Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2015

Íslendingar eru ekki hrifnir af evru og ESB

Samkvæmt þessari könnun Gallup fyrir Viðskiptablaðið er meirihluti Íslendinga því andvígur að taka upp evru. Mikill meirihluti þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn eru á móti evrunni og eins meirihluti Vinstri grænna.

Hafa ber í huga í þessu samhengi að meirihluti Íslendinga er einnig andvígur því að gerast aðili að ESB. 


mbl.is Fleiri á móti evru en með
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri græn og sjálfstæðismenn þurfa að skerpa sig í Evrópumálum

Það er fróðlegt að skoða þær tillögur sem liggja fyrir til samþykktar á landsfundum vinstri grænna og sjálfstæðismanna sem haldnir verða um næstu helgi. Báðir flokkarnir vilja að Ísland standi utan ESB og hvorugur vill taka upp evru samkvæmt þeim drögum að landsfundarsamþykktum sem aðgengilegar eru á vefsvæðum flokkanna. Báðir flokkarnir fara þó undan í flæmingi þegar mat á stöðu umsóknarinnar frá 2009 er skoðað.  

Það er athyglisvert hvað varðar vinstri græn að í fyrstu útgáfu af landsfundarályktunum frá 2. október er hvorki minnst á ESB, evru né Evrópu. Orðið utanríkismál kemur ekki einu sinni fyrir í þeim drögum að því er best verður séð. Í öðrum drögum sem dagsett eru 19. október er búið að bæta úr þessu. Þar segir skýrum stöfum að Ísland skuli standa utan ESB. Annað er ekki um Evrópumálin og ekkert sjáanlegt um evruna. Þar er heldur ekkert fjallað um stöðu þeirrar umsóknar sem send var um aðild að ESB árið 2009. Vinstri græn hafa til þessa viljað klára það umsóknarferli þótt það sé algjörlega í andstöðu við þá yfirlýstu stefnu flokksins að standa fyrir utan ESB. Það má í þessu samhengi minna á að flokkur vinstri grænna var stofnaður beinlínis til þess að standa gegn umsókn um aðild að ESB. Enn er þó í gildi samþykkt landsfundar flokksins frá 2013 um að ljúka skuli viðræðum við ESB. Á meðan Vinstri græn hafa ekki tekið afdráttarlausa afstöðu um afturköllun umsóknarinnar eða hafa fallið frá henni fyrir sitt leyti verður að telja að flokkurinn sé enn sömu skoðunar og hann var þegar hann stóð að umsókninni sumarið 2009. Vinstri græn, Samfylkingin og fleiri stóðu svo saman að tillögu um framhald umsóknarinnar á þingi síðasta vetur. Komi ekkert nýtt fram virðist ljóst að það er í raun lítill munur á vinstri grænum og Samfylkingunni hvað þetta varðar.

Sjálfstæðismenn segja í sínum drögum að ályktun um utanríkismál að Sjálfstæðisflokkurinn árétti að hagmunir Íslands séu best tryggðir með því að standa utan Evrópusambandsins og því að aðildarviðræðum við ESB hafi verið hætt. Mikilvægt sé að tryggt verði að aðildarviðræður verði ekki teknar upp að nýju án þess að þjóðin verði spurð hvort hún óski eftir aðild að Evrópusambandinu. Það er hins vegar ekkert komið til móts við þau sjónarmið fjölda sjálfstæðismanna að umsóknin verði formlega afturkölluð. Umsóknin er því látin liggja í lausu lofti eins og hjá vinstri grænum.

Ljóst er að þeir flokkar sem eru í stjórnarandstöðu á Alþingi hafa litið svo á að umsóknin frá 2009 sé í fullu gildi. Því geti ríkisstjórn á næsta kjörtímabili, kjósi hún svo, tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið á síðasta kjörtímabili. Þetta undirstrikaði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á fundi hjá Heimssýn nýlega. Yfirlýsing núverandi stjórnarflokka um að umsóknarferlinu sé hætt er samkvæmt því ekki bindandi fyrir þá sem stóðu að umsókninni á sínum tíma.  

Fróðlegt verður að sjá hvaða meðferð þessar tillögur vinstri grænna og sjálfstæðismanna fá á landsfundum flokkanna. Við í Heimssýn munum fylgjast með af áhuga en áréttað skal að Heimssýn hefur hvatt til þess að umsóknin verið refjalaust og formlega afturkölluð þannig að ekkert fari á milli mála í þeim efnum.


Íslendingar forðast reglufargan ESB

Meðfylgjandi frétt mbl.is ber sýnir að Íslendingar eru ekki nema að litlum hluta í Evrópusambandinu. Síðustu tvo áratugi, frá því EES-samningurinn var innleiddur, hefur Ísland aðeins tekið upp einn tíunda hluta "gerða" sem settar hafa verið af ESB. 

Þetta leiðir hugann að drögum að landsfundarályktun sjálfstæðismanna fyrir landsfundinn sem er framundan þar sem segir að brýnt sé að spyrna fótum við íþyngjandi regluverki innan EES.

Frétt mbl.is er hér í  heild sinni:

Sam­tals hafa verið tekn­ar upp 3.799 gerðir frá Evr­ópu­sam­band­inu í samn­ing­inn um Evr­ópska efna­hags­svæðið (EES) und­an­far­inn ára­tug. Þetta kem­ur fram í svari Gunn­ars Braga Sveins­son­ar ut­an­rík­is­ráðherra við skrif­legri fyr­ir­spurn frá Guðlaugi Þór Þórðar­syni, þing­manni Sjálf­stæðis­flokks­ins. Sam­an­tekt­in tek­ur til til­skip­ana, reglu­gerða og ákv­arðana sam­bands­ins.

Heild­ar­fjöldi gerða sem sett­ar voru af Evr­ópu­sam­band­inu á sama tíma­bili, þ.e. 2005-2014, tel­ur 23.873 gerðir sam­kvæmt svar­inu. Fram kem­ur að um sé að ræða gerðir á öll­um mála­sviðum sam­bands­ins. Einnig þeim sem falli utan gild­is­sviðs EES-samn­ings­ins. Jafn­framt séu tald­ir með úr­sk­urðir í formi ákv­arðana sem kunni að bein­ast að fyr­ir­tækj­um. Sam­svar­andi ákv­arðanir í tveggja stoða kerfi EES-samn­ings­ins séu tekn­ar af Eft­ir­lits­stofn­un EFTA.

Fram kem­ur að lang­flest­ar þeirra 3.799 gerða sem tekn­ar hafi verið upp í EES-samn­ing­inn eigi við um Ísland og hafi verið inn­leidd­ar hér á landi. „Þó ber að taka fram að inni í þess­um töl­um eru ein­staka gerðir sem ekki eiga við um Ísland, t.d. gerðir er varða viðskipti með lif­andi dýr,“ seg­ir enn­frem­ur.

Hliðstæð fyr­ir­spurn var lögð fram fyr­ir um ára­tug af Sig­urði Kára Kristjáns­syni, þáver­andi þing­manni Sjálf­stæðis­flokks­ins, sem náði til tíma­bils­ins 1994-2004 eða frá því að EES-samn­ing­ur­inn tók gildi hér á landi. Sé miðað við tíma­bilið 1994-2014 voru í heild­ina 62.809 gerðir samþykkt­ar á vett­vangi Evr­ópu­sam­bands­ins sam­kvæmt svör­un­um tveim­ur. Þar af voru 6.326 tekn­ar upp í samn­ing­inn eða um 10% heild­ar­fjöld­ans.


mbl.is Tekið upp 10% regluverks ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tómas Ingi Olrich á aðalfundi Heimssýnar á fimmtudagskvöldið

Aðalfundur Heimssýnar verður haldinn á fimmtudagskvöld, 22. október, klukkan 19:30 á Hótel Sögu. Sérstakur gestur fundarins verður Tómas Ingi Olricht, fyrrverandi menntamálaráðherra, þingmaður og sendiherra. 

Við hvetjum félaga í Heimssýn til að mæta og hlýða á afar áhugavert erindi Tómasar Inga, taka þátt í aðalfundarstörfum og kjósa nýja stjórn. 

Dagskrá verður með þessum hætti:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt samþykktum félagsins.
  2. Erindi: Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi ráðherra og sendiherra.
  3. Önnur mál.

Með bestu kveðju og von um að sjá ykkur sem flest á fundinum fimmtudaginn 22. þessa mánaðar. 

Framkvæmdastjórnin.


Ný rannsókn segir evruríki ver stödd en Ísland eftir kreppuna

Nýverið hélt doktorsnemi frá háskólanum í Limerick á Írlandi erindi hér á landi. Erindið hefur víst farið fram hjá flestum en niðurstöður rannsókna þessa doktorsnema eru þó afar athyglisverðar fyrir Íslendinga. 

Doktorsneminn, Hamid Raza, segir þannig að aðlögun eftir fjármálakreppuna hafi verið mun sársaukafyllri á Írlandi en á Íslandi og í Póllandi. Þar segir hann að evrusamstarfið sem Írar taki þátt í sé meginástæðan og það vegna þeirrar innri gengisfellingar sem landið hafi gengið í gegnum, svo sem launalækkanir og uppsagnir starfsmanna. 

Með orðum rannsakandans sjálfs hljóma niðurstöðurnar þannig á ensku:

Sovereign regimes can adjust through external devaluation (Iceland). Recovery in a currency union (Ireland) is more painful due to internal devaluation and has failed on practical grounds so far. Other contrasting examples are Poland and Greece.

Enn fremur segir rannsakandinn:

Policy Outcome in Currency union:

  • Confidence further shattered.
  • Internal devaluation (wage reductions) led to demand compression.
  • This has resulted in long-lasting recession.

Policy Outcome in Sovereign Regimes:

  • Domestic Demand compression due to crisis.
  • Currency devaluation has helped in adjustment e.g. Iceland and Poland.

Fleiri og fleiri átta sig á því hversu efnahagsstjórn getur verið erfið í ríkjum innan myntbandalags. Furðulegt samt hvað þetta getur farið hljótt í fjölmiðlum. Miðað við þessa niðurstöðu er mun betra að vera utan myntbandalags eins og evrusamstarfsins til að komast út úr fjármálakreppu.


Aðalfundur Heimssýnar fimmtudaginn 22. október

Aðalfundur Heimssýnar verður haldinn fimmtudaginn 22. október næst komandi klukkan 19:30 á Hótel Sögu. Sérstakur gestur fundarins verður Tómas Ingi Olricht, fyrrverandi menntamálaráðherra, þingmaður og sendiherra. 

Við hvetjum félaga í Heimssýn til að mæta og hlýða á afar áhugavert erindi, taka þátt í aðalfundarstörfum og kjósa nýja stjórn. 

Dagskrá verður með þessum hætti:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt samþykktum félagsins.
  2. Erindi: Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi ráðherra og sendiherra.
  3. Önnur mál.

Þeir sem hafa áhuga á að bjóða sig fram í stjórn Heimssýnar eru beðnir að senda póst heimssyn@heimssyn.is

Með bestu kveðju og von um að sjá ykkur sem flest á fundinum fimmtudaginn 22. þessa mánaðar. 

Framkvæmdastjórnin.


Efnahagsskrall þrátt fyrir samrunareglur ESB

Flag_of_SpainMeð evrunni átti að komast á stöðugleiki á evrusvæðinu því verðþróun átti að vera með sama móti, og einnig vaxtaþróun og efnahagsþróun. Annað hefur komið á daginn. Þróunin hefur verið sundurleit þar sem Þýskaland hefur til þessa sópað til sín auðæfum á kostnað jaðarsvæðanna. Bæði Þýskaland og Frakkland hafa brotið viðmiðunarreglur um ríkisfjármál. Nú telja þessi ríki sig þess umkomin að vanda um fyrir Spánverjum og fyrirskipa þeim að búa til nýtt fjárlagafrumvarp.

Samrunareglur evrusvæðisins hafa ekki komið í veg fyrir efnahagsöngþveitið sem ríkt hefur víða í álfunni. En nú skulu Spánverjar teknir réttum tökum - ekki seinna vænna.

Mbl.is greinir svo frá:

Fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins fyr­ir­skipaði í dag spænsk­um stjórn­völd­um að leggja fram nýtt upp­kast að rík­is­fjár­lög­um með lægri fyr­ir­huguðum fjár­laga­halla svo tryggja megi að Spánn brjóti ekki í bága við regl­ur sam­bands­ins um rík­is­út­gjöld.

Fram kem­ur í frétt AFP að fyr­ir­mæl­in frá Evr­ópu­sam­band­inu sáu áfall fyr­ir rík­is­stjórn Spán­ar þar sem bú­ist sé við að þing­kosn­ing­arn­ar 20. des­em­ber snú­ist að miklu leyti um efna­hags­mál lands­ins. Sam­kvæmt regl­um evru­svæðis­ins þurfa ríki þess að fá samþykki fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins fyr­ir fjár­laga­frum­vörp­um sín­um.

Fjár­laga­frum­varpið sem lagt var fyr­ir fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins ger­ir ráð fyr­ir 4,5% fjár­laga­halla á þessu ári og 3,5% á því næsta. Þetta tel­ur fram­kvæmda­stjórn­in ekki ásætt­an­legt enda leiði það ekki til þess að fjár­lög verði halla­laus árið 2016 eins og hún hafi gert kröfu um. Regl­ur evru­svæðis­ins gera ráð fyr­ir 3% há­marks­fjár­laga­halla.


mbl.is Hafnar fjárlagafrumvarpi Spánar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur Ólafur Ragnar rétt fyrir sér um Evrópusambandsferlið?

olafur-ragnar-aramot-2008Það dylst engum að herra Ólafur Ragnar Grímson, forseti Íslands, vill ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið. Hann virðist auk þess telja að mun minni hætta sé á því að knúið verði á um inngöngu Íslands í sambandið á þessu kjörtímabili eða því næsta heldur en var á síðasta kjörtímabili. Ástæðan er meðal annars sú að allir stjórnmálaflokkar hafi lofað þjóðaratkvæðagreiðslu ef hefja eigi inngönguferlið að nýju.

Ólafur Ragnar komst svo að orðið í viðtali við Sigurjón Magnús Egilsson í þættinum Á Sprengisandi á bylgjunni í morgun:

„Varðandi Evrópusambandið þá er alveg ljóst að Ísland er ekki lengur umsóknarland,“ segir Ólafur Ragnar. „Og allir flokkar segja að ef það á að hefja þá vegferð á nýjan leik, þá þurfi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort að það eigi að halda því áfram. Þannig að það er með engum hætti hægt að segja að það sé samskonar óvissa núna eins og var 2012.“ (Þetta er tekið af RUV.is).

Hér má spyrja að því hvort það sé nú alveg ljóst að Ísland sé ekki lengur umsóknarland? Það hafa ýmsir dregið það í efa. Og í hvaða skilningi er óvissan minni? Að því leyti að leitað verði til þjóðarinnar áður en hafist verði handa að nýju? Eru ekki töluverðar líkur á því að reynt verði til þrautar að klára aðildarsamning við ESB með þeim aðlögunum sem því fylgir?

Það getur margt gerst í stjórnmálum fram að næstu þingkosningum en væri kosið nú er ljóst að stjórnarflokkarnir myndu tapa og við slíkar aðstæður væru talsverðar líkur á að stjórnarandstöðuflokkarnir myndu mynda stjórn og að eitt af stjórnarmálunum yrði væntanlega að spyrja þjóðina hvort hún vildi ekki klára aðlögunarviðræðurnar. Þótt tryggur meirihluti þjóðarinnar sé á móti aðild er vel hugsanlegt að meirihluti hennar myndi vilja halda áfram að kíkja í þann opna pakka sem ESB er með því aðlögunarferli sem því fylgir. Þá værum við aftur kominn á þá braut sem ýmist hefur verið kennd við koníaksmeðferð, ostaskera eða tannhjólshak; enn sopa í einu, eina sneið í einu eða eitt hak í einu þar til þjóðin er orðin háð koníakinu, búin að innbyrða allan ostinn eða tannhjólið hefur farið óafturkræfan hring.

Það væri óskandi að sú mynd sem Ólafur Ragnar er að reyna að draga upp af stöðunni sé rétt. 

En við getum ekki treyst á það og haldið að málið sé í höfn. Það er svo langt því frá. Þess vegna verðum við að halda vöku okkar - og varast að verða fyrir of miklum áhrifum af þeim sem smám saman þreytast í því að standa í lappirnar í málinu.

Jafnvel þótt auknar líkur séu á því að Bretar muni yfirgefa Evrópusambandið og jafnvel þótt ýmsir spái endalokum ESB vegna þeirra vandræða sem ríki sambandsins hafa ratað í vegna efnahagsöngveitis síðustu ár og flóttamannastraums nú og á næstunni þá er engin ástæða til þess fyrir okkur sem viljum ekki sjá Ísland lúta forræði ESB að slaka á. 

Nú sem aldrei fyrr er ástæða til þess að halda vöku okkar og vera á varðbergi.


mbl.is Tilkynnir um framboð í nýársávarpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flaustur og flýtir í landbúnaðarsamningum

SindriJohannaJonÞað virðist hafa verið eitthvert flaustur og flýtir við undirbúning á þeim landbúnaðarviðskiptasamingum við ESB sem eru í farvatninu. Samráð við hagsmunaaðila virðist hafa verið í skötulíki og lítt hugað að því hve misjafnlega viðskiptasvæðin tvö, og auk þess framleiðendur og neytendur, standa að vígi í þessu máli. Þetta var meðal þess sem mátti skilja á því yfirliti sem Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, flutti á opnum stjórnarfundi Heimssýnar í gærkvöldi.

Meðfylgjandi mynd var tekin eftir fundinn í gærkvöldi en hér eru þau Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, lengst til vinstri, svo Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og varaformaður Heimssýnar, sem var fundarstjóri á fundinum, og svo Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar og fyrrverandi landbúnaðarráðherra, lengst til hægri.

Á fundinum flutti Sindri mjög greinargott yfirlit yfir aðdraganda og helstu efnisatriði væntanlegs samkomulags um gagnkvæman og aukinn tollkvóta með landbúnaðarafurðir sem byggir á EES-samningnum. Sindri sagði að samkomulagið fæli í sér tækifæri fyrir íslenska framleiðendur á skyri og lambakjöti en það tækifæri væri dýru verði keypt. Þótt kvóti fyrir útflutt kindakjöt til ESB ykist og yrði ríflega þrjú þúsund tonn virtist enn óljóst hvort hægt yrði að ná því marki. Enn fremur væru áhrif breyttra kvóta varðandi alifuglakjöt og svínakjöt óljós en meiri vonir virtust bundnar við mögulega aukinn útflutning á skyri. 

Fram kom að innflutningur á nauta- og svínakjöti væri að festa sig í sessi og talsverður þrýstingur væri á aukinn innflutning á alifuglakjöti. Hafa ber þó í huga að innflutningur á hráu kjöti er bannaður, heldur verður það að vera unnið eða frosið í ákveðinn tíma.

Á fundinum komu fram áhyggjur fundarmanna um sýkingarhættu vegna aukins innflutnings á kjöti en heilbrigði innlendra afurða og búfjár er mjög gott. Þá komu fram miklar áhyggjur yfir mismunandi aðstöðu innlendra framleiðenda og erlendra stórframleiðenda sem gætu fleytt rjómann ofan af í dýrustu vörunum. Þá kom einnig fram á fundinum að verslun og aðrir milliliðir skiluðu ekki til neytenda þeim verðlækkunum sem orðið hefðu í verði á sumum afurðum frá framleiðendum. Enn fremur komu á fundinum fram lýsingar á því hvernig innri markaðurinn í ESB hefur gert bændum erfitt fyrir á vissum svæðum á Norðurlöndunum.

Samantekið má segja um þessi drög að samkomulagi að þau hafi verið unnin á of skömmum tíma og án þess að áhrifin af samkomulaginu hafi verið greind með fullnægjandi hætti, en færa mætti rök fyrir því að áhrifin gætu orðið umtalsverð fyrir bændur og landbúnaðarframleiðslu hér á landi og að þau kæmu mjög misjafnlega niður á afkomu einstakra búgreina og héraða. Þá var bent á að ekki sæist betur en að þessi drög að samkomulagi gengju gegn þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að efla landbúnað hér á landi og styðja við fjölþætta innlenda matvælaframleislu. Þá væru þau á skjön við þá umhverfisstefnu að draga úr flutningum á matvælum á milli landa.

Þá var athyglisvert að ekki virtist vera hægt að svara því hvað eða hverjir knúðu á um það að íslensk stjórnvöld vildu með þessum hraða ganga til þessara samninga sem fælu í sér jafn mikla eftirgjöf í tollamálum og raun bæri vitni.


Fundur í kvöld um landbúnað og ESB-málin með Sindra Sigurgeirssyni formanni Bændasamtaka Íslands

sindriSindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, verður gestur á opnum stjórnarfundi Heimssýnar í kvöld, miðvikudagskvöld, 7. október, klukkan 20:00. Á fundinum verður rætt um landbúnaðarmálin og Evrópusambandið. Allir félagsmenn og stuðningsmenn Heimssýnar eru velkomnir.  

Fundurinn er haldinn á þriðju hæð á Hótel Sögu og hefst klkukkan 20:00 í kvöld eins og áður sagði. Á fundinum verður fjallað um landbúnaðarmálin og samninga við Evrópusamabandið.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 112
  • Sl. sólarhring: 154
  • Sl. viku: 691
  • Frá upphafi: 1116884

Annað

  • Innlit í dag: 107
  • Innlit sl. viku: 608
  • Gestir í dag: 104
  • IP-tölur í dag: 103

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband