Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Svona verður skýrslan um ESB

Nú er komið að því. Skýrsla með úttekt um stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið og þróun þess verður birt á morgun. Þá  fáum við vita nánar um Evrópusamrunann og þróun ESB í átt til sambandsríkis. Jafnframt fáum við að vita nánar um bág kjör ungs fólks, kvenna og fólks á jaðarsvæðunum.
 
Skýrslan verður lögð fram á Alþingi á morgun og um leið gerð aðgengileg á netinu. Uppbygging skýrslunar verður með þessum hætti:
 
A. Staða umsóknar Íslands um aðild að ESB.
B. Þróun ESB
a. réttarreglur ESB.
b. efnahagsleg þróun.
C. Útlit varðandi þróun sambandsins.
a. Lagalegar og pólitískar horfur
b. Efnahagslegt útlit
D. Samantekt niðurstaðna.
 
 
Þessi skýrsla mun sem sagt ekki fjalla svo mikið um það hvort hagkvæmt sé fyrir Ísland að gerast aðili að myntsvæði ESB. Þeirri spurningu hefur verið svarað oft í skýrslum á þann veg að ólíkar hagsveiflur geri það að verkum að það henti ekki fyrir Ísland að vera með sömu mynt og sömu peningastefnu og evrusvæðið. Það þarf sem sagt ekki að ræða það meira.
 
En það verður fróðlegt að sjá umfjöllun skýrslunnar um aðra þætti. Við bíðum spennt.
 

mbl.is Evrópuskýrslan lögð fram á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katrín Jakobsdóttir segir ESB ólýðræðislegt

Katrinjak
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir Evrópusambandið vera ólýðræðislegt. Þar sé þátttaka almennings lítil og fjármagnsöflin ráði of miklu. Hún ítrekaði jafnframt þá skoðun sína og VG að Íslendingar eigi ekki heima í Evrópusambandinu.
 
Þetta kom fram í Sprengisandsþætti Bylgjunnar í morgun.
 
Í þættinum lýsti Katrín jafnframt þeirri skoðun sinni að krónan yrði gjaldmiðill hér á landi í náinni framtíð.
 
Vinstri græn samþykktu fyrir ári síðan að gefa ESB-viðræðunum ár til viðbótar. Nú er það ár liðið.
 
Af hverju minnir enginn á þetta loforð Vinstri grænna annar en Heimssýnarbloggið? Af hverju taka aðrir fjölmiðlar þetta ekki upp?
 
Af hverju fara Vinstri grænir ekki að fylgja eftir því stefnumáli sínu að halda Íslandi utan ESB?
 
Hvers vegna eru sumir Vinstri grænir ráðamenn ennþá að vinna að því hörðum höndum að koma Íslandi inn í ESB þrátt fyrir þá yfirlýstu stefnu að vera á móti aðild að sambandinu því það þjóni ekki hagsmunum Íslendinga?
 
Katrín Jakobsdóttir viðurkennir að flokkur hennar hafi misst marga fyrir borð vegna þess hvernig flokkurinn höndlaði ESB-málið.
 
Á nýlegum flokksstjórnarfundi VG var ekkert ályktað um ESB-málið með öðru móti en að snúa út úr stefnu ríkisstjórnarinnar í málinu. 
 
Hvað þurfa Vinstri grænir að missa marga fyrir borð og hve mikið fylgi þarf flokkurinn að missa til þess að forysta flokksins sannfærist um að hún sé ekki á réttri leið? 

Atvinnuleysi eykst í Grikklandi í 28%

Nýjustu tölur benda til að atvinnuleysi sé enn að aukast í Grikklandi. Það er var fyrir áramótin komið í 28% sem er það mesta sem mælst hefur hingað til. Það felur í sér að 1,4 milljónir Grikkja á vinnumarkaði eru án atvinnu. Atvinnuleysi meðal aldurshópsins frá 15 til 24 ára er 61,4%.
 
Þrátt fyrir að reiknað sé með að hagvöxtur verði 0,6% á þessu ári er búist við því að atvinnuleysi í Grikklandi muni aukast á árinu.
 
Þetta er tekið héðan: Europaportalen.  
 
Og hver skyldi svo vera ein meginástæðan fyrir vandræðunum í Grikklandi? Líklega þarf ekki að taka það fram fyrir þeim sem lesa reglulega pistla á Heimssýnarblogginu. Fyrir aðra skal minnt á að evrusamstarfið olli hefðbundnum markaðsbrestum sem leiddu til þess að Grikkir fengu lán á mun lægri vöxtum en ástæða var til. Fyrir vikið varð skuldasöfnun mun meiri en ella. Auk þess kom gengissamstarfið í veg fyrir hefðbundna verðaðlögun í utanríkisviðskiptum í gegnum gengi þegar Þjóðverjum tókst að halda verðum á útflutningsafurðum lægri en í á jaðarsvæðum evrunnar. Fyrir vikið töpuðu Ítalir, Grikkir og aðrar jaðarþjóðir í samkeppninni við Þjóðverja - og söfnuðu enn meiri skuldum. Af því leiddi minni framleiðsla og meira atvinnuleysi og afkoma hins opinbera snarversnaði. Auðvitað kom fleira til, en ofangreind atriði skiptu verulegu máli.
 


Uppgefinn Þorsteinn Pálsson biðlar til Ólafs Ragnars

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra, er kominn á þá skoðun að líklegt sé að umsóknin að ESB verði nú dregin til baka. Hans helsta von virðist vera sú að málið verði sett í lagabúning sem forsetinn muni vísa til þjóðarinnar.

Þetta er nýstárleg nálgun hjá Þorsteini í Fréttablaðinu í dag, en sýnir jafnframt að hann er orðinn úrkula vonar um að honum og öðrum ESB-aðildarsinnum muni takast það ætlunarverk sitt að þvinga Ísland áfram í aðlögunarviðræður.

Þorsteinn minnir réttilega á að helstu andstæðingar Evrópusambandsaðildar hafi þyngt kröfuna um slit á aðildarviðræðum. Heimssýnarfólk tekur heilshugar undir það með Þorsteini.

Þorsteinn nefnir réttilega að rökrétt sé að Alþingi stöðvi aðlögunarferlið formlega fyrst það setti ferlið af stað. 

Þorsteinn nefnir einnig réttilega að yfirlýsing Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á Viðskiptaþingi í vikunni um að ekki kæmi til greina að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna bindi ríkisstjórnina í heild.

Þorsteinn Pálsson er hins vegar úti á þekju þegar hann gefur í skyn að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gefið loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu á fyrri hluta kjörtímabilsins. Samþykktir landsfundar Sjálfstæðisflokksins voru loforð um að halda Íslandi utan ESB og að undir engum kringmstæðum yrði haldið áfram með aðildarviðræður nema að þjóðin yrði spurð fyrst. Það var varnagli til þess að koma í veg fyrir að Alþingi gæti tekið upp á því að fara í viðræður við jafn undarlegar kringumstæður og voru sumarið 2009 þegar Alþingi samþykkti að fara í viðræður þótt meirihluti þess væri í raun á móti aðild.

Það er kominn tími til að Íslendingar láti ekki óþarfa orku fara í þessa ESB-umræðu. 

Lengi vel kvörtuðu aðildarsinnar yfir því að Íslendingar væru ekki nógu vel upplýstir um stöðu mála í ESB. Nú hefur verið látlaus upplýst umræða um ESB-mál í meira en áratug. Jafnvel í tvo áratugi með hléum. Íslendingar eru því orðnir eins upplýstir og hægt er að ætlast til.

Þá heyrist frá ESB-forystunni að ESB-málin séu svo flókin að í raun ætti bara að láta útvöldum embættismönnum og sérfræðingum eftir að taka ákvarðanir um örlög þjóða í þessum efnum. ESB-sinnar hér á landi hafa þvílíka vantrú á getu Íslendinga að þeir hefðu líklega gert sig ánægða með að embættismenn, stjórnmálamenn og sérfræðingar ESB-landa hefðu ákveðið hvernig tekið yrði á fjármálakreppunni hér á landi. Og í nafni jafnaðar og bræðralags hefðum við þá átt að taka á okkur, ekki bara Icesave, heldur miklu stærri hluta af skuldum bankanna. Og þiggja svo ölmusustyrki frá ESB.

Þá er líklega komið gott í þessum efnum. Látum þessu lokið. 

Förum að snúa okkur að uppbyggilegri efnum. 


Þýskir vinstri menn hafna evrunni

Evran virkar ekki og skapar sundrungu meðal Evrópuþjóða. Hún þjónar ekki almenningi í evrulöndunum. Fólkið í þessum löndum er áhrifalaust. Evrópusamruninn hefur dregið úr velferð. Andstaða við ESB er síður en svo byggð á þjóðernishyggju.
 
Þetta er meðal þess sem varaformaður þýska Vinstriflokksins segir í viðtali við þýskt stórblað. Mbl.is greinir frá þessu. Þar segir: 
 
 

Varaformaður þýska Vinstriflokksins, Sahra Wagenknecht, telur rétt að gefa evruna upp á bátinn í samtali við þýska vikublaðið Die Zeit. Hún segir þar að evran virki ekki og skapi sundrungu á meðal Evrópuþjóða. Eftir síðari heimsstyrjöldina hafi Evrópusamruninn stuðlað að friði en undanfarna tvo áratugi hafi þróun Evrópusambandsins verði fyrst og fremst í áttir sem séu stórfyrirtækjum og bönkum til hagsbóta.

Wagenknecht hafnar því í viðtalinu að gagnrýni á stofnanir ESB, þar sem áhrif verkafólks og millistéttarinnar séu engin, feli í sér þjóðernishyggju. Evrópusamruninn hafi dregið úr velferð. Hún bendir á að 19 milljónir manna séu án atvinnu í suðurhluta ESB vegna harkalegra aðhaldsaðgerða sem framkvæmdastjórn sambandsins beri meðal annars ábyrgð á.

Spurð hvort hún sé sammála því að Þýskalandi ætti að segja skilið við evruna segir Wagenknecht vilja að tekin verði upp ný peningastefna með stöðugu gengi og fjármagnshöftum. Evran eins og hún sé í dag virki ekki og skapi sundrungu á meðal þeirra þjóða sem noti hana. Hún er einnig spurð að því hvort hún telji mögulegt að hafa áhrif í stofnunum ESB en hún sat á Evrópuþinginu 2004-2009.

Hún segist hafa orðið vitni að því hversu mikil áhrif fulltrúar stórfyrirtækja hafi á vettvangi ESB. Oft sitji fleiri fulltrúar fyrirtækja í nefndum á vegum Evrópuþingsins en þingmenn. Þá sé stefna framkvæmdastjórnar ESB að miklu leyti mótuð í samræmi við viðmið frá fulltrúum stórfyrirtækja. Fyrir vikið segist hún hafa miklar efasemdir um að rétt sé að færa stofnunum sambandsins enn frekari völd.

Vinstriflokkurinn hefur 64 þingmenn á þýska sambandsþinginu og átta á Evrópuþinginu. 

mbl.is Segir evruna skapa sundrungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fádæma frost á evrusvæðinu

Því miður fyrir heimsbyggð alla er evrusvæðið í efnahagslegu frosti. Hagvöxtur þar er nánast enginn, eða 0,4% á síðasta ársfjórðungi 2013. Það gengur aðeins betur á þeim hluta ESB sem er laus við evruna, en þar var hagvöxtur 0,5%. Hagvöxtur var enginn í Finnlandi, en þar hefur verið stöðugur samdráttur frá því í byrjun árs 2012. Það er því vaxandi óánægja í Finnlandi með evruna.

Útflutningur Íslendinga líður fyrir slenið í Evrópu. 

Sjá EUobserver.

Sjá Trading Economics


Skýrsla Seðlabankans

Í gjaldmiðlaskýrslu Seðlabankans sem kom út haustið 2012 kemur meðal annars fram að sjálfstæð peningastefna og sveigjanlegt gengi hafi hjálpað Íslendingum út úr ýmsum erfiðleikum, m.a. eftir fjármálahrunið 2008, eftir hrun síldarstofnsins í lok sjöunda áratugarins og oftar.

Í skýrslunni er minnt á þá niðurstöðu rannsókna að þær sýni að sveigjanlegt gengi, eigin gjaldmiðill og sjálfstæð peningastefna sé heppilegt fyrirkomulag fyrir Ísland. Hins vegar þurfi að bæta efnahagsstjórnina til að ná betri árangri.  

Sjá m.a. hér - bls. 9 og hérna (skýrslan sjálf). 


ESB segir Íslendinga ekki vilja ganga í sambandið

Fleiri Íslendingar telja að innganga í Evrópusambandið yrði Íslandi ekki til hagsbóta en þeir sem telja að svo yrði samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var fyrir sambandið og birtar voru á dögunum. 48% telja að innganga í ESB hefði slæm áhrif á hagsmuni Ísland en 40% að hún hefði góð áhrif. Í sömu könnun var einnig spurt hvort gott væri fyrir Ísland að ganga í sambandið og þá svarar þriðjungur því jákvætt, þriðjungur neikvætt og um þriðjungur hvorki neikvætt né jákvætt.
 
Þetta kemur fram á mbl.is. Þar segir ennfremur: 

 

Sömuleiðis er spurt um ímynd ESB og telja 38% Íslendinga hana vera góða samkvæmt könnuninni. Þar af 33% frekar góða og 5% mjög góða. 24% telja ímynd sambandsins hins vegar vera frekar slæma og 8% mjög slæma. Meðaltalið innan ESb er svipað. 31% telja ímynd sambandsins góðan en 28% telja hana slæma. Verst er álitið á ESB meðal íbúa Grikklands og Kýpur.

Þá telja 38% Íslendinga að mál séu á leið í rétta átt innan ESB og 35% að þau séu á rangri leið. Sé horft til meðaltals íbúa sambandsins eru þeir mun svartsýnni í þeim efnum. Þannig telja 47% þeirra að þróunin innan ESB sé á rangri leið en 26% að hún sé á leið í rétta átt. 47% Íslendinga telja hins vegar að hlutirnir séu á réttri leið hér á landi á sama tíma, og hefur fækkað mjög, en 43% telja svo ekki vera.

Fleiri Íslendingar treysta hins vegar ekki ESB samkvæmt könnuninni en þeir sem það gera. 49% treysta ekki sambandinu en 40% bera traust til þess. Miðað við meðaltal íbúa ESB treysta þeir sambandinu hins vegar verr ef marka má niðurstöðurnar. 58% þeirra treysta ESB ekki á meðan 31% treysta sambandinu.

Um er að ræða svokallaða Eurobarometer skoðanakönnun ESB sem gerð er tvisvar sinnum á ári. Sá hluti sem fjallar um Ísland er unninn fyrir sambandið af Capacent. 

mbl.is Telja aðild að ESB ekki til hagsbóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilja að ESB verði sambandsríki

Fleiri íbúar ríkja Evrópusambandsins eru hlynntir því að sambandið þróist yfir í að verða að sambandsríki en þeir sem eru því andvígir samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem unnin var fyrir ESB og birt nýverið. Þannig eru 45% sammála því og þar af 34% frekar sammála og 11% mjög sammála. Rúmur þriðjungur, eða 35%, er því hins vegar andvígur og þar af 22% frekar andvíg og 13 mjög andvíg.

 

Þetta kemur fram á mbl.is. Þar segir ennfremur:  

Ennfremur eru samkvæmt könnuninni 63% hlynnt því að Evrópusambandið komi sér upp einni utanríkisstefnu en 27% eru því andvíg. 73% eru að sama skapi hlynnt því að sambandið fái sameiginlega öryggis- og varnarstefnu en 19% á móti því. Meirihluti er einnig jákvæður í garð evrunnar eða 52% en 41% eru henni andvíg.

Hvað mest andstaða er við evruna í þeim ríkjum Evrópusambandsins sem ekki hafa tekið hana upp eins og í Bretlandi, Svíþjóð, Tékklandi og Danmörku þar sem andstaðan er á bilinu 65-74%. Mestur stuðningur er hins vegar við evruna í Slóvakíu, Slóveníu og Lúxemborg eða 78-79%. Meirihluti Íslendinga er einnig jákvæður í gerð evrunnar eða 54% á móti 41%.

Þá er meirihluti íbúa Evrópusambandsins á móti frekari stækkun sambandsins ef horft er til meðaltalsins. Rúmur helmingur, eða 52%, eru á móti fjölgun ríkja Evrópusambandsins og 37% því hlynnt. 48% Íslendinga eru hlynnt frekari stækkun sambandsins á móti 40% sem eru því andvíg.

Um er að ræða svokallaða Eurobarometer-skoðanakönnun ESB sem gerð er tvisvar sinnum á ári. Sá hluti sem fjallar um Ísland er unninn fyrir sambandið af Capacent. 

mbl.is Vilja að ESB verði sambandsríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland opið, en ekki til sölu og ekki á leið í ESB

Sigmundur

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var alveg skýr þegar hann talaði til Viðskiptaþings í dag. Núverandi ríkisstjórn ætlar ekki að stuðla að því að Ísland gangi í ESB, Ísland er opið fyrir viðskiptum en það er ekki til sölu.

Í meðfylgjandi frétt mbl.is kemur fram:

Sigmundur beindi svo orðum sínum að Samtökum atvinnulífsins og sagði að í kjölfar þess að hann hefði bent á að innlend fjárfesting hefði ákveðna kosti framyfir þá erlendu, þá hefði forstöðumaður úr samtökunum gagnrýnt þá hugmynd og unnið gegn hagsmunum lands og þjóðar. Sagði hann þetta mjög skaðlegt út á við og sagði að samtökin ættu að skoða það að nýta fjármagn sitt betur til uppbyggilegra ábendinga eða spara félagsmönnum sínum fé og setja á fót bloggsíðu í stað þess að halda úti fullu starfi. 

Ennfremur segir þar:  

Í lok erindisins fór Sigmundur yfir stefnu stjórnvalda varðandi Evrópusambandsaðild og sagði að Ísland væri ekki á leið í sambandið og að vonir manna til þess að viðræður ættu sér stað í alvöru meðan utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar væri andsnúin aðild væru ekki raunsæjar.

Yfirskrift Viðskiptaþings þetta árið var opið fyrir viðskipti? (e. Open for business?) og sagði Sigmundur að þeirri spurningu væri auðvelt að svara. Sagði hann að Ísland væri sannarlega opið fyrir viðskipti, en að búðin væri ekki til sölu. (e. Yes, Iceland is open for business, but the store is not for sale.) 

 


mbl.is Ísland er ekki til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 268
  • Sl. viku: 2081
  • Frá upphafi: 1210532

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 1876
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband