Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Skýrslur fela í sér efasemdir um evruna

Eftir að skýrsla Seðlabanka Íslands um gjaldmiðlamálin kom út fyrir rúmu ári er eitt víst. Sérfræðingar hafa lengi verið og eru enn efins um að rétt sé fyrir Ísland að taka upp evru sem gjaldmiðil. Skýrslan var í raun rothögg fyrir evrusinnana í Samfylkingunni og víðar.

 

Þessarar skýrslu hafði verið beðið með nokkurri eftirvæntingu. Vitanlega væntu ESB-aðildarsinnar í Samfylkingunni og víðar þess að skýrslan myndi leiða til skýrrar niðurstöðu sem væri þeim þóknanleg. En því var ekki til að dreifa. Í raun hefur sú afstaða sem lesa má út úr niðurstöðum af athugunum seðlabankafólksins og forystu þess verið nokkurn veginn hin sama frá því þessi umræða hófst. Það hafa alltaf verið efasemdir um upptöku gjaldmiðils á borð við evruna.

 

Árið 1997 var ekki áhugi fyrir evru

Árið 1997 gaf Seðlabankinn út skýrsluna Efnahags- og myntbandalag Evrópu – EMU – Aðdragandi og áhrif stofnunar EMU. Þótt þetta væri tveimur árum áður en efnahags- og myntbandalagið tók formlega til starfa hafði heilmikil rannsóknarvinna og umræða verið í gangi. Margir hagfræðingar vöruðu við ófullburða fæðingu gjaldmiðilsbandalagsins. Stjórnmálaelítan í Evrópu lét varnaðarorðin sér í léttu rúmi liggja, en það sýnir m.a. að ESB og EMU (myntbandalagið) eru fremur pólitísk bandalög en að þau séu byggð á efnahagslega skynsömum grunni. Í formála bankastjórnar árið 1997 kemur fram að meginniðurstaða skýrslunnar sé að efnahagsleg áhrif bandalagsins á íslenskt efnahagslíf séu óljós.

Vissulega var ýmislegt óljóst með myntbandalagið í upphafi og því ekki að undra þótt Seðlabankinn treysti sér ekki þá til að fjalla beinlínis um rök með og móti ESB. Þær ályktanir eru þó dregnar að best sé fyrir Ísland að halda að minnsta kosti um sinn óbreyttri gengisstefnu.

 

Árið 2000 var ekki heldur áhugi fyrir evru

Um þremur árum síðar, árið 2000, gaf Hagfræðistofnun Háskóla Íslands út ritið Macroeconomic Policy – Iceland in an Era of Global Integration (þjóðhagsstefna – Ísland á tímum alþjóðlegrar samþættingar). Í kafla um val á hagkvæmustu gengisstefnu fyrir Ísland komast höfundar að þeirri niðurstöðu að formgerðareinkenni hagkerfisins styðji öll þá ályktun að heppilegast sé fyrir Ísland að vera með sveigjanlegt gengi. Jafnframt virðist þeim sem Ísland uppfylli engin, eða nánast engin af þeim skilyrðum sem kenningin um hagkvæm myntsvæði gerir til þess að Ísland tengist evrunni.

Eftir þetta fór evrusvæðið í gang og fyrstu árin virtust lofa góðu. Þegar á leið fóru hins vegar erfiðleikar að koma í ljós. Nú er svo komið að Efnahags- og myntbandalagið hefur í nokkur ár átt í gífurlegum erfiðleikum sem ekki sér fyrir endann á. Þeim stjórnmálamönnum utan evrusvæðisins fjölgar stöðugt sem vilja halda sig sem lengst frá myntbandalaginu – nema innan Samfylkingarinnar á Íslandi. Það er óþarfi að telja hér upp ýmsa hagfræðinga austan hafs og vestan sem varað hafa við þessari evrukreppu.

 

Árið 2012: Evran er ekki kostur um fyrirsjáanlega framtíð

Í nýútkominni skýrslu Seðlabankans er komist að þeirri skýru niðurstöðu að það sé fyrsti kostur að halda krónunni og bæta umgjörð hennar. Evran komi ekki til álita sem stendur, bæði vegna erfiðleika evrusvæðisins en einnig vegna annarra þátta, þótt bankinn komist skiljanlega að þeirri niðurstöðu að rétt sé að loka engum leiðum fyrst aðildarumsóknin er í gangi. Hins vegar er á það bent að Íslendingar ættu í raun fremur að huga að almennt bættri hagstjórn fremur en að líta á einn eða annan gjaldmiðil sem einhverja töfralausn á ýmsum vanda.

Þetta hljóta að vera gífurleg vonbrigði fyrir þann hóp innan Samfylkingarinnar sem gert hefur það að leiðarljósi lífs síns að Ísland gangi í ESB og að besta leiðin til að ná því marki væri að telja fólki trú um að með evru fengjust betri lífskjör hér á landi. Þeir sérfræðingar sem gerst þekkja hafa aldrei trúað almennilega á þessa spádóma eða óskir ESB-sinnanna. Hið gífurlega atvinnuleysi sem stór hluti Evrópubúa hefur búið við sýnir svo ekki verður um villst, að enda þótt evran komi sumum vel hefur hún leitt til ófarnaðar fyrir stóran hluta álfunnar.

(Þessi pistill var fyrst birtur fyrir í byrjun síðasta árs hér á Heimssýnarblogginu)


Stórvaxandi stuðningur við íslensku krónuna

eurobroken

Það er stórvaxandi stuðningur við íslensku krónuna samkvæmt könnun sem birt er í Fréttablaðinu í dag. Þrátt fyrir alla niðurrifsumræðuna í nokkrum fjölmiðlum síðustu ár gagnvart krónunni að undanförnu hefur stuðningur aukist síðustu fjögur ár úr 38% í ríflega 50%. Evran kemst ekki á blað.

Þetta er mjög merkileg þróun í ljósi þeirrar umræðu og erfiðleika sem Íslendingar hafa gengið í gegnum. Það þurfti frásögn hins geðþekka fréttamann Gissur Sigurðsson á Bylgjunni til þess að meginatriði þessarar fréttar urðu skrásetjara Heimssýnarbloggins ljós í morgunsárið. Öll uppsetning Fréttablaðsins er nefnilega með þeim hætti leita þurfti dálítið að meginfréttapunktinum sem felst í ofangreindri fyrirsögn. 

Hið merkilega er í þessari frétt að ekki er minnst á evruna. Hún kemst ekki lengur á blað, enda virðast Íslendingar nú vera farnir að átta sig á þeim stórskaða sem hún hefur valdið á evrusvæðinu. Sjálfsagt er norska krónan eða Kanadadollar nú orðin vinsælli en evran.  


Grikkir fá 50 ár til að borga skuldir til ESB

Embættismenn ESB eru sagðir vera að íhuga að lengja endurgreiðsluferil á björgunarlánum til Grikkja úr 30 árum í 50 ár. Þetta hefur EUobserver eftir Bloomberg.

Talsmaður fjármálaráðherra Þýskalands vildi þó ekki staðfesta þessar fréttir og sagði að Þjóðverjar myndu aðeins taka þátt í viðræðum um lengingu lána til Grikkja þegar búið væri að endurmeta umbætur þær sem Grikkir hafa framkvæmt.

Sem sagt: Gert er ráð fyrir því að Þjóðverjar hafi meira að segja um þetta en aðrir.

 


Íslenskur fjölmiðill í hagsmunabaráttu fyrir útlendinga í makrílmálinu?

Atli Árnason skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann segir fréttastofu Ríkisútvarpsins líta á það sem sitt sérstaka hlutverk að kynna málstað Norðmanna og Evrópusambandsins. Þessir aðilar hafi lengi vel neitað að hleypa Íslendingum að viðræðuborðinu í makrílmálinu.

Evrópusambandið hefur hótað okkur viðskiptaþvingunum. Þær hótanir standa enn þrátt fyrir blíðmælgi fulltrúa sambandsins síðustu daga.

Atli Árnason segir:  

Það sætir því furðu að fréttastofa RÚV skuli líta á það sem sitt sérstaka hlutverk að kynna málstað Norðmanna með löngum viðtölum við helstu hagsmunaaðila Norðmanna sem hafa beitt sér svívirðilega gegn Íslendingum og Færeyingum í makrílmálinu frá upphafi. Þetta gerist á sama tíma og samningamenn Íslands eru undir stöðugum árásum og heitingum af hálfu Norðmanna við að halda fram hagsmunum Íslendinga í málinu. Norska ríkisútvarpið myndi aldrei hampa málstað Íslendinga í þjóðarútvarpi Noregs í slíkum málum en enn einu sinni telur fréttastofa RÚV sér sæma að taka hagsmuni erlendra kröfuhafa fram yfir íslenska. Er ekki kominn tími á að þessari undarlegu þjónkun við erlenda hagsmuni linni? 


Kjósendur í Evrópu hafa ekki hugmynd um hverjir sitja á ESB-þinginu fyrir þá

Þrír af hverju fjórum Svíum hafa ekki hugmynd um hverjir sitja fyrir þá á ESB-þinginu. Að frátöldum þekktum fyrrverandi þingmanni gátu aðeins 2% kjósenda eða minna nefnt nafn tiltekins þingmanns.

Þegar þingmenn eru spurðir að því hvers vegna kjósendur í Svíþjóð hafi svo litla þekkingu á ESB-þinginu er svarið að umfjöllun um málefni ESB í Svíþjóð sé mjög lítil.  Þetta kemur fram í Europaportalen.se


Það er eðlilegt að Alþingi afturkalli nú umsóknina að ESB

Í ljósi þeirrar þróunar sem átti sér stað allt síðasta kjörtímabil, þegar þáverandi stjórn klúðraði því tækifæri sem hún hafði á að koma Íslandi inn í ESB, og í ljósi síðustu kosninga og núverandi stjórnarsamstarfs er alveg ljóst að það er sjálfsögð og eðlileg krafa að stjórnarflokkarnir ljúki ferlinu formlega með því að draga umsóknina til baka með ályktun Alþingis.

Alþingi Íslendinga samþykkti 16. júlí 2009 þingsályktun sem var svohljóðandi: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.“

Alls greiddu að lokum 33 þingmenn þessari tillögu atkvæði sitt, 28 voru á móti og 2 sátu hjá. Hlynntir þessari tillögu voru allir 20 þingmenn Samfylkingar, 8 þingmenn Vinstri grænna, 3 þingmenn Framsóknarflokks, einn þingmaður Sjálfstæðisflokks og einn þingmaður Borgarahreyfingar. Á móti voru 14 þingmenn Sjálfstæðisflokks, 6 þingmenn Framsóknarflokks, 5 þingmenn Vinstri grænna og 3 þingmenn Borgarahreyfingarinnar. Tveir þingmenn sátu hjá, en þeir voru frá Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum.

Fram kom í umræðum um málið að hægt yrði að ljúka aðildarviðræðum á mjög stuttum tíma. Árni Páll Árnason, Baldur Þórhallsson og Jóhanna Sigurðardóttir töluðu um að hægt yrði að ljúka viðræðum á einu til tveimur árum.

Klofin ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna gat ekki klárað verkið

Við vitum hvernig fór. Ríkisstjórnin var klofin í afstöðu sinni til umsóknarinnar. Nokkrir þingmenn yfirgáfu Vinstri græna meðal annars vegna þessa. Jón Bjarnason landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra barðist á móti aðildinni og Ögmundur Jónasson ráðherra gerðist þessu ferli afhuga.

Fyrir ári síðan ákvað stjórnin að hægja á ferlinu að kröfu Vinstri grænna sem samþykktu á landsfundi sínum að gefa umsóknarferlinu ár til viðbótar. Þá vildi reyndar núverandi formaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir, að kosið yrði um framhald viðræðna en lenti í minnihluta með þá afstöðu. Nú er það ár að verða liðið og því eðlilegt að Vinstri grænir séu spurðir að því hvort þeir telji þetta umsóknarbrölt þá ekki orðið gott.

Stefna ríkisstjórnarflokkanna að hætta viðræðum og vera utan ESB

Fyrir kosningar móta flokkarnir stefnu sína í ESB-málunum. Hér skal einungis tilgreind stefna þeirra flokka sem mynduðu ríkisstjórn að kosningum loknum. Æðstu lýðræðissamkundur beggja flokka samþykktu sömu stefnu. Hún fólst í andstöðu við aðild að ESB, að viðræður við sambandið yrðu stöðvar og að þeim yrði ekki haldið áfram nema að undangengnum kosningum meðal þjóðarinnar um málið. Aðalatriðið í þessu er andstaðan við aðild að ESB. Af því leiddi að flokkarnir vildu stöðva viðræður. Það var einnig tengt fyrri umræðu um málið árið 2009 þegar farið var í viðræður án þess að þjóðin yrði spurð álits, að því var slegið föstu í samþykktum flokkanna að ekki yrði farið í viðræður nema þjóðin yrði spurð fyrst. Þetta ákvæði var eins konar varúðarákvæði um að þing eða stjórn gætu ekki haldið áfram viðræðum nema með því að spyrja þjóðina fyrst.

Samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var 21. til 24. febrúar 2013 um þennan málaflokk hósfst á þessum orðum: „Sjálfstæðisflokkurinn telur megintakmark utanríkisstefnu Íslands vera að standa vörð um fullveldi þjóðarinnar…“. Síðar segir stuttu síðar að landsfundurinn „telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins 8. til 10 febrúar 2013 var svohljóðandi: „Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Samfylkingin beið afhroð í kosningunum með sín stefnumið um ESB

Eins og sjá má á þessu er stefnan sem æðstu samkundur stjórnarflokkanna samþykktu í öllum meginatriðum hin sama. Flokkarnir gengu til kosninga á þessum grunni og Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn náðu góðum meirihluta þingmanna og mynduðu ríkisstjórn. Samfylkingin sem hefur verið sá flokkur sem hafði það helst á stefnuskrá að ganga í ESB beið mikið afhroð í kosningunum. Auðvitað var kosið um fleiri mál, en það er ekki hægt að líta fram hjá þessu atriði.

Stjórnarsáttmálinn er alveg skýr um ESB

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er alveg skýr í þessum efnum. Þar segir: „Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Nú er búið að stíga fyrstu skrefin í þessum efnum. Það er búið að gera hlé á viðræðum við ESB og úttektin um viðræðurnar og um þróun mála innan sambandins er að verða tilbúin. Hún verður síðan lögð fyrir þingið til umfjöllunar og kynnt þjóðinni.

Það er ekki viðbúið að margt nýtt komi fram í skýrslunni um stöðu og möguleika Íslands í alþjóðlegu samstarfi eða hvað varðar gjaldmiðlamál. Fjölmargar aðrar skýrslur hafa verið skrifaðar um það, m.a. annars um 700 síðna skýrsla Seðlabanka Íslands fyrir rúmu ári. Búast má við nýjum upplýsingum í skýrslunni um þróun og stöðu viðræðnanna og svo um þróunina í ríkjum ESB. Þar hljóta að verða ítarlegar upplýsingar um hið gífurlega atvinnuleysi sem til staðar er m.a. vegna evrusamstarfsins. Þar hlýtur að vera ítarleg lýsing á því hvernig hagþróunin hefur verið sundurleit hvað varðar verðlag, viðskiptajöfnuð, skuldaþróun og atvinnu. Eins og allir vita hefur Evrópusambandinu mistekist þar það ætlunarverk sitt að stuðla að samleitni, þ.e. að vextir, verðbólga, atvinna og svo framvegis þróist í sömu og jákvæða átt innan sambandsins.

Það er rökrétt að Alþingi afturkalli þá ályktun sem hóf ferlið árið 2009

Að loknum umræðum um skýrsluna er aðeins ein rökrétt niðurstaða. Hún er sú að Alþingi samþykki að afturkalla þá umsókn sem send var á grundvelli klofinnar afstöðu þáverandi stjórnarflokka árið 2009 og í andstöðu við vilja þjóðarinnar um aðild. Það er eina rétta niðurstaðan.


Spillingin hjá ESB

Það er góðs viti að áhugi er á því hjá embættismönnum ESB að rannsaka spillinguna í stofnunum sambandsins, en eins og fram kom í fréttum er spilling talsverð í ríkjum sambandsins samkvæmt nýlegri skýrslu.
 
Vitað er að ekki hefur tekist að ljúka reikngum fyrir ESB í mörg ár. Vitaskuld er reynt að fara eftir eðlilegum viðmiðum við stjórnsýslu, framkvæmdir, meðferð fjár og fleira í sambandinu. Af umræðunni virðist þó mega ráða að talsvert vanti upp á að markmiðum sé náð í þessum efnum.
 
Eitt af því sem hefur þótt sérstakt við ESB er það þegar hópar koma þar í heimsókn þá fá þeir afhent umslag með seðlum til að standa undir útlögðum kostnaði. Sú aðferð hefur vakið upp ýmsar spurningar.
 
Mbl.is fjallar m.a. um þetta - sjá hér:
 
 

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) ætti að fjalla um spillingu í stjórnsýslu sambandsins í næstu skýrslu sinni um spillingu í ríkjum þess. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu í dag frá Evrópska umboðsmanninum en embættið hefur það hlutverk að taka við kvörtunum frá borgurum ESB í garð stofnana sambandsins.

Umboðsmaðurinn, Emily O'Reilly, fagnarskýrslu framkvæmdastjórnarinnar um spillingu í ríkjum sambandsins, þar sem fram kemur að spillingin sé „yfirgengileg“, en telur rétt að hafa sérstakan kafla um stjórnsýslu ESB í næstu skýrslu. Haft er eftir O'Reilly í tilkynningunni að stjórnsýsla sambandsins verði að uppfylla ýtrustu kröfur í þeim efnum. Einkum og sér í lagi þegar komi að gegnsæi, hagsmunaárekstrum og opinberum útboðum. Í flestum tilfellum standi stofnanir ESB þó vel að vígi í þessum efnum samanborið við ríkisstjórnir margra ríkja sambandsins.

Fram kemur í tilkynningunni að embætti Evrópska umboðsmannsins fái eftir sem áður margar kvartanir vegna stofnana ESB þar sem kvartað sé yfir skorti á gegnsæi, meintum hagsmunaárekstrum, meintum óeðlilegum tengslum á milli embættismanna sambandsins og fulltrúa einkaaðila og fleiri slíkum málum. 

mbl.is Rannsaki spillingu hjá ESB líka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svíar ekki með á ESB-nótunum; aðeins 20% eru örugg á því að kjósa til ESB-þings

ESB dregur máttinn úr lýðræðislegri þátttöku. Þriðji hver Svíi veit ekki að það eru kosningar til ESB-þingsins í vor. Aðeins 18% Svía ætla örugglega að kjósa. Um 50% segjast örugglega eða líklega ekki kjósa.

Þetta kemur fram í nýlegri könnun

Þetta hlýtur að vera áfall fyrir ESB-hugsjónina. ESB-valdið er fjarlægt og lítt skiljanlegt. Það eina sem getur bjargað kosningunum eru átök um sænskt munntóbak eða eitthvað álíka. 

Talandi um munntóbakið. Svíar samþykktu aðild af því að þeir fengu að halda munntóbakinu sínu. En hvað gerist svo? Nú á að banna nýjar tegundir þannig að Svíar geta þá bara keypt gamla snusið sitt.

Svona eru undanþágurnar í ESB! 

 


ESB vill taka yfir dómsvald, öryggismál og vald í innflytjendamálum aðildarríkja

Sambandsríkið ESB vill taka yfir æ stærri hluta dómsmála, öryggismála og innflytjendamála aðildarríkjanna. Þetta leiðir m.a. af svokallaðri Stokkhólmsáætlun sem var samþykkt í desember 2009. Það er rætt um aukna skráningu og eftirlit með almenningi og að lögregla eigi að geta athafnað sig utan síns heimalands. Hluti af þessu er aukið eftirlit með netnotkun almennings.

Þeir sem berjast fyrir því að Ísland verði aðili að ESB hafa ekki með neinum eftirtektarverðum hætti fjallað um möguleg áhrif Stokkhólmsáætlunarinnar hér á landi. Reyndar hefur þessi áætlun ekkert með Stokkhólm að gera, enda er það liður af áróðurstaktík ESB að kenna hinar og þessar áætlanir við helstu borgir í Evrópu. Allar eiga þessar áætlanir uppruna sinn í Brussel.

Stokkhólmsáætlunin tekur á innflytjendamálum, innri öryggismálum, borgararétti og ýmsum mannréttindum. Stefnt er að því að völdin í þessum málaflokkum færist í auknum mæli frá aðildarríkjum til Brussel. Áætlunin hefur verið gagnrýnd á ýmsa lund. Þannig hefur hún verið talin geta stuðlað að því að Evrópa setji upp stóra varnarmúra gagnvart innflytjendum, óháð því hvað aðildarríkin segja. Einnig hefur verið talið að áætlunin geti aukið strauma fólks innan ESB.

Stokkhólmsáætlunin fjallar um að setja skuli samræmdan refsiramma í ESB-löndunum, samræmda kennslu fyrir lögmenn, dómara og dómapraxís.

Það er stefnt að því að þurrka sem mest út allt sem heitir sérkenni landa í þessum efnum.
 


Silja Dögg Gunnarsdóttir segir möguleika Íslendinga betri utan ESB

siljadogg
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, skrifar grein sem birt er í Morgunblaðinu í dag undir fyrirsögninni Ísland er undantekningin sem sannar regluna. Þar segir hún öll rök hníga að því að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan ESB en innan þess þar sem við erum mjög fámenn þjóð og rík að auðlindum.
 
Í greininni segir Silja: 
 
Tækifæri okkar Íslendinga eru á mörgum sviðum. Við erum rík að auðlindum sem mikil þörf verður fyrir í framtíðinni. Við eigum nóg af hreinu vatni, grænni orku, hugsanlega olíu og síðast en ekki síst erum við mjög framarlega í matvælaframleiðslu. Lega landsins er mjög eftirsóknarverð fyrir Norður-Íshafssiglingar. Þar liggja gríðarleg tækifæri í framtíðinni sem við Íslendingar þurfum að vera vel vakandi yfir.
Rík þjóð
Mér þykja öll rök hníga að því að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan ESB en innan þess þar sem við erum mjög fámenn þjóð og rík að auðlindum. Daniel Gros er yfirmaður stofnunar í Brussel í Evrópufræðum. Hann lét hafa það eftir sér að hann teldi að öll Evrópuríki ættu að vera í Evrópusambandinu, NEMA Ísland. Ísland væri undantekningin sem sannaði regluna af ofangreindum ástæðum.

 

Afstaða núverandi stjórnarflokka er einnig skýr. Á landsfundum sínum fyrr á þessu ári ályktuðu þeir að hag Íslands sé betur borgið utan ESB en innan þess. Núverandi ríkisstjórn framfylgir að sjálfsögðu stefnu ríkisstjórnarflokkanna. Í stjórnarsáttmálanum stendur: »Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.«

 

Lýðræðið í hættu 
En víkjum að lýðræðinu. Ein rök með aðild að ESB eru þau að Íslendingar ættu að hafa fulltrúa á Evrópuþinginu til að hafa einhverja vigt þar í ákvarðanatöku. Staðreyndin er sú að þingmenn Evrópuþingsins eru rúmlega 760 og Ísland fengi sex þingmenn, tæp 0,78% þingmanna. Mín skoðun er því sú að þessir sex þingmenn myndu nú ekki vigta mikið á þinginu.

Þess má einnig geta að kjörsókn til Evrópuþings minnkar stöðugt og var að meðaltali 43% árið 2009. Staðreyndin er sú að íbúar Evrópuríkja fjarlægjast stöðugt lýðræðið og þeir finna fyrir því. Valdið er ekki lengur á höndum lýðræðislegra kjörinna fulltrúa heldur embættismanna í Brussel. Er þetta það sem við Íslendingar viljum?

Afstaða núverandi stjórnarflokka er einnig skýr. Á landsfundum sínum fyrr á þessu ári ályktuðu þeir að hag Íslands sé betur borgið utan ESB en innan þess. Núverandi ríkisstjórn framfylgir að sjálfsögðu stefnu ríkisstjórnarflokkanna. Í stjórnarsáttmálanum stendur: »Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.«

Lýðræðið í hættu
En víkjum að lýðræðinu. Ein rök með aðild að ESB eru þau að Íslendingar ættu að hafa fulltrúa á Evrópuþinginu til að hafa einhverja vigt þar í ákvarðanatöku. Staðreyndin er sú að þingmenn Evrópuþingsins eru rúmlega 760 og Ísland fengi sex þingmenn, tæp 0,78% þingmanna. Mín skoðun er því sú að þessir sex þingmenn myndu nú ekki vigta mikið á þinginu.
Þess má einnig geta að kjörsókn til Evrópuþings minnkar stöðugt og var að meðaltali 43% árið 2009. Staðreyndin er sú að íbúar Evrópuríkja fjarlægjast stöðugt lýðræðið og þeir finna fyrir því. Valdið er ekki lengur á höndum lýðræðislegra kjörinna fulltrúa heldur embættismanna í Brussel. Er þetta það sem við Íslendingar viljum?
Næsta skrefið er að fá sérfræðiúttekt um stöðu viðræðnanna og stöðu mála innan ESB. Úttektin er gerð af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og verður kynnt fyrir þinginu í febrúar. 

 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.4.): 93
  • Sl. sólarhring: 221
  • Sl. viku: 2031
  • Frá upphafi: 1210817

Annað

  • Innlit í dag: 77
  • Innlit sl. viku: 1829
  • Gestir í dag: 76
  • IP-tölur í dag: 76

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband