Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

Evruvasapeningar til Íslendinga aðeins brot af áróðurspeningum ESB

eurosÞað kostar ESB umtalsverða fjármuni að réttlæta tilvist sína. Sambandið ver umtalsverðum fjármunum í áróður og upplýsingar sambandinu til framdráttar. Hér á landi hefur ESB verið að verja á stærðargráðunni í kringum milljarð króna ef tekið er mið af framlögum til Evrópustofu og hafður í huga kostnaður við kynnisferðir blaðamanna, stjórnmálamanna og fleiri starfsstétta til Brussel.

Þetta er þó aðeins örlítið brot af heildarframlögum ESB til áróðurs- og kynningarmála. Þegar leitað er á netinu koma ýmsar tölur upp úr krafsinu og það er verðugt athugunarefni að kanna til hlítar hvernig þessi mál standa. 

Í The Telegraph sér maður að ESB ver 1,6 milljörðum króna árlega í sjónvarpsstöð til að kynna málefni ESB.

Annars staðar er því haldið fram að ESB verji sem svarar um 40 milljörðum króna árlega í áróður og er þá ótalinn áróður sem felst í skuldbindingu þeirra sem taka við styrkjum að auglýsa ESB með merki þess og ýmiss konar umfjöllun.

Einn miðillinn segir frá því að ESB verji milljónum punda í að stuðla að reglum til að tryggja áhrif ríkisvalds á fjölmiðlum.

Þá má hér finna vefsíðu sem fjallar um það hvernig ESB notar menntakerfi og fræðasamfélag til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. 

Þessi umræða er af ýmsu tagi. Hér er frétt um það hvernig breska þingið samþykkti að veita fjármunum til stuðnings áróðri fyrir því að halda Bretlandi í ESB. 

Hér er vefsíða um áróðursvélina í Brussel

Hér hefur ekki farið fram rannsókn á öllum þessum síðum eða upplýsingum og ekki tekin ábyrgð á því sem þar er borið á borð. Það er hins vegar ljóst að það fé sem ESB ver til áróðursmála, beint eða óbeint, úr eigin sjóðum eða með framlagi úr ríkissjóðum eða sveitarsjóðum aðildarlandanna, eða umsóknarlandanna, er ómælt. Þar er stærðargráðan að lágmarki nálægt hundrað milljörðum króna á ári.

Fimmtíu þúsund krónurnar sem ýmsir, þar á meðal væntanlega blaðamenn, hafa fengið í vasann á meðan þeir spókuðu sig um í Brussel, er bara örlítið brot af þessum áróðurspeningum.

En nú vaknar spurningin: Skyldu þessir fjármunir allir hafa verið taldir fram til skatts? Eða er kannski gengið of nærri styrkþegum með því sð spyrja slíkrar spurningar?

Það er hins vegar nokkurt umhugsunarefni að fyrirbæri skuli þurfa að verja hundruðum milljarða króna árlega í áróður til þess að réttlæta tilvist sína.


Fiskimið Íslands ei það sama og skrautfiskar við Möltu segir Þollý Rósmundsdóttir

ThollyRosmundsdÞollý Rósmundsóttir segir ekki hægt að líkja fiskimiðum við Íslandsstrendur saman við það sem hún kallar skrautfiskamið við Möltustrendur. Það sé heldur ekki um að ræða sambærilegar viðræður og fyrir 20 árum þegar Noregur var í aldildarviðræðum við ESB. Nú gildi Lissabonsáttmálin og því verði aðildarríki að aðlaga sig að regluverki ESB.

Sjá hér og heyr viðtal við Þollý Rósmundsdóttur:

Þess vegna Nei við ESB.


Grískur ráðherra óskar þess að Grikkir hefðu aldrei tekið upp evru

Grikkir óska þess nú margir að þeir hefðu aldrei tekið upp evruna. Þeirra á meðal er fjármálaráðherra Grikkja, Varoufakis. Skuldavandi Grikkja er langt frá því leystur þrátt fyrir að ýmsir neyðarsjóðir og lán hafi verið notuð til að greiða af skuldum þeirra.

Fjallað er um erfiðleikana í Grikklandi í nýlegri skýrslu frá European Bank for Reconstruction and Development. EUObserver greinir frá. Grikkir eru alls ekki lausir við evruvandann.


Með vasana fulla af evrum á leið til Brussel

gullasniHver vill ekki geta fengið frítt far til Brüssel, ókeypis hótel og umslag fullt af evrum í vasann og gæluverkefnastyrki úr sjóðum Evrópusambandsins? Hvers vegna mismunar sendiráð ESB hér á landi þegnum þessa lands og býður aðeins fulltrúum skoðanamótandi elítu þessa lands til veislunnar? Hvers eiga Gvendur og Gunna á Eyrinni að gjalda?

Filippus Makedóníukonungur, faðir Alexanders mikla, sagði að engir borgarmúrar væru það háir að asni klyfjaður gulli kæmist ekki þar yfir.

Að fá frítt far, hótel og umslag með  evrum í vasann

Veit almenningur hér á landi hvað hefur gengið stanslaust á síðustu misseri í utanferðum til Brussel? Ótrúlegur fjöldi, heilar hópferðir sveitarstjórnamanna, starfsmanna bæjarfélaga, fyrirtækja og félagasamtaka og fjölmiðla  hafa streymt í svokallaðar „kynnisferðir“ til Brüssel.

Það er „Sendiráð“ Evrópusambandsins hér á landi sem hefur milligöngu um þessar heimsóknir samkvæmt sérstakri áætlun (European Union Visitors Program). Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu „sendiráðsins“ eru þessar heimsóknir  fjármagnaðar af þingi ESB og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Þar segir: „ Markmiðið er að auka tengsl og gagnkvæma þekkingu á ESB og viðkomandi landi. Hver heimsókn stendur yfir í 5 til 8 daga og er sniðin að þörfum hvers og eins. ESB greiðir fyrir ferðir og uppihald.“

Og hverjir eru það sem geta tekið þátt og þegið þessi boð? Jú, þeir sem „starfa í stjórnmálum, stjórnsýslu, hjá fjölmiðlum, hagsmunasamtökum eða við fræðastörf.“

Hvað með almenning? Hvað með Gunnu og Gvend á Eyrinni? Af hverju er þeim ekki boðið? Skipta skoðanir óbreyttra þegna Evrópulanda engu máli í höfuðstöðvum ESB í Brussel? 

Og „asninn klyfjaður gulli“ er boðinn velkominn

Og hvað er í boði? Jú, frítt far frá heimastað til Brüssel, ókeypis dvöl á hóteli með morgunmat og nokkur hundruð evrur í eyðslufé, afhentar  í umslagi við komuna til Brüssel. Þekkt eru dæmi um að tilteknir einstaklingar hafi fengið, 340 evrur í vasann, um sem svarar 50 þúsund krónum, fyrir utan allan uppihalds- og ferðakostnaðinn, fyrir fjögurra daga ferð.

Það væri fróðlegt að vita hve mörg hundruð sveitarstjórnarmanna og starfsmanna á þeirra vegum svo og fjölmiðla og hagsmunasamtaka hafa fengið slík boð og þegið jafnvel oftar en einu sinni.

Hversu mörgum gullpeningum hefur ESB varið á Íslandi í þessar lúxusferðir elítunnar - fyrir utan þennan hálfa milljarð króna sem Evrópustofa er að verja hér á landi?

Er það að furða þótt sumir í þessum hópi gráti afturköllun umsóknarinnar að ESB? Hver vill ekki geta fengið frítt far til Brüssel, hótel og umslag fullt af evrum í vasann? Er það furða þótt borgarmúrarnir falli þegar gullið birtist?

Að gera hreint fyrir sínum dyrum

Það er eðlileg lágmarkskrafa að þeir sem tjá sig og skrifa um áframhald aðlögunarviðræðna við ESB upplýsi hvað þeir og starfsmenn á þeirra vegum hafa fengið í slíkum framlögum frá ESB.

Jafnframt væri fróðlegt að vita  hvort félagsmenn, starfsmenn og stjórnarmenn þeirra samtaka og fyrirtækja sem hafa beitt sér fyrir áframhaldandi aðlögunarferli að ESB og inngöngu í sambandið hafa þegið í slíkum greiðslum. Fjölmiðlafólk er sérstaklega nefnt í „heimsóknaráætlun“ Evrópusambandsins  Kannski ættu þeir líka að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum? Hvað hafa Þorbjörn Þórðarson og aðrir fjölmiðlamenn fengið greitt í ferða- og uppihaldskostnð ásamt evrum í vasann fyrir að þiggja þessi veisluboð?

Er nema von að þetta lið eigi erfitt með að skilja að umsóknin var komin í strand og ferlinu verður ekki haldið áfram nema Alþingi falli fyrst frá þeim fyrirvörum sem settir voru með umsókninni, þar á meðal fullveldi og forræði yfir fiskveiðiauðlindinni.

(Þessi texti er byggður á grein sem Jón Bjarnason ritaði og birt var í Fréttablaðinu í apríl 2014)


Hversu margar boðsferðir hefur Þorbjörn þegið hjá ESB?

thorbjornÞorbjörn Þórðarson, fréttamaður á Stöð 2, greinir frá því í viðtali við Stundina að hann hafi þegið borðsferðir frá Evrópusambandinu til Brussel, eins og fulltrúar frá öllum öðrum fjölmiðlum á Íslandi. Hann segir að það hafi verið skilningur bæði ESB og blaðamanna að engin kvöð hafi verið á fréttamönnum um að fjalla um Evrópusambandið.

Þorbjörn segir þetta í viðtali við Stundina í tilefni af því að hann hefur þegið ferð frá WOW air til Washington.

Stundinni þykir greinilega umhugsunarvert að blaða- og fréttamenn séu að þiggja boðsferðir á vegum WOW air, eða annarra fyrirtækja eða stofnana. Að sama skapi hlýtur Stundinni að þykja það umhugsunarvert að blaða- og fréttamenn þiggi boðsferðir á vegum ESB.

Miðað við ofangreint hafa væntanlega fulltrúar flestra annarra fjölmiðla en Stundarinnar þegið boðsferðir til Brussel á vegum ESB.

Við fylgjumst spennt með skrifum Stundarinnar um ESB!

thorbjorn2

 


Finnland fær gult spjald frá ESB - fyrir afleiðingar evrunnar

Finnland á það á hættu að fá gult spjald frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þar sem halli á ríkisrekstri í Finnlandi nemur meiru en þeim þremur prósentum af vergri landsframleiðslu sem er viðmið fyrir evrulöndin. Jafnframt hafa skuldirnar aukist yfir sem svarar 60 prósentum af landsframleiðslu.

Hagvöxtur í Finnlandi er með því lægsta sem spáð er í ESB á þessu ári, eða 0,3%.

Framkvæmdastjórn ESB skammar þannig aðildarlönd evrunnar fyrir þær ógöngur sem evran kemur þeim í.

Sjá nánar hér og hér og hér og hér


Fæðuöryggi og sjálfbærni fórnað við ESB-aðild

olafurrdyrmundsÞegar litið er til reynslu Svía, Finna og Pólverja er ljóst að fæðuöryggi hér á landi yrði ógnað með aðild að ESB auk þess sem stjálfbærni í landbúnaði myndi bera skaða af. Það segir dr. Ólafur R. Dýrmundsson, landbúnaðarráðunautur, hér í viðtali við Nei við ESB. 

Ólafur segir legu landsins gera það að verkum að Ísland yrði jaðarríki innan ESB því að landbúnaðarstefnan hefði verið mótuð út frá skilyrðum landbúnaðar í Mið-Evrópu.

Hann segir að með aðild að ESB yrði hætta á að fjölskyldubúum myndi fækka hér, líkt og gerst hefur annars staðar, og að stórfyrirtæki tækju yfir æ stærri hluta landbúnaðar með þeim afleiðingum að stóraukin byggðaröskun fylgdi í kjölfarið.

Sjá hér viðtalið við dr. Ólaf R. Dýrmundsson:

Fæðuöryggi og sjálfbærni fórnað við ESB-aðild

 


Höftin eru skilgetið afkvæmi EES-reglna

capitalmovementFjármagnshöftin voru nauðsynleg að mati AGS haustið 2008 og þau voru viðbrögð við afleiðingum gallaðs regluverks á EES-svæðinu.

Gallar regluverksins fólust annars vegar í algjöru frelsi til fjármagnflutninga án tillits til afleiðinganna á hagsveiflur og fjármálastöðugleika aðildarríkjanna. Megingallarnir fyrir okkur Íslendinga fólust þó í því að EES-reglurnar heimiluðu óhefta starfsemi íslenskra banka á öllu EES-svæðinu og óheftan vöxt þeirra sem gerði það að verkum að lítið ríki eins og hið íslenska gat á engan hátt verið bakhjarl fyrir þessa ofvöxnu banka.

Innflæði fjármagns til Íslands, og þar af leiðandi kröfur lánardrottna bankanna og miklar eignir erlendra sparifjáreigenda hér á landi eru því ein afleiðing EES-reglnanna. Höftin voru viðbrögð við því.

Eftir fjármálahrunið hefur verið hugað að því að endurbæta regluverkið á ESB-svæðinu. Sambandið er þó enn að glíma við afleiðingar eigin reglna, samanber Grikklandsvandamálið.

Það er svo annað mál að höftin hafa bæði kosti og galla. Ókosturinn við þau er að einhver fjárfestingartækifæri kunna að hafa farið forgörðum og arður stórfjárfesta kann að vera minni. Óljóst er hve þessi kostnaður er mikill, sérstaklega í ljósi þess að hagvöxtur er með besta móti hér á landi og atvinnuleysi fer dvínandi.

Ábatinn af höftunum er meðal annars sá stöðugleiki sem AGS og íslensk stjórnvöld sóttust eftir fyrir almenning og atvinnulíf með stöðugra gengi, minni verðbólgu, minni skuldaaukningu og meiri atvinnu. Það hefur svo fylgt með í kaupunum að vextir hafa verið mun lægri fyrir ríkissjóð til hagsbóta fyrir alla landsmenn.

Erfitt er að meta þann ábata í tölum og ómögulegt er að segja hvort ábatinn sé meiri en kostnaðurinn.

Það er hins vegar óumdeilt að höftin voru afleiðing af gölluðu regluverki á EES-svæðinu.


mbl.is „Ísland er þorpsfíflið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópuráðherra Þýskalands: Skiljanlegt að Íslendingar séu ekki hrifnir af ESB

810966BMichael Roth, Evrópumálaráðherra Þýskalands, segir það skiljanlegt að Íslendingar séu ekkert hrifnir af ESB.

Roth sagðist telja í viðtali við mbl.is að það hefði tor­veldað viðræður Íslands við Evr­ópu­sam­bandið að „ESB er um þess­ar mund­ir ekki beint í auðveldri stöðu“ í efna­hags- og fé­lags­mál­um. „Í mörg­um lönd­um er at­vinnu­leysi mikið, ekki er búið að yf­ir­vinna krepp­una á fjár­mála­mörkuðum og rík­is­skuldakrepp­una,“ seg­ir hann. „Það hef­ur ör­ugg­lega átt sinn þátt í því að Evr­ópu­sam­bandið kem­ur Íslend­ing­um ekki jafn aðlaðandi fyr­ir sjón­ir og nauðsyn­legt væri.“

Þetta er alveg rétt hjá Roth. Sannleikurinn er hins vegar sá að viðræðurnar við ESB stöðvuðust ekki vegna þess að Íslendingar eru ekkert hrifnir af ESB. Þær stöðvuðust á því að ESB gat ekki fellt sig við þá kröfu Íslendinga að þeir héldu yfirráðum sínum í auðlindamálum, svo sem sjávarútvegsmálum. 

Íslendingar hafa því hafnað ESB á tvennan hátt: Í fyrsta lagi erum við almennt ekkert hrifin af því að Ísland gangi í ESB. Í öðru lagi sættum við okkur alls ekki við að formleg yfirráð yfir auðlindum landsins flytjist til ESB.

Hvað þarf meira til svo að hið undarlega viðræðu- og aðlögunarferli verði stöðvað en að þjóðin sé almennt ekki hrifin af því og alls ekki af því að afhenda formleg yfirráð yfir auðlindum til Brussel?


mbl.is Virða afstöðu stjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræði eða lýðskrum

ThorvaldurThorvaldssonÞað var aumkunarvert að horfa nýverið upp á Katrínu Jakobsdóttur, formann VG, mæla fyrir tillögu um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna um aðild að Evrópusambandinu. Enn fremur að hún skyldi segja að þar sé um að ræða prófstein á lýðræðið í landinu.

Svo skrifar Þorvaldur Þorvaldsson, trésmiður og fulltrúi í framkvæmdastjórn Heimssýnar, í grein sem birt er í Fréttablaðinu í dag.

Þorvaldur segir þar enn fremur:

Þar talar Katrín annað hvort gegn betri vitund eða hún skilur ekki muninn á lýðræði og lýðskrumi. Þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki endilega ávísun á lýðræði. Það ræðst af ýmsu. Það er t.d. frumskilyrði að kostirnir sem valið er um séu skýrir og báðir eða allir framkvæmanlegir. Þannig hlyti eina lýðræðislega atkvæðagreiðslan um þetta mál að snúast um viljann til að ganga í ESB eða ekki.

Þá þyrfti líka að liggja skýrt fyrir að fyrirvörum sem fylgdu þingsályktuninni um aðildarumsókn yrði vikið til hliðar og forræði þjóðarinnar yfir sjávarauðlindinni yrði gefið upp á bátinn. Sama á við um það skilyrði að setja skorður við innflutningi dýra- og landbúnaðarafurða til að koma í veg fyrir sjúkdóma og tryggja fæðuöryggi.

Þessi skilyrði komu fram bæði í greinargerð og nefndaráliti sem vísað er til í tillögunni sjálfri. Seint á árinu 2011 sigldu viðræðurnar við ESB í strand þar sem ESB neitaði að opna viðræður um sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflann fyrr en fyrir lægi tímasett áætlum um aðlögun Íslands að stefnu ESB í málaflokkunum.

Það er tímabært að Katrín Jakobsdóttir og aðrir sem ákaft hafa reynt að blekkja þjóðina undanfarin misseri svari því hvort þeir vilja setja auðlindir Íslands á opinn evrópskan markað, koma á viðskiptahöftum við lönd utan ESB og lögfesta markaðsvæðingu allra innviða samfélagsins. Auk þess hangir margt fleira á spýtunni sem sumt kemur ekki í ljós fyrr en eftir mörg ár.

Ætlar Katrín og fylgjendur hennar kannski að sæta lagi til smokra sér fram hjá þeim fyrirvörum sem Alþingi setti við aðildar umsóknina svo lítið beri á, eða er meiningin að fyrirhugaðar viðræður verði eins konar störukeppni við ESB? Niðurstaða hennar yrði fyrirséð þar sem ESB hefur á að skipa her manna með langa reynslu af að stara.

Spurningin snýst um hvort við viljum ganga í ESB með því sem því fylgir en ekki um formsatriði eða óánægju með ríkisstjórnina. Með inngöngu í ESB yrðum við lokuð inni í ríkjasambandi sem mótaði allt líf okkar án þess að við gætum haft áhrif á hvert það þróast og það dylst fáum núorðið að það þróast á versta veg. Það er því kaldhæðnislegt að þeir sem þykjast tala fyrir lýðræði í þessu máli eru í raun að reyna að hjúpa það gerningaþoku og grafa þannig undan lýðræðinu. Ég krefst þess að minn lýðræðislegi réttur snúist um annað og meira en að greiða atkvæði um að afnema lýðræðið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 102
  • Sl. sólarhring: 359
  • Sl. viku: 2511
  • Frá upphafi: 1165885

Annað

  • Innlit í dag: 90
  • Innlit sl. viku: 2181
  • Gestir í dag: 90
  • IP-tölur í dag: 89

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband