Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2015

Atvinnurekendur vilja hvorki evru né ESB

Þrátt fyrir hinn gegndarlausa áróður sumra forystumanna atvinnurekenda með hundruð milljóna króna stuðningi frá áróðursmaskínu ESB hér á landi vilja atvinnurekendur almennt hvorki taka upp evru né ganga í ESB. Það er niðurstaða könnunar meðal félagsmanna.

Þar segir að aðeins 19 prósent félagsmanna vilji að Ísland gerist aðili að ESB og 39% að Ísland taki upp evru.


mbl.is Færri fyrirtæki vilja taka upp evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrynur evrusvæðið ef Grikkir fara út?

Varoufakis_hugsiMat embættismanna, stjórnmálamanna og fræðimanna á því hvað gerist ef Grikkland yfirgefur evrusvæðið er dálítið ólíkt. Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands segir að evran falli eins og spilaborg ef Grikkir taki upp annan gjaldmiðil. Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, tekur ekki svo djúpti í árinni en segir að vandamál Grikkja verði ekki leyst með öðrum hætti en að landið hætti í evrusamstarfinu.

Varoufakis skýtur jafnframt föstum skotum á Ítali og segir þá ekki þora að segja sannleikann um efnahagsmálin auk þess sem ítalska ríkið sé að nálgast gjaldþrot.

Ekki batnar þetta fyrir evruna og ESB.


mbl.is Líkir evrunni við spilaborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB í uppnámi eftir stjórnarskiptin í Grikklandi

hjorleifur guttormssonFyrirheit og viðmið um starfsemi Efnahags- og myntbandalags Evrópu hafa verið margbrotin. Pólitísk trú ryður efnahagslegri skynsemi burt. Grikkir hafa gert uppreins gegn vinnubrögðum ESB og gríska bakterían er þegar farin að smita inn í vinstri flokka í Frakklandi og víðar.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í athyglisverðri grein Hjörleifs Guttormssonar sem birt var í Morgunblaðinu í vikunni.

Greinin er birt hér í heild sinni:

 

 ESB í uppnámi eftir stjórnarskiptin í Grikklandi

Forystusveit ESB á ekki sjö dagana sæla á þessum vetri og það sama á við um almenning í mörgum aðildarrríkjum, þar sem atvinnuleysi hefur farið vaxandi, sérstaklega meðal ungs fólks. Stórsigri Syrizaflokksins í Grikklandi fyrir röskri viku má líkja við jarðskjálfta, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum á pólitískt landslag, einnig í öðrum skuldsettum ESB-löndum eins og á Spáni.

Þar kveður sér nú hljóðs fjöldafylkingin Podemos („Við getum“) og skorar bæði sósíaldemókrata og hægriflokkinn PP á hólm. Sameiginleg krafa þessara hreyfinga sem skilgreina sig til vinstri er niðurfærsla skulda af hálfu lánardrottna, stöðvun einkavæðingar og innspýting í efnahagslífið m.a. með opinberum framkvæmdum til að draga úr atvinnuleysi. Fyrstu viðbrögð af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og þýskra stjórnvalda eru eitt stórt NEI, útstrikun og aflétting skulda sé ekki í boði. – Á hinu leitinu eru síðan þjóðernissinnaðir hægriflokkar sem sækja í sig veðrið í krafti andúðar á sívaxandi fjölda innflytjenda og flóttafólks frá Afríku og stríðshrjáðum löndum fyrir botni Miðjarðarhafs. Þessar hræringar geta fyrr en varir breytt pólitísku landslagi í ESB og leitt af sér enn frekari sundrungu innan myntbandalagsins og jafnvel fall evrunnar.

Margir samverkandi þættir

Myntbandalaginu með evru sem gjaldmiðil var komið á um síðustu aldamót og nú eru 19 ríki aðilar að því. Sett voru ákveðin þjóðhagsleg viðmið fyrir þátttöku en fljótlega varð ljóst að þau voru ekki tekin hátíðlega, hvorki af fjölmennum eða fámennum ríkjum. Pólitískar fremur en efnahagslegar ástæður réðu för og fyrirhugaður fjárhagslegursamruni (fiscal union) hefur látið á sér standa. Efnahagsgrunnur evruríkjanna er líka mjög ólíkur og í mörgum þeirra er landlæg spilling, sem ekki hefur tekist að uppræta. Stórfelld tilfærsla fjármuna í skattaskjól eru opinbert leyndarmál og forseti framkvæmdastjórnar ESB, Lúxemborgarinn Jean-Claude Juncker, liggur undir ámæli fyrir að hafa rutt slíkum farvegum braut. Grikkland er eitt af þeim ríkjum þar sem spillt stjórnmálaöfl í samstarfi við auðjöfra hafa haft tögl og hagldir um langt skeið. Þessir aðilar, í samstarfi við ESB, Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og Seðlabanka Evrópu, hafa hert svo ólarnar að grískum almenningi að stór hluti kjósenda þar hefur nú sagt hingað og ekki lengra, og krafan um skuldaniðurfærslu endurómar æ víðar. Í Frakklandi hefur ríkt stöðnun samfara 10% atvinnuleysi og gríska bakterían er þegar farin að smita inn í raðir Sósíalistaflokksins sem er við stjórnvölinn og á nú í vök að verjast frá hægri og vinstri.

Hraðvaxandi samþjöppun auðs

Upplýsingar OECD og fleiri alþjóðastofnana um stöðuga samþjöppun auðs og eigna á æ færri hendur afhjúpar eðli og innviði ríkjandi efnahagskerfis. Þetta gangverk kapítalismans hefur lengi mátt vera lýðum ljóst, en með frjálsum fjármagnshreyfingum samhliða netvæðingu gagnaflutninga á síðasta aldarþriðjungi hefur orðið stökkbreyting sem ýtt hefur svo um munar undir þessa þróun. Jafnframt hefur orðið auðveldara að safna um hana tölfræðilegum upplýsingum og nýir samskiptamiðlar auðvelda almenningi að fylkja sér gegn óréttlætinu. Við blasir að hátt í helmingur af veraldarauði er kominn í hendur um 1% jarðarbúa og ekkert lát er á þeirri samþjöppun. Þessi þróun og ástæður hennar er meginþema í bók franska hagfræðingsins Thomas Pikettys, sem kom út á árinu 2013 og vakið hefurmikla athygli. (Ensk þýðing 2014: Capital in the Twenty-first century). Höfundurinn bendir á að þessi þróun sé ógnun við lýðræði og fé-lagslegan og efnahagslegan stöðugleika og leggur til stighækkandi kapítalskatta til að hamla gegn henni. Í Bandaríkjunum er þetta heitt umræðuefni þar sem þrengir mjög að millistéttarhópum, og svipað er uppi á teningnum innan ESB.

Spár um hrun evrunnar

Úr ýmsum áttum heyrast nú raddir sem spá ekki aðeins vaxandi erfiðleikum á evrusvæðinu, heldur telja að hætta sé á hruni myntsamstarfsins. Þannig taldi ritstjórn tímaritsins Economist sl. haust (25. okt. 2014) að mesti efnahagsvandi heimsins stafaði af verðhjöðnun innan evrusvæðisins. „Á sama tíma og skuldabyrðin vex frá Ítalíu til Grikklands munu fjárfestar fyllast ótta, pópúlískir stjórnmálamenn fá aukinn stuðning og – fyrr en seinna – mun evran hrynja.“ Tveimur dögum fyrir grísku þingkosningarnar greip Mario Draghi, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, til þess örþrifaráðs að láta bankann hefja seðlaprentun í stórum stíl til kaupa á skuldabréfum í von um að hamla gegn áframhaldandi samdrætti. Markmiðið er að ýta undir eyðslu og verðbólgu. Áhrifin á almenning eru að mati Der Spiegel (22. jan. 2015): „Þeir sem spara munu tapa, en lántakendur hagnast.“ Eflaust bíða margir spenntir eftir að sjá hvort þessi hrossalækning skilar einhverju. Hún er hins vegar skýr sýnikennsla í því, hvernig komið er fyrir fullveldi ríkja sem afhent hafa Evrópusambandinu forsjá sinna mála.

Eftir Hjörleif Guttormsson
Höfundur er náttúrufræðingur.


Elín H. og Villi B. fjalla um ESB en ekki VG

ElinHÞað er athyglisvert að sjálfstæðismenn í Kópavogi efna til fundar með Vilhjálm Bjarnason og Elínu Hirst sem frummælendur þar sem rætt er um ESB-umsóknina. Á sama tíma heldur VG flokksráðsfund og virðist ekki ætla að minnast einu orði á ESB-málin.

Talsverðar fréttir hafa borist af flokksráðsfundi Vinstri grænna en engum sögum fer af því hvað Vilhjálmur fjárfestir eða Elín H. sögðu um ESB eða efnahagsmálin.

 

 

 


Jón Baldvin dauðuppgefinn á ESB

jonbaldvinJón Baldvin Hannibalsson, fyrrum formaður Alþýðuflokksins og fyrrum utanríkisráðherra, hefur sannfærst um að Ísland muni ekki ganga í Evrópusambandið. Hann reyndi að koma Íslendingum inn í ESB í gegnum bakdyrnar, þ.e. með EES-samningnum. Nú sér hann að Íslendingar sætta sig ekki við að vera hjálenda ESB.

Jón Baldvin viðrar skoðanir sínar í viðtali við erlendan miðil sem Eyjan vitnar í. Hann segir reyndar að annað efnahagshrun þyrfti til að þröngva Íslendingum í ESB. Hvers vegna skyldi nýtt efnahagshrun þrýsta okkur í ESB fyrst það gamla gerði það ekki?

Það eru meira en 50 ár síðan kratar á Íslandi fóru fyrst að tala fyrir því að Íslendingar gengju í ESB eða forvera þeirra samtaka. Það var Gylfi Þ. Gíslason sem setti inngöngumálin fyrst á oddinn í aðdraganda Alþingiskosninga árið 1963 þegar hann líkti íslenska hagkerfinu við árabát sem ekkert kæmist áfram í samanburði við nýtískulega freigátu Evrópu. Síðan hefur það reyndar gerst að þetta skip Íslendinga hefur fært þá á stall með ríkustu þjóðum. Evrópski dallurinn marar hins vegar í hálfu kafi - og er nánast vélarvana ef tekið er mið af hægaganginum í efnahagslífi margra ESB-ríkja og í sambandinu í heild.

Fimmtíu ára þrautagöngu ESB-krata í öllum flokkum er lokið

Fimmtíu ára barátta ESB-krata í nokkrum flokkum hefur því ekki skilað öðru en því að meirihluti Íslendinga er stöðugt andvígur því að landið verði dregið inn í Evrópusambandið.

Jón Baldvin hefur þá reynslu og yfirsýn eftir hálfrar aldar þátttöku í stjórnmálum á Íslandi að hann gerir sér mætavel grein fyrir því að Íslendingar muni ekki um fyrirsjáanlega framtíð ganga evrópsku valdi á hönd með inngöngu í ESB.


Heimssýn krefst þess að umsókn um inngöngu í ESB verði afturkölluð

Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun:

„Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, ítrekar nauðsyn þess að umsókn Íslands um aðild að ESB verði dregin til baka. Umsóknin var samþykkt og send sambandinu á forsendum sem reynslan hefur sýnt að standast ekki. Samningur um aðild að ESB snýst um skilyrði og tímasetningu fyrir innleiðingu umsóknarríkis á reglum sambandsins. Þessar reglur eru ekki umsemjanlegar eins og fram kemur hjá ESB.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur þá skýru stefnu að Ísland eigi að standa utan ESB. Sú stefna er studd samþykktum æðstu stofnana ríkisstjórnarflokkanna.

Það er mikilvægt fyrir þjóð eins og Íslendinga að þeir haldi fullveldi sínu og forræði í eigin málum. 

Það er því rökrétt framhald að stjórnin leggi til við Alþingi að umsóknin verði dregin til baka og að Alþingi samþykki þá tillögu.“

 


Eyðandi reglugerðarfargan ESB

EUanimalÞau eru mörg undarlegheitin í reglugerðarsmíðinni sem ættuð er frá ESB. Nýverið fréttist af því að bannað væri að taka myndir af kúm til að birta í auglýsingum nema með sérstöku leyfi íslenskrar eftirlitsstofnunar.

Nú munu bændur einnig þurfa að örmerkja allar skepnur. Kýrnar skulu aukinheldur örmerktar á báðum eyrum. Það er gert með tilliti til aðstæðna og krafna á hinu víðfeðma meginlandi ESB-ríkjanna því auknar líkur eru taldar á að hægt verði að rekja uppruna kýrinnar ef annað eyrað yrði viðskila við hitt eyrað og höfuðið í leiðinni á flakki kýrinnar yfir landamæri. Það eru jú meiri líkur á að annað eyrað tolli á höfðinu en bæði í þeirri meðferð sem blessaðar skepnurnar fá.

Íslenskar kýr hafa ratað á sinn rétta bás í þúsund ár. Þeim þykir vissulega gott að fá að sletta daglangt úr klaufunum á vorin og sumrin en rata þó á sinn bás á kvöldin. Nú verða básarnir bannaðir samkvæmt fyrirmælum frá ESB. Er nema von að kýrnar verði þá undarlegar í hegðun eins og sjá má af myndum og sletta ekki bara úr klaufunum heldur spenunum einnig.

Minni lyfjanotkun hér

Vitað er að lyf eru notuð í mun minni mæli fyrir búfénað hér á landi en í Evrópu. Við erum farin að flytja talsvert af nautakjöti inn frá Þýskalandi þar sem lyfjanotkun er mest í Evrópu. En Þjóðverjarnir hafa sín áhrif á lyfjastaðlana. Þeirra kjöt verður jú að vera talið hæft til útflutnings. Vegna hinnar miklu lyfjanotkunar er hægt að framleiða kjötið hraðar og í meiri mæli og fyrir vikið verður það ódýrara.

Þannig grefur útflutningur á lyfvæddu kjöti frá ESB undan framleiðslu í öðrum löndum, ekki bara hér á landi heldur einnig í mörgum vanþróaðri löndum.

Þannig eyðir ESB lífsskilyrðum annars staðar.


Grikkir valda skelfingu - og aðdáun

badlydressedGrikkir eru enn á ný útvörður nýrrar hugsunar og hegðunar í heiminum. Slíkt veldur mikilli skelfingu í íhaldssömum efnahagsbælum heimsins - en hrifningu í hinum róttæku afkimum samfélaga á Vesturlöndum. Það sem orsakar þessa geðshræingu er .... klæðaburður nýrra forystumanna grísku ríkisstjórnarinnar.

Tsipras forsætisráðherra veldur uppnámi þar sem hann fer um fjármálahverfin bindislaus og Varoufakis fjármálaráðherra slær íhaldssama hagsmunaverði elítunnar út af laginu illa girtur og í leðurjakka - en uppreisnaröflin taka andköf af hrifningu.

Kannski þessi óhefðbundni klæðnaður muni duga til að brjóta ísa og lina reglur hjá vörðum fjármálahirslna í Evrópu. Það er bara eitt sem vantar: Það er að þessir menn láti sér vaxa skegg - já og helst snoði sig alveg. Þá tikka þeir í öll box óhefðbundinna stjórmálamanna og bjúrókrata.


Opinn stjórnarfundur Heimssýnar

Á morgun, miðvikudaginn 4. febrúar, verður haldinn opinn stjórnarfundur Heimssýnar um stöðuna í Evrópusambandsmálunum hér heima og erlendis, ekki hvað síst í ljósi nýafstaðinna kosninga í Grikklandi.

Sérstakur gestur fundarins er Hörður Kristjánsson, ritstjóri Bændablaðsins.

Fundurinn verður haldinn á Hótel Sögu og hefst klukkan 20 (í matsal BÍ á þriðju hæð).

Fundurinn er opinn öllum félagsmönnum Heimssýnar.


Eru maðkar í mysu ESB-umsóknarfyrirtækjanna?

arniPUmmæli Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi í gær vekja upp spurningar um hegðun þeirra fyrirtækja og samtaka þeirra sem ákafast berjast gegn því að umsókn um aðild Íslands að ESB verði dregin til baka. Koma þau hreint fram?

Árni Páll tengdi mál Prómens beint við stöðu aðildarumsóknar að ESB. Af svari forsætisráðherra við fyrirspurn Árna Páls mátti varla skilja annað en að fyrirtækið væri að reyna að fá einhvers konar sérstaka fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum, í formi ódýrs gjaldeyris, til þess að fjárfesta erlendis! Slíkt er væntanlega algjörlega á skjön við tilgang gjaldeyrisreglna sem í gildi eru og eiga að tryggja hag almennings í landinu eins og ráðherrar hafa talað um að undanförnu. Bæði forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra segja að umrætt fyrirtæki verði að gera betur hreint fyrir sínum dyrum, fjármála- og efnahagsráðherra hafði t.d. orð á því í hádegisfréttum.

Þetta mál vekur upp margar spurningar. Félag atvinnurekenda hefur rekið upp ramakvein vegna þess að umrætt fyrirtæki fékk ekki meinta umbeðna fyrirgreiðslu. Samtök iðnaðarins taka undir þann söng. Og Árni Páll segir í ræðu á Alþingi merkilegt að þarna séu fyrirtækin sem harðast hafi barist gegn því að umsókn um aðild að ESB verði dregin til baka.
Er þarna maðkur í mysu ESB-fyrirtækjanna? Eru þau að koma hreint fram, samanber ummæli ráðherranna?

Orðrétt sagði Árni Páll

Nú hafa borist fréttir af því að Promens, það metnaðarfulla fyrirtæki, sé komið úr íslenskri eigu og að höfuðstöðvar þess muni flytja úr landi vegna þess að því hafi verið orðið ókleift að starfa innan gjaldeyrishafta. Í athugun fréttastofu Ríkisútvarpsins í gær kemur fram að svipað er upp á teningnum hjá fleiri fyrirtækjum. Þannig segja forsvarsmenn CCP, Creditinfo og Marel að í öllum þessum fyrirtækjum hafi komið til athugunar að flytja höfuðstöðvar úr landi og sumir telja meiri líkur en minni á að af því verði. Það er vert að minna á það líka að í fyrra kom fram hjá forsvarsmönnum Össurar að það fyrirtæki teldi styttast í veru höfuðstöðva hér á landi vegna gjaldeyrishaftanna og það er engin tilviljun heldur að öll hafa þessi fyrirtæki og forsvarsmenn þeirra verið meðal þeirra sem hvað harðast hafa talað gegn hugmyndum ríkisstjórnarinnar um að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Meðal annars sagði stjórnarformaður Össurar í fyrra að tillaga ríkisstjórnarinnar sem þá kom fram um að draga til baka aðildarumsóknina væri síðasti naglinn í líkkistuna í veru fyrirtækisins hér á landi.

 

Hegðun Promens, eins og skilja má hana af ummælum ráðamanna, og rök forsvarsmanna samtaka umræddra fyrirtækja fyrir aðild að ESB hljóta að vekja upp spurningar um maðka í mysunni. Eða hvað?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 830
  • Frá upphafi: 1117722

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 732
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband