Árnason aðjúnkt við Lagadeild Háskólans á Akureyri, sem var fyrirlesari á aðalfundi Heimssýnar vísaði m.a. í orð utanríkisráðherra Össurar Skarphéðinssonar í bókinni Ár drekans að hann hefði árið 2012 nánast grátbeðið framkvæmdastjórn ESB um að sýna á spilin í sjávarútvegsmálum svo ferlið gæti gengið áfram.

En Evrópusambandið hafnaði því og þóttist vafalaust vita hverjar yrðu pólitískar afleiðingarnar þess á Íslandi, ef kröfur þess í sjávarútvegi  væru birtar formlega.

 Að mínu mati var það ekki síst ESB, sem vilda gera hlé í ársbyrjun 2013 án þess að lýsa því opinberlega að ferlið væri stopp.

Fyrir Samfylkinguna var hinsvegar engu að tapa, hún varð að ríghalda í eina mál sitt,  ESB aðild, hvað sem það kostaði.

Það leið að kosningum á Íslandi og umsóknarferlið komið í strand. Þrátt fyrir allt var að mati ESB vænlegast  að gera hlé á ferlinu og láta umsóknina liggja um hríð. Tíminn yrði þá nýttur til að vinna jarðveginn betur á Íslandi og bíða eftir nýjum ESB-sinnuðum stjórnvöldum til þess að láta inngönguferlið halda áfram.

Það kom fram í erindi Ágústs að ekki væri hægt að halda áfram aðildarferlinu á grundvelli þeirrar umsóknar sem nú er í gangi. Umsóknarríki verði að samþykkja réttareglur Evrópusambandsins í einu og öllu. 

Fyrir því verði að vera skýr meirihluti bæði meðal þings og þjóðar áður en farið væri í þá vegferð.  


Jón Daníelsson í LSE lýsir evrubölinu

jondan
Jón Daníelsson, hagfræðingur og forstöðumaður rannsóknaseturs um kerfislega áhættu við hinn merka háskóla, London School of Economics, sagði í fyrirlestri í Háskóla Íslands í dag að hið efnahagslega misvægi á evrusvæðinu væri grafalvarlegt. Einkum væri ástandið hættulegt á Ítalíu, Spáni, Portúgal og Grikklandi vegna þess kerfislega misvægis sem evran veldur.
 
Jón sagði að ofangreindum ríkjum hefði ekki tekist að breyta skipulagi efnahagsmála nægilega mikið svo að um raunhæfa skuldaminnkun væri að ræða. Þegar vextir færu að hækka, sem væri óumflýjanlegt, þá myndi vaxtakostnaður hækka umtalsvert í þessum löndum svo að miklir erfiðleikar hlytust af.
 
Það eru fleiri sem hafa áhyggjur af ESB. Christine Lagarde, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir verulega hættu á frekari niðursveiflu og stöðnun í Evrópu í ræðu sem hún flutti á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsns í Washington í gær. 
 
Mikill er máttur evrunnar! 


Ágúst Þór Árnason segir aðildarríki verða að samþykkja ESB eins og það er

agustthorarnason
Eftir því sem aðildarlöndum ESB hefur fjölgað hefur það orðið ósveigjanlegra gagnvart nýjum aðildarríkjum. Nú verða þau að samþykkja allan laga- og reglupakka ESB áður en þau eru samþykkt sem aðilar. Þetta var hluti þess sem fram kom í máli Ágúst Þórs Árnason, aðjúnkts við lagadeild Háskólans á Akureyri, en hann flutti mjög fróðlegt erindi á aðalfundi Heimssýnar í gærkvöldi. 
 
Þróun ESB breyttist smám saman frá 1972 hvað þetta varðar, eftir að Bretland, Danmörk og Írland gerðust aðilar. Danir og Bretar komust hjá því að taka upp evruna og hið sama gildir reyndar enn um Svía. Nú hins vegar, þegar aðildarríkin eru ekki 6 heldur tæplega 30, verða umsóknarríki að samþykkja þann stofnanapakka sem fyrir hendi er í ESB, þar á meðal að taka upp evru í fyllingu tímans, ef þau vilja á annað borð verða samþykkt sem meðlimir að sambandinu. Ríkin ganga inn í þá stofnun sem ESB er og sú stofnun breytir sér ekki fyrir hvert umsóknarríki.
 
Eftir því sem ríkjunum hefur fjölgað hefur umsóknarferlið breyst þannig að mun erfiðara er að sækja allar hugsanlegar breytingar. Þá má nefna að þeim ríkjum hefur fjölgað sem eru tiltölulega óskyld Íslandi og það dregur úr skilningi með samkennd með íslenskum aðstæðum.
 
Þá nefndi Ágúst svokallaða foraðildarstefnu (preaccession strategy) sem var tekin upp í kjölfar aðildar Svíþjóðar, Finnlands og Austurríkis árið 1994. Ríkin sem koma þar á eftir fá allt aðra meðhöndlun en ríkin sem gerðust aðilar þar á undan. Helsti munurinn er að nú verða aðildarríki að samþykkja allan stofnanapakka ESB eins og hann leggur sig, þar á meðal gjaldmiðilssamstarfið. Ágúst orðaði það þannig að það nálarauga sem aðildarríki verða að komast í gegnum verði sífellt þrengra. 
 

 
 
AgustThorArnason 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 34
  • Sl. sólarhring: 498
  • Sl. viku: 2541
  • Frá upphafi: 1166301

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 2178
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband