Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2023

En Píratar?

Hvað skyldi fullveldissinnaði Píratinn hafa að segja við félaga sína sem telja að það ætti að skoða að koma Íslandi undir stjórn Evrópusambandsins? 

Því er fljótsvarað.  Hann þarf bara að sýna þeim tilkynninguna sem kemur upp þegar reynt er að opna vefsíður fréttastofa sem eru í ónáð í sambandinu.   Þar segir nefnilega á útlensku: „This site can´t be reached“

Þær síður sem stjórnvöldum í Evrópusambandinu leiðast eru bara lokaðar.  Einfalt og þægilegt.  Alveg eins og sagt er að hafi verið austan járntjalds í gamla daga.  Enginn and-eitthvað áróður og allir glaðir. Það er einmitt rúsínan í pylsuendanum; það mótmælir enginn. Það er ekki nóg með að Píratar yrðu þegnar í ríki þar sem stjórnvöld ákveða hvaða fréttir megi lesa, heldur virðast samborgararnir hæstánægðir með þá leiðsögn stjórnvalda. 

Það yrði skrítið fyrir Pírata að „deila fullveldi“ með því fólki.

Því skal spáð, að í kjölfar kynningar á þessum kaldranalegu staðreyndum, muni fylgi við innlimun Íslands í Evrópusambandið falla niður í núll í röðum Pírata.

 

Við minnum á Heimssýn á Fasbók:  https://heimssyn.blog.is/blog/heimssyn/entry/2292587/

Gerist áskrifendur!  Það kostar ekkert. 


En Viðreisn?

Glöggir lesendur tóku eftir því að Viðreisn gleymdist í yfirreiðinni í pistlinum 20.júlí sl., svo ekki sé minnst á Miðflokk, Flokk fólksins og Sósíalistaflokkinn.  Margt bendir til að róðurinn sé þyngstur fyrir fullveldissinna í Viðreisn. 

Viðreisn stefnir að opinberri gjaldtöku fyrir afnot náttúruauðlinda.  Vel má vera að hægt væri að semja um að íslenska, en ekki evrópska, ríkið fengi að rukka fyrir fiskveiðiheimildir og jafnvel landnýtingu til orkuframleiðslu um hríð, ef Ísland álpaðist inn í Evrópusambandið.  En það yrði bara um hríð.  Valdheimildir Evrópusambandsins yrðu slíkar að því yrði vandalaust að þvinga fram breytingar á hvaða samningi sem er.  Fyrr eða síðar kæmust menn í Brussel að því að ekkert réttlæti væri fólgið í því að innan við prómill þegna stórveldis sem byggju norður á Íslandi sætu einir á gullkistu náttúrunnar sem þar er.


Fullveldissinnar allra flokka

Ekki verður annað sagt en að félagsstarf fullveldissinna í Sjálfstæðisflokknum standi í blóma, en hér að neðan er tengill á aðalfundargerð.  Arnar Þór Jónsson var kjörinn formaður, en hann hefur mikið látið að sér kveða í umræðu um fullveldi þjóðarinnar og lýðræði.  Óhætt er að segja að skrif Arnars Þórs hafi stuðlað að því að lyfta stjórnmálaumræðu á Íslandi á hærra plan.  Geri aðrir betur. 

Aðalfundur Félags Sjálfstæðismanna um fullveldismál kallar á viðbrögð fullveldissinna í öðrum stjórnmálaflokkum.  Það er þeirra að hjálpa flokkunum að halda stefnu. Það er þeirra að benda forystu VG á að Evrópusambandið er upprennandi hernaðarbandalag stórkapítalista, það er fullveldissinna í Samfylkingunni að benda forystu Samfylkingar á að stórkapítalið gengur framar alþýðu manna í Evrópu, sem víðast hvar býr við þröngan kost, það er þeirra að benda framsóknarmönnum á að það er ekki pláss fyrir skynsamlegar leiðir við að stjórna Íslandi ef lögin koma í pósti frá útlöndum og eru samin fyrir önnur lönd.  Síðast en ekki síst er það þeirra að benda pírötum á að opið flæði upplýsinga mun alltaf þurfa að víkja fyrir vilja Evrópusambandsins, ef og þegar hann er annar. Vita þeir að Evrópusambandið bannar rússneska vefmiðla, eins og enginn sé morgundagurinn?

https://fullveldisfelagid.is/

 

Svo er tilvalið að gerast áskrifandi að Heimssýn á Fasbók.  Það er vitaskuld ókeypis. 

https://www.facebook.com/groups/heimssyn/


Misskilningur um vísindi

Sú skoðun er ráðandi að hið opinbera eigi að borga fyrir vísindarannsóknir.  Með því sé stuðlað að eflingu mannsandans og framþróun atvinnulífs og samfélags.  Ein leið til að koma fjármagni í rannsóknaverkefni er að setja það í fjölþjóðlega sjóði sem síðan úthluta því til vísindamanna.  Ólíkt því sem sumir virðast halda, framleiða sjóðirnir ekki fé.  Þeir taka til sín fé til eigin rekstrar, sem getur verið þurftafrekur, og afgangurinn fer til stofnana sem ráða vísindamenn til vinnu.  Stofnanirnar taka sér reyndar líka bita til eigin rekstrar.  Sumum þykir að þá sé óþarflega lítið eftir til að kaupa tilraunaglös og tölvur.

Hin eina rétta og besta leið til að fjármagna vísindi er ekki enn fundin, en það er fjarstæða að halda að vísindi standi og falli með því að borga einum tilteknum sjóði peninga og láta hann um að panta verk.


Komið úr leynum!

Í flestum, ef ekki öllum stjórnmálaflokkum starfa einstaklingar sem gera sér glögga grein fyrir mikilvægi lýðræðis og að stjórnvald verði ekki fært til ókunnugra sem láta sér í léttu rúmi liggja hvort samfélag þrífst á Íslandi, eða ekki. 

Í Sjálfstæðisflokknum er öflugur hópur fullveldissinna sem heldur aðalfund í dag.  Félag Sjálfstæðismanna um fullveldismál er vettvangur sem fullveldissinnar í öðrum stjórnmálaflokkum mættu íhuga að taka sér til fyrirmyndar.  Það er brýnt að innan allra flokka séu öflugar raddir lýðræðis og fullveldis sem taka til máls í hvert sinn sem lofað er gulli og grænum skógum í staðin fyrir dálítið valdaframsal, sem sé „eiginlega barasta næstum því alveg fullkomið formsatriði“.

https://arnarthorjonsson.blog.is/blog/arnarthorjonsson/


Misskilningur um skóla og menntun

Stundum er Evrópusambandið kynnt til sögunnar í sambandi við menntun.  Sumar af þeim sögum sem af því eru sagðar bera mikilli menntun ekki vitni.

Evrópusambandið framleiðir ekki fé til að borga fyrir menntun, það hefur milligöngu um úthlutun fjár sem innheimt er í aðildarríkjunum.  Sambandið tekur sér bita fyrir ómakið.  Grunsemdir eru um að sá biti sé vænn, enda er ómakið af því að halda úti flóknu millifærslukerfi töluvert, ekki síst vegna þess að úthlutanir eru margar, en smáar.

Íslendingar hafa stundað nám við ýmsa evrópska háskóla í mörg hundruð ár og engar horfur á því að það breytist, enda vegur ríkisfang umsækjenda um námsvist að jafnaði ekki þungt í evrópskum háskólum.  Þegnréttur í ríki sem er í EES eða Evrópusambandinu skiptir með öðrum orðum litlu máli, það sem skiptir máli er að vera fyrirmyndarnemandi.


Kjarni máls III

Evrópusambandið er vítt inngöngu en þröngt útgöngu.  Ekki er ætlast til þess að ríki segi sig úr sambandinu.  Það kom mjög skýrt fram í tengslum við Brexit.  Hver á fætur öðrum lýstu höfðingjar í sambandinu því yfir að mikilvægt væri að Bretar slyppu ekki sársaukalaust út.  Það yrði jú að sýna þeim sem eftir eru að það borgaði sig ekki að reyna að sleppa.

Bretar sluppu, aðallega vegna þess að þeir eru mikilvægir kaupendur í öðrum löndum Evrópu.  Það eru Maltverjar ekki. Það mundi því ekki kosta Evrópusambandið mikið að gera Maltverjum lífið mjög leitt ef þeir tækju upp á því að yfirgefa sambandið.

Ekkert í þessu kemur á óvart, stórveldi eru ekki þekkt fyrir að gleðjast yfir því að hreppar yfirgefi stórveldið eða lýsi því yfir að þeir vilji það.


Kjarni máls II

 

Stundum er því haldið fram að mikilvægt sé að eiga einhver konar samningaviðræður við Evrópusambandið, til að sjá hvað bjóðist.

Staðreynd málsins er sú að það sem kallað er samningaviðræður af ákafamönnum um að gerast þegnar í Evrópusambandinu eru viðræður um aðlögun löggjafar umsóknarríkis að reglum Evrópusambandsins, sem ganga vitaskuld fyrir.   

Fulltrúar Evrópusambandsins hafa margoft lýst því yfir að varanlegar undanþágur frá reglum bandalagsins, sem eru vel að merkja síbreytilegar, séu ekki í boði.

Þó svo væri að einhvers konar „sérsamningar“ væru í boði, þá væru þeir lítils virði, því valdheimildir Evrópusambandsins gagnvart smáríkjum innan sambandsins eru slíkar, að vandalaust er að knýja fram breytingar á hvaða samningum sem er við þau ríki.

 


Hvað fékkst fyrir peninginn?

Skýrsla segir að atvinnulíf á Íslandi hafi borgað um 10 milljarða til að framfylgja Evrópureglum um tiltekið mál sem segja má að sé undirflokkur í einum af mörgum málaflokkum sem hið svokallaða Evrópusamstarf snýst um.   Ýmsar spurningar vakna: 

Hvað fékkst fyrir þennan pening?                                

Hefði verið hægt að fá meira, eða jafnvel miklu meira fyrir sama pening með öðrum aðgerðum?

Hvað kosta allir hinir málaflokkarnir með hinum óteljandi undirflokkum?

Þegar stórt er spurt, verður oft fátt um svör.  Er það ásættanlegt?

https://vb.is/frettir/regluverk-evropusambandsins-hefur-kostad-islenskt-atvinnulif-98-milljarda-krona/


Kjarni máls I

Í orðaflaumi umræðunnar er alltaf gott að rifja upp kjarna máls.

Sumir biðja um að rannsakað sé hvað hitt og þetta í Evrópulöggjöf mundi þýða fyrir Ísland.  Hvað mætti og hvað ekki, hvað þyrfti að borga og hvernig styrk mætti fá „í staðinn“. 

Í flestum tilvikum skipta svörin litlu eða engu máli.   Evrópusambandið er nefnilega í þróun.  Sífellt koma ný lög og nýjar reglur og smáríki innan jafnt sem utan sambandsins hafa lítið um þau að segja.  Evrópusambandið stefnir að auknum samruna og ástæða er til að ætla að það muni ganga hraðar en fyrr, vegna þess að Bretar fóru.  Smáríki, sem þó hýsa 50 sinnum fleiri sálir en Ísland, ráða þar litlu. 

 


Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.1.): 55
  • Sl. sólarhring: 259
  • Sl. viku: 2157
  • Frá upphafi: 1187938

Annað

  • Innlit í dag: 52
  • Innlit sl. viku: 1930
  • Gestir í dag: 50
  • IP-tölur í dag: 49

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband