Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015
Þriðjudagur, 20. janúar 2015
Hvert fór áróðursfé Evrópustofu?
Evrópusambandið opnaði áróðurs- og kynningarmiðstöð á Íslandi haustið 2010. Heimildin til að reka hér slíka miðstöð byggðist á skuldbindingum sem Íslendingar gengust undir sem umsóknarríki. Sendiherra ESB hér á landi fór ekkert í launkofa með hver væri tilgangur með "Evrópustofu", en hann fólst í víðtækri gagnasöfnun um skoðanir almennings og afstöðu og hvernig mætti hafa áhrif á viðhorf Íslendinga til inngöngu í ESB.
Svo segir í nýlegu bloggi Jóns Bjarnasonar, formanns Heimssýnar. Síðan segir:
Í viðtali við Morgunblaðið 10.11. 2010 sagði hann (þ.e. sendiherra ESB) m.a.:
"Við viljum skilja upplýsingaþörf ólíkra hópa. Hvað veit fólk og hvað veit það ekki? Hver eru, svo dæmi sé tekið, viðhorf og upplýsingaþörf ungs fólks, háskólafólks eða ellilífeyrisþega? segir Timo Summa, formaður sendinefndar ESB á Íslandi, um fyrirhugað kynningarstarf sambandsins á Íslandi næstu misserin.
Við lítum á mismunandi hópa og hver afstaða borgarbúa eða fólks á landsbyggðinni er til aðildar. Við viljum vita þetta svo við getum undirbúið kynningargögn í samræmi við það. Við viljum vita hvar eyður eru í þekkingunni og reynum í framhaldinu að leysa það.
Spurður um umfang "kynningarátaksins" svarar Summa því til að milljón evra, eða 155 milljónir króna, muni renna til kynningar á ESB á Íslandi á næstu tveimur árum. Í fyrstu sé gert ráð fyrir fjórum til fimm starfsmönnum sem hafi það að fullum starfa að dreifa upplýsingum um sambandið til almennings. Þá muni skrifstofan í Aðalstræti og útibú hennar á Akureyri styðja fyrirlestrahald og annað kynningarstarf. ESB kortleggur Ísland
Samkvæmt Vínarsáttmálanum um réttindi, skyldur og friðhelgi diplómata mega erlendir sendiherrar ekki blanda sér í innanríkismál gistiríkisins.
Þá er diplómatisk staða sendiherra ESB á Íslandi óljós því að aðeins ríki og formleg sambandsríki mega halda úti sendiherrum í öðrum löndum á grundvelli Vinarsáttmálans.
Bein afskipti sendiherra ESB og starfsemi áróðursskrifstofu Evrópusambandsins eru því brot á fullveldi Íslands. Hins vegar sækir Evrópusambandið sér heimild til víðtækrar áróðursstarfsemi hér á landi í skuldbindingarnar sem Ísland gekkst undir sem umsóknarríki að ESB. Þess vegna er mikilvægt að afturkalla umsóknina og loka Evrópustofu.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 20. janúar 2015
Afturköllun er bara staðfesting á árangursleysi fyrri stjórnar
Afturköllun umsóknar um aðild að ESB er ekkert annað en rökrétt staðfesting á stöðu málsins eftir árangursleysi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í málinu. Hún varð strand í málinu vegna ósættanlegs ágreinings við ESB í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum. Það var Alþingi sem setti málið af stað. Því er rétt að Alþingi stöðvi málið með formlegum hætti.
Mbl.is segir svo:
Fjármálaráðherra sagðist á Alþingi í dag gera ráð fyrir að tillaga utanríkisráðherra um slit á aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði lögð fram innan fárra daga. Hann kallaði jafnframt eftir efnislegri umræðu um það hvað það þýði fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, spurði Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, um tillögu Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, þess efnis að kalla beri aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka.
Guðmundur minnti Bjarna á það hversu mikilli andstöðu tillagan mætti þegar hún var lögð fram í fyrra og sagðist hann hafa vonað að þingheimur allur og þjóðin hafi dregið þann lærdóm af þeirri rimmu, að þessu mikla deilumáli þurfi að leiða til lykta með uppbyggilegri hætti.
Bjarni sagði of mikið gert úr stöðu Íslands í aðildarviðræðunum. Hverju myndi það skipta að fá þá niðurstöðu að ekki ætti að slíta viðræðum eða að ríkisstjórnin taki þá ákvörðun að fara ekki í viðræðuslit þegar fyrir liggur að hún ætlar ekki að standa í viðræðum?
Hann sagði þetta formsatriði enda sé Ísland ekki í aðildarfasa, ekki í viðræðum. Og ef það fáist meirihluti fyrir aðild að ESB í framtíðinni sé hægt að sækja um að nýju og ljúka viðræðum á einu kjörtímabili.
Guðmundur vísaði í stjórnarsáttmálann þar sem segir að hlé verði gert á aðildarviðræðum við ESB. Þar komi hins vegar ekki fram að slíta beri viðræðunum. Þá hafi stjórnarflokkarnir ekki greint frá því í kosningabaráttunni að þeir hygðust gera það. Sökum þessa hafi stjórnarflokkarnir ekki umboð til að slíta viðræðunum og þurfi til þess að sækja sér umboð með alþingiskosningum.
![]() |
Tillaga um slit innan fárra daga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 19. janúar 2015
Þýskir fjölmiðlar húðskamma Seðlabanka ESB
Þýskir fjölmiðlar vanda Seðlabanka evrunnar ekki kveðjurnar um þessar mundir fyrir áformin um að fleyta peningum í hagkerfi evrulandanna með kaupum á ríkisskuldabréfum í þeirri von að þannig aukist eftirspurn og hagvöxtur. Frá upphafi var það nefnilega bannað að evruseðlabankinn fjármagnaði opinberar skuldir. Með lagaflækjum hefur verið fundin leið framhjá því lagaboði og fyrir vikið eru þýskir fjölmiðlamenn margir hverjir rauðir af bræði.
Svo segir Financial Times.
Gagnrýnin í Þýskalandi er af margvíslegum toga. Angela Merkel, sem hefur margítrekað að evrukreppan sé ekki að baki, óttast að það muni verða skattgreiðendur í Þýskalandi og öðrum vel stæðum ríkjum sem muni þurfa að greiða reikninginn fyrir önnur lönd. Hans-Werner Sinn, einn af virtari hagfræðingum í Þýskalandi og stjórnandi IFO efnahagsstofnunarinnar, segir að ríki á jaðarsvæðunum og seðlabankar þeirra séu nú þegar svo skuldsett að þau muni ekki geta bætt meiru á sig.
Hið víðlesna blað, Bild, segir að lækkun evrunnar muni koma í veg fyrir nauðsynlegar umbætur í hagkerfum evrulandanna. Hið virta blað, Frankfurter Allgemeine, hefur miklar efasemdir um að þensluaðgerðir evrubankans muni skila árangri til lengdar. Meira að segja fulltrúi Þýskalands í stjórn evrubankans, Sabine Lautenschläger, hefur miklar efasemdir um árangur væntanlegra aðgerða.
Það verður því fróðlegt að sjá hvernig væntanlegar aðgerðir Seðlabanka evrunnar muni líta út í lok vikunnar og enn fremur verður fróðlegt að sjá hvort þær komi til með að draga úr fylgi vinstrabandalagsins Syriza í kosningunum á Grikklandi á sunnudag. Syriza hefur sem kunnugt er boðað að horfið verði frá harkalegum sparnaðaraðgerðum í boði ESB og AGS nái bandalagið áhrifum við stjórn landsins eftir kosningarnar.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 16. janúar 2015
Margrét Tryggvadóttir: ESB-umsóknin átti bara að vera könnunarviðræður
Ásthildur Cesil Þórðardóttir bloggari fjallar um bók Margrétar Tryggvadóttur, Útistöður, sem kom út á síðasta ári. Bókin er greinilega fróðleg lesning um sýn nýs þingmanns á störf Alþingis og í stjórnmálaflokkunum. Margrét fjallar þar meðal annars um Evrópusambandsumsóknina sem hún segir að margir hafi skilið sem saklausar könnunarviðræður án þess að menn vildu eða ætluðu sér inn.
Í bloggi sínu segir Ásthildur: Menn fara mikinn vegna yfirlýsinga forystumanna stjórnarflokkanna um að afturkalla ESB umsóknina. Hótanir um að standa vaktina niður á Austurvelli og jafnvel safna undirskriftum. Ég spyr bara hvar var þetta fólk þegar ákveðið var að sækja um? Ég hef verið að lesa bókina hennar Margrétar Tryggvadóttur, frábær bók og afar upplýsandi um alþingi og alþingismenn og starfsandann og RÉTTLÆTIÐ þar á bæ. Ráðlegg fólki að kaupa hana og lesa vandlega, því svo sannarlega opnar hún glugga inn í dýragarðinn Alþingi."
Síðan vitnar Ásthildur í skrif Margrétar um umsóknina um aðild að ESB:
"Evrópusambandsumsóknin.
Ég skildi þetta ferli á eftirfarandi hátt og veit um fjöldan allan af fólki sem skildi þetta á sama hátt fyrir kosningar. Við sækjum um aðild að ESB en þetta eru í raun og veru eins konar könnunarviðræður þar sem við fáum að sjá hvað er í boði en við erum samt eiginlega ekki að sækja um aðild að ESB heldur kanna hvort kröfum okkar verði mætt. Ef okkur líkar illa við þann samning sem okkur verður boðinn getum við alltaf afþakkað og haldið áfram þar sem frá var horfið. Við erum sem sagt að fara í könnunnarviðræður því að það er ekki víðtækur meirihluti, hvorki á Alþingi né meðal þjóðarinnar um stuðning við að ganga í Evrópusambandið.
Svo segir Margrét: Það fóru hins vegar að renna á okkur tvær grímur þegar við áttuðum okkur á tengslum Icesave- málsins og ESB umsóknarinnar og þeim mikla hraða sem átti að vera á umsókinni. Það átti sem sagt að vera sérstaklega hentugt fyrir okkur að sækja um þegar Svíar væru með forsæti í ESB og því var alls ekki hægt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort rétt væri að leggja af stað í þennan leiðangur því það væri of tímafrekt. Eftir á að hygga held ég að það hafi verið stórkostleg mistök að fá ekki samþykki þjóðarinnar fyrir aðildarumsókninni, sér í lagi þar sem annar stjórnarflokkurinn var í raun á móti öllu þessu brölti.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. janúar 2015
Ályktanir VG um ESB
Á landsfundi vorið 2013 ályktaði VG um Evrópusambandsmálin að Íslandi væri best borgið utan ESB. Flokkurinn vildi setja aðildarviðræðum tímamörk, til dæmis 1 ár frá kosningum. Það ár er nú löngu liðið. Hvers vegna gengur VG enn gegn stefnu sinni í þessum málum?
Á landsfundi flokksins árið 2011 samþykkti VG:
Vinstrihreyfingin grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Landsfundurinn ályktar að í yfirstandandi aðildarviðræðum beri að hafna því að Ísland afsali sér forræði og yfirstjórn sjávarauðlinda innan íslenskrar efnahagslögsögu og leggur áherslu á að Ísland haldi samningsrétti vegna deilistofna á Íslandsmiðum, s.s. makríl, kolmunna, úthafskarfa, loðnu og norsk-íslensku síldinni. Sama á við hvað varðar umfang á stuðningi við íslenskan landbúnað svo og um náttúruauðlindir sem fyrirhugað er að lýsa þjóðareign í nýrri stjórnarskrá.
Landsfundurinn bendir á þá miklu skerðingu lýðræðis sem felst í ESB-aðild ásamt fullveldisafsali á fjölmörgum sviðum. Þróun innan ESB að undanförnu, nú síðast vegna átaka um framtíð evru-samstarfsins, stefnir í átt að enn frekari samruna með hertri miðstýringu. Með Lissabon-sáttmálanum er einnig kominn vísir að samstarfi um utanríkis- og hernaðarmálefni. Jafnframt eiga félagsleg sjónarmið, umhverfisvernd, fæðu- og matvælaöryggi og réttindi launafólks undir högg að sækja innan sambandsins. Þá mun VG tryggja að íslenskt stjórnkerfi verði ekki aðlagað stjórnkerfi ESB á meðan á aðildarviðræðum stendur.
Landsfundurinn telur það vera eitt af forgangsverkefnum VG, flokkseininga og þingflokks, að herða róðurinn við að upplýsa þjóðina um eðli og afleiðingar ESB-aðildar.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 15. janúar 2015
Ársfrestur sem Katrín gaf í ESB-umsóknina er löngu liðinn
Fyrir tæpum tveimur árum sögðust Vinstri græn gefa ESB-viðræðunum ár til viðbótar. Nú er það ár liðið - reyndar nánast komin tvö ár. Enginn árangur varð af viðræðum sem reyndar runnu út í sandinn fljótlega eftir fund Vinstri grænna fyrir tveimur árum sem samþykkti ályktun um árs frest. Er þá ekki kominn tími til að Vinstri græn fylgi þeirri stefnu sinni að halda Íslandi utan ESB?
![]() |
Vilja enn þjóðaratkvæði um aðildarumsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 14. janúar 2015
Það er eðlilegt að draga umsóknina að ESB til baka
Það er skýr stefna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að draga umsóknina um aðild að ESB til baka. Það er í samræmi við samþykktir flokkanna og stjórnarsáttmálann.
Samfylkingin spurði ekki þjóðina áður en hún hóf hina sneypulegu för til Brussel. Alþingi samþykkti ferlið. Umsóknin endaði utan vegar með Samfylkinguna við stýrið. Þáverandi stjórn gafst upp á umsókninni. Það er því eðlilegt að Alþingi samþykki afturköllun umsóknarinnar.
![]() |
Vilja draga umsóknina til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 13. janúar 2015
ESB og sjávarútvegur á Íslandi
Halldór Ármannsson, formaður Landssambands smábátaeigenda á Íslandi, flutti áhugavert erindi á ráðstefnu Nei við ESB í mars á síðasta ári. Hann greindi í upphafi frá því að hann hefði svo sem enga fyrirfram mótaða skoðun og að hann hefði notað tækifærið þegar skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands kom út til þess að skoða málið gaumgæfilega (endurbirt frá 29. mars 2014).
Halldór rakti í erindi sínu nokkur mikilvæg atriði með hliðsjón af skýrslu Hagfræðistofnunar og setti fram fjölmörg efnisatriði sem máli skipta. Við höfum fengið leyfi Halldórs til þess að birta þessi efnisatriði og viljum hvetja lesendur til þess að skoða þau vegna þess að þau segja mikla sögu um þróun og stöðu mála.
Í heildina séð er sjávarútvegsstefna Íslands ekki í samræmi við réttarreglur ESB samkvæmt skýrslunum. Þá séu núverandi höft í sjávarútvegsgeiranum á staðfesturétti, frelsi til að veita þjónustu og frjálsum fjármagnsflutningum ásamt stjórn á sameiginlegum fiskistofnum ekki í samræmi við réttarreglur ESB.
Sjávarútvegsstjórinn boðaði refsiaðgerðir í lok árs 2010 í kjölfar þess að samningaviðræður höfðu engan árangur borið.
Margir viðmælendur skýrsluhöfunda telja að Evrópusambandið hafi viljað setja opnunarviðmið vegna sjávarútvegskaflans sem fram kæmi í rýniskýrslu.
Menn þorðu ekki að kíkja í pakkann
Eins og kemur fram í skýrslunni þá hafa nokkrir kaflar ekki verið opnaðir ennþá og þar á meðal er kaflinn um sjávarútveg. Það hefur legið fyrir nokkuð lengi að það þyrfti að opna þessa kafla til þess að hægt yrði að kíkja í pakkann eins og margir orða það en aldrei hefur komið að þeim tímapunkti að það væri gerlegt.
Sé miðað við opnunarviðmið sem lögð voru fram vegna kafla um landbúnað og dreifbýlisþróun má ætla að slíkt hefði kallað á gerð tímasettrar aðgerðaráætlunar Íslendinga um hvernig og hvenær þeir hygðust aðlagast löggjöf og stefnu Evrópusambandsins.
Ísland gat ekki komið með áætlun um aðlögun að stefnu ESB í sjávarútvegsmálum
Óvíst er hvað það hefði haft í för með sér ef slíkt opnunarviðmið hefði verið sett fram, en ef haft er í huga hve ólíkar áherslur eru í stefnu Íslands og Evrópusambandsins er vandséð hvernig Ísland hefði getað komið með áætlun um aðlögun að stefnu Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum.
Þá má nefna að í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar Alþingis er sérstaklega fjallað um mikilvægi þess að halda þeim möguleika opnum að Íslendingar haldi áfram að veiða hvali.
Engar undanþágur vegna hvalveiða
Hjá Evrópusambandinu falla hvalveiðar undir kaflann um umhverfismál. Í ljósi þess að mikil andstaða er við hvalveiðar í Evrópusambandinu og að þýska þingið ályktaði sérstaklega að sett skyldi það skilyrði fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu að Íslendingar hættu að veiða hvali, er ljóst að litlar líkur eru til að hægt hefði verið að semja um undanþágur frá hvalveiðibanni.
Mitt mat á þeirri stöðu er að heildstæð stefna í sjávarútvegsmálum hefur ekki legið fyrir hérna á Íslandi, vegna afstöðu stjórnvalda til þess hvernig haldið skuli á málum í þessum efnum. Það hafa verið lögð fram frumvörp á alþingi sem að ekki hafa náð fram að ganga og því er stefna stjórnvalda varðandi fiskveiðar við Ísland, í lausu lofti til lengri tíma litið.
Líkt og ítarlega er fjallað um í Viðauka III eru heimildir Evrópusambandsins til að setja löggjöf í sjávarútvegmálum mjög víðtækar og fer sambandið með óskipt vald yfir varðveislu auðlinda í sameiginlegri fiskveiðistefnu. Varðveisla nær ekki einungis yfir reglur um leyfilegan hámarksafla og tæknilegar verndarráðstafanir, heldur til stjórnunar í víðari skilningi, s.s. til markaðsmála og skiptingu kvóta milli aðildarríkja.
ESB tæki yfir gerð þjóðréttarlegra samninga
Þá er ljóst að Evrópusambandið hefur eitt vald til að vera í fyrirsvari og gera þjóðréttarlega samninga við ríki utan sambandsins er snerta fiskveiðar, sem og aðra samninga er varða alþjóðleg hafsvæði.
Reynsla af inngöngu annarra þjóða sýnir að erfiðlega hefur gengið að fá varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Hins vegar hafa fengist tímabundnar undanþágur.
Hugsanlega væri hægt að hugsa sér að Ísland yrði skilgreint sem sérstakt fiskveiðistjórnunarsvæði innan sameiginlegrar fiskveiðistjórnunarstefnu Evrópusambandsins, en hvaða þýðingu það hefði fyrir stjórn fiskveiða hér við land er óljóst, m.a. vegna þess að stjórnunin sjálf væri þá háð Evrópureglum. Eftir stendur að þau lönd sem sækja um aðild að Evrópusambandinu gangast undir hina sameiginlegu fiskveiðistefnu og allar breytingar á henni í framtíðinni verða einungis ákveðnar á vettvangi sambandsins.
Almennt má segja að stækkunarferlið sem Ísland gekk inn í einkennist af auknum skilyrðum fyrir inngöngu, sé miðað við það sem áður tíðkaðist. Þrátt fyrir bjartsýni um annað virðist hafa verið lítil ástæða til að ætla að Ísland fengi aðra meðferð í umsóknarferli en þau önnur lönd sem voru að sækja um aðild á sama tíma. Þegar hlé var gert á viðræðum við Evrópusambandið höfðu 27 kaflar verið opnaðir og 11 þeirra lokað til bráðabirgða. Þá höfðu 6 kaflar ekki enn verið opnaðir en samningsafstaða lá fyrir í tveimur þeirra, þ.e. kafla um matvælaöryggi og dýra- og plöntuheilbrigði og kafla um dóms- og innanríkismál.
Samningsafstaða lá ekki fyrir í fjórum köflum, þ.e. landbúnaðarkafla, sjávarútvegskafla, kafla um frjálsa fjármagnsflutninga og kafla um staðfesturétt og þjónustufrelsi. Það verður að teljast óheppilegt við mat á stöðu viðræðnanna nú að ekki tókst að opna þessa kafla.
ESB hefur vald til að setja lög í fiskveiðimálum
Stofnanir Evrópusambandsins hafa vald til þess að setja afleidda löggjöf í fiskimálum sambandsins í mjög víðtækum mæli. Þá fer Evrópusambandið eitt með óskiptar valdheimildir yfir varðveislu auðlinda í sameiginlegu fiskveiðistefnu sambandsins.
Hefðum ekki fengið að veiða makríl í ESB
Þá er enn ósamið á milli ESB og Íslands um deilingu makrílstofnsins og óljóst hvernig hægt verður að ná samkomulagi þar um. Þar tel ég að við séum í betri stöðu vegna þeirrar sérstöðu sem að við erum í að makríllinn er að ganga í meira mæli inní okkar lögsögu og skapa þannig meiri gjaldeyristekjur fyrir okkur með auknum veiðum okkar á honum. Ef við hefðum verið komin inn í Evrópusambandið áður en makríllinn hefði verið farinn að ganga í þessu magni inn í okkar lögsögu þá værum við ekki að horfa á Íslensk skip veiða makrílinn fyrir framan bæjardyrnar hjá okkur. Þá stæðum við frammi fyrir því að vera með örlítið brot af þeim veiðiheimildum sem að við getum þó veitt í dag. Þar værum við smábátasjómenn í þeirri stöðu að þurfa að horfa á þennan fisk synda með ströndum landsins og sópa í sig æti og gætum ekkert gert í þeim efnum til þess að reyna að veiða þennan fisk.
Orðin varðveisla auðlinda eru skýrð vítt og ná ekki aðeins til reglna um leyfilegan hámarksafla og tæknilegar verndarráðstafanir heldur einnig til reglna um markaðsmál og skiptingu kvóta milli aðildarríkjanna og fleiri atriða. Af því leiðir að aðildarríkin fara ekki með sjálfstætt vald á þessu sviði og nálægðarreglan gildir ekki.
Samkvæmt ákvæðum sambandsréttarins hefur sambandið eitt vald til að vera í fyrirsvari og gera þjóðréttarsamninga við ríki utan þess, hvort sem um er að ræða rétt aðildarríkja sambandsins til fiskveiða í lögsögu þriðju ríkja eða rétt þriðju ríkja til veiða í lögsögu sambandsins.
Þessu til viðbótar fer sambandið með vald til að gera samninga um alþjóðleg hafsvæði. Aðildarríkin fara almennt ekki með umræddar heimildir eftir inngöngu í sambandið.
Engar varanlegar undanþágur
Skoðun nokkurra helstu aðildarsamninga leiðir í ljós að nýjum aðildarríkjum hefur ekki tekist að fá varanlegar undanþágur frá hinni sameiginlegu stefnu Evrópusambandsins í fiskimálum þrátt fyrir tilraunir í þá átt.
Sú staðreynd að stofnunum sambandsins hefur verið falið víðtækt vald til lagasetningar á tilteknu sviði útilokar að jafnaði vald aðildarríkjanna að sama skapi. Það leiðir því af almennum reglum sambandsréttar að lagasetningarvald um sjávarútveg er hjá sambandinu en ekki aðildarríkjunum en telja verður að þau hafi afsalað sér rétti til að setja reglur á þessu sviði, a.m.k. í öllum aðalatriðum. Varðveisla líffræðilegra auðlinda fellur undir óskiptar valdheimildir ESB. Orðasambandið, varðveisla líffræðilegra auðlinda er hins vegar túlkað vítt og nær t.d. til reglna um leyfilega hámarksafla, tæknilegra verndarráðstafana og skiptingu kvóta milli aðildarríkjanna.
Allir við sama borð og ESB ræður í sjávarútvegsmálum
Ástæðan er einfaldlega sú að öll aðildarríkin eiga að mati Evrópusambandsins að sitja við sama borð. Með öðrum orðum eiga leikreglurnar að vera þær sömu fyrir þau öll. Það á auðvitað alveg sérstaklega við um málaflokka þar sem tekin hefur verið upp sameiginleg stefna og sambandið fer að verulegu leyti eitt með vald eins og í landbúnaðar- og fiskveiðimálum.
Niðurstaða: Umræddur málaflokkur er í aðalatriðum á valdi ESB.
(Endurbirt frá 29. mars 2014)
Mánudagur, 12. janúar 2015
Páfinn segir ESB-löndin týnd í eigin heimi
Það er nú fróðlegt að rifja upp ummæli Frans páfa þegar hann ávarpaði ESB-þingið í Strassborg í Frakklandi fyrir áramót. Páfa var þá tíðrætt um tvö megin vandamál sem ESB-ríkin hefðu ekki getið tekið almennilega á. Hið fyrra var atvinnuleysi ungs fólks og hið síðara var tengt straumi innflytjenda og flóttamanna til Evrópu.
Páfi sagði að ESB-ríkin (það eru jú þau sem aðallega eiga hér í hlut) yrðu að koma í veg fyrir að Miðjarðarhafið breyttist í risastóran kirkjugarð. Það yrði að taka betur á móti flóttamönnum með sameinuðu átaki.
Atvinnuleysi ungs fólks er um 50 prósent í sumum ESB-ríkjunum. Slíkt ástand geti grafið undan stofnunum samfélagisns og lýðræðinu.
Sjá meðal annars hér á Eyjunni frá ávarpi páfa.
Sjá einnig hér í The Guardian.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 11. janúar 2015
Gefast upp á hræðsluáróðri ESB í Grikklandi
Útlit er fyrir sigur bandalags vinstri manna og græningja í þingkosningunum í Grikklandi að hálfum mánuði liðnum. Grikkir eru orðnir þreyttir á því að margra ára aðhaldsaðgerðir að ósk ESB, AGS og Seðlabanka ESB í samráði við grísk stjórnvöld hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Enn er 25% atvinnuleysi í landinu og þrjár milljónir manna, tæplega þriðjungur þjóðarinnar, lifir undir fátæktarmörkum.
Áróður ESB-forystunnar og sumra grískra stjórnmálamanna um að Grikkir yrðu neyddir til að yfirgefa evruna ef Syriza, bandalag vinstri manna og græningja, ynni kosningarnar og kæmi í framkvæmd stefnumálum sínum um að draga úr aðhaldi í opinberum fjármálum. Hræðsluáróðurinn gengur út á að allt fari á verri veg ef vinstragræna bandalagið vinnur. Grikkir eru hins vegar orðnir það þreyttir á því hrikalega ástandi sem verið hefur í landinu eftir fjármálahrunið að áróður af þessu tagi bítur ekki lengur. Hann virðist þvert á móti hafa öfug áhrif og laða ýmsa hægfara kjósendur að samtökunum í þetta sinn. Þessir kjósendur eru einnig óánægðir með það sem þeir telja vera afskipti forystumanna ESB-ríkja af kosningunum í landinu.
Það eru tvær vikur til kosninga. Þótt margt geti gerst á þeim tíma gera margir stjórnmálaskýrendur í Grikklandi ráð fyrir því að VG-bandalagið muni halda forystu sinni. Sigri samtökin í kosningunum verður fróðlegt að fylgjast með því hvort þeim takist að koma stefnumálum sínum í framkvæmd og hver viðbrögð ESB-forystunnar verða þá.
Sjá nánar um þetta meðal annars hér (RUV) og hér (Guardian/Observer).
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- Einn pakki, enginn valkostur
- Regluvæðingin ryður samkeppni úr vegi
- Öryggismál og Brusselspuni
- Þjóðaratkvæðagreiðsla eða inngönguyfirlýsing?
- Þögnin sem breytir pólitískri merkingu
- Tollfríðindi okkar við ESB eru ekki afsprengi EES
- Hagsmunir Íslands eiga að hafa forgang
- Frumvarp Þorgerðar Katrínar um bókun 35 stærra en Icesave o...
- Hvers vegna ætti Evrópusambandið að refsa Íslandi?
- Lilja Dögg gagnrýnir umræðu um mögulega refsitolla frá ESB
- Kristrún hér er nesti til Brussel!
- Bara upp á punt
- Bara ef við hefðum gengið í sambandið....
- Skynsemin ræður í Noregi
- Bókun 35 - nokkur atriði sem Alþingi ætti að ræða
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 135
- Sl. sólarhring: 182
- Sl. viku: 1551
- Frá upphafi: 1214437
Annað
- Innlit í dag: 128
- Innlit sl. viku: 1432
- Gestir í dag: 122
- IP-tölur í dag: 120
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar