Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Las Katrín ekki um félagsmálin í ESB-skýrslunni?

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði á Alþingi áðan að það vanti umræðu um hinn félagslega þátt í skýrslu Hagfræðistofnunar, svo sem um stöðu ungs fólks. Það er þó fjallað ítarlega um vissa þætti félagsmála í skýrslunni, bæði í aðalskýrslunni og svo í viðauka IV um horfur í efnahagsmálum. Umsjónarmaður Heimssýnarbloggsins getur tekið undir með Katrínu að það þarf að halda bágri félgaslegri aðstöðu fjölmennra hópa í Evrópu hærra á lofti, en í viðauka IV segir m.a.:
  
Mikill munur er á vinnutíma karla og kvenna, en hátt hlutfall hlutastarfa í Bretlandi, Þýskalandi og Hollandi má að hluta til rekja til þess að breskar, þýskar og hollenskar konur hafa unnið færri stundir á viku en kynsystur þeirra í öðrum löndum Evrópu. Þetta á sérstaklega við um Holland þar sem meðaltal vinnustunda karla á mánuði var rúmlega 40% hærra en hjá konum árið 2012. 
 
Enn fremur segir: 
 
Miðgildi vergs tímakaups kvenna var 14,4% lægra en karla í öllum ríkjum  Evrópusambandsins árið 2006. Munurinn dróst saman um 0,4 prósentustig fram til ársins 2010. Staðan er misjöfn eftir löndum og til að mynda var miðgildi vergs tímakaups kvenna hærra en karla í Slóveníu og Lúxemborg árið 2010. Í fjórum löndum var munurinn hins vegar meiri en 20% bæði ár, það er í Bretlandi, Austurríki, Eistlandi og á Kýpur, en Malta, Lúxemborg, Slóvenía og Ítalía voru einu ríkin þar sem munurinn var minni en 6% bæði ár. Árið 2010 var munurinn á miðgildi vergs tímakaups kvenna og karla minni alls staðar á Norðurlöndum en innan Evrópusambandsins, ef Finnland er undanskilið. Í Finnlandi var munurinn 18,6% en annars staðar á Norðurlöndum var munurinn nálægt 10%. Að sama skapi eru vinnandi konur í Evrópusambandinu líklegri til þess að vera undir lágtekjumörkum. Árin 2006 og 2010 var um 21% vinnandi kvenna skilgreint sem lágtekjufólk, en það gilti einungis um 13% karla.
 
Og enn fremur:
 
Aukið atvinnuleysi meðal ungs fólks í Evrópu hefur einmitt verið sérstakt áhyggjuefni. Árið 2012 var atvinnuleysi meðal ungmenna (einstaklinga yngri en 25 ára) í aðildarríkjum Evrópusambandsins 23%. Frá árinu 1999  og til ársins 2008 var dreifing atvinnuleysis ungmenna í ESB15 ríkjunum nokkuð stöðug, að jafnaði á bilinu 5% til 25%, en síðan hefur sundurleitni aukist til muna, og árið 2012 var það á bilinu 8,1% til 55,3%. Atvinnuleysi ungmenna var meira en 25% í 13 aðildarríkjum Evrópusambandsins og einungis minna en 10% í Þýskalandi, Austurríki og Hollandi. Eðlilega helst atvinnuleysi ungmenna í hendur við almennt atvinnuleysi tiltekins ríkis. Því ætti ekki að koma á óvart að atvinnuleysi meðal ungmenna í Grikklandi og á Spáni er sér á báti. Árið 2012 var atvinnuleysi ungmenna á Spáni 53,2%, en rúmum tveimur prósentustigum hærra í Grikklandi, eða 55,3%. Atvinnuleysi var einnig mikið í öðrum löndum þar sem hagvöxtur var veikur eins og á Ítalíu, í Portúgal og Slóveníu. 
 

Örlagaundanþágan fyrir Svía frá reglum ESB

Áhugafólk um ESB man eftir því að það var ekki síst undanþága sem Svíar fengu frá almennu banni við notkun á munntóbaki sem varð þess valdandi að mjög naumur meirihluti Svía greiddi atkvæði með samningi við ESB.
 
En hvað hefur gerst síðan? Það eru komnar fram nýjar tegundir af munntóbakinu eða snusinu eins og Svíar kalla það. Þessar tegundir eru orðnar mun vinsæll en gamli ruddinn sem tekinn var í vörina þegar atkvæði voru greidd, enda er nýja snusið með nýjum bragðtegundum og öðru sem æskilegt er talið.
 
Hvað gerist þá? Jú, þessar nýju tegundir sem allir snuselskandi Svíar vilja neyta eiga ekki að vera heimilar samkvæmt nýjum reglum ESB. Svíar skulu halda sig við gamla ruddann sem enginn vill lengur.
 
Þannig geta undanþágurnar þróast. Reglusmiðirnir ná sínu fram smám saman og undanþáguríkin eiga á hættu að missa sitt - snus - í þetta sinn.  
 
Á Evrópuvefnum kemur þetta fram:
 
Sem dæmi um varanlega undanþágu má nefna að Svíar eru undanþegnir almennu banni í regluverki ESB við viðskiptum með munntóbak (sæ. snus). Undanþágan kemur fram í viðauka við aðildarsamninginn þar sem vísað er í viðkomandi tilskipun (viðauki XV). 

Össur hringsnýst í umræðum um sérlausnir ESB

Það er athyglisvert að fylgjast með ummælum fyrrverandi utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, eftir útkomu á skýrslu Hagfræðistofnunar. Í viðtali við DV segir hann að umræða í skýrslu Hagfræðistofnunar um sérlausnir sé eitthvert nýmæli. Svo er alls ekki.

Nákvæmlega sama kemur fram í viðtali við Stefán Má Stefánsson lagaprófessor í vefritinu neiesb.is fyrir tæpu ári síðan. Reyndar hefur Össur tekið þátt í umræðu um undanþágur og sérlausnir ESB oftsinnis í gegnum tíðina þannig að það kemur sérstaklega á óvart að hann skuli telja þetta eitthvað nýtt nú. 

Í viðtalinu frá 20. mars 2013 við neiesb.is segir Stefán Már Stefánsson: 

„Ég bendi á að stefnan í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum er sameiginleg, þar sem Evrópusambandið fer eitt með óskiptar valdheimildir, ólíkt mörgum öðrum stefnum Evrópusambandsins sem það deilir með aðildarríkjunum eins og t.d. á sviði innri markaðarins. Þetta er grundvallaratriði. Af því leiðir að Evrópusambandið á mjög erfitt með að gefa undanþágur á þessu sviði, einkum varanlegar undanþágur“, sagði Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor og sérfræðingur í Evrópurétti við Háskóla Íslands í samtali við neiesb.is.

„Evrópurétturinn gerir ráð fyrir bæði varanlegum og tímabundnum undanþágum. Hann gerir líka ráð fyrir því að ESB reglur séu settar eða þeim beitt í þágu einstakra ríkja eða tiltekinna svæða. Þessu má ekki rugla saman.“.

Sérlausnir Möltu frá sjávarútvegsstefnunni eru oft teknar sem dæmi af um að hægt sé að semja um undanþágur. „Í tilviki Möltu er um að ræða sérlausn í þágu einstaks ríkis í sjávarútvegsmálum, en ekki varanlega undanþágu frá reglum Evrópusambandsins. Evrópusambandið getur síðar breytt þessum lögum með sama hætti og það getur breytt öðrum lögum Sambandsins. Varanlegar undanþágur, þ.e. reglum sem ekki verður breytt nema með samþykki viðkomandi aðildarríkis, eru ansi fátíðar, og eru þær líklegri í þeim tilvikum þegar ríki eru þegar komin inn í Evrópusambandið og Evrópuréttur er að taka breytingum.“

„Það er ákveðið áhyggjuefni ef þessum atriðum er ruglað saman og niðurstaðan ekki skýr þegar aðildarsamningur liggur fyrir. Þess vegna er afar brýnt að menn átti sig á því að ekki er um varanlega undanþágu að ræða nema að tekið sé skýrt fram í aðildarsamningi að undanþágan sé varanleg og að henni sé ekki unnt að breyta nema með samþykki viðkomandi ríkis.“, segir Stefán og bætir við að dæmi um
þetta séu lausnir varðandi sjávarútvegsstefnuna sem mátti finna í aðildarsamningi Noregs frá 1994 ,sem var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Þegar grannt var skoðað þá reyndust þær lausnir sem um var samið ekki fela í sér varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnunni.“.

“Við aðild að ESB verður ríki að gangast undir löggjöf ESB. Þetta er sameiginlegt kerfi sem aðildarríkin hlíta. Sá sem óskar aðildar verður í aðalatriðum að gangast undir allar reglur, löggjöf og afleidda löggjöf, dómaframkvæmd og aðrar réttarheimildir sem Evrópusambandið byggir á.“

Reglur Evrópuréttarins njóta forgangs fram yfir löggjöf aðildarríkjanna á þeim sviðum sem hann gildir á.
„Sambandslöggjöfin hefur forgang fram yfir löggjöf aðildarríkjanna, þar á meðal stjórnarskrár þeirra. Á hinn bóginn verður að taka fram að þessi forgangur hefur ákveðin takmörk. Evrópusambandið verður algjörlega að starfa eftir stofnsáttmálum sínum, og má ekki taka sér neitt það vald sem ekki greinir í þeim“. Umdeilanlegt er hvort svo hafi verið gert í öllum tilvikum.

„Með Evrópusambandsaðild framselja aðildarríki fullveldi sitt til ESB á þeim sviðum sem Evrópurétturinn tekur til og að því marki sem hann áskilur. Það er alveg skýrt að það verður ekki hægt að ganga í ESB að óbreyttri stjórnarskrá“. 


Við hvað var Össur lafhræddur?

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir Gunnar Braga Sveinsson, núverandi utanríkisráðherra, og Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra vera lafhrædda við þjóðaratkvæðagreiðslu. Kannski lítur Össur þarna af lítillæti sínu í eigin barm.

Við hvað var Össur sjálfur lafhræddur sumarið 2009 þegar hann keyrði í gegn og ofan í kokið á Vinstri grænum samþykkt Alþingis um að sækja skyldi um aðild að ESB? Hvað óttaðist hann þá við að leyfa aðkomu þjóðarinnar að þeirri ákvörðun?

Össur hefur sjálfsagt oftar fundið til hræðslu vegna vilja þjóðarinnar en margir aðrir, t.d. í sambandi við Icesave-kosningarnar á sínum tíma þegar þjóðin hafnaði því að skattgreiðendur og afkomendur þeirra yrðu gerðir ábyrgir fyrir skuldum einkabanka.

Össur reynir einnig að gera Sjálfstæðisflokknum upp skoðanir. Hann veit vel að það eru flokkssamþykktir og stjórnarsáttmálar sem gilda þegar kemur að stefnu ríkisstjórna. Ætlar hann algjörlega að líta fram hjá þeirri staðreynd að í samþykktum flokkanna og stjórnarsáttmálanum er hvergi verið að lofa neinni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Össur er oft laginn í því að koma fyrir sig orði og jafnvel að leggja öðrum orð í munn. En stundum skýtur hann dálítið hátt yfir markið - og gerir það jafnvel alveg óttalaus. 


Ragnheiður Ríkharðsdóttir fallin útbyrðs af báti ESB-sinna

Það er ljóst að Ragnheiður Ríkharðsdóttir er dottin fyrir borð af kænu ESB-sinna miðað við yfirlýsingu hennar í Fréttablaðinu í dag. Þar segir hún að lögsaga Íslendinga yfir fiskistofnum hér við land hafi verið forsenda fyrir aðild að ESB. Nú er hún þeirrar skoðunar að um ekkert sé að semja og vísar þar í skýrslu Hagfræðistofnunar.

Í ljósi þessa getur Ragnheiður Ríkharðsdóttir ekki samþykkt annað en að umsóknin verði afturkölluð, samanber það sem fram kemur á síðu 8 í Fréttablaðinu í dag. Fyrst það er ljóst að ESB fær með sínum bandalagsrétti yfirráð yfir fiskveiðiauðlind Íslendinga, gerðumst við aðilar, þarf ekkert frekar að vera að ræða þessi mál.


Af hverju mistúlkar Árni Páll stöðugt skýrslu Seðlabankans?

arnipall

Árni Páll Árnason hélt því fram, ranglega,  í samtali við Heimi Karlsson á Bylgjunni rétt í þessu að í gjaldmiðlaskýrslu Seðlabankans frá haustinu 2012 væri bent á eina lausn í gjaldmiðlamálum. Þetta er ekki rétt hjá Árna Páli - og reyndar ekki í fyrsta sinn sem hann heldur þessu fram.

Nægir í því sambandi að benda á lokaorð seðlabankastjóra í fyrsta kafla skýrslunnar. Þar segir hann á síðu 68:

Ekki verða á þessu stigi dregnar einhlítar niðurstöður um það hvaða leið er best fyrir Íslendinga í gjaldmiðils- og gengismálum. Allar leiðir hafa bæði kosti og galla. Þótt mat á þeim byggist á tiltölulega traustum hagfræðilegum grunni er engin hagfræðileg forskrift að því hvernig vega á þessa kosti og galla saman til að fá skýra niðurstöðu. Auk þess er óvissa um hvernig þessir kostir og gallar þróast í framtíðinni. En þá þarf að hafa í huga að víða í ritinu er að finna niðurstöður sem benda til þess að val á gjaldmiðils- og gengisstefnu skipti e.t.v. minna máli fyrir efnahagslega velferð og stöðugleika en halda mætti ef tekið er mið af umræðunni um þessi mál. Dæmi um þetta er hvernig ríki komu út úr fjármálakreppunni (sjá kafla 16 og 17) og hversu hætt er við eignaverðsbólum innan og utan myntbandalags (sjá kafla 11). Þar kemur í ljós að stefnan í ríkisfjármálum, uppbygging og regluverk um fjármálakerfið og hvatar og möguleikar einkaaðila til lántöku skipta mun meira máli, að því er best verður séð af þeirri takmörkuðu reynslu sem fyrir liggur. 

Enn fremur má minna á það sem segir á blaðsíðu 266 í skýrslunni:

Það er helst að skellir sem einkenna íslensku hagsveifluna eigi eitthvað sammerkt við skelli í Svíþjóð og Noregi. Tengslin við framboðs- og eftirspurnarskelli á evrusvæðinu eru hins vegar nánast engin. Þótt ætla megi að stór hluti sértækra eftirspurnarskella hverfi við inngöngu í myntbandalag, gæti kenningin um hagkvæm myntsvæði gefið til kynna að innlendar hagsveiflur myndu aukast við aðild að evrusvæðinu þar sem innlendir framboðsskellir virðast hafa lítil tengsl við sambærilega skelli á evrusvæðinu og reyndar á öðrum myntsvæðum líka. Aðlögun þjóðarbúsins án sveigjanlegs gengis gæti því orðið erfiðari en ella.

Sem sagt: Út frá þessu hentar engan veginn fyrir Íslendinga að taka upp evru.

Hvers vegna er Árni Páll að halda stöðugt fram þeirri firru að skýrsla Seðlabankans hafi bent á evruna sem einu leiðina. Heldur hann að við það að endurtaka vitleysuna nógu oft þá fari fólk að trúa henni? 

 


Reynslan af evrusamstarfinu

Í skýrslu Hagfræðistofnunar um ESB er tekið á ýmsum þáttum, m.a. á evrusamstarfinu. Þar kemur fram að mörg ríki áttu í erfiðleikum með að standast kröfur um verðbólguþróun og þróun í rekstri hins opinbera. 
 
Þar segir á síðu 87 um evrusamstarfið: 
 
Snemma kom í ljós að mörg lönd Evrópusambandsins ættu erfitt með að halda sig innan Maastricht skilyrðanna, sérstaklega hvað varðaði skuldastöðu og halla á rekstri ríkissjóða, þrátt fyrir samkomulagið um stöðugleika og hagvöxt. Portúgal rauf 3% (hallareksturs-) múrinn árið 2001 og ári seinna voru það Frakkland og Þýskaland sem ekki héldu sig innan þeirra marka. Árið 2003 bættust Holland og Grikkland í hóp þessara ríkja og árið eftir Ítalía. Síðan þá hafa fjölmörg ríki bæst í þennan hóp. Einungis fjögur lönd í Evrópusambandinu hafa haldist innan samkomulagsins hvað varðar skuldastöðu og fjárlagahalla ef litið er allt til ársins 1998 en það eru Danmörk, Finnland, Lúxemborg og Svíþjóð.
 
Þá var ljóst að ýmis ríki höfðu gripið til ýmissa bókhaldsaðgerða til að fela eða lækka opinbera skuldastöðu, t.d. með því að styðjast við fjármálagjörninga sem síðan voru ekki skilgreindir sem ríkisskuldir með því að teygja alþjóðlega reikningsskilastaðla til hins ítrasta.
 

Evrukreppan er samheiti yfir efnahagsleg vandamál tengd evrunni

Í þessari frétt kemur fram að evrukreppan sé samheiti yfir þau efnahagslegu vandamál sem eru tengd þeirri staðreynd að lönd sem eru á ólíkum stað í hagsveiflunni búa við sameiginlegan gjaldmiðil.
 
Enn fremur segir:
 

Erfitt hafi reynst að samræma ríkisfjármál evruríkjanna og því má hugsa sér að gripið verði til þess ráðs að taka upp formlegra samráð þar sem einstök ríki gefa frá sér að minnsta kosti einhvern hluta þess ákvörðunarvalds sem þau hafa nú yfir eigin fjármálum.

Þessu gæti fylgt enn frekari samruni, til dæmis á sviði skattamála og hvað varðar millifærslur fjármagns milli landa evrusvæðisins. 

mbl.is Mörg vandamál enn óleyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tillaga um afturköllun umsóknar á leiðinni

Fram kom í fréttum Bylgjunnar áðan sem Heimir Már Pétursson flutti að í næstu viku kæmi fram á Alþingi  tillaga um að afturkalla umsókn um aðild að ESB. Þar með yrði þessu aðildarferli lokið.

Fyrri ríkisstjórn hafði allt síðasta kjörtímabil til að koma okkur inn í ESB. Núverandi ríkisstjórn er búin að hafa rúmt hálft ár til þess að fara yfir málið. Nú liggur skýrsla Hagfræðistofnunar um ESB-ferlið fyrir. Þar kemur ekkert fram sem knýr á um að ferlinu verið haldið áfram. Þvert á móti. Þjóðin er á móti aðild. Ríkisstjórnarflokkarnir telja að aðild þjóni ekki hagsmunum þjóðarinnar. Auk þess bendir skýrslan á þann vanda sem við er að glíma í efnahagsmálum á evrusvæðinu vegna evrunnar með gríðarlegu atvinnuleysi á stórum svæðum - svo aðeins fátt eitt sé nefnt.

Það er kominn tími til að slíta þessu aðlögunarferli formlega með samþykkt Alþingis og snúa sér að einhverju öðru. 


Umsóknarferlið var á fölskum forsendum

Skýrsla Hagfræðistofnunar um ESB sýnir að umsóknarferlið sem fyrrverandi ríkisstjórn lagði í án þess að spyrja þjóðina var á fölskum forsendum. Jóhanna, Össur, Steingrímur, Árni Páll og fleiri sögðu ekkert mál að klára þessar viðræður á einu til einu og hálfu ári. Það sýndi sig hins vegar að ESB ræður algjörlega ferðinni, enda voru þetta engar venjulegar samningaviðræður heldur aðlögunarferli að ESB.
 
Jafnframt kemur í ljós að stækkunarferli ESB var breytt þannig að ESB gæti náð þvingunartaki á viðræðuríkjum. Slíkum ráðum beitti ESB til að reyna að þvinga okkur til hlýðni bæði varðandi Icesave og makrílveiðar.  
 
Frétt mbl.is um þetta er hér: 
 
 
 

Strax varð ljóst að Ísland fengi enga sérstaka meðferð þannig að það gæti stytt sér leið í aðildarferlinu. Ný stefna Evrópusambandsins í stækkunarmálum sem innleidd var árið 2006 hafði mikil áhrif á gang viðræðnanna og tók aðildarferlið í upphafi aðra stefnu en vonast hafði verið til.

Þetta kemur fram í viðauka Ágústs Þórs Árnasonar, aðjúnkts við lagadeild Háskólans á Akureyri, við Evrópuskýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Ágúst Þór segir að aðildarferlið hafi sætt gagnrýni bæði fræðimanna og stjórnmálamanna fyrir að vera þungt og ófyrirsjáanlegt. Í greininni segir hann að nýja stækkunarstefnan hafi haft í för með sér strangari skilyrðasetningu sem átti eftir að hafa mikil áhrif á aðildarferlið með innleiðingu á opnunar- og lokunarviðmiðum.

Hann segir að árið 2006 hafi verið opnað fyrir möguleikann á því að setja opnunar- og lokunarviðmið í einstökum köflum viðræðna við umsóknarríki Evrópusambandsins.

Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við lagadeild Háskólans á Akureyri.

Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við lagadeild Háskólans á Akureyri.

Þá hafi aðildarríki sambandsins fengið aukin tækifæri til að þrýsta á um lausn tvíhliða deilumála við umsóknarríki.

Þessi breyting hafi verið gagnrýnd fyrir að valda því að aðildarferlinu geti verið haldið í gíslingu til að þjóna hagsmunum einstakra aðildarríkja.

Eðlilegt að endurmeta stöðuna

„Eins og alkunna er komu tvíhliða deilur við sögu í tilfelli Íslands. Þannig lýstu Hollendingar því yfir sumarið 2010, um það leyti sem ákveðið var að hefja aðildarviðræður við Ísland, að þeir myndu tefja aðildarferlið leystist Icesave-deilan ekki í samræmi við kröfur þeirra.

Þá voru deilur um skiptingu makrílkvótans taldar hafa áhrif á stöðu sjávarútvegskaflans og vera meðal þess sem tafði aðildarviðræðurnar,“ segir í grein Ágústs Þórs.

Því hafi það verið bæði eðlilegt og nauðsynlegt að staldra við og endurmeta stöðuna. 

 


mbl.is Ísland gat ekki stytt sér leið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 457
  • Frá upphafi: 1121177

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 410
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband